Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Nú undir lok þessarar löngu umræðu um skýrslu utanrrh. um könnunarviðræður EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið vil ég þakka þeim þm. sem hér hafa talað fyrir framlag þeirra til skoðanaskipta og þar með samráð um framgang þessa örlagaríka máls sem skipt getur sköpum um framtíð okkar. Ég vil líka þakka utanrmn. og Evrópustefnunefnd þingsins fyrir mikilsvert framlag til þessa máls á undanförnum missirum. Síðast en ekki síst vil ég þakka starfsliði utanríkisþjónustunnar og annarra ráðuneyta sem þátt hafa tekið í þessum mikilvægu undirbúningsstörfum. Þessi störf hafa verið vel af hendi leyst og eru góð undirstaða fyrir það mikla verk sem við eigum nú fyrir höndum.
    Markmiðið með þátttöku Íslendinga í þessum viðræðum og þeim sem fram undan eru er að sjálfsögðu að tryggja að íslenska þjóðin geti haldið til jafns við aðrar um lífskjör í framtíðinni. Við megum alls ekki einangrast frá öðrum þjóðum, hvorki í efnahagslegu, félagslegu né menningarlegu tilliti. Út frá þessu almenna markmiði má greina nokkur önnur. Ég nefni fyrst:
    1. Að tryggja íslenskum atvinnuvegum hindrunarlausan aðgang á jafnréttisgrundvelli að innri markaði Evrópubandalagsins sem verður stærsta fríverslunarsvæði heims, hvort sem er á mælikvarða umsvifa eða tekna þeirra sem það landsvæði byggja.
    2. Að fá viðurkenningu á grundvallarreglunni um fríverslun með fiskafurðir. Afurðir íslenska fiskiðnaðarins eru okkar iðnaðarvörur. Engin raunveruleg gagnkvæmni getur náðst í viðskiptum okkar nema þær afurðir fái aðgang að markaði í Evrópu.
    3. Að tryggja Íslendingum þátttökurétt á grundvelli jafnréttis í samstarfsverkefnum Evrópuþjóða á sviðum mennta og menningar, umhverfisverndar og félagslegra réttinda.
    4. Að öðlast viðurkenningu á sérstöðu Íslendinga í samfélagi Evrópuþjóða.
    Ríkisstjórnin hafði þessi markmið fyrir augum þegar hún fjallaði um Evrópuviðræðurnar á fundi sínum 29. nóv. sl. eins og forsrh. gerði grein fyrir hér í umræðunum þann dag. Í bókun ríkisstjórnarinnar um málið var staðfest að utanrrh. muni áfram taka þátt í undirbúnings- og samningaviðræðum EFTA og EB á grundvelli sameiginlegra niðurstaðna könnunarviðræðnanna. Þar með var einnig vísað til þeirra fyrirvara um sérstöðu Íslands sem fram hafa verið settir í þeim viðræðum.
    Í framhaldsviðræðunum verður að sjálfsögðu fylgt eftir sameiginlegri kröfu EFTA-ríkjanna um fríverslun með fiskafurðir, en jafnframt haldið áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið og aðildarríki þess með það að markmiði að tryggja tollfrjálsan aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsins og til þess að tryggja stöðu íslensks sjávarútvegs að öðru leyti. Það þarf naumast að taka það fram, svo sjálfsagt sem það er, að náið

samráð verður haft um framvindu þessara umræðna innan ríkisstjórnarinnar og við utanrmn. Alþingis á öllum stigum málsins. Virðulegi forseti. Ég tel vafalítið að um þessi markmið og málsmeðferð sé víðtæk samstaða.
