Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er nokkuð sérkennilegt að hlusta hér á talsmenn stjórnarandstöðunnar tala í kvöld. Þeir tala um það að lífskjör hafi versnað. Já, kaupmáttur hefur minnkað. Þeir tala um að það sé vandi víða í byggðarlögunum og í fyrirtækjunum. Já, það er víða um að ræða vandamál af ýmsu tagi þrátt fyrir það að margt hafi vel tekist í tíð núv. ríkisstjórnar. En þegar þessir talsmenn stjórnarandstöðunnar eru að ráðast á ríkisstjórnina, þá er engu líkara en að þeir hafi í raun og veru lausn á öllum þessum vandamálum. Þeir belgja sig út með þeim hætti að maður gæti haldið að þeir gætu á svipstundu hækkað kaupið, á svipstundu leyst vanda ríkissjóðs, á svipstundu lækkað skuldir þjóðarbúsins, á svipstundu aukið samneysluna í landinu, á augnabliki leyst úr vanda bænda, byggðarlaga, loðdýraræktar og laxeldis.
    En hvað kemur svo í ljós í þessari umræðu hér í kvöld þar sem þrír stjórnmálaflokkar, Sjálfstfl., Kvennalisti og Frjálslyndi hægriflokkurinn, flytja vantrauststillögu á ríkisstjórnina? Hvað er það sem kemur í ljós? Það eru engar tillögur af neinu tagi, engar hugmyndir af neinu tagi um það hvernig eigi að takast á við þann vanda sem um er að ræða í íslensku efnahagslífi, enda kemur það út af fyrir sig ekki á óvart.
    Ég fór vandlega yfir málalista Sjálfstfl. frá yfirstandandi þingi. Þar eru engar tillögur um lausn á þeim erfiðleikum sem núv. ríkisstjórn er að takast á við. Engar tillögur. Þar er moð af fyrirspurnum um allt á milli himins og jarðar, en engar raunverulegar tillögur til að takast á við vanda af neinu tagi. Einu tillögurnar sem Sjálfstfl. hefur flutt hér í vetur og í fyrra eru þær að það eigi að fella gengið enn frekar en þó hefur verið gert. Eina tillagan er í raun og veru sú að það þurfi að skerða lífskjörin enn frekar og ég spyr: Er það þannig að stjórnarandstaðan sameinist um þessa stefnu enn frekari lífskjaraskerðingar í þessu landi? Telja menn ekki að staðan sé þegar orðin nógu erfið víða? Nei, auðvitað er það ekki svo að þessi tillöguflutningur sem hér liggur fyrir sé trúverðugur að neinu leyti, þvert á móti.
    En meðan þessu moldviðri er þyrlað hér upp liggur það fyrir að ríkisstjórnin hefur á ýmsum sviðum á síðustu missirum verið að ná margvíslegum árangri. Fjmrh. rakti þar nokkra þætti áðan. Ég get í þeim efnum bent á atriði eins og ákvarðanir um álagningu skatta á fjármagnstekjur, eins og ákvarðanir um lægri skatta af algengustu matvælum heimilanna, lægri skatta af menningu. Ég get nefnt í því sambandi frá undanförnum mánuðum átak sem gert var til að stórherða og bæta innheimtu söluskatts. Ég get nefnt átak í samgöngumálum, jarðgangagerð. Ég get nefnt þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í landbúnaðarmálum til að stuðla að samstöðu neytenda og bænda í þessu landi. Ég get nefnt ákvarðanir um stofnun umhverfisráðuneytis og ég get nefnt hér líka þætti eins og þá staðreynd að fyrir liggur nú í

meginatriðum ný íslensk skólastefna sem hefur verið að myndast með stuðningi kennara og uppeldisstétta í öllu landinu. Skólastefna sem tekur til allra skólastiganna: leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskólastigs. Ég get í þessu sambandi líka bent á átak í uppbyggingu menningarstofnana sem er auðvitað líka hluti af stefnu þessarar ríkisstjórnar. Í því sambandi get ég bent á að á þessu ári og því næsta verður varið meira fjármagni til uppbyggingar Þjóðarbókhlöðunnar þrátt fyrir erfiðleikana en nokkru sinni hefur verið gert.
    Með þessum áherslum í menningarmálum og í menntamálum er verið að leggja grunninn að því að treysta stolt íslensku þjóðarinnar þannig að hún geti betur sem menningarþjóð, sjálfstæð íslensk menningarþjóð, ráðið við þau verkefni sem fram undan eru.
    Þess er hollt að minnast einmitt nú þegar 1. des. fer í hönd. Þess er hollt að minnast einmitt nú þegar ný heimsmynd blasir við, þegar múrarnir eru að hrynja. Það er hollt að fara yfir stöðuna einmitt við þessar aðstæður og minna á þá staðreynd sem fram kemur í stefnu okkar alþýðubandalagsmanna að við hljótum við núverandi aðstæður að leggja á það megináherslu að treysta og tryggja á öllum sviðum sjálfsforræði íslensku þjóðarinnar. Við þessar
aðstæður, sem nú eru í heimsmyndinni sem blasir við, væri fráleitt að reyra Íslendinga fasta inn í erlend efnahagsbandalög af hvaða tagi sem þau eru. Við þurfum þvert á móti að leggja á það áherslu að nýta það svigrúm sem hin nýja heimsmynd skapar til þess að Íslendingar geti nýtt sérstöðu þessarar þjóðar. Og ég vil af þessu tilefni, virðulegi forseti, góðir landsmenn, fagna því auðvitað alveg sérstaklega að svo virðist sem Alþfl. sé í þessum málum að mörgu leyti að vitkast. Hann er að losa sig við eilífðarsamfylgdina með íhaldinu sem hefur staðið um nokkurra áratuga skeið. Það er auðvitað sérstakt fagnaðarefni.
    Ég held að miðað við þær aðstæður sem nú liggja fyrir þá sé brýnast af öllu fyrir þjóðina að hún eigi ríkisstjórn og hún eigi forustu sem er tilbúin til þess að vinna sig út úr þeim vanda sem blasir við, eigi forustu sem gerir sér
grein fyrir því að vandinn er í meginatriðum tvíþættur: Annars vegar er um að ræða utanaðkomandi vanda, hins vegar er um að ræða þann vanda sem blasir við vegna stjórnarstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og vegna ákvörðunarinnar um alfrjálsa vexti 1984. Þetta eru meginvandamálin sem við er að glíma í íslenskum efnahags- og atvinnumálum. Til þess hins vegar að ríkisstjórnin ráði við þennan vanda til frambúðar, sem hún verður að gera, verður að vera unnt að skapa samstöðu, víðtæka samstöðu, ekki aðeins þeirra stjórnmálaafla sem að ríkisstjórninni standa, heldur líka launamannahreyfingarinnar í þessu landi. Þá mun okkur takast að leysa úr þessum vandamálum. Þá mun okkur takast ekki einasta að kolfella þessa vantrauststillögu heldur að þessi stjórn starfi með farsælum hætti út þetta kjörtímabil og líka

það næsta.
    Ég þakka þeim sem hlýddu.