Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég átti satt að segja von á því að vera annars staðar á þessari stundu til þess að tala máli ykkar, þings og þjóðar, sem talsmaður EFTA-ríkjanna, til þess að tala þeirra máli í viðræðum við talsmenn Evrópubandalagsins. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að ég stæði hér til þess að verja íslenska hagsmuni fyrir forustu Sjálfstfl. Af þessu tilefni langar mig til þess að nota þær fáu mínútur sem ég hef hér til þess að beina máli mínu til þess ágæta fólks sem stutt hefur Sjálfstfl. í trausti þess að það sé trausts verður flokkur undir núverandi forustu.
    Við vorum hér þessa daga að ræða skýrslu utanrrh. um mikilvægasta og vandmeðfarnasta utanríkishagsmunamál íslensku þjóðarinnar. Fyrir því er áratuga hefð, reyndar allan lýðveldistímann, að þegar býður þjóðarsómi, þegar þjóðarhagsmunir eru í veði, þá snúum við bökum saman og látum þagna dægurþras og ríg um minni háttar mál. Aðrar þjóðir, bandalagsþjóðir okkar og vinaþjóðir, höfðu treyst Íslendingum til þess að hafa á hendi verkstjórn og forustu í þessum vandasömu málum og það er ekkert launungarmál, meira að segja viðurkennt af formanni Sjálfstfl., að Íslendingum hefði farist það verk nokkuð vel úr hendi þótt við séum fáliðaðir. Þá bregður svo við að hin unga og reynslulausa forusta Sjálfstfl. velur sér stað og tíma til þess að flytja vantrauststillögu í miðjum klíðum þessarar umræðu.
    Þeir sem hafa fylgst með fréttum hafa séð hver viðbrögðin hafa orðið hjá viðsemjendum okkar og hjá bandalagsþjóðum okkar eða forustumönnum þeirra, að sendiherra Íslands í Brussel hefur orðið að standa upp á þessum fundi til þess að biðjast nánast velvirðingar en eyða ótta manna og óróa um það að þetta upphlaup sjálfstæðisforustunnar tákni að Íslendingar séu horfnir frá þeirri stefnu sem mótuð hefur verið undir þeirra verkstjórn. Þeir sjálfstæðismenn, þeirra á meðal hinn ungi formaður, spyrja mikið um umboð. Ég spyr mikið um umboð. Ég spyr ykkur, sjálfstæðisfólk, sem mál mitt heyrið: Hafið þið gefið Þorsteini Pálssyni umboð til þessara verka? Hafið þið gefið Þorsteini Pálssyni umboð til þess að breyta sjálfri Snorrabúð Sjálfstfl. frá gullaldarskeiði í þennan stekk þar sem ofstækið og barnaskapurinn eru í sandkassaleik með það sem einu sinni var kallað fjöregg þjóðarinnar?
    Sjálfstæðismenn hafa gefið hinum unga formanni sínum hvert tækifærið öðru betra. Hann var kvaddur til stjórnarforustu á erfiðleika- og samdráttarskeiði og bauðst þar gullið tækifæri til þess að sýna hvað er spunnið í hina ungu kynslóð sem komin var til valda. Allir vita hvernig fór um sjóferð þá.
    Landsfundur Sjálfstfl. gaf hinum unga formanni annað tækifæri en ég spyr: Til hvers? Til þess að breyta Sjálfstfl. í ábyrgðarlausan upphlaupsflokk eins og þeir kölluðu Alþb. forðum daga? Hver eru skilaboð þessarar sjálfstæðisforustu til unga Íslands sem nú virðir fyrir sér agndofa og í aðdáun þau tækifæri sem eru að skapast í hinni nýju Evrópu? Eru það

hugmyndir Sjálfstfl. að breyta Íslandi í einhvers konar Árbæjarsafn á meðal þjóða á sama tíma og múrar ófrelsisins eru að hrynja um þvera og endilanga Evrópu? Eru það hugmyndir sjálfstæðismanna að breyta Íslandi í einhvers konar Albaníu norðursins? Er þetta framtíðarsýn þessara manna? Hver hefur gefið Þorsteini Pálssyni umboð til þess að gera Sjálfstfl. að málsvara einangrunar og kotungssjónarmiða? Ætla sjálfstæðismenn að fylgja Þorsteini Pálssyni á kúskinnsskóm Kvennalistans út í þessa vitleysu?
    Ég biðst ekki vægðar undan hörðum árásum sjálfstæðismanna á mig og ég erfi það ekki við þá satt að segja, þessa ungu forustukynslóð, þó að hún fari með málefnabaráttu íslenskra stjórnmála niður í göturæsin í skipulögðum herferðum til þess að níða æru af einstökum andstæðingum sínum. Við skulum ekki erfa það. Það kann að henda og það hljóta að hafa verið mistök. En þegar þeir svífast einskis í þessu ofstæki sínu og láta það ekki hindra sig í því að gera mikilvægustu utanríkishagsmunamál íslensku þjóðarinnar að hráskinnaleik í taugaveiklunarkasti, þá spyr ég ykkur, sjálfstæðisfólk: Ætlið þið að fyrirgefa þeim þetta? Því að þessir dagar eru svartir dagar í sögu Sjálfstfl. Ég er sannfærður um að hinir stóru leiðtogar liðinnar sögu, þeir Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors, mundu snúa sér við í gröfinni ef þeir mættu nú horfa á tiltektir þessara angurgapa.
    Það eru merkileg söguleg þáttaskil þegar það gerist á einum og sama deginum að Sjálfstfl. rýfur áratuga hefð í utanríkismálum um samstöðu lýðræðisafla í slíkum málum, en á sama tíma verður maður að játa að það er eins og Alþb. sé að vaxa og þroskast, komast af pólitísku gelgjuskeiði á sama tíma og Sjálfstfl. er genginn í pólitískan barndóm undir barnungri forustu sinni. Ég spyr: Hver hefur gefið Þorsteini Pálssyni umboð til þess að leggja nafn flokks Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar við þvílíkan pólitískan hégóma? Aldrei hefur nokkur formaður Sjálfstfl. í gervallri sögu hans verið svo umboðslaus og viðskila við lífsviðhorf, sannfæringu og sjónarmið meginþorra þess fólks sem stutt hefur Sjálfstfl. til valda. Og svo þykist hann vera þess umkominn að bera vantraust á aðra. Það er kominn köttur í ból Bjarna, Halldór Blöndal.
    Þeir segja að utanrrh. skorti umboð. Og þeir flytja tillögu um að taka þegar í stað upp formlega samninga við Evrópubandalagið og afhjúpa þar með svo ótrúlega vanþekkingu sína á því sem er að gerast í þessum málum, vitandi t.d. ekki eða látandi eins og þeir viti ekki að við höfum á sl. tveimur árum kappsamlega stundað tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið á tveimur stigum, við pólitíska leiðtoga þess og við sjálft Evrópubandalagið og fiskimáladeild þess. Halldór Ásgrímsson sjútvrh. hefur gert það. En þeir segja: Umboðslausir. Lögfræðisveitin í forustu Sjálfstfl. kann nú ekki lengur fræði Bjarna, þekkir ekki stjórnarskrána, veit ekki að utanrrh. hefur skv. stjórnarskrá og lögum stöðuumboð til þessara mála, þekkja ekki skýringar Ólafs Jóhannessonar sem forsrh. vitnaði til áðan, þekkja ekki fordæmi um að