    Í máli nokkurra þeirra sem talað hafa við þessar umræður virðist mér gæta misskilnings á eðli og möguleikum tvíhliða viðræðna við Evrópubandalagið og aðildarríki þess um málefni sjávarútvegs sérstaklega. Slíkar viðræður hafa farið fram og eru í gangi með ýmsum hætti og verður haldið áfram. Mikið hefur verið að því unnið að efla skilning meðal forustumanna í Evrópubandalaginu á sérstöðu Íslendinga. Ég nefni að utanrrh. hefur hitt að máli flesta forustumenn Evrópubandalagsins á undanförnum mánuðum. Forsrh. hefur verið framtakssamur og óþreytandi að kynna málstað okkar erlendis og sjútvrh. hefur tekið upp mjög gott samband við starfsbræður sína í helstu Evrópubandalagsríkjunum. Ég hef sem viðskrh. og iðnrh. átt gagnlegar viðræður við ýmsa ráðamenn Evrópubandalagsins um sérmál Íslands og hef reyndar þegar ákveðið framhald slíkra viðræðna. Mun ég fara til fundar við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í boði Henning Christophersens, varaforseta framkvæmdastjórnarinnar, í janúarmánuði nk. Sjútvrh. hefur fyrr á þessu ári átt viðræður við Manuel Marin sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins og stendur fyrir dyrum heimsókn hans hingað til Íslands. Auk þess hefur sjútvrh. átt og mun eiga fundi með sjávarútvegsráðherrum Evrópubandalagsríkja. Þessi óformlega aðferð er á þessu stigi máls án alls efa vænlegasta leiðin til þess að þoka okkar málum nær höfn jafnframt því sem við tökum þátt í EFTA-samstarfinu.
    En vegna þeirrar miklu umræðu um það hvort ráðlegt sé að óska nú eftir formlegum tvíhliða viðræðum um málefni sjávarútvegs langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins frá í gær, en þar segir svo:
    ,,Skoðanamunur um það, hvort óska ætti eftir tvíhliða viðræðum um sjávarútvegsmál samhliða viðræðum EFTA og EB, setti töluverðan svip á vantraustsumræðurnar í þinginu sl. fimmtudagskvöld og var augljóst að þetta atriði ásamt spurningunni um umboð til utanrrh. var orðið helsta deiluefni
manna um EFTA-EB-mál.
    Það er auðvitað sjálfsagt að ræða hér heima fyrir, hvort óska eigi eftir tvíhliða viðræðum um sjávarútvegsmál við Evrópubandalagið samhliða EFTA-EB-viðræðum. En afstöðu verða menn að lokum að taka og þá með hliðsjón af heildarhagsmunum þjóðarinnar. Í samtölum, sem höfundur þessa Reykjavíkurbréfs átti fyrir skömmu við embættismenn í höfuðstöðvum Evrópubandalagsins kom skýrt fram, að óski Íslendingar eftir tvíhliða viðræðum um sjávarútvegsmál, muni sjávarútvegsdeild Evrópubandalagsins annast þær viðræður, ef á annað borð yrði á þær fallist, sem ekkert liggur fyrir um. Sjávarútvegsdeildin mundi ganga að því samningaborði

með þröng sjávarútvegssjónarmið EB-ríkjanna í huga. Innan þessarar deildar er krafan um aðgang að fiskimiðum okkar Íslendinga hörðust. Þar sitja menn, sem hafa þeim skyldum að gegna að framfylgja fiskveiðistefnu bandalagsins til hins ýtrasta. Í slíkum viðræðum er talið afar erfitt fyrir okkur Íslendinga að fá fram þær undanþágur, sem við þurfum á að halda.
    Í þessum samtölum kom jafnframt fram, að nái Íslendingar samningum um undanþágur, sem teljast fullnægjandi fyrir okkur, innan ramma heildarsamkomulags milli EFTA og Evrópubandalagsins, sem hafi jafnframt að geyma undanþágur fyrir aðrar EFTA-þjóðir á öðrum sviðum, svo sem fyrir Finna varðandi skóga, Austurríkismenn og Svisslendinga varðandi Alpasvæðin o.fl., séu meiri líkur á því en ella, að hægt verði að fá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins og ráðherranefnd til þess að fallast á slíkar undanþágur, sem hluta af heildarsamkomulagi. Með öðrum orðum að það sé hyggilegt út frá hagsmunum okkar Íslendinga sjálfra að láta á það reyna í heildarsamningum, hvort við náum ekki fram þeim undanþágum, sem máli skipta fyrir okkur og að það gæti beinlínis verið skaðlegt fyrir málstað okkar að lenda í klónum á sjávarútvegsdeild Evrópubandalagsins. Það er nauðsynlegt fyrir íslenska stjórnmálamenn að hafa þessar röksemdir í huga, þegar þeir fjalla um spurninguna um tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið samhliða heildarviðræðum.``
    Ég tel að það mat sem kemur fram í þessari tilvitnun sé bæði raunsætt og skynsamlegt í flestum greinum og vona reyndar að flestir þm. geti tekið undir það.
