Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli hæstv. viðskrh. á því að þegar hann talar um það í ræðu sinni hér rétt áðan að um lok umræðu um þetta örlagaríka mál sé að ræða jafnframt því sem hann þakkar hv. þm. sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir að hafa gert það með þeim hætti sem hér hafi gerst, þá er það misskilningur hjá hæstv. ráðherra að verið sé að ljúka þessari umræðu. Það er algjör misskilningur. Þessari umræðu er ekki lokið. Því fer víðs fjarri. Umræðunni verður haldið áfram af hv. þingmönnum því að hér er um eitt mesta mál að ræða sem hv. Alþingi hefur fjallað um frá því að lýðveldi Íslands var stofnað. Mun ég víkja nánar að því hér á eftir í minni ræðu. Auk þess hlýtur þingheimur að óska eftir því að þegar hæstv. ráðherrar, þ.e. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., koma aftur til landsins --- ég á von á því að hæstv. forsrh. komi fyrr og þá muni hann skýra frá þeim viðræðum sem fram hafa farið í sambandi við þetta mál þannig að þingheimur sé rétt upplýstur á hverjum tíma eins og hér hefur verið lofað. Þetta vildi ég, virðulegi forseti, taka mjög skýrt fram svo að enginn misskilningur sé hér á milli hæstv. ráðherra annars vegar og okkar hv. þm. hins vegar. Ég veit að virðulegur forseti gerir sér grein fyrir þessu.
    Það var einnig atriði í ræðu hæstv. iðnrh., sem er settur utanrrh. nú, sem ég vildi víkja nokkrum orðum að. Það var í sambandi við upplestur hæstv. ráðherra upp úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag. Ég sem vinur Morgunblaðsins hlýt auðvitað að fagna því þegar hæstv. ráðherrar og hv. þm. lesa upp úr Morgunblaðinu hér í sölum Alþingis vegna þess að þetta er vandað og gott málgagn. Það var hins vegar eitt sem hæstv. ráðherra tók ekki fram sem er það að Reykjavíkurbréf mun nú vera skrifað af ritstjórum Morgunblaðsins og þótt margt gott megi nú segja um skoðanir þeirra getur verið að þeir þurfi ekki endilega að hafa alltaf rétt mat á því sem er að gerast. Við metum auðvitað þetta mál út frá þeirri þekkingu sem við höfum á því og þeir svo aftur út frá sinni þekkingu og einnig þeim viðræðum sem þeir kunna að hafa átt við t.d. embættismenn í Brussel. Það kom mjög áberandi fram einmitt í þessu Reykjavíkurbréfi að sá ritstjóri sem hafði skrifað þetta bréf hafði rætt mikið við embættismenn í Brussel. Mér fannst eiginlega eins og sjónarmið embættismanna í Brussel hafi birst mjög skýrt í þessu Reykjavíkurbréfi og því fer víðs fjarri að sjónarmið embættismanna í Brussel eigi að ráða stefnunni í þessum málum. Hæstv. ráðherra gat því sparað sér það að lesa svona upp úr Reykjavíkurbréfi og draga þær ályktanir sem hann dró af því sem stóð í bréfinu.
    En það er annað. --- Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir allar tafir sem verða hér undir þessum umræðum vegna þess að þær gefa mér tækifæri til að vera lengur í ræðustól. Ég sé að hæstv. iðnrh. er upptekinn í einkasamtölum þetta augnablik. Ég ætla nefnilega að víkja að öðru atriði í sama blaði sem hæstv. ráðherra

las ekki upp sem er raunverulega miklu þýðingarmeira en allt það sem stendur í Reykjavíkurbréfi, alla vega fyrir Alþingi Íslendinga.
    Eins og hv. þm. muna fór fram mikil umræða um það í síðustu viku hvort ástæða væri til þess að Alþingi ályktaði eða kæmist að niðurstöðu um það hvort utanrrh. ætti að hafa umboð Alþingis eða ekki. Við sjálfstæðismenn og stjórnarandstæðingar vorum þeirrar skoðunar að í þessu máli, sésrstaklega, bæri Alþingi að samþykkja umboð til handa utanrrh. í sambandi við þær umræður og undirbúning að viðræðum við Evrópubandalagið sem fram undan eru. Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og einnig nú hæstv. iðnrh. töldu þetta algjörlega óþarft og meira að segja vitnuðu hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. í lögfræðileg atriði máli sínu til stuðnings og vísuðu þar í álit Ólafs Jóhannessonar, fyrrv. prófessors, sem fram kemur í Stjórnskipun Íslands. Það sem hæstv. iðnrh. gerði ekki --- því hér er ekki aðeins um það að ræða hvort þetta sé stjórnskipunarlega rétt eða ekki, heldur er það spursmál um það hvernig Alþingi metur sjálft hvernig það á að fjalla um þetta mál, og það er Alþingi sem hlýtur að ákveða það en ekki álitsgerðir úti í bæ þótt lögfræðilegar séu --- þegar hann las upp úr Reykjavíkurbréfi frá 3. des. var að lesa frétt sem var á forsíðu Morgunblaðsins sama dag. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp þessa frétt sem staðfestir og styður það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt hér í þessum umræðum og einnig kvennalistakonur og aðrir sem hafa viljað láta samþykkja hér umboð til hæstv. utanrrh. Það er frétt um Noreg. Yfirfyrirsögnin er: ,,Útiloka ekki lengur tollabandalag``. Þetta er frá fréttaritara Morgunblaðsins í Osló og segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Norska ríkisstjórnin hefur fallist á að halda möguleikanum á því að Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA) geri tollabandalag við Evrópubandalagið (EB) opnum. Það voru Verkamannaflokkurinn og Framfaraflokkurinn sem knúðu ályktun þar að lútandi í gegnum Stórþingið á föstudagskvöld [þ.e. 1. des.], en ríkisstjórn borgaralegu flokkanna hafði hafnað tollabandalagi fram til 1993 a.m.k. Stórþingið hefur nú fyrir sitt leyti rutt öllum hindrunum úr vegi fyrir samningaviðræðum EFTA og EB.``
    Þarna kemur skýrt fram að Stórþingið hefur veitt ákveðið umboð til þeirra
sem mæta á viðræðufundum EFTA og EB. Það fer ekki á milli mála.
