Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Það eru að flestu leyti góð tíðindi, frá mínu sjónarmiði, að sjálfstæðismenn skyldu bera fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina og velja til þess einmitt þessa daga. Það er ríkisstjórn og stjórnarflokkum kærkomið tækifæri til þess að gera þjóðinni grein fyrir málefnum sínum og stefnu og það eflir samstöðu og samhug stjórnarliðsins innbyrðis. Samstaða okkar stjórnarliða er að vísu góð og hefur verið allt síðan sjálfstæðismenn hurfu úr Stjórnarráðinu, en það var fallega gert hjá sjálfstæðismönnum að efla hana enn frekar svo að það verði lýðum ljóst að núv. ríkisstjórn hefur öflugan meiri hluta og mun stjórna út a.m.k. þetta kjörtímabil.
    Miðað við hagsmuni Sjálfstfl. held ég hins vegar að þessi tími fyrir flutning vantrauststillögu hafi verið klaufalega valinn. Það kemur kannski ekki á óvart því að það er nú frekar orðin regla að forusta Sjálfstfl. beri sig klaufalega að fremur en það sé undantekning. Það er ámátlegt þegar Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson og Halldór Blöndal, hv. þm., koma hér upp í ræðustól og sperra sig upp út af meintum vandræðagangi hjá núv. ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn hér í þinginu eru vænsta fólk en þeir ættu ekki að koma mikið að landsstjórninni.
    Ég man þá tíð þegar Þorsteinn Pálsson var forsrh. Ég var einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnar hans og ber mína ábyrgð á því sem sú ríkisstjórn gerði. Ég ber hins vegar tamarkaða ábyrgð á því sem sú ríkisstjórn lét ógert en ég átti hlut að að ráðleggja henni að gera. Þorsteinn Pálsson átti sem forsrh. að hafa verkstjórn á hendi fyrir ríkisstjórn sinni og forustu um úrræði í efnahagsmálum. Það lét hann hins vegar hvort tveggja ógert. Hann gat ekki tekið leiðbeiningum samstarfsflokka sinna. Hann gat ekki komið með haldbær úrræði og þessir 14 mánuðir sem Sjálfstfl. bar höfuðábyrgð á stjórn landsins liðu í eintómum vandræðagangi. Þegar loksins sjálfstæðismenn hurfu úr Stjórnarráðinu var atvinnulífið í rjúkandi rúst og fjárhagur ríkisins og framleiðslufyrirtækjanna sömuleiðis.
    Síðan hefur verið unnið markvisst endurreisnarstarf. Núv. ríkisstjórn hefur tekist að koma í verk mörgu af því sem hún hefur þurft að gera og henni hefur tekist að halda flestum útflutningsgreinum gangandi og standa margar þeirra nú orðið traustum fótum aftur og í allt annarri stöðu en fyrir rúmu ári síðan. Og svo koma þessir herrar sem settu hér allt í strand og þykjast hafa efni á því að gagnrýna núv. ríkisstjórn og bera fyrir sig orð eins og Þorsteinn Pálsson gerði hér áðan þar sem hann talaði um glundroða, hringlandahátt og vandræðagang hjá núv. ríkisstjórn. Heyr á endemi.
    Það er einkum tvennt sem gagnrýni sjálfstæðismanna hefur beinst að hér í kvöld. Í fyrsta lagi meðferð Evrópumálefna og í öðru lagi tekjuöflun ríkisins. Evrópumálin eru langmikilvægustu viðfangsefni íslenskra stjórnmála í dag og verða það um næstu framtíð. Þar ber að hafa tvennt í huga.

Ísland getur ekki og má ekki ganga í Evrópubandalagið um fyrirsjáanlega framtíð. Á hinn bóginn er tilvist Evrópubandalagsins staðreynd sem við fáum ekkert að gert. Við Íslendingar erum Evrópuþjóð og ætlum að halda áfram að vera það. Við höfum og viljum hafa mikil viðskipti við Evrópubandalagið og þess vegna er okkur mjög brýnt að koma á góðum samskiptaháttum við það.