    Í málflutningi fulltrúa Sjálfstfl. í þessari umræðu, og reyndar einnig nokkurra annarra þm., hefur verið sett fram sú krafa að utanrrh. fái sérstakt umboð frá Alþingi með þál. til þátttöku í áframhaldandi undirbúnings- og samningsviðræðum EFTA og Evrópubandalagsins. Það er ekki þörf fyrir slíka ályktun á þessu stigi máls. Reyndar væri slík ályktun án fordæma. Bókun ríkisstjórnarinnar um málið sem forsrh. kynnti 29. nóv. lýsir samstöðu ríkisstjórnarinnar og staðfestir stöðuumboð utanrrh. í málinu. Ég vil taka fram að umboðs Alþingis var hvorki leitað þegar samið var um aðild að EFTA né þegar fríverslunarsamningurinn var gerður við Evrópubandalagið. Þessir samningar voru lagðir fyrir Alþingi í formi þingsályktunar þegar þeir höfðu verið gerðir og var þá leitað heimildar til að staðfesta þá fyrir Íslands hönd. Þegar sú heimild var fengin staðfestu forseti og utanrrh. samninginn fyrir hönd Íslands. Þá og þá fyrst voru þeir bindandi samningar. Reyndar tel ég vafalaust að nú hafi verið haft nánara samráð við þingið og ítarlegri kynning á forstigum málsins en þá var. Önnur EFTA-ríki hafa flest gert það sama og við erum nú að gera, þ.e. kynnt þingum sínum niðurstöður könnunarviðræðnanna. Ekkert þeirra, engin ríkisstjórn hefur leitað eftir formlegu umboði á þessu stigi þótt þingmeðferðin sé nokkuð mismunandi. Engin ríkisstjórn hefur leitað eftir

formlegu umboði. Það er nokkuð sérstök meðferð á málinu í finnska þinginu. Þar stendur nú yfir umræða og þar hefur verið lögð fram frásögn og kynningarskýrsla. Það má vel vera að um hana gangi atkvæði, líklegast þannig að atkvæði gangi um að þingið hafi fengið til kynningar þá skýrslu sem um ræðir. Formleg umboð tíðkast ekki fyrr en komið er að lokastigi og gera á niðurstöður samninganna bindandi. Það er vert að hafa í þessu sambandi í huga 21. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins nema samþykki Alþingis komi til.``
    Utanrrh. fer samkvæmt stöðu sinni með samningagerð við önnur ríki, þ.e. hann hefur stöðuumboð til samningagerðarinnar ásamt forseta Íslands í samræmi við 13. gr. stjórnarskrárinar, en þar segir:
    ,,Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.``
    Takmarkanir á þessu valdi eru sem kunnugt er í 21. gr. stjórnarskrárinnar. Utanrrh. mun að sjálfsögðu bera hver þau samningsdrög sem endanlega liggja fyrir undir Alþingi til staðfestingar eða synjunar. Samráð verður einnig haft innan ríkisstjórnarinnar og við utanrmn. Alþingis á öllum stigum samningaviðræðna þegar rétt virðist að fá umsögn um einstaka þætti þeirra. Ég vil einnig, með leyfi forseta, vitna í ritið Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, en þar segir einmitt um þetta efni: ,,Samþykki Alþingis er fólgið
í heimild til fullgildingar. Það er nægilegt að Alþingi samþykki samninginn áður en fullgilding hans á sér stað. Þess er ekki krafist að efni samningsins sé borið undir Alþingi og að það veiti fyrir fram samþykki sitt til samningagerðar, hvorki meðan á samningsviðræðum stendur né áður en samningurinn er undirritaður af utanrrh.`` Og enn fremur segir í þessu grundvallarriti, með leyfi hæstv. forseta: ,,Aðalreglan er sú að Alþingi veiti samþykki sitt til fullgildingar ákveðins samnings sem þegar liggur fyrir. Ekki er þó útilokað að samþykki sé gefið fyrir fram, áður en endanlega hefur verið gengið frá samningum eða jafnvel áður en byrjað er á samningsviðræðum, en þá má samningurinn ekki ganga lengra en ályktun Alþingis. Slíka almenna heimild yrði að skýra þröngt.``
    Virðulegi forseti. Það er einmitt ekki síst á þessu lögfræðilega áliti sem sú afstaða er byggð að umboð á þessu stigi máls sé ekki íslenskri hagsmunagæslu til framdráttar, fremur hið gagnstæða.