    Hvað felst í þessu? Jú, samhliða því sem EFTA- og EB-viðræðurnar fara fram gera Norðmenn ráð fyrir að þurfa að fjalla við Evrópubandalagið um hugsanlegt tollabandalag milli þessara tveggja ríkja a.m.k. til ársins 1993. Það er þess vegna ekki heldur rétt að það sé aðeins finnska þingið fyrir utan Alþingi Íslendinga sem vill fjalla um þessi mál með þeim hætti sem við höfum krafist hér í þessum umræðum, sjálfstæðismenn og einnig hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Ég bið hann afsökunar á því að ég skyldi ekki nefna hann hér áðan þegar ég talaði um óskir og kröfur þingmanna um það að Alþingi

Íslendinga taki ákveðna afstöðu til þessara umræðna sem fram undan eru.
    Ég held að hæstv. ráðherrar verði að fara að átta sig á því að þeir eru hér að fótumtroða þingræðið á Íslandi með mjög óviðeigandi hætti svo að ekki sé meira sagt.
    Það er annað atriði sem mér finnst nauðsynlegt að ræða um áður en farið er út í efnisleg atriði um stöðu Íslands í EFTA/EB-viðræðum og einnig þegar menn reyna að meta innri stöðu okkar sjálfra, bæði efnahagslega og stjórnmálalega, sem og það þegar við reynum einnig að meta hver er raunveruleg staða Íslands vegna þeirra breytinga og þeirrar nýju heimsmyndar sem birtist okkur nú þessa dagana. Það hefur vantað mikið í umræðuna að hæstv. ráðherrar, sem eiga að leiða þetta, alla vega fyrir ríkisstjórnina, ræddu nægilega um það hvað hefur verið að gerast undanfarnar vikur og mánuði, ekki aðeins í Vestur-Evrópu, heldur einnig hvaða viðhorf hafa verið að skapast t.d. í Bandaríkjunum, Japan og víðar, þessu tengd. Allt hefur þetta auðvitað áhrif á stöðu okkar og afstöðu og alla umræðuna um EFTA og Evrópubandalagið.
    Áður en ég vík að því og einnig að stöðu sjávarútvegsins sem mér finnst ekki hafa verið rædd nægilega mikið, alla vega ekki af hálfu hæstv. ráðherra --- hins vegar hafa stjórnarandstæðingar komið allítarlega inn á það hvað það er brýnt að menn taki það föstum tökum að tryggja stöðu sjávarútvegs og útflutningshagsmunanna --- þá er það enn eitt atriði sem mér finnst vanta inn í umræðuna, virðulegi forseti, og það er þetta: Mér finnst eins og hæstv. ráðherrar hafi aldrei staðið í samningum. Nú vil ég að vísu undanskilja hæstv. iðnrh. en hann hefur bara ekki fengið svigrúm til þess að fjalla um þetta með þeim hætti sem ég tel að hæstv. utanrrh. hefði átt að gera og einnig hæstv. forsrh., þ.e. að gera okkur hv. þm. grein fyrir því hvernig þeir byggja upp sína samningsstöðu, þ.e. samningsstöðu Íslands. Hvað felst í því að byggja upp samningsstöðu? Hvað felst í því að taka þátt í samningum? Hvernig er aðdragandinn að samningum? Hvenær koma efnisatriði inn í samningsstöðuna?