    Ég sagði áðan að það kæmi ekki til greina fyrir okkur Íslendinga að ganga í bandalagið. Við megum með engu móti játast undir forræði þess eða hið yfirþjóðlega vald sem það hefur tekið sér yfir bandalagsþjóðunum. Ef við fórnum sjálfstæði okkar og sjálfræði í hendur þess setjum við einnig í hættu tungu okkar, þjóðmenningu og þjóðerni. Við getum heldur ekki deilt með bandalaginu fiskimiðum okkar eða auðlindum. Við þurfum sjálfir á að halda öllu því sjávarfangi sem hafið innan fiskveiðilögsögu okkar getur gefið af sér með skynsamlegri nýtingu. Við þörfnumst allra okkar auðlinda fyrir okkur sjálfa og um þessa stefnu hafa allir ábyrgir stjórnmálaflokkar á Íslandi verið sammála fram undir þetta.
    Nú hefur því miður hluti Sjálfstfl. söðlað um. Aldamótanefnd flokksins lagði til á síðasta landsfundi að Ísland sækti um aðild að bandalaginu til þess að síðan yrði samningurinn metinn þegar hann hefði verið gerður. Þetta er röng og þjóðhættuleg stefna sem mundi leiða til mikils ófarnaðar. Við þurfum að finna bærilega viðskipta- og samskiptahætti við bandalagið. Það eru tvær leiðir sem hafa einkum verið hér til umræðu. Önnur er sú að taka þátt í viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins. Hin er sú að Íslendingar óski eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Á fundi forsætisráðherra EFTA-ríkjanna í Osló sl. vor var ákveðið að taka boði Evrópubandalagsins um könnunarviðræður um framtíðarsamskipti þessara bandalaga. Ísland gerðist aðili að þessum viðræðum með ákveðnum fyrirvörum. Ísland vill verslunarfrelsi og þar með fríverslun með fisk og fiskafurðir sem er reyndar grundvallaratriði. Ísland hefur hins vegar fyrirvara um óhefta flutninga fjármagns, ótakmarkað streymi vinnuafls og óhindruð þjónustuviðskipti. Fámenni okkar og þjóðfélagsgerð gefur ekki skynsamlegt svigrúm til þess að opna landið og þjóðfélagið upp á gátt. Þessum
fyrirvörum verðum við að standa fast á. Þá er okkur rétt að gerast þátttakendur með öðrum EFTA-ríkjum í viðræðum við Evrópubandalagið.
    Að sjálfsögðu verður Alþingi að fylgjast vel með framvindu viðræðnanna og Íslendingar geta dregið sig út úr þeim hvenær sem ríkisstjórn eða Alþingi þykir sem frekari samningaviðræður leiði ekki til ásættanlegrar niðurstöðu eða þjóni hagsmunum Íslands.
    Sjálfstæðismenn hamra þessa dagana á því að Íslendingar eigi að draga sig út úr EFTA-viðræðunum og óska eftir tvíhliða viðræðum, beinum viðræðum Íslendinga við Evrópubandalagið. Þetta er ekki hægt eins og stendur jafnvel þótt okkur þætti það skynsamlegt sem það reyndar ekki er. Evrópubandalagið hefur ekki viljað taka upp tvíhliða

viðræður við Austurríki og það er barnaskapur að vonast til þess að Evrópubandalagið vilji frekar eyða tíma í tvíhliða viðræður við Íslendinga nú á þessum tíma. Það er spaugilegt þegar Þorsteinn Pálsson, vinnuveitandinn sjálfur, er allt í einu farinn að bregða sér í gervi verkalýðsforingjans og kenna fólkinu hvernig verkalýðsforingjar eigi að haga sér. Bandalagið er ekki til viðtals um tvíhliða viðræður eins og stendur fyrr en EFTA-sporið hefur verið rakið til þrautar. Þetta hefur margkomið í ljós. Sú stund getur hins vegar runnið upp að aðstæður skapist til þess að taka upp tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins. Sú leið er hins vegar lokuð nú. EFTA-leiðin er ein fær sem stendur og hana ber okkur að kanna. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar og með því að fella vantrauststillögu sjálfstæðismanna er það lýðum ljóst að sú stefna nýtur meirihlutafylgis á Alþingi. Kröfur sjálfstæðismanna um sérstaka ályktun frá Alþingi eru náttúrlega algjörlega óþarfar, sérstaka ályktun um umboð frá Alþingi til samningaviðræðna, óþarfar fyrir utan það að vera óþinglegar.
