Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Þessi ríkisstjórn er sú óvinsælasta sem hér hefur verið sem er eðlilegt því að hún hefur gengið fram með þeim hætti að hún hefur gjörsamlega ofboðið þjóðinni. Ástæða þess að mikill meiri hluti þjóðarinnar vantreystir ríkisstjórninni er engin ein heldur nánast öll verk hennar. Hæstv. fjmrh., sá málglaði og yfirlýsingaglaði maður, kallar efnahagsstjórn næstsíðustu ríkisstjórnar ga-ga-stjórn. Það er rétt hjá honum en hæstv. fjmrh. ferst ekki. Hvernig getur nokkur maður, sem er með allt jafnrækilega niður um sig í fjármálastjórn íslenska ríkisins, leyft sér að nota svona orðbragð, maður sem er að keyra allt atvinnulíf landsins í strand með síauknum skattbyrðum og miðstýringu, maður sem hefur leitt slíka skattpíningu yfir heimilin í landinu að stór hluti þjóðarinnar lifir við hin verstu kjör? Nánast ekki nokkur maður getur framfleytt fjölskyldu sinni á dagvinnu, heldur þarf til tvö störf og allvíða verða bæði hjónin að vinna úti og það sem meira er, bæði tvöfalda vinnu. Þessi maður leyfir sér að tala um ga-ga-efnahagsstjórn. Það er alveg ljóst að það er ekki heilt gler í húsi hæstv. fjmrh. eftir allt hans steinakast.
    Og ég spyr ykkur sem á mig hlýðið: Munið þið eftir því að fyrir réttum tveimur árum skoraði hæstv. fjmrh. Ólafur Grímsson á þáv. fjmrh. að mæta sér í kappræðum í versluninni Miklagarði til þess að takast á við hann um matarskattinn? Munið þið það? Ef ekki skal ég rifja það upp fyrir ykkur. Í stuttu máli mætti þáv. fjmrh. ekki til fundarins þannig að núv. fjmrh. hélt sinn einkafund með viðskiptavinum Miklagarðs. Hann stóð þar uppi á kassa og gagnrýndi álagningu matarskattsins harðlega, svo harðlega að hann sagði síðar að Jón Baldvin Hannibalsson yrði brennimerktur maður svo lengi sem matarskatturinn stæði.
    Nú er þessi sami maður fjármálaráðherra og hvað hefur hann gert, þessi fulltrúi alþýðunnar í landinu? Hefur hann aflétt matarskattinum? Nei, það hefur hann ekki gert, heldur hefur hann brennimerkt sjálfan sig. En kom þá ekki fulltrúi Alþb. til móts við þjóðina á annan hátt? Lækkaði hann ekki aðra skatta til að lina þjáningar þess fólks sem hann skildi svo vel árinu áður? Nei, þvert á móti. Hér höfum við einhvern mesta skattakóng allra tíma. Aldrei í sögu lýðveldisins hefur íslensk alþýða og íslenskur atvinnurekstur verið eins skattpínd og nú.
    En það er ekki nóg með það. Þessi ríkisstjórn lætur sig hafa það að svíkja fé út úr fólki, að skattleggja þegnana á fölskum forsendum og það á margan hátt. Tökum eitt dæmi, þjóðarbókhlöðuskattinn. Menn voru reiðubúnir að greiða sérstakan skatt til þess að þjóðin gæti eignast þjóðarbókhlöðu og voru þeir peningar sérstaklega eyrnamerktir þessari framkvæmd og skyldu ekki samkvæmt lögum notast í annað. Þessum peningum hefur þessi og reyndar aðrar ríkisstjórnir hreinlega stolið af þjóðinni. Fyrir árin 1987, 1988 og 1989 voru teknar af okkur 445 millj. kr. í þennan skatt en aðeins 206 millj. var skilað í verkefnið þannig að 239 millj. kr. var stungið undan í hítina, í

bruðlið og óráðsíuna.