    Við höfum hér fyrir framan okkur skýrslu hæstv. utanrrh. um öll helstu efnisatriðin. Hæstv. utanrrh. hefur fjallað um það sem hann kallar könnunarviðræður. Ef við skoðum hins vegar skýrslu hæstv. utanrrh. og ef við skoðum einnig ummæli hæstv. ráðherra og afstöðu til þessara mála hljóta vanir samningamenn að gera sér grein fyrir því að við erum komin miklu lengra í þessari umfjöllun og umræðu en snýr aðeins að könnunarviðræðum. Við erum raunverulega, og þar með hæstv. utanrrh. með þátttöku sinni í ráðherranefnd EFTA --- formennska skiptir þar raunverulega engu máli, heldur aðildin --- komin í óbeinar viðræður um ákveðin efnisatriði sem menn hafa forðast að ræða hér í þessari umræðu þótt hv. þm. geri sér grein fyrir því að raunverulega erum við komin það langt að það er búið að móta öll meginatriðin sem ráðherrar munu taka afstöðu til,

EFTA-ráðherrar, 19. des. því að það sem gerist auðvitað í þessu er eins og í öllum öðrum samningum. Undirbúningur og aðdragandi felur það í sér að menn mynda kröfur, raða upp efnisatriðum. Það er nú fyrsta atriðið. Í því sem hér er til umfjöllunar er um að ræða nokkrar þjóðir sem þurfa að koma sér saman um innri mótun þeirra krafna eða samningsatriða af hálfu EFTA sem geti sameinað aðilana. Það er tilgangslaust að vera alltaf að vísa hér til sérbókana eða sérstöðu í sambandi við þessi mál vegna þess að ef þær ættu að gilda hljótum við náttúrlega að túlka það þannig að hæstv. utanrrh. sé raunverulega umboðslaus.
    Bókun Alþb., eins og hún birtist manni alla vega, eins og hæstv. forsrh. kynnti hana hér fyrr í umræðunum, felur það raunverulega í sér að hæstv. utanrrh. er gjörsamlega umboðslaus gagnvart helstu efnisatriðum sem hafa verið mótuð og lögð fyrir gagnaðila þótt ekki sé með formlegum hætti. Þessir aðilar, þ.e. utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna, hafa raunverulega komið sér saman um öll meginatriðin. Það sem eftir er er að ákveða það formlega hvenær þessar formlegu viðræður skulu fara fram um þau efnisatriði sem ekki verður snúið til baka með, sem þegar liggja fyrir. Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt að hv. þingmenn ræði um þetta mál í víðara samhengi en aðeins í tengslum við formsatriði vegna þess að við erum þegar komin á ákvörðunarstig varðandi ákveðin efnisatriði. Alla vega hefur hæstv. ríkisstjórn þegar mótað sína stefnu nema það eigi að gilda að Alþb. hafi neitunarvald í þessu máli eins og öðrum með sínum sérbókunum. Þá hljótum við hv. þm. náttúrlega að óska eftir því strax og utanrrh. kemur heim þann 19. des. að hann geri grein fyrir á hvaða grundvelli hann hyggst leggja til að Íslendingar eigi samstöðu með
EFTA-ríkjunum í væntanlegum viðræðum við Evrópubandalagið.
    Þá vil ég víkja að því, virðulegi forseti, að það er þá einnig rétt að vekja athygli á því að skoðanir og afstaða í þessu mikla og mikilsverða máli fara ekki endilega eftir flokksböndum nema síður sé. Það hefur komið vel fram í þessum umræðum. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er aldeilis ekki sammála núv. ríkisstjórn um mörg atriði. Hið sama má segja um kvennalistakonur sem hafa talað hér í þessari umræðu. Ég verð hins vegar að segja það, virðulegi forseti, að það er brot á grundvallarreglum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að Alþingi Íslendinga skuli ekki fá að inna af hendi og gegna þeim skyldum sem því ber samkvæmt stjórnarskránni. Það hefur þeim meiri hluta sem stendur að baki núv. hæstv. ríkisstjórn tekist að hindra í sambandi við afstöðu þingsins til viðræðna við Evrópubandalagið. Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa báðir talið óþarft að Alþingi móti þá stefnu. Þetta er auðvitað alrangt og mjög óþingræðislegt svo að ekki sé meira sagt vegna þess að þetta mál sem hér er til umræðu snertir stöðu landsins í ljósi nýrrar þróunar sem felur í sér myndun ríkjabandalaga þar sem þjóðleg sjónarmið eru víkjandi

og það hlýtur að vera sérstaklega erfitt fyrir smáþjóð að meta stöðu sína í þeirri þróun. Það að reyna að meina eða koma í veg fyrir að hv. alþm. geti sameinast í þessu máli með hliðstæðum hætti og gerðist þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsöguna á sínum tíma, svo að ég tali nú ekki um þegar Íslendingar sameinuðust um stofnun lýðveldisins Íslands, er þess vegna mjög hættulegt fyrir stöðu þjóðarinnar og sjálfstæði.
    Ég vil þá, virðulegi forseti, víkja hér nokkuð að ræðum einstakra ráðherra fyrr í umræðunni, en það er nú þannig að þótt hæstv. iðnrh. liti þannig á að þessu væri að ljúka er það mikill misskilningur eins og ég hef sagt hér fyrr í minni ræðu. Þessi umræða er raunverulega að hefjast. Hæstv. ríkisstjórn ákveður ekki með hvaða hætti hv. alþm. fjalla um þetta sjálfstæðismál Íslendinga. Þeir ákveða ekki og skerða ekki tíma hv. þingmanna til þess að fjalla um þetta mikilvægasta mál þjóðarinnar. Þess vegna hef ég litið þannig á að við værum svona rétt að byrja umræðuna og þótt sumir hæstv. ráðherrar hafi talað tvisvar, eins og hæstv. iðnrh. hefur gert, ef ekki þrisvar, hefur hæstv. sjútvrh. sýnt þá kurteisi og áttað sig á því í stöðunni að þessari umræðu er ekki lokið og því fer víðs fjarri. Þess vegna mun hæstv. ráðherra, sem hefði getað talað hér á undan mér, hafa ákveðið það að bíða og tala síðar í umræðunni sem er auðvitað háttvísi og eðlilegt.
