Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við samstjórn ólíkra flokka er það höfuðatriði að þeir samningar sem gerðir eru haldi. Því mun Borgfl. standa að því að tekið verði upp virðisaukaskattskerfi í stað söluskatts um áramótin, í einu þrepi. Við myndun núv. ríkisstjórnar hinn 10. sept. sl. náðum við því miður ekki fram kröfunni um tvö þrep í virðisaukaskatti þrátt fyrir tilraunir í þá veru. Höfnuðu þáv. ríkisstjórnarflokkar slíku fyrirkomulagi en samkomulag varð um að matarverð skyldi lækka með endurgreiðslu virðisaukaskatts af frumframleiðslu þannig að um ígildi tveggja þrepa væri að ræða á helstu matvælategundir. Féllst Borgfl. á að ganga til samstarfs á þessum grunni, gegn því að ríkisstjórnin lýsti jafnframt yfir að það yrði meginmarkmið hennar að lækka verð á helstu lífsnauðsynjum og tekið yrði á hinum óheyrilega fjármagnskostnaði sem sligar heimilin og fyrirtækin í landinu. Ég vil að þetta komi fram í upphafi ræðu minnar svo að ekki verði um villst hverjar áherslur Borgfl. eru í þessu stjórnarsamstarfi.
    Till. sem hér hefur verið lögð fram og er nú til umræðu um vantraust á ríkisstjórnina kemur í sjálfu sér ekki á óvart en vekur furðu engu að síður. Hún endurspeglar málflutning stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi síðustu daga og hvað þessir þrír flokkar sem stjórnarandstöðuna mynda eru orðnir órólegir vegna góðs gengis ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málaflokkum og þá sérstaklega í efnahagsmálum. Hvenær hefur það gerst í sögunni að verðbólgan hafi minnkað þrátt fyrir samdrátt? Hvenær hefur það gerst að undirstöðuatvinnuvegirnir hafi verið reknir með hagnaði þrátt fyrir samdrátt? Ég minnist þess ekki að sú hafi orðið raunin, a.m.k. ekki síðustu áratugi.
    Það er rétt að almennur kaupmáttur hefur rýrnað og aukning hefur orðið í gjaldþrotum. Af hverju skyldi það annars stafa? Er það vegna stjórnarstefnu núv. ríkisstjórnar eða stjórnarstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem skildi við atvinnulífið í rjúkandi rúst? Afleiðingar Þorsteinsstjórnarinnar hafa verið að koma í ljós á þessu ári. Það gerist ekki á einni nóttu hér á landi að verða gjaldþrota, heldur hefur það sinn aðdraganda. Sú pólitík, að benda á þann sem næst stendur og kenna honum um ófarirnar, er bæði röng og blekkjandi og sæmir ekki mönnum sem vilja láta taka sig alvarlega í stjórnmálum. Að kenna þessari ríkisstjórn um ógæfu þeirra sem lent hafa í gjaldþroti er gert gegn betri vitund því upplýst hefur verið að stóraukinn fjármagnskostnaður og stórfelldur taprekstur árin 1987 og 1988 eru meginskýringar gjaldþrotanna. Sjálfstfl., sem innleiddi vaxtaokrið og kom þannig vaxtapúkanum upp á fjósbitann, þvær nú hendur sínar gagnvart þessu fólki og almenningi í landinu. Stjórnarandstaðan er nú ekki merkilegri en það að hún skilur ekki muninn á orsök og afleiðingu. Auðvitað hefði margt mátt betur fara í þessari ríkisstjórn og samstaðan innan þingflokka hefði mátt vera meiri um ýmis grundvallaratriði í

stjórnarstefnunni. Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að árangur hefur náðst og meiri en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Það er aðalatriðið. Það sem hefur verið tínt til af stjórnarandstöðunni í þessari umræðu um einstök mál eða málaflokka eru reyksprengjur og hrein aukaatriði í samanburði við árangurinn.
    Í samsteypustjórnum, hvort sem flokkarnir eru tveir eða fleiri, er eðlilegt að flokka greini á um mikilsverð málefni eins og þau sem rætt hefur verið um hér í kvöld. Hver flokkur vill marka sína sérstöðu og ekki henda orðalaust frá sér einkennum sínum. Það er ekki þar með sagt að ekki náist samstaða og málamiðlun er taki tillit til hinna ólíku sjónarmiða. Byggist það á verkstjórninni og vilja manna til að starfa saman. Þessi ríkisstjórn hefur borið gæfu til að virða og taka tillit til skoðana og lagt sig í líma við að ná saman eins og vitnast hefur hér í kvöld. Þar skilur á milli þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem einmitt féll á slælegri verkstjórn og viljaleysi til að ná saman um að vinna að lausn aðkallandi vandamála.
    Hvað hefur stjórnarandstaðan annars að bjóða þjóðinni komi til kosninga? Ef loforðin eru tekin saman í eina setningu eru þau þessi: Lækka skatta og lækka útgjöld til velferðarmála. Göfug markmið en ekki samræmanleg og ekki trúverðug. Í það eina ár sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var við völd hækkuðu skattar um 50%, úr 44 milljörðum í 66 milljarða, og bitnuðu harðast á alþýðu manna með matarskattinn illræmda í broddi fylkingar. Með kosningum nú er hætta á að við köllum yfir okkur mestu ógæfu í íslenskum stjórnmálum, Sjálfstfl. sem sýnt hefur og sannað að hann er alls óhæfur til þess að stjórna og er miskunnarlaus þegar hagur almennings er annars vegar.
    Góðir áheyrendur. Nú er komið að lokum þessarar umræðu og tími minn senn á þrotum. Ég vil þakka ykkur sem sýnduð mér þá kurteisi að vaka eftir ræðu minni og vona að hún hafi verið þess virði. Ég vil minna á að flokkur minn, Borgfl., gekk ekki til stjórnarsamstarfs til að koma í veg fyrir kosningar, heldur hafði hann þá trú að þátttaka hans mætti verða til þess að auðvelda þeim sem minna mega sín og þeim öðrum sem eiga undir högg að sækja betri lífdaga, efla
atvinnulífið með markvissri uppbyggingu og nýsköpun og undirbúa þjóðina undir breytta tíma í heiminum. Ég býð ykkur góða nótt.