    Þá vík ég, virðulegi forseti, að ýmsum beinum spurningum sem fram hafa komið í þessari umræðu um skýrslu utanrrh. og mun ég reyna að svara þeim helstu. En við verðum að hafa í huga að engar raunverulegar samningaviðræður eru hafnar og því ekki unnt að gefa svör við sumu af því sem um var spurt á þessu stigi máls.
    Fyrsta slík spurning sem fram var borin er þessi:

Hvernig getum við gert strangari kröfur um heilbrigði og hollustu t.d. varðandi lyf og litarefni í matvælum o.s.frv.? Svarið er að innan
Evrópubandalagsins er aðildarríkjunum heimilt að gera strangari kröfur um heilsu, öryggi og umhverfi en gilda hjá öðrum, enda sé þar ekki um dulbúnar viðskiptahindranir að ræða. Þarna má því segja að sönnunarbyrðinni sé snúið við. Í könnunarviðræðum hafa EFTA-ríkin tekið skýrt fram að varðandi sumar vörur geri þau ítarlegri og strangari kröfur en EB sem þau geti ekki slakað á. Það er því ljóst að í komandi viðræðum verður farið nákvæmlega ofan í þessi mál og leitað lausna sem aðilar geti sætt sig við. Í því sambandi er rétt að geta þess að Evrópubandalagið stefnir nú sjálft að strangari kröfum á hollustusviðinu en þar eru nú í gildi, þótt sú þróun gangi þar raunar hægara en í ýmsum ríkjum EFTA. Samningaviðræðurnar kunna að flýta þeirri þróun, þ.e. að EFTA-ríkin hafi áhrif á það sem Evrópubandalagsríkin koma sér saman um innan sinna vébanda.
    Í öðru lagi var spurt hvort áunnin lífeyrisréttindi einstaklinga muni geta flust milli landa. Svarið er að innan Evrópubandalagsins gildir þessi regla um almannatryggingar og einnig er unnt að flytja eftirlaun og fjölskyldubætur milli landa. Hvort samningur verður gerður milli EFTA- og EB-ríkjanna um þessi málefni fer að sjálfsögðu eftir því hvort samningar nást í öllum atriðum. En að sjálfsögðu er hér um atriði að ræða sem snertir réttinn til frjálsra búferlaflutninga milli ríkja.
    Í þriðja lagi var spurt hvort niðurgreiðslur og ríkisstyrkir verði ekki lögð niður innan evrópska efnahagssvæðisins. Svarið er að á sviði iðnaðarvöru hefur það verið stefna Evrópubandalagsins undanfarin ár og hefur nokkuð miðað í áttina. Hins vegar á þetta fyrst og fremst við þá styrki sem aðilar eru sammála um að séu þess eðlis að þeir hafi áhrif á eðlileg og venjuleg viðskipti og samkeppni. Ég tel vafalaust að áfram verði við lýði styrkir sem eru réttlættir sem byggðastyrkir til að halda við búsetu á einstökum svæðum, þar sem að fáu öðru er að hverfa. Landbúnaður og sjávarútvegur munu vafalaust áfram njóta fyrirgreiðslu og styrkja innan Evrópubandalagsins þar sem það virðist almennt samkomulag um að færa þessar atvinnugreinar í heild í undanþáguflokk, yfirleitt vegna byggðasjónarmiða.