    Í fyrri ræðum hæstv. ráðherra, og þá vík ég fyrst að Jóni Sigurðssyni hæstv. iðnrh. --- sagði hæstv. ráðherra m.a. að að loknum könnunarviðræðum mundu eiga sér stað framhaldsviðræður, þ.e. samningaviðræður, samningaviðræður um þau efnisatriði sem aðrir ráðherrar EFTA-ríkjanna gera ráð fyrir að íslenski ráðherrann, utanrrh., hafi umboð til að fjalla um, mundu hefjast 19. des. með formlegri ákvörðun um það að samningaviðræður skuli verða milli EFTA og EB. Þegar þessar framhaldsviðræður, sem eru samningaviðræður, koma til skjalanna sagði hæstv. iðnrh. að þær mundu taka langan tíma og áður en niðurstaða fengist væru ýmsar hindranir í veginum sem þyrfti að ryðja úr vegi. Þarna kom hæstv. ráðherra ... Þetta er allt í lagi. Ég á alveg feikinógan tíma. (Gripið fram í.) Mjög góðan tíma, já. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi það líka ( Viðskrh.: Hann hefur alltaf nógan tíma.) því að þetta er stærsta mál þjóðarinnar. Þetta er miklu, miklu stærra en hæstv. ráðherra hefur gert sér grein fyrir, enda las hæstv. ráðherra upp úr Reykjavíkurbréfi rétt áðan sem sýnir það hvað ritstjórar Morgunblaðsins bregðast skjótt við. Þeir bregða sér út fyrir landsteinana og eru þegar búnir að skrifa heilt Reykjavíkurbréf og ég spái því að það eigi eftir að koma mörg, mörg Reykjavíkurbréf um þetta efni. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra lesi upp úr næsta Reykjavíkurbréfi þar sem fjallað verður um þessi mál vegna þess að þetta var aðeins fyrsta bréf.
    Það sem ég vildi víkja nú að er atriði sem ekki hefur fyrr verið fjallað um: Þegar hæstv. iðnrh., sem talaði snemma í umræðunni --- sem er eðlilegt, þetta

er ráðherra atvinnumála sem skipta mjög miklu máli í allri þessari umræðu --- kemur inn á að það þurfi að ryðja ýmsum hindrunum úr vegi þá kom hann einmitt inn á þetta atriði og sagði að það mundi taka langan tíma, ég bið hv. þm. að taka eftir því, hann sagði að það mundi taka langan tíma --- einmitt inn á atriði sem við höfum ekki fjallað mikið um í þessari umræðu sem er tímaþátturinn. Eins og hæstv. iðnrh. veit, sem er vanur samningamaður --- og ég harma það að hann skuli ekki hafa verið meira með í ráðum hjá hæstv. utanrrh. þegar hæstv. utanrrh. hefur verið að undirbúa þessi
mál, en hæstv. iðnrh. er aftur á móti vanur samningamaður, hefur greinilega ekki nýst sem skyldi í hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum og ég hlýt auðvitað að harma það --- er tímaþátturinn með því mikilvægasta í allri samningagerð. Ég sé á hæstv. ráðherra að hann er mér sammála, enda er hann þekktur fyrir að vera snjall í tímasetningu þegar hann hefur tekið þátt í samningum. Það er tímaþátturinn sem skiptir nefnilega þessa litlu smáþjóð höfuðmáli og ég mun víkja mjög ítarlega að því síðar í minni ræðu. Það er vegna þess að fyrir 250 þús. manns sem eiga allt sitt undir sjávarafla hefur tímaþátturinn í öllum
þessum umræðum, og öllum þessum viðræðum, alveg geysilega mikla þýðingu, afkomulega séð fyrir íslenska þjóð.
    Staðreyndin er sú að við höfum ekki ráð á að bíða eftir þeirri niðurstöðu sem EFTA- og EB-viðræðurnar eiga eftir að hafa í för með sér, svo að ekki sé talað um áhættuna, hver niðurstaðan verður fyrir Íslendinga. Þetta er grundvallaratriði, afkomulega séð. Ég mun víkja nánar að því hvernig við höfum, því miður, Íslendingar, verið leiddir í ákveðna tímagildru í þessum málum, og því miður er nú hæstv. forsrh. ekki viðstaddur í dag, þ.e. Steingrímur Hermannsson, þótt staðgengill hans sé hér, hæstv. sjútvrh. Við höfum því miður látið erlenda aðila leiða okkur í þá verstu tímagildru sem Íslendingar gátu gengið inn í með tilliti til þess að við erum svo afkomulega háðir öllu sem lýtur að útflutningi sjávarafurða að við höfum ekki ráð á því svigrúmi sem aðrar EFTA-þjóðir hafa í þessum viðræðum. Við höfum ekki ráð á því að bíða eftir niðurstöðu um það hvort tollar séu lækkaðir á íslenskum sjávarafurðum í þrjú, fjögur, fimm eða jafnvel tíu ár. Og í þeirri stöðu, þar fyrir utan, að við þurfum að draga úr fiskveiðum við Ísland er þessi tímaþáttur enn þá mikilvægari. Það er enn þá mikilvægara að reyna að meta það hvernig við getum nýtt tímann sem best og hvernig við verðum að nýta hann, og það hefur þessari ríkisstjórn gjörsamlega mistekist. Hún hefur ekki áttað sig á tímaþættinum og hún hefur ekki áttað sig á því hvað þetta mun hafa hrikalegar afleiðingar í versnandi afkomu fyrir íslenska þjóð. Hins vegar skynjar iðnrh. hæstv. það að tímaþátturinn hefur þýðingu þegar hann bendir á það strax í upphafi sinnar ræðu að það geti tekið langan tíma að fá niðurstöðu í þessu máli og mun ég koma að mínu mati í þeim efnum hér á eftir.