    Á þessu ári hefur innheimtur þjóðarbókhlöðuskattur verið upp á 166 millj. kr. Af þeirri skattheimtu hafa aðeins 82 millj. kr. skilað sér í verkefnið eða ekki helmingur. Afgangurinn fór í sukkið. Þetta er hreinn þjófnaður og verður til þess að þessi skattur verður á okkur lagður lengur en nauðsyn krefur.
    Þessi ríkisstjórn stórjók líka skattheimtuna af íbúðarhúsnæði. Hún kom á sérstökum eignarskattsauka sem hefur nú þegar orðið til þess og mun áfram valda því að fjöldinn allur af ekkjum og ekklum verður að selja húsnæði sitt. Á þennan hátt sýnir ríkisstjórnin öldruðum þakklæti sitt. Þetta eru þakkirnar fyrir vel unnið dagsverk til handa hinum eldri. Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld eru einkunnarorð sem okkur ber að fara eftir. Við eigum að heiðra og þakka þeirri kynslóð sem rutt hefur veginn fyrir okkur en ekki skattpína hana og reyta af henni eignirnar. Hér er um ekkert annað að ræða en eignaupptöku og mannvonsku af áður óþekktri stærðargráðu.
    Fjárlög ársins 1990 liggja nú frammi. Þau gera ráð fyrir um þriggja milljarða halla á ríkissjóði á því ári. Gott og vel. Segjum nú að þetta sé óhjákvæmilegt sem ég tel reyndar ekki vera, en segjum svo. Hvaða heilvita maður getur treyst fjmrh. sem fyrir aðeins einu ári kom fram fyrir alþjóð og kynnti fjárlög sín fyrir árið 1989 sem fjárlög sem væru í fyrsta sinn raunhæf og mundu standast? Niðurstöðutala þess fjárlagafrv. var tekjuafgangur upp á rúmar 600 millj. kr. Hver er svo hin raunverulega niðurstaða? Hún liggur reyndar ekki fyrir enn. Þó er ljóst að hallinn á hallalausum fjárlögum Ólafs Grímssonar verður ekki minni en 5 milljarðar, sennilega þó nær 10 milljörðum en 5. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir stórauknar skattaálögur svo milljörðum skiptir. Svo eru þessir menn hissa þegar talað er um óstjórn í ríkisrekstrinum. Og nú, eins og ég sagði hér fyrr í ræðu minni, leggur þessi sami stolti ráðherra fram fjárlög með þriggja milljarða halla. Samkvæmt hans eigin verklagi má því ætla að hallinn á ríkissjóði næsta árs verði einhvers
staðar á bilinu 10--20 milljarðar kr.
    Það er skoðun Frjálslynda hægriflokksins að íslenska þjóðin, sjálfstæði okkar, þolir ekki þennan fjmrh. lengur. Hann verður að víkja sem og ríkisstjórnin öll. Þjóðin þolir ekki lengur þessa óstjórn í peningamálum. Þjóðin þolir alls ekki verkstýringu Framsfl. og formanns þess flokks sem hefur setið í ríkisstjórn á annan tug ára og ber því öllum stjórnmálamönnum fremur ábyrgð á því ástandi mála sem hér ríkir. Verkstjórn hans hefur verið með eindæmum. Hefur þó þjóðin ýmsu kynnst í þeim efnum.
    Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar við að koma fram virðisaukaskattinum er dæmi um óviðunandi hringlandahátt og slappleika. Það eru slappir stjórnmálamenn sem láta hrekja sig til breytinga nokkru fyrir gildistöku laganna og er nú svo komið að þeir hefðu frekar átt að fresta gildistökunni og skoða málið upp á nýtt. Þessi hringlandaháttur hefur þegar

stórskaðað atvinnulífið í landinu sem ætti að kalla ríkisstjórnina til ábyrgðar. Þetta er orðið nokkurs konar langavitleysa, ein stefna í dag, önnur á morgun. Og nú er svo komið að færustu menn segja að ekki sé hægt að koma virðisaukaskattinum í framkvæmd fyrr en í fyrsta lagi á miðju næsta ári. Þrátt fyrir það hefur nú náðst samstaða um gildistöku laganna um áramót og ber í sjálfu sér að fagna því. Af þessu hefur hæstv. forsrh. engar áhyggjur haft. Hann hefur ósköp einfaldlega sagt að það sé hans álit að það eigi að stökkva í þetta. Haldið þið, hlustendur góðir, að svona eigi að koma frá ábyrgum aðila? Bara stökkva í þetta. Þarna er nákvæmlega komin fram stefna hæstv. forsrh. og Framsfl., ,,bara að stökkva í,,-stefnan. Svo má laga málin eftir því sem vandkvæðin koma í ljós. Þetta er talandi dæmi um algerlega óábyrga stjórnun.
    Þessi stefna Framsfl. kemur hins vegar ekkert á óvart þegar litið er til atvinnustefnu þeirra því að hún er nákvæmlega eins, stökkvum út í þetta eða stökkvum út í hitt. Svo reddast þetta einhvern veginn. Við köfum bara dýpra í vasa skattborgaranna. Þurfa menn nokkur dæmi? Ég held ekki en við getum samt nefnt loðdýrarækt og laxeldi. Það er einmitt þessi stjórnun sem hefur leitt þær hörmungar yfir þjóðfélagið sem raun ber vitni. Lífskjör hafa stórversnað og atvinnuleysi hefur stóraukist og hefur ekki verið meira í langan tíma. Kaupmáttur hefur verið stórskertur og rekstrarlegur grundvöllur fyrirtækja hefur verið nánast lagður í rúst.
    Það besta sem hæstv. forsrh. gæti gert fyrir þessa þjóð ef hann í raun ber hag hennar fyrir brjósti væri að hvetja til samstöðu um þessa þáltill. þannig að hún fengist samþykkt og þar með fengi þjóðin að kveða upp sinn dóm. Vilji þjóðin áfram slappa forustu kýs hún hana en vilji hún breytingar kýs hún þær.
    Frjálslyndi hægriflokkurinn er tilbúinn til að leggja sín verk og stefnu undir dóm kjósenda. Öðru máli gegnir um þessa háu herra hér og ástæðan er einföld. Þeir meta eigin hag meir en þjóðarhag. Þeir meta stöðuna svo að þeirra flokkar mundu tapa miklu fylgi ef kosið yrði fljótlega. Og því er það sameiginleg niðurstaða þeirra allra að betra sé að þjóðin þjáist en að þeir missi fylgi, að ég tali nú ekki um stólana. Ég spyr ykkur, áheyrendur góðir: Eru það menn með slíkt hugarfar sem þið viljið að stjórni landinu? Svo mjög þykir þeim vænt um stólana sína að þeir keyptu leifarnar af Borgfl. til liðs við sig. Og þó að margir kunni að álíta að Borgfl. hafi ekki kostað mikið er það alrangt. Hann kostaði að vísu ekkert málefnalega, enda skipta málefnin þann flokk nákvæmlega engu. Nei, hann kemur til með að kosta okkur, mig og þig, stórauknar skattaálögur og það segi ég vegna þess að í þeim kaupsamningi sem gerður var við Borgfl. var ein greiðslan stofnun nýs sjálfstæðs ráðuneytis fyrir formann Borgfl. Þetta ráðuneyti á eftir að verða okkur þungt í skauti eins og reynsla annarra þjóða af slíku ráðuneyti er víðast hvar. Innan fárra ára verður hér komið hið mesta bákn og sennilega eitt af dýrustu ráðuneytum þjóðarinnar. Rekstur þessa ráðuneytis

kemur úr vösum okkar, skattborgaranna, og þá skulið þið muna hverjir stofnuðu til þeirra útgjalda. það voru framsóknarmenn, alþýðuflokksmenn, alþýðubandalagsmenn og dánarbú Borgfl.