    Í fjórða lagi var spurt hvort samkeppnisreglur breytist mikið frá því sem nú tíðkast. Svarið við þessari spurningu er að það er ætlunin að stefna að samræmdum reglum eins og rakið er á bls. 14 og 15 í skýrslu utanrrh.
    Í fimmta lagi var spurt hvort ekki þurfi að leggja niður einkasölur ríkisins eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Svarið er að sú tilhögun yrði eflaust heimil áfram. Hins vegar yrði þá að gæta þess að framleiðendum sé ekki mismunað og veita öllum sama tækifæri til að sanna að eftirspurn sé eftir þeirri vöru sem þeir bjóða. Að sjálfsögðu verður heimildin óskoruð til að leggja áfram gjöld á vörusölu Áfengis-

og tóbaksverslunar.
    Í sjötta lagi var spurt hvort einföldun landamæraeftirlits gæti ekki takmarkað möguleika til annars konar eftirlits, t.d. varðandi ólöglega flutninga og smygl á eiturlyfjum. Svarið er að ekki er stefnt að afnámi eftirlits með þeim samningum sem nú eru í undirbúningi. Annars vegar er rætt um að draga úr skriffinnsku við flutning varnings milli landa og hins vegar að formsatriði við ferðir fólks yfir landamæri verði t.d. sambærileg við norræna vegabréfasvæðið. Ekki er til umræðu að fella niður farangursskoðun eða annað slíkt öryggiseftirlit. Einkum verður ekki séð að það sé á dagskrá varðandi lönd eins og Ísland sem ekki á sameiginleg landamæri með öðrum Evrópuríkjum.
    Í sjöunda lagi var spurt um undirboð og aðgerðir í því sambandi. Þar má gefa sem stutt svar að af hálfu Evrópubandalagsins hefur verið beitt aðgerðum gegn
undirboðum með því að leggja á sérstakan viðbótartoll, jafnan þeirri fjárhæð sem talið er að varan sé seld undir venjulegu framleiðsluverði. EFTA-ríkin hafa á hinn bóginn talið að Evrópubandalagið væri að misnota slíka reglu sem væri eðlileg út af fyrir sig til að vernda einstök, lítt samkeppnishæf fyrirtæki eða iðngreinar fyrir samkeppni fyrir betur reknum fyrirtækjum í ríkjum Evrópubandalagsins eða EFTA. Reynt verður að semja um að ekki verði gripið til slíkra undirboða eða skyldra aðgerða framvegis.
    Í áttunda lagi var spurt um ábyrgð framleiðenda eða seljanda vöru. Svarið er að innan Evrópubandalagsins verður sú regla gildandi að framleiðandi vöru á bandalagssvæðinu ber ábyrgð á henni hvar á bandalagssvæðinu sem hún er seld eða hennar neytt. EFTA-ríkin telja nauðsynlegt að þessi regla verði tekin upp á öllu evrópska efnahagssvæðinu, ef til kemur, þegar af þeirri ástæðu að annars valdi reglur Evrópubandalagsins því að innflytjendur í Evrópubandalagsríki velji fremur vörur frá öðrum Evrópubandalagsríkjum ef ábyrgð framleiðenda er þar ríkari.
    Frumvarp um ábyrgð á skaðlegum eiginleikum framleiðsluvöru er reyndar í undirbúningi hjá viðskrn. eins og nú stendur, einmitt til þess að tryggja að við getum tengst slíkri framleiðendaábyrgð.
