Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Ég átti þátt í því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist á stóla 1988. Ég varð fyrir vonbrigðum með störf þeirrar stjórnar, einkum í byggðamálum. Ég greiddi atkvæði gegn því að breytt yrði um ráðuneyti á sl. hausti og því olli staða mála í þeirri stjórn sem áður sat. Samkennd mín með núverandi ríkisstjórn hefur farið minnkandi síðan vegna þess hvernig hún heldur á stórum málum og hvernig einstakir ráðherrar haga störfum sínum.
    Það er ekki ríkisstjórn að mínu skapi þar sem utanrrh. vill láta hefja framkvæmdir við nýjan hernaðarflugvöll þegar öll heimsbyggðin talar um afvopnun. Ég finn ekki til samkenndar með ríkisstjórn þar sem helsta nýbreytnin í atvinnumálum er að koma upp erlendu risaálveri við bæjardyr Reykjavíkur. Á afdrifaríkustum villigötum er hins vegar ríkisstjórnin í svonefndum Evrópumálum þar sem verið er að strekkja inn í evrópskt efnahagssvæði, inn í fordyri Evrópubandalagsins. Um það stóra mál er rætt hér af einstökum ráðherrum með lítilli virðingu fyrir staðreyndum og þess utan af stráksskap eins og heyra mátti í málflutningi utanríkisráðherrans. Ég hlýt að nefna það hér að sjálfur lýsti hann því yfir opinberlega í september sl. að hann teldi nauðsynlegt að leita umboðs Alþingis áður en gengið yrði til formlegra samningaviðræðna. Ég er andvígur þeirri stefnu sem ríkisstjórnin markaði í gær í þessu stóra máli og tel hana ekki aðeins varhugaverða heldur hættulega.
    Hér í þingsalnum sitja þingmenn Sjálfstfl. Ætli þeir vilji ganga skemur en utanrrh. í að nálgast Evrópubandalagið? Nei. Ætli löngunin sé ekki álíka eða kannski meiri að komast inn úr fordyrinu á Evrópubandalaginu.
    Virðulegur forseti. Málstaður sá sem Alþb. hefur lengst af staðið fyrir á í vök að verjast í þessari ríkisstjórn. Það hefur hallað undan í vaxandi mæli. Aðild þess flokksins að þessari ríkisstjórn hlýtur að mínu mati að ráðast af því hvernig tiltekst á næstu mánuðum í þeim stóru málum sem stuðningsfólk Alþb. ber mest fyrir brjósti.
    Ég tel ekki rétt nú af tilefni þessarar tillögu sem Sjálfstfl. hefur hér frumkvæði að að lýsa mig frá ábyrgð á þessari ríkisstjórn. Ég mun enn um sinn leitast við að styðja ráðherra flokksins í erfiðri stöðu þeirra í ríkisstjórninni. Verði breyting á þessari afstöðu minni mun það ekki fara fram hjá neinum hér á hv. Alþingi. Ég segi nei.