    Í upphafi tryggði Steingrímur Hermannsson stjórn sinni starfsgrundvöll með því að kaupa Stefán Valgeirsson til liðs við sig. Þau kaup kosta okkur skattgreiðendur einnig mikla peninga. En Steingrímur þurfti að kaupa og það var keypt. Fyrst Stefán Valgeirsson, þá Borgaraflokkurinn og hvað skyldi hann kaupa næst til að halda völdum? En gleymum því ekki að það er ekki hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson sem greiðir reikninginn. Það er ekki hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson sem greiðir reikninginn. Og það er ekki hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson sem greiðir reikninginn. Nei, það erum við skattborgararnir sem megum greiða. Við eigum að gjöra svo vel að axla kostnaðinn af valdafíkn þessara manna.
    Á síðustu dögum hefur mikið verið rætt um komandi viðræður EFTA-ríkjanna og EB-ríkjanna og þátttöku okkar Íslendinga í þeim viðræðum. Þetta mikilvægasta mál okkar Íslendinga í langan tíma hefur verið í einum allsherjar graut hjá stjórnarliðum undanfarið og alls ekki eining innan stjórnarflokkanna hvernig staðið skuli að þessum málum. Stjórnarandstaðan hefur krafist þess að jafnhliða þessum viðræðum eigi Ísland að taka upp viðræður við EB um þann þátt
mála sem snýr að sjávarútvegi til þess að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem eru á vegi okkar í viðskiptum við þessar þjóðir. Á þetta má ríkisstjórnin ekki heyra minnst og vill miklu fremur halda sér við einhliða viðræður í gegnum EFTA-samstarfið þó að þeim sé fyllilega ljóst að þetta mesta hagsmunamál okkar Íslendinga verði þar mjög aftarlega á merinni.
    Þetta höfum við gagnrýnt og krafist þess að utanrrh. færi út í viðræður með skýran vilja Alþingis í málinu sem ekki hefur verið skýr fram að þessu. Þessari kröfu hefur verið hafnað. Það er ekki síst vegna slíkra óábyrgra vinnubragða sem vantrauststillaga þessi er fram borin.
    Ýmsir stjórnarliðar hafa verið að berja sér á brjóst innan þings sem utan. Þeir hafa ítrekað sagt fólki að þeir séu nú ekki par hrifnir af þessari ríkisstjórn og gagnrýnt hana á marga vegu. Það verður afar fróðlegt að fylgjast með þeim í atkvæðagreiðslunni hér á eftir að lokinni umræðu og ég hvet ykkur sem fylgist með þessari útsendingu til að taka nú vel eftir hvað þeir gera. Hvað gerir til að mynda hv. þm. Skúli Alexandersson? Hvað gerir hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson? Hvað gerir hv. þm. Karvel Pálmason? Hvað gerir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson? Takið vel eftir því.
    Siðferði íslenskra stjórnmálamanna hefur nokkuð verið í umræðunni að undanförnu. Þar eru ráðherrarnir ekki barnanna bestir og hafa þeir verið staðnir að ýmsu sem betur hefði mátt fara. Þó tók nú út yfir allan þjófabálk þegar það uppgötvaðist að einn tiltekinn ráðherra í ríkisstjórn Steingríms

Hermannssonar hefur tekið upp þann miður góða sið að undirrita bréf sín til erlendra aðila með hvaða starfsheiti sem honum sýnist muni helst ganga í augu þess sem bréfinu er ætlað. Þetta er mikill háskaleikur og þarf ekki að fjölyrða um hvaða áhrif það getur haft á okkar annars góða orðstír ef það kemst í hámæli erlendis að varhugavert sé að taka mark á hinum ýmsu bréfum sem undirrituð eru af íslenskum ráðherrum því það sé í fyrsta lagi ekkert gefið að viðkomandi sé ráðherra þess málaflokks sem hann þó undirritar fyrir og einnig vegna þess að það er ekkert víst að ráðuneytið sé yfir höfuð til á Íslandi. Margir hafa siðferðisbrestir íslenskra ráðamanna verið í gegnum tíðina, en ég hygg að þarna séu öll fyrri met slegin.