    Í níunda lagi var spurt hvort tollskrá verði samræmd. Svarið er að fyrir nokkrum árum var tekin upp samræmd tollheitaskrá sem nú gildir í flestum ríkjum heims, þar á meðal í Evrópubandalaginu og EFTA. Það þýðir hins vegar ekki að tollarnir séu þeir sömu. Slíkt samræmi næst ekki milli ríkja nema tekið sé upp tollabandalag líkt og Evrópubandalagið er. Sá möguleiki, þ.e. að myndað verði tollabandalag milli EFTA og Evrópubandalagsins, er nú til frekari athugunar sem einn af þeim kostum um samstarfið sem reyna þarf á hvort um getur samist. Hver sem niðurstaðan verður í þessu virðist mér líklegt að reynt verði að samræma tolla þessara ríkja eftir föngum og reyndar er slík viðleitni þegar uppi í viðræðum innan

GATT.
    Í tíunda lagi var spurt hvað það þýði að eftir samninga um atvinnu- og búseturétt, ef af þeim yrði, megi ekki mismuna ríkisborgurum frá öðrum Evrópubandalagsríkjum eða evrópskum efnahagssvæðisríkjum varðandi húsnæði. Svarið er einfaldlega að ekki megi með lögum eða stjórnvaldsaðgerðum ákveða að ríkisborgarar eins ríkis skuli njóta forgangs um leigu eða kaup á íbúðarhúsnæði.
    Í ellefta lagi var spurt hvort heimild til að veita þjónustu á sviði samgangna þýði ekki aukna samkeppni við íslenska aðila. Svarið er að erlendum samgöngufyrirtækjum er nú heimilt að stunda fólks- og vöruflutninga til og frá landinu. T.d. er gagnkvæmni í öllum loftferðasamningum Íslands við önnur lönd. Það sem við óskum að forðast er að frekari samruni ríkja Evrópubandalagsins leiði til þess að siglingar og flug til fleiri en eins ríkis innan Evrópubandalagsins í sömu ferð flokkist undir innanlandssiglingar eða innanlandsflug á því svæði og mæti hömlum sem ekki eru til staðar í dag. Þetta er að mínu áliti mjög mikilvægt fyrir okkar flugfélög og skipafélög.
    Í tólfta lagi var spurt hvort samningar, ef af þeim yrði, mundu leiða til þess að erlendur lögfræðingur eða ökukennari gæti tekið upp starf hér á landi. Svarið er já. Það er hins vegar ljóst að tungumálið yrði þá þarna veruleg hindrun. Það er þó minni hindrun fyrir ökukennarann en lögfræðinginn af augljósum ástæðum. Með gagnkvæmri viðurkenningu prófa er stefnt að því að auðvelda fólki að notfæra sér menntun sína í öðrum löndum. Lögfræðingur þarf því að kunna rétt búsetulandsins til þess að starfa þar að almennri lögfræðiþjónustu. Erlendur lögfræðingur yrði vitaskuld að taka próf í íslenskum lögum og réttarfari og íslenskur lögfræðingur sömuleiðis erlendis. Þegar um er að ræða alþjóðlega tæknigrein eins og verkfræði eða tækniteiknun eru hins vegar takmarkanirnar vitaskuld minni á gagnkvæmum atvinnurétti. En hér er eins og fyrr tungumálið nokkur trafali.
    Í þrettánda lagi var spurt: Hvað þýðir hugtakið Evrópa fólksins? Svarið er að hér er um andsvar að ræða við því hugtaki sem mjög hefur verið haldið á lofti og er líka tvö orð: Evrópa fyrirtækjanna. Með Evrópu fólksins er vísað m.a. til félagsmálasáttmála Evrópubandalagsins en tillaga um hann er nú til umfjöllunar hjá stofnunum bandalagsins. Hugmyndin er að auka samkennd allra íbúa Vestur-Evrópu og tryggja félagslegt og efnahagslegt jafnrétti þeirra.
    Í fjórtánda lagi var spurt um ferðamálaár Evrópu árið 1990. Svarið er að þarna er um átak að ræða til að fá fólk frá öðrum heimsálfum til að ferðast meira til Evrópu en áður og gefa hugtakinu Evrópa meiri svip af sameiginlegum einkennum í hugum fólks utan álfunnar en áður hefur verið. Ísland tekur þátt í þessu átaki og verður samgrh. reyndar þátttakandi í formlegu upphafi þess í Strasbourg þann 11. febrúar.