    Ég sakna þess nú, virðulegi forseti, að hv. þm.

Hjörleifur Guttormsson skuli ekki vera inni þegar ég fjalla um þann þátt í ræðu hæstv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar hér fyrr í umræðunni þar sem hann fjallaði um frjáls þjónustuviðskipti, en þar kom hann inn á það að í frjálsum þjónustuviðskiptum væri m.a. frelsi fjármagnsins á milli landa. Það er mjög mikilvægt atriði í þessum viðræðum öllum. Hæstv. ráðherra sagði að hin frjálsu þjónustuviðskipti mundu skapa mikla möguleika en einnig ákveðin ný vandamál. Nú vil ég ekki vera að ræða um vandamálin --- hæstv. ráðherra getur skýrt það betur hvað hann átti við þar --- en auðvitað hlýt ég að taka undir það að á þessu sviði geta hugsanlega skapast nýir möguleikar sem geta bætt kjör íslensku þjóðarinnar.
    Hann vék einnig að því að með hinu sameiginlega markaðssvæði Evrópu, eins og það mun koma til með að líta út, mun skapast ákveðin samkeppni sem ætti að gefa Íslendingum tækifæri. En í sambandi við fjármálaþjónustuna, frelsi fjármagnsins, vakti hæstv. ráðherra athygli á því að það væri þegar komið ákveðið frelsi í sambandi við verðbréfasjóði, verðbréfaþing og sameiningu banka, þ.e. hér innan lands, og undirstrikaði í sinni ræðu að þróunin gengi í átt til aukins frelsis.
    Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hafi átt við með því þegar hann talar um það að þróunin hafi gengið í átt til aukins frelsis frá því sem við þekkjum í dag. Er það kannski væntanlegt frá hæstv. viðskrh. að það verði gefið frelsi til þess að versla með erlend verðbréf, þ.e. kaupa erlend verðbréf, hlutabréf t.d. í erlendum fyrirtækjum. Það á að opna fyrir slík frjáls viðskipti á næstunni. Ég veit að hæstv. viðskrh. hefur verið með þetta á döfinni í 2--3 ár ef ég man rétt. Það væri fróðlegt að vita hvort það sé í vændum að hann, með reglugerðarútgáfu, muni opna fyrir á þessum sviðum. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir t.d. ávöxtun á fjármunum lífeyrissjóðanna eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Eignir lífeyrissjóðanna eru að verða, um næstu áramót, um 100 milljarðar ísl. króna. Það er svona svipað og fjárlögin, og það náttúrlega gengur ekki lengur að þessir sjóðir skuli ekki fá að dreifa áhættunni, m.a. með því að kaupa trygg erlend skuldabréf. Þannig tíðkast það í vestrænum ríkjum þar sem það er viðurkennt --- svo ég víki nú nokkuð að tryggingum --- að lífeyrissjóðir, söfnunarsjóðir, séu grundvallaratriði í tryggingakerfi viðkomandi þjóða, þ.e. vestrænna ríkja. Það á bæði við um Bandaríki Norður-Ameríku, Kanada, sem og Vestur-Evrópuþjóðirnar. Þá er það viðurkennt að til þess að hægt sé að hafa samfellt og sterkt kerfi sé nauðsynlegt að hafa söfnunarsjóðskerfi jafnframt því sem til viðbótar kemur ákveðið, persónubundið tryggingakerfi þar sem viðbótartryggingin er í eigu viðkomandi einstaklinga. Þannig að söfnunarsjóðskerfið, lífeyrissjóðakerfið, er grunntryggingarkerfi. Almenna tryggingakerfið eins og við þekkjum það og höfum þekkt það í fortíðinni er víkjandi hjá vestrænum þjóðum. Hins vegar eru söfnunarsjóðirnir að koma sem grunntryggingakerfi

ásamt því að persónubundnir samningar einstaklinga eða hópa í stórum fyrirtækjum koma til skjalanna sem viðbótartrygging.
