Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Þessi vantrauststillaga sem hér er til umræðu er furðuleg. Að stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar skuli sýna slíkt ábyrgðarleysi að flytja till. um vantraust á ríkisstjórnina vegna ímyndaðs ágreinings innan hennar um afstöðu til viðræðna EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins er alveg ótrúlegt. Þetta upphlaup hefur valdið samstarfsaðilum okkar bæði í Brussel og í Genf hugarangri og gert þátttöku okkar Íslendinga í hinum sameiginlegu viðræðum tortryggilega. Það getur orðið erfitt fyrir Íslendinga að endurheimta það traust sem við höfðum áunnið okkur. Hér er verið að vinna gegn hagsmunum Íslands vegna þess eins að Sjálfstfl. unir hag sínum illa utan ríkisstjórnar. Flokkurinn kann ekki að vera í stjórnarandstöðu þar sem málefnaleg gagnrýni skal höfð í fyrirrúmi. Flokkurinn er því í raun að flytja vantraust á sjálfan sig.
    Fyrir hönd Borgfl. vil ég lýsa yfir fyllsta trausti á hæstv. utanrrh. og hvernig hann hefur haldið á málum í þeim flóknu og erfiðu viðræðum milli EFTA- og Evrópubandalagsríkjanna sem hann hefur leitt sem formaður ráðherranefndar EFTA-landanna. Við erum ánægð með þann farveg sem þessar viðræður hafa verið í og hvernig fyrirhugað er að halda þeim áfram. Þær hafa þegar skilað miklum árangri og eru sögulegur viðburður í langri sögu Evrópuríkja.
    Á það má minna að sl. vor heyrðust efasemdarraddir frá Svíum en einhverjir þar töldu að Íslendingar mundu ekki valda þessu forustuhlutverki. Nú heyrist að Svíar hafi af því nokkrar áhyggjur að þegar þeir taka við formennsku í ráðherranefnd EFTA um næstu áramót muni þeim veitast það erfitt að fylgja fordæmi okkar.
    Ein höfuðkrafa sjálfstæðismanna á þingi þessa dagana er að heimta tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um fisk. Hafa þeir á þennan hátt reynt að halda því fram að hagsmunir Íslands hafi ekki verið nægilega vel tryggðir. Ég get kannski rifjað það upp að sl. vetur sat ég við hliðina á háttsettum embættismanni úr utanríkismáladeild Evrópubandalagsins í hádegisverðarveislu sem Henning Christophersen, einn af varaforsetum framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins í Brussel, hélt nokkrum íslenskum þingmönnum sem þar voru á ferð. Talið barst að útflutningi á íslenskum fiskafurðum til Evrópubandalagsins og þeim tollamúrum sem t.d. saltfiskverkendur eiga við að stríða. Embættismaðurinn hljómaði eins og slitin grammófónplata sem hjakkaði í sama farinu: Fyrir frjálsan innflutning á fiskafurðum verða Íslendingar að láta Evrópubandalagsríkjunum í té fiskveiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þannig hljómaði grammófónplatan. Tillaga sjálfstæðismanna gengur því væntanlega út á það að þeir vilja eiga tvíhliða viðræður við slitnar grammófónplötur.
    Að undanförnu hafa nefnilega farið fram slíkar tvíhliða viðræður við æðstu ráðamenn Evrópubandalagsins. Nægir að minna á að fyrir

þremur vikum síðan kom sjálfur Mitterrand Frakklandsforseti í stutta heimsókn hingað til lands. Var honum gerð grein fyrir sérstöðu Íslendinga í sambandi við verslun með fisk og þeirri lífsnauðsyn sem það er þjóð okkar að halda óskertum yfirráðarétti yfir helstu auðlind okkar. Sömuleiðis hefur hæstv. sjútvrh. átt í tvíhliða viðræðum við sjávarútvegsráðherra Evrópubandalagsríkjanna um kröfur Íslendinga um frjálsan aðgang að mörkuðum þeirra fyrir fiskafurðir okkar. Hafa þeir sýnt málum okkar mikinn skilning og þar þokast í rétta átt. Síðast en ekki síst má minnast á það samkomulag meðal EFTA-ríkjanna að frjáls verslun með fisk væri sameiginleg krafa þeirra í viðræðum við Evrópubandalagið. Ætli hagsmunum Íslands sé ekki betur borgið með þessum viðræðum en viðræðum við slitnar grammófónplötur.
    Eftir er svo að sjá hvernig þessar viðræður þróast næstu mánuðina. Það er full samstaða um það í ríkisstjórninni að halda þeim áfram enda hefur öllum fyrirvörum sem við Íslendingar viljum gera verið komið rækilega til skila. Ekkert skref verður stigið í þessum viðræðum án samráðs bæði við ríkisstjórn og Alþingi. Þannig er hvenær sem er hægt að grípa til ráðstafana ef mál þróast þannig að okkur mislíki.
    Borgfl. vill leggja áherslu á eitt atriði í sambandi við þessar viðræður. Við viljum ekki undir neinum kringumstæðum lokast inni í einhverju tollavarnarbyrgi í Evrópu sem komi til með að hindra eðlileg viðskipti okkar við aðra heimshluta. Við viljum þvert á móti rækta þau viðskiptasambönd sem við höfum þegar náð í Japan og öðrum Austurlöndum fjær. Viðskipti okkar við Bandaríkin og Kanada, Rússland og önnur Austur-Evrópulönd, eru okkur afar mikilvæg og mega ekki undir neinum kringumstæðum líða fyrir hugsanlega samninga við Evrópubandalagið. Við erum hins vegar ekki í neinum vafa um að við erum á réttri leið, eins og Sjálfstfl. orðar það stundum, í þessum viðræðum og treystum því að þær muni skila miklum árangri fyrir land og þjóð um langa framtíð.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar í dag náðist samkomulag um endanlega útfærslu á virðisaukaskattskerfinu sem mun taka gildi um næstu áramót. Það er okkur
borgaraflokksmönnum mikið gleðiefni að þar með er fyrsta skrefið stigið til að lækka skatt á matvælum. Enn fremur er því lýst yfir að unnið verði að því að kanna tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi sem gæti tekið gildi um áramótin 1990--1991 þar sem matvæli verði í lægra skattþrepi.
    Borgfl. vakti fyrstur máls á tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi á þingi sem leið til að koma matvælum undan allt of mikilli skattlagningu. Nú er árangur þessarar baráttu að koma í ljós. Fimm þingmenn Borgfl. hafa þannig fengið meiru áorkað í þessu efni en átján þingmenn Sjálfstfl. sem gátu ekki hreyft við matarskattinum og urðu að hrökklast úr ríkisstjórn.
    Nú er lag. Allar aðstæður í efnahagslífinu eru þannig að hægt er að ná verðbólgunni niður fyrir 10% á næstu mánuðum ef friður fæst um þær aðgerðir í

efnahagsmálum og atvinnumálum sem verið er að vinna að til ómældra hagsbóta fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu. Við megum ekki missa af þessu tækifæri. Við skulum því vona að stjórnarflokkarnir beri gæfu til að standa fast saman svo þetta takist. Ef tækist að knýja fram kosningar á næstu mánuðum mundi allt fara úr böndum og verðbólgan rjúka upp á nýjan leik. Það gæti liðið langur tími, mörg ár, þangað til annað eins tækifæri sem þetta kemur aftur. Því þótti mér það afar athyglisvert þegar ég heyrði mektugan sjálfstæðismann segja við mig á dögunum: Þið verðið að komast fram úr þessu. Mér þykir nefnilega vænna um kassann í fyrirtækinu mínu en kjörkassa Sjálfstfl.
    Frú forseti. Þessi þáltill. um vantraust á ríkisstjórnina er hreint rugl. Hún hefur við engin rök að styðjast. Hún er beinlínis skaðleg hagsmunum Íslendinga. Hana ber að fella.
    Ég þakka áheyrnina.