    Í fimmtánda lagi var spurt hvort Íslendingar þurfi

ekki að greiða verulegar fjárhæðir í sjóði Evrópubandalagsins. Svarið er að við þurfum ekki að hugleiða það mál að svo stöddu. Við erum ekki að semja um aðild að Evrópubandalaginu og þar af leiðandi heldur ekki að sjóðum þess. Hins vegar er það ljóst að við verðum að greiða hlutfallslegt framlag okkar til að reka þær sameiginlegu
stofnanir sem kann að verða komið á fót og til þeirra vísindaverkefna og hverra þeirra verkefna annarra sem við viljum eiga hlut í.
    Hæstv. forseti. Eftir að hafa reynt að gefa nokkur svör við beinum spurningum sem til utanrrh. var beint í umræðunni ætla ég aftur að víkja nokkuð að almennum atriðum og fara hér nokkrum orðum um það sem kalla mætti samningsstöðu Íslands við upphaf undirbúnings- og samningsviðræðna sem ég geri ráð fyrir að hefjist eftir fund EFTA- og EB-ráðherranna 19. des.
    Hér er m.a. um það að ræða sem oft eru nefndir fyrirvarar af Íslands hálfu, eða viðurkenning á sérstöðu Íslands. Ég vil leyfa mér að halda því fram að samningsstaða Íslendinga sé nú góð, einmitt vegna þess að þeir hafa tekið virkan þátt í könnunarviðræðunum. Ég ætla að nefna nokkur atriði til að skýra þetta. Fyrst er þess að geta að í þessum viðræðum er samkomulag um að nokkrar varanlegar undantekningar frá samningnum um fullkomið frelsi á hinum fjórum sviðum, sem oftast eru nefnd, verði ætíð nauðsynlegar vegna lífshagsmuna einstakra ríkja. Slíkir fyrirvarar eða undantekningar verða þá í sjálfu sér ekki samningsatriði. Hér nefni ég kröfu Íslendinga um óskoruð yfirráð yfir auðlindum sjávar innan fiskveiðilögsögunnar. Þá eru einnig gefnar almennar yfirlýsingar um nauðsyn tímabundinna sérákvæða sem verða að sjálfsögðu samningsatriði. Undir slík ákvæði fellur margt sem varðar tímasetningu og forgangsröð í breytingum t.d. að því er varðar aukið frelsi til fjármagnshreyfinga. Með vísan til þessa hafa Íslendingar þegar skilgreint sérstöðu sína og sett fram kröfur um fyrirvara á ýmsum sviðum og ég ætla að nefna þau helstu hér til upprifjunar.
    Ég nefni í fyrsta lagi fríverslun með fisk. Varðandi fisk og aðrar sjávarafurðir lýstu EFTA-ríkin því yfir að samningurinn ætti að tryggja fríverslun með þær afurðir. Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins lýstu því yfir, að því er bandalagið varðaði, að fríverslun með fisk væri tengd öðrum þáttum hinnar sameiginlegu fiskimálastefnu þess. Fulltrúar EFTA hafa lagt áherslu á að slík tenging í hverjum þeim samningaviðræðum sem síðar fari fram mundi ganga gegn grundvallarsjónarmiðum þeirra. Báðir aðilar viðurkenndu að af þessum ástæðum yrði nákvæmt innihald þeirra ákvæða sem sett yrðu á þessu sviði augljóslega samningsatriði.
    Ég nefni í öðru lagi á sviði þjónustu- og fjármagnshreyfinga og þar undir þessa fimm fyrirvara helsta:
    1. Vegna brýnna þjóðarhagsmuna mundi Ísland jafnan gera fyrirvara varðandi fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi.

    2. Fyrirvari var gerður varðandi fjárfestingu erlendra aðila í orkuvinnslu.
    3. Lýst var hömlum á rétti erlendra banka til að stofnsetja og reka banka á Íslandi.
    4. Bent var á takmarkanir varðandi rekstrarheimildir erlendra vátryggingafélaga hér á landi.
    5. Minnt var á að aðlögunartími á þessu sviði, þ.e. fjármagns- og þjónustusviðinu innan Evrópubandalagsins fyrir einstök ríki þess, væri allt að 10 árum.