það hefur aldrei verið gert í sögu lýðveldisins að leita slíks umboðs fyrir fram, neita skýringunum á því vegna þess að það kynni að skaða hagsmuni Íslands að skrá þar upp á punkt og prik hvert einasta skilyrði áður en við göngum til mikilvægra hagsmuna, blekkja fólk með því að í öðrum löndum sé þetta gert. Ekki í einu einasta EFTA-landi hefur þetta verið gert með einni undantekningu, Finnlandi. Og svo láta þeir eins og það sé hið stóra fordæmi, en allir Norðurlandabúar vita hver er skýringin á því þó við segjum ekki um það mörg orð. Þannig vildum við kannski skapa fordæmi í framtíðinni. Ég held að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera. Og þetta gerist á sama tíma og Alþb. í ríkisstjórn kveður upp úr um að það er fullkomin samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að halda áfram, ekki bara þessum viðræðum, heldur halda áfram undirbúnings- og samningaviðræðum, talað í nafni meiri hluta stjórnar. Síðan tala þeir um þessa sértillögu sína sem ég hef satt að segja beðið flm. í einlægni og vinsemd að draga til baka því það eitt að birta hana er skaðlegt fyrir íslenska hagsmuni.
    Forsrh. vék að því hvernig við settum það að skilyrði áður en við gengum til þessa samstarfs með EFTA-löndunum að EFTA-löndin viðurkenndu grundvallarregluna um fríverslun með fisk. Og hún var viðurkennd og það var mikill ávinningur.
    Við sækjum fram á tvennum vígstöðvum í þeim málum að gæta hagsmuna Íslands að því er varðar málefni sjávarútvegsins. Við róum á bæði borð eins og vönum sjómönnum er tamt. En ef núna væri farið eftir þessari tillögu, að taka upp formlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið sjálft, kommissjónina sjálfa, þá værum við á þessari stundu --- og þetta vita mennirnir --- að framkalla óhjákvæmilega formlega kröfu Evrópubandalagsins um fiskveiðiréttindi en um leið og það yrði nefnt á nafn, þá mundu þeir hrópa: Landráð, landráð! Að þetta skuli vera flokkur Bjarna að fjalla um utanríkismál með þessum hætti.
    Þeir ættu að spyrja sjálfa sig þegar þeir bera okkur á brýn að hafa vanrækt hagsmuni sjávarútvegsins, geri þeir samanburð við Norðmenn: Hvor okkar hefur betri fríverslunarsamning og betri viðskiptakjör í viðskiptum við Evrópubandalagið án þess að við höfum orðið að opna landhelgina og selja okkar frumburðarrétt? Þessu verður svarað betur, en ég bið alla þjóðina að fylgjast með þessum málum.
    Þeir sem segja á hinn bóginn að við höfum vanrækt að setja fyrirvara, gæta fyrirvara og sérstöðu íslensku þjóðarinnar hljóta að tala gegn betri vitund því að hver einasti af þeim fyrirvörum og þeirri skilgreiningu og sérstöðu íslensku þjóðarinnar sem forsrh. skilgreindi á Oslóarfundinum er nákvæmlega tíundaður í samningsstöðu Íslands í þessum samningum.
    Virðulegi forseti. Því miður gefst mér ekki tími til þess að fjalla hér um önnur mikilvæg mál eins og t.d. virðisaukaskattsmálið. Ég vona og treysti því að talsmenn Alþfl. hér aðrir víki að því. Ég ætla aðeins að lokum að segja eitt. Það mun henda stundum

innbyggja Ástralíu þegar þeir beita vopni sínu sem heitir ,,boomerang`` að það hittir þá fyrir sjálfa. Þannig er með þessa vantraustsumræðu. Hún er okkur kærkomið tækifæri til þess að flytja vantraust á reynslulitla forustu Sjálfstfl. sem kann sér ekki hóf í pólitík og varla mannasiði heldur og það vantraust verður samþykkt.