Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur.
    Hvaða rökum er sú till. um vantraust studd sem hér er nú til umræðu? Þau virðast mér einkum vera þrenn. Stjórnarandstaðan segir: Það er upplausn og órói í þinginu. Sé það mat manna þá er sannarlega ekki við ríkisstjórn eða stjórnarflokkana að sakast. Staðreyndin er sú að fulltrúar stjórnarandstöðunnar láta ekkert tækifæri ónotað til að spilla vinnufriði þingsins, tefja og trufla þingstörfin. Hafi einhver órói verið í þingstörfunum um sinn þá er það fyrst og fremst vegna þess ásetnings þeirra sjálfstæðismanna að skapa glundroða og ringulreið með einhvers konar stuttbuxnastríði og það er ekki uppbyggilegt stjórnmálastarf. Sjálfstfl. reyndist ónothæfur í ríkisstjórn. Á hann var ekki að treysta. Nú er komið í ljós að hann er líka ónothæfur í stjórnarandstöðu. Svo segir mér hugur um að ef þeir mörgu sem gjalda nú Sjálfstfl. jáyrði í skoðanakönnunum hefðu haft tækifæri til að fylgjast í nærmynd með forustuliði flokksins í þingsölum þá væri útkoman úr skoðanakönnununum ærið mikið önnur.
    Hlutverk stjórnarandstöðu er að veita aðhald, setja fram málefnalega gagnrýni, benda á önnur úrræði. Það er ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að eyðileggja vinnufriðinn á Alþingi. Það eru skemmdarverk. Ef Sjálfstfl. lítur á þetta sem meginhlutverk sitt í íslenskum stjónrmálum þá er það auðvitað hans mál en ekki er hlutverkið stórmannlegt.
    Stjórnarandstaðan segir: Stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um framkvæmd virðisaukaskatts. Stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um þessa viðamiklu skattkerfisbreytingu sem til framkvæmda kemur um áramótin. Sú ákvörðun er vissulega með seinni skipunum, það ber að viðurkenna, en hún liggur fyrir og um hana er samstaða. Virðisaukaskatturinn á að standa undir næstum 2 / 3 hlutum af heildartekjum ríkissjóðs og varðar verð á nær allri vöru og þjónustu í landinu.
    Upptaka virðisaukaskatts er mikil breyting sem ég hygg að allir flokkar styðji í grundvallaratriðum nema kannski Kvennalistinn sem er á móti sköttum, eins og kom mjög greinilega fram í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur hér rétt áðan. Þær eru hins vegar býsna flinkar við að búa til útgjaldatillögur og ef mönnum finnst það sannferðug pólitík þá er það umhugsunarefni út af fyrir sig. Niðurstaða er fengin í þessu máli þannig að það eru ekki rök fyrir því að flytja vantraust á ríkisstjórnina.
    Grundvallarsjónarmið okkar alþýðuflokksmanna í þessu máli eru þrenn:
    Í fyrsta lagi að skattkerfisbreytingin leiði ekki til hækkana á verði matvæla, heldur fylgi henni lækkun matvælaverðs.
    Í öðru lagi að skattkerfisbreytingin leiði til betri skattskila og minni undandráttar.
    Í þriðja lagi eru nú fram undan kjarasamningar og skattkerfisbreytingin má ekki með neinum hætti torvelda að þar fáist skynsamleg niðurstaða.

    Sjálfstfl. stóð að samþykkt laga um virðisaukaskatt í einu þrepi vorið 1988 en talar nú fyrir virðisaukaskatti í tveimur þrepum sem töfralausn til að lækka matvælaverð sem allir vita nú að er ekki rétt, eftir að Alþfl. knúði fram réttar upplýsingar um málið og fékk því ráðið um leið að skatthlutfallið var lækkað úr 26% í 24,5%.
    Þriðja og aðalröksemd sjálfstæðismanna, Kvennalista og þeirra félaga Inga Björns Albertssonar og Hreggviðs Jónssonar, hv. þingmanna, er sú í þessu vantraustsmáli að svo illa sé haldið á málum af Íslendinga hálfu í samtölum EFTA og Evrópubandalagsins að ríkisstjórninni beri að víkja. Stjórnarandstaðan segir: Hagsmuna Íslands er illa gætt í þessu mikla máli.