    Þetta vildi ég láta koma fram, en hvað sem því líður hefur þetta mikla söfnunarkerfi lífeyrissjóða í vestrænum ríkjum haft það í för með sér að til þess að dreifa áhættunni hafa ríkisstjórnir viðkomandi landa og þjóðþing heimilað það að ákveðinn hluti af þessu söfnunarfé geti farið í það að eiga viðskipti á milli ríkja. Ég er því sammála hæstv. ráðherra í því að það má
ekki dragast lengur að þessar heimildir verði gefnar út sem hann raunverulega hefur á valdi sínu og þá kemur önnur spurning til hæstv. viðskrh.: Hvernig stendur á því að hann er ekki enn þá búinn að gefa út þessa reglugerð? Er hugsanlegt að einhverjir samráðherrar hans komi í veg fyrir þetta?
    Nú heyrir maður talað um það að á sama tíma og Austur-Evrópa er að opnast og frelsi er að verða meira í Austur-Evrópu sé eins og að Ísland sé að færast nær því sem var í austrinu hér áður fyrr, viðhorf ýmissa ráðherra séu innhverf. Þeir vilji loka Íslandi, einangra það frá þeirri þróun, frelsisþróun, sem á sér stað í löndunum hér í kringum okkur.
    Hæstv. viðskrh. talaði um hið háa verð á íslensku fjármagni, og vissulega er það hátt, því miður. Ég er ekki alveg sammála því hvernig hann ályktar að hægt sé að leysa þetta. Hann virðist helst líta þannig á að með því að fá erlenda banka og erlent fjármagn inn í landið með þeim hætti sem hann lýsti í ræðu sinni muni það gerast af sjálfu sér að vextir fari lækkandi og fjármagnið verði ódýrara á Íslandi. Ég held að þetta sé ekki alveg rétt ályktað hjá hæstv. ráðherra vegna þess að á meðan við ráðum ekki við ofþensluna í ríkisgeiranum, sem virðist hafa óseðjandi þörf fyrir fjármagn, á meðan við getum ekki skorið niður ríkiskerfið og eyðslu hins opinbera, held ég að erlent fjármagn muni ekki leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Hins vegar gæti of mikið erlent fjármagn inn í þetta þensluþjóðfélag, eins og það hefur verið, leitt til stóraukinnar verðbólgu. Ég held þess vegna að hæstv. ráðherra verði nú að líta fyrst til þess að við þurfum að leysa okkar mál hér innan lands fyrst ef við ætlum að koma niður vöxtum, og þá auðvitað verðum við að draga úr umsvifum ríkisins og lækka skatta þar af leiðandi því að þegar allt er lagt saman, tekjuskattar, eignarskattar, útsvör o.s.frv. o.s.frv., bensíngjald og hvað það heitir, kemur í ljós að það er svo að þrengt hjá þeim sem reka fyrirtæki og fjölskyldum að afskaplega lítið er eftir til eigin nota.
    Hæstv. ráðherra, Jón Sigurðsson, sagði: Ég sé enga þörf á formlegu umboði fyrir utanrrh.
    Ég vakti athygli á því áðan að bæði finnska þingið og Stórþingið hafa samþykkt stefnumörkun sem felur í sér ákveðið umboð til utanríkisráðherra viðkomandi ríkja, þannig að ég tel að þessi yfirlýsing hæstv. viðskrh. um það að ekki sé þörf á formlegu umboði af Íslands hálfu til hæstv. utanrrh. sé röng.
    Þá gat hæstv. ráðherra um það, eins og fleiri

ráðherrar í þessari umræðu, að ýmsir ráðherrar hafi átt í tvíhliða viðræðum við erlenda þjóðhöfðingja. En það er náttúrlega grundvallarmunur á því hvort menn eru í formlegum viðræðum eða óformlegum. Þess vegna er það auðvitað rétt ályktað hjá hæstv. sjútvrh. að þrátt fyrir það að menn hafi átt í tvíhliða viðræðum, óformlegum, er ekki hægt að vænta þess að niðurstaða verði út af fyrir sig þó að skilningur sé skapaður, sem er náttúrlega afar mikilsvert. Þess vegna hlýtur maður að álykta það og ég efast ekki um það og það veit alþjóð að hæstv. sjútvrh. hefur lagt sig mjög fram um að þróa raunverulega tvíhliða viðræður þannig að ég mundi álíta að það sé bara framkvæmdaratriði út af fyrir sig að reyna að fá niðurstöðu í hvort þessar óformlegu tvíhliða viðræður, sem hann sérstaklega hefur átt við vinveittar þjóðir, geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu sem við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á sem er að fá viðbót við bókun 6. Ég held því að vinir okkar í EFTA mundu ekki styggjast mikið þótt það væri gert með formlegum hætti að ræða við þær viðskiptaþjóðir Evrópubandalagsins sem meginmáli skipta fyrir Íslendinga.
    Hæstv. viðskrh. kom einnig í ræðu sinni að styrkja- og niðurgreiðslustefnu Evrópubandalagsins í sjávarútvegi og sagði m.a. að það væri erfiður hjalli. Og það voru orð að sönnu. Ég mun víkja að því mjög ítarlega hér á eftir. Við nefnilega leggjum mikla áherslu á það, sjálfstæðismenn og kvennalistakonur, alveg sérstaka áherslu, að vanda okkur í málflutningi í þessu máli og koma að öllum þáttum þess og ekki hvað síst þeim sem hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki gert nægilega góð skil, hvorki hér á hinu háa Alþingi né úti í þjóðlífinu. Þetta er alveg grundvallaratriði í sambandi við meðferð okkar sjálfstæðismanna á þessu máli.