    Það tók ekki betra við þegar Þorsteinn Pálsson og Friðrik Sophusson fóru að gagnrýna skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Við stjórnarliðar höfum komið okkur saman um skynsamlega aðferð við það að koma á virðisaukaskatti. Við höfum á prjónunum fleiri mikilvægar endurbætur á skattakerfinu eins og komið hefur fram hér í kvöld. En hver var skattastefna sjálfstæðismanna þegar Þorsteinn Pálsson hafði tækifæri til að móta hana? Skattastefna Þorsteins Pálssonar var sú að berjast á móti flestallri tekjuöflun ríkisins í því skyni að kaupa sér vinsældir kjósenda, en Þorsteinn Pálsson hafði ekki þrek til að reyna að draga úr ríkisumsvifum heldur þöndust þau náttúrlega út undir hans stjórn. En það verður auðvitað að draga úr umsvifum ef menn afsala sér tekjunum. Þess vegna yfirgaf hann ríkissjóð með stórfelldari halla en við þekkjum fyrr eða síðar og í lok hins mesta góðæris. Ég ætla ekkert að fara að rifja þá raunasögu upp hér. Ég finn sem samstarfsmaður Sjálfstfl. þá til ábyrgðar og fyrirverð mig fyrir að hafa sýnt allt of mikið langlundargeð í því stjórnarsamstarfi. Við framsóknarmenn áttum auðvitað að slíta samstarfi við sjálfstæðismenn þegar við komumst að raun um það að sjálfstæðismenn voru gagnslausir og ráðlausir.
    Sjálfstfl. hefur haft alla forustu um flutning þessarar vantrauststillögu og ber höfuðábyrgð á henni, en það er furðulegt að horfa upp á Kvennalistann. Þingmenn Kvennalistans líma sig upp að Sjálfstfl. Ég átti ekki von á því að þingmenn Kvennalistans mundu velja þann kost að setjast í kjöltu sjálfstæðismanna og taka þannig ábyrgð á Evrópubandalagsstefnu þeirra, m.a., og gera hana að sinni.
    Eins og ég sagði í upphafi er ég að sumu leyti ánægður með að sjálfstæðismenn skyldu velja þessa daga til þess að flytja vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Við höfum fengið tækifæri hér í þessum umræðum til þess að gera alþjóð grein fyrir stefnumálum ríkisstjórnarinnar og okkur hefur verið gefið tækifæri til þess að koma fram sem órofa heild. Yfir þessu er

ég ánægður. Hins vegar er þessi tillöguflutningur að einu leyti til verulegs tjóns. Sjálfstæðismönnum hefur tekist að veikja álit Íslands í Brussel og þeim hefur tekist að kasta rýrð á verk utanrrh. og veikja stöðu hans og álit sem foringja EFTA-ríkjanna í viðræðum við Evrópubandalagið. Þetta kann að vera þeim sjálfstæðismönnum til einhverrar svölunar á þessum haustdögum en það er þjóðinni til tjóns og því er slæmt að þeir skyldu grípa til þessa ráðs. Við munum hér á eftir fella þessa vantrauststillögu og endurnýja þar með umboð ríkisstjórnarinnar og utanrrh. Síðan væri það ágætt, síðar í vetur, ef stjórnarandstaðan vildi bera fram vantrauststillögu eins og einu sinni í mánuði til að þjappa okkur saman stjórnarliðum og gefa okkur tækifæri til þess að greina frá afrekum okkar og fyrirætlunum. --- Góðar stundir.