    Þetta er mikið mál. Þetta, ásamt nýrri sókn í orkufrekum iðnaði og virkjun vatnsfalla, mun ráða úrslitum um lífskjör íslensku þjóðarinnar, atvinnumál og afkomu á þeim árum sem nú fara í hönd. Af mörgu frumhlaupi þeirra sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu er það óskiljanlegast að þeir skuli hafa flutt tillögu í utanrmn. um að við eigum nú að óska eftir formlegum, tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Þessi tillaga er ekki aðeins einstaklega óskynsamleg, heldur er hún líka byggð á ótrúlegri vanþekkingu og er beinlínis óhagstæð hagsmunum Íslendinga. Hvers vegna? Fyrir því eru þessi rök: Við erum aðilar að EFTA. EFTA-ríkin hafa komið sér saman um að ræða sameiginlega við Evrópubandalagið. Af hálfu Íslendinga var það gert að algjöru skilyrði fyrir þátttöku okkar í þeim viðræðum að þar yrði upp tekin krafan um fríverslun með fisk. Á það féllust hin EFTA-ríkin en það kostaði harðan slag eins og fram hefur komið í þessum umræðum. Á þetta var fallist og það er meginatriði. Þess vegna erum við EFTA-ríkjunum samferða og formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh., stýrir nú þeim viðræðum sem fram fara á þessum vettvangi. Evrópubandalagið undirbýr nú innri markað þar sem veggir og múrar falla brott. Ný aðildarríki hafa bæst í hópinn, aðlögun þeirra að reglum og starfi bandalagsins er mikið og tímafrekt verkefni. Eitt EFTA-ríki, Austurríki, hefur sem kunnugt er sótt um aðild að Evrópubandalaginu og fengið
afsvar í bili. Málið geti komið til umræðu eftir einhver ár.
    Staðreyndin er sú að Evrópubandalagið er ekki tilbúið til formlegra tvíhliða viðræðna við einstök ríki nú næstu árin. Það liggur fyrir ljóst og skýrt, enda þótt Sjálfstfl. sjái það ekki eða skilji það ekki. Auðvitað getum við óskað formlega eftir slíkum tvíhliða viðræðum. En svarið sem við fáum verður nei, það er deginum ljósara og öllum ljóst sem hafa kynnt sér þessi mál. Er það það sem við viljum? Bætir það stöðu okkar? Svar mitt er nei. Það gerir stöðu okkar verri. Sem þátttakendur í viðræðum EFTA-ríkjanna getum við ekki samtímis óskað eftir formlegum tvíhliða viðræðum. Því yrði hafnað og þá væri verr farið en heima setið.
    Óformlegar tvíhliða viðræður standa yfir. Ráðherrar

og embættismenn hafa kynnt málstað okkar í samtölum við forustumenn Evrópubandalagsins. Það hefur skilað árangri og vaxandi skilningi á sérstöðu okkar og mikilvægi sjávarútvegs og því verki verður haldið áfram.
    Aðild að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá, um það er samstaða. Fiskimiðin eru ekki föl og það sem ekki er til skiptanna fyrir okkur, því er ekki hægt að deila með öðrum. Þessi mál eru í réttum farvegi. Það hefur verið skynsamlega og vel haldið á málum af Íslands
hálfu. Hagsmuna okkar hefur verið gætt og gætt vel. Við erum á réttri leið en ferðin er rétt að hefjast. Það er ekki aðeins rétt að hafa samflot með hinum EFTA-ríkjunum, það er einfaldlega eina færa leiðin nú um stundir í þessu máli sem varðar íslensku þjóðina svo miklu. Ég fullyrði að hér hefur verið vel að verki staðið, mjög vel og ég er ekki einn um þá skoðun. Í Morgunblaðinu í gær skrifar Víkverji og ég vitna hér til orða hans, með leyfi forseta:
    ,,Víkverji varð þess áþreifanlega var í samtölum við menn í höfuðstöðvum Evrópubandalagsins fyrir nokkru að forusta Íslendinga þykir hafa tekist frábærlega vel. Sagt var að Svíar hefðu efasemdir um hæfni Íslendinga til að takast á við þetta verkefni. Nú hafa sumir sænskir embættismenn áhyggjur af því að það sé ekki auðvelt að feta í fótspor Íslendinga.``
    Þetta, góðir áheyrendur, eru orð að sönnu. Í öllu þessu máli hefur verið haft náið og ítarlegt samráð við Alþingi, Evrópustefnunefnd þingsins og utanrmn. Alþingis. Það er svo sem vera ber.
    Það eru nákvæmlega engin rök til þess að flytja vantraust á ríkisstjórnina vegna þessa máls. Þvert á móti hefur hér verið vel unnið að hagsmunagæslu fyrir hönd lands og þjóðar. Rökin fyrir þessari vantrauststillögu fyrirfinnast ekki. Þau eru ekki til. Ríkisstjórnin er á réttri leið. Það er að greiðast úr vanda atvinnulífsins. Víst er þó enn við vanda að etja, t.d. í skipasmíðaiðnaði þar sem við bættist í dag að þorra starfsmanna Þorgeirs og Ellerts á Akranesi var sagt upp störfum. Við þessu verður að bregðast með viðunandi hætti og það verk hefur Jón Sigurðsson iðnrh. þegar hafið. Nú þurfum við að vinna að lækkun matvælaverðs og frekari lækkun vaxta í takt við minnkandi verðbólgu.
    Fyrir þessari vantrauststillögu eru engin rök. Hún er enn eitt vanhugsað upphlaup vanstilltrar stjórnarandstöðu sem ekki veit sitt rjúkandi ráð og hefur engin úrræði og engar tillögur fram að færa. Vantrauststillöguna ber því að fella. --- Góðar stundir.