    Þetta atriði, sem hæstv. viðskrh. tæpti á í ræðu sinni, styrkja- og niðurgreiðslustefna Evrópubandalagsins, er einmitt þeirrar gerðar að Íslendingar verða að fá tvíhliða viðræður strax við Evrópubandalagið og ef embættismennirnir í Brussel hafa þá afstöðu sem kom m.a. fram í títt nefndu Reykjavíkurbréfi eiga Íslendingar ekkert að vera að eyða tíma sínum í það að fara til Brussel og ræða við embættismenn Evrópubandalagsins. Við erum ekki fyrsta og eina þjóðin sem hefur þurft að ganga fram hjá býrókrötunum í Brussel. Það eru ekki heilagar kýr nema síður sé. Ég vil minna á það, sem hefur kannski farið fram hjá hæstv. ráðherrum, að sömu dagana og við vorum að ræða um þetta mál í síðustu viku, sama dag og hér fer fram vantraustsumræða, þ.e. sl. fimmtudag, er Evrópubandalagið að ganga frá sérstökum samningum við Sovétríkin varðandi tolla. Þá er Evrópubandalagið að ganga frá sérstökum samningum til þess að auðvelda Sovétríkjunum að komast sem fyrst og sem skjótast í frjáls viðskipti við Evrópubandalagið og styrkja þar með stöðu
umbótasinna í Sovétríkjunum. Um þetta höfum við, nokkrir hv. þm., staðfestar upplýsingar sem munu koma hér nánar fram í umræðunum síðar. Svo standa menn hér bísperrtir á Alþingi Íslendinga og segja:

Tvíhliða viðræður skaða stöðu EFTA-ríkjanna og Íslands í sameiginlegum viðræðum EFTA og EB. Þetta er fáránlegt og broslegt. Spursmálið er: Eru hæstv. ráðherrar embættismenn eða nálgast þeir þessa umræðu og þessa hagsmuni út frá sjónarmiðum embættismannsins en ekki út frá sjónarmiðum stjórnmálamannsins, svo ég tali nú ekki um út frá sjónarmiði athafnamannsins, útgerðarmannsins, útgerðarmannanna, útgerðarhagsmunanna, útflutningshagsmunanna? Það veit ég að hæstv. sjútvrh. skilur.
    Auðvitað eigum við að nálgast þetta út frá þeim grundvallarhagsmunum sem snúa að íslenskri þjóð. Við erum öll sammála um það að Ísland ætlar ekki og gengur ekki í Evrópubandalagið. Þegar sú afstaða liggur fyrir þá er næst að skoða það hvernig við reynum að semja um hagsmuni Íslands. Og það er ekki í fyrsta skipti sem Íslendingar standa frammi fyrir því að þurfa að segja við aðrar þjóðir: Við höfum ákveðna sérstöðu. Það var gert þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið. Þá var það skýrt undirstrikað, m.a. í ræðu þáv. utanrrh., Bjarna Benediktsssonar, þegar hann ávarpaði samkunduna í Washington í apríl 1949. Þá var það skýrt tekið fram í því ávarpi að sérstaða Íslands væri viðurkennd sem hefur komið fram í mörgum myndum síðan Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu.
    Að ætla svo að halda því fram árið 1989 að aðrar þjóðir skilji ekki sérstöðu Íslands og séu ekki reiðubúnar til að bregðast skjótt við, ég tala nú ekki um á erfiðleikatímum þessarar þjóðar, að gera viðbótarsamning sem er smáatriði fyrir þessar þjóðir en stórmál fyrir íslenska þjóð. Nei, hv. þm., það er ekki sæmandi Alþingi Íslendinga að menn skuli leggja mál þannig fyrir að þetta komi ekki til greina.
    Því miður er hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson ekki hér viðstaddur þannig að ég ætla að sleppa því að fjalla um nokkur atriði í ræðu hans sem ég
hefði gjarnan viljað fá nánari skýringu á hjá honum sjálfum. Ég læt það bíða þar til hann kemur heim. Ég á von á því, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. verði kominn til landsins fyrir lok þessarar viku. Ég sé að virðulegum forseta er ekki kunnugt um það, en ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. geti upplýst okkur um það hér á eftir, af því að við höfum haft nægan tíma til að fjalla um þetta, hvort hæstv. forsrh. verði ekki mættur hér. ( Gripið fram í: Á morgun.) Nú, strax á morgun, ég fagna því, ég kann ágætlega við það að hafa hæstv. forsrh., Steingrím Hermannsson, hérlendis þó ég styðji hann ekki í því embætti sem hann er í í dag. En það er alltaf gott að vita af honum á sínum stað. En þá bíð ég með það að fjalla um þau atriði og þær spurningar sem ég hefði viljað leggja fyrir hæstv. forsrh.