    Um þriðja meginsviðið, atvinnu- og búseturétt, vil ég nefna að sá fyrirvari var settur af Íslands hálfu að Ísland muni þurfa sérákvæði til að koma í veg fyrir hugsanlega röskun vegna smæðar vinnumarkaðarins. Hvað varðar sjálfstætt starfandi fólk og rétt þess til að hefja hér atvinnustarfsemi verður einnig að gera vissa fyrirvara í sambandi við nýtingu á auðlindum sem lífsafkoma þjóðarinnar byggist á.
    Þá má einnig nefna að bent var á núgildandi löggjöf um takmarkanir á rétti erlendra aðila til atvinnu og búsetu á Íslandi. Þá var bent á að í núgildandi lögum eru lagðar hömlur á rétt erlendra aðila til að eiga fasteignir á Íslandi. Þá var bent á vandamál varðandi söfnun lífeyrissjóðsréttinda einstaklinga milli ríkja og bent á að skilyrði til bótagreiðslna hér á landi væri að skráning atvinnulausra manna færi fram vikulega. Þá var bent á að sjálfstætt starfandi fólk þyrfti á sérstakri löggildingu og eða viðurkenningu á starfsréttindum að halda.
    Þá kem ég mjög stuttlega að fjórða sviðinu sem varðar réttarreglur og stofnanir. Þar var bent á að bindandi gildi bráðabirgðaúrskurða frá hugsanlegum sameiginlegum dómstól gæti mætt stjórnarskrárvanda hér á landi og þyrfti því að kanna betur hvaða leiðir væru þar færar, t.d. hvernig nota mætti rökstudd álit frá slíkum sameiginlegum dómstól sem ekki væru bindandi fyrir dómstóla aðildarríkjanna. Enn var vakin á því athygli að tímabundin sérákvæði eru mörg í gildi innan Evrópubandalagsins, rökstudd með vísan til sérstöðu ýmissa landa og hafa í mörgum tilvikum allt að tíu ára gildistíma. Þannig fengu t.d. bæði Spánn og Portúgal aðlögunartíma allt að tíu árum með vísan til sérstakra aðstæðna í þessum löndum.
    Utanrrh. rakti hér í ræðu sinni við upphaf umræðunnar ýmsa málsþætti varðandi réttarreglur og skipulag stofnana, hugsanlegs nánara samstarfs EFTA og Evrópubandalagsríkja. Hann lagði að lokum áherslu á það að ef vilji er til staðar að ganga til samninga um sameiginlegar reglur um frelsi á hinum fjórum
sviðum og um jaðarmálefnin sem svo eru nefnd, verður ugglaust hægt að finna lausnir á lagalegri hlið málsins og varðandi skipulag sameiginlegra stofnana. Þær reglur sem sniðnar verða um efnisinnihald slíkra samninga, ef þeir nást, munu hafa að leiðarljósi að skerða ekki sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Um það eru EFTA-ríkin sammála. Ég tel að undirstaða hafi þannig verið lögð sem einmitt tryggir vel hag og rétt smáþjóða eins og Íslendinga.
    Virðulegur forseti. Fram undan er mikil

undirbúningsvinna, bæði í utanrrn. og og öðrum ráðuneytum varðandi þátttöku og framlag Íslands til væntanlegra framhaldsviðræðna EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Þá verður einnig haldið áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið og aðildarríki þess.
    Við höfum hér í þessum umræðum verið að fjalla um einhverjar þær mikilvægustu viðræður og ákvarðanir um tengsl Íslands við umheiminn sem við höfum staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum. Ég er sannfærður um að þetta starf og þetta samstarf við Evrópuríkin verður Íslendingum til góðs ef við höldum rétt á málum. Ég vona að þjóðareining náist um þessar örlagaríku ákvarðanir eftir þeim leiðum sem ríkisstjórnin hefur valið og vonandi helst áfram gott samstarf og samráð milli ríkisstjórnar og Alþingis í þessu máli.