    Góðir áheyrendur. Eins og ég sagði hér fyrr í ræðu minni eiga heimilin og atvinnulífið í landinu nú afar erfitt uppdráttar. Það þarf ekki annað en fletta upp í dagblöðum til þess að sjá stöðuna. Langir listar yfir nauðungaruppboð og gjaldþrot bæði heimila og fyrirtækja orðið daglegt brauð. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður. Kjaraskerðing með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun ásamt vaxtastefnunni er að yfirkeyra heimilin í landinu að ógleymdri skattpíningunni sem ríkisstjórnin skellir yfir okkur með bros á vör. Atvinnureksturinn fær ekki að búa við eðlileg rekstrarskilyrði, vaxta- og fjármagnskostnaður er að drepa allt frumkvæði manna. Eigið fé fyrirtækja er nú víðast að verða upp urið og ekki nokkrum heilvita manni dettur í hug að leggja fé sitt í hlutabréf þegar í fyrsta lagi er arðbærara að vista fé í næsta banka og í öðru lagi þarf að greiða skatt af arði. Þannig er ljóst að hvatinn til þess að leggja fé í fyrirtæki í formi hlutabréfakaupa, og þar með að stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins, er ekki til staðar. Enda er stefnt að því leynt og ljóst af ríkisstjórninni að knésetja atvinnureksturinn í landinu, gera hann allan meira eða minna háðan ríkisvaldinu þannig að þeir geti síðan deilt og drottnað eins og í fyrirheitna ríkinu, Sovétríkjunum. Öllu skal miðstýrt og allt frumkvæði skal drepið.
    Frjálslyndi hægriflokkurinn vill sjá nýjan hugsanagang í íslenskum stjórnmálum. Íslenska þjóðin hlýtur að vera búin að átta sig á því að það þarf ferska vinda inn í íslensk stjórnmál. Þessir herrar hér og þeirra flokkar eru gjörsamlega úr takt við tímann. Þeir hafa fengið að prófa sig, hafa sjálfsagt átt sína góðu tíma, en mínir ágætu herrar: Ykkar tími er liðinn. Hann er löngu liðinn og það er kominn tími til þess að þið áttið ykkur á því.
    Frjálslyndi hægriflokkurinn hafnar því að fjárlög skuli afgreidd með halla. Við mótmælum því að yfirfæra vanda dagsins í dag yfir á börnin okkar. Við viljum vera menn til þess að takast á við vandann en ýta honum ekki á undan okkur eins og núverandi valdhafar gera. Hæstv. fjmrh. segir þetta einmitt mjög oft, að hann vilji ekki að börnin okkar þurfi að standa undir greiðslum af gjörðum okkar. Mér liggur nú við að spyrja ráðherrann að því hverjir hann haldi að komi til með að greiða óráðsíu hans í fjármálastjórn

landsins. Það verða börnin okkar.
    Við skulum hins vegar vona að börnin okkar hugsi betur til okkar í ellinni heldur en þessir háu herrar hugsa til aldraðra í dag. Hér líður mörgum illa, sligaðir af fjármagnsáhyggjum, sligaðir af vinnu, eðlilegt heimilislíf nánast úr sögunni og fólk flýr land í meira mæli en um langan tíma. Þessu er hægt að breyta en það kostar átak. Við erum tilbúnir í það og við hvetjum ykkur sem á þessa umræðu hlýðið að leggja ykkar lóð á vogarskálarnar. Verðum samferða inn í nýja tíma. Fyrsta skrefið í þá átt er að losna við þessa ríkisstjórn.
    Hæstv. forseti. Það er krafa meginþorra landsmanna að þessi ríkisstjórn víki. Undir þá kröfu tek ég heils hugar. Meginástæðan er sú að allur almenningur í landinu vantreystir þessari ríkisstjórn og það geri ég einnig.