    Hins vegar verð ég hér á eftir að ræða nokkuð um það hvernig ég tel að hæstv. forsrh. hafi því miður látið leiða sig og okkur í vissum skilningi --- ég undirstrika það --- í vissum skilningi inn í það sem ég kalla tímaþáttargildru. Þá á ég við það að við

skyldum ekki gæta þess þegar í upphafi 1987 að gera EFTA-ríkjunum grein fyrir því að við yrðum að vera í tvíhliða viðræðum út af okkar meginútflutningshagsmunum samhliða því sem við værum reiðubúnir að vera í sameiginlegum EFTA- og EB-viðræðum. ( Sjútvrh.: Hann var nú ekki forsrh. þá.) Hann var utanrrh. Einmitt. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þessa athugasemd. ( HBl: 1987 var hann bæði forsrh. og utanrrh.) Já, einmitt. Það var það sem ég ætlaði einmitt að koma með. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þessa athugasemd. Hann var nefnilega hvort tveggja, þannig að hann réði miklu um mótun þeirrar stefnu sem ég tel að hafi falið í sér ákveðna gildru fyrir okkur Íslendinga sem er sú --- og ég mun koma mjög rækilega að hér á eftir --- að við tökum þá ákvörðun að fara í sameiginlegar EFTA/EB-viðræður í ársbyrjun 1987 á forsendu fríverslunar með fisk, fyrst innan EFTA sem allir vissu að skipti engu máli fyrir okkur því útflutningur okkar á sjávarafurðum til EFTA-ríkjanna er svo lítill, það vigtar ekki í afkomunni, því að í framhaldi af því segja hinir erlendu aðilar --- og ég mun lesa það hér upp á eftir, með leyfi forseta --- að þá muni það auðvelda Íslendingum að þeir fá í gegnum sameiginlegar viðræður EFTA við EB fríverslun á fiski innan Evrópubandalagsins. En fríverslun á fiski er bara ekki á dagskrá í Evrópubandalaginu og var enn síður þá. Það gengur nefnilega ekki upp að tala annars vegar um fríverslun á fiski gagnvart þjóðum utan Evrópubandalagsins á sama tíma sem Evrópubandalagið rekur styrkjastefnu upp á hundruð milljarða kr. á 10 ára tímabili sem hófst 1987 og lýkur árið 1997. Það gengur ekki upp.
    Hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson flutti að minni hyggju skikkanlegustu ræðuna af þessum hæstv. ráðherrum sem hafa talað hér um þetta mál, enda gerir hann sér grein fyrir því, eins og við hinir sem erum að gagnrýna málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar, hverjir eru grundvallarhagsmunir íslenskrar þjóðar og skilst mér að það hafi farið fram skoðanakönnun sem mun birtast væntanlega núna í dag eða í kvöld og hæstv. sjútvrh. mun vera þar ofarlega á vinsældalistanum. Það skil ég vegna þess að hann er raunverulega sammála okkur
sjálfstæðismönnum. ( EKJ: Nei.) Ja, hann er raunverulega sammála okkur í því að það þurfi að fara fram tvíhliða viðræður, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Hann er okkur sammála um að það þurfi að fara fram tvíhliða viðræður. Hann er okkur sammála um að það þurfi að koma viðbót á bókun 6. (Gripið fram í.) Já, það eina sem vantar er að hæstv. ráðherra taki nú af skarið og láti þessa ríkisstjórn samþykkja það fyrst hún situr að það skuli vera formlegar viðræður. Og þá er spursmálið hvað umboðið á að vera víðtækt. Ég mundi segja að umboðið ætti að vera það víðtækt að það ættu að vera formlegar viðræður við Evrópubandalagið sem slíkt en einnig ætti það að fela í sér umboð til þess að hæstv. sjútvrh. geti tekið upp formlegar viðræður við ákveðin ríki innan Evrópubandalagsins á stjórnmálalegum grundvelli, þ.e.

að hann fái svigrúm til að ræða við þessa herra sem stjórnmálamaður og tala um hin stjórnmálalegu viðhorf þessara mála en ekki hin tæknilegu. Því við komumst ekki í gegnum styrkjastefnu Evrópubandalagsins eða þá hagsmunahópa sem þar eru fyrir, alls ekki í gegnum EFTA/EB-viðræðurnar og mjög ólíklegt að við komumst í gegnum einhliða/tvíhliða viðræður EB, en það þarf að láta á það reyna.
    Mín skoðun er sú að leið Íslands í þessum málum liggi ekki í gegnum Brussel. EFTA getur rætt við Brussel og við getum verið í þeim hópi. Mín skoðun er sú að leið Íslands liggi í gegnum Bonn, París og London. Þar eru Íslendingar viðurkenndir. Það skiptir höfuðmáli að gera sér grein fyrir því hver af viðræðuaðilum vigtar og ræður og hefur skilning á stöðu gagnaðilans.
    Að mínu mati erum við Íslendingar í vissum skilningi leiksoppar býrókratanna sem hvorki virða sérstöðu né vilja viðurkenna sérstöðu Íslands né Íslendinga. Þeir hafa ekki vilja til þess. Það er mikill munur á því hvort sá maður sem maður semur við er sá sem tekur ákvörðun, hefur vald til þess að ákveða, eða hvort hann er ráðinn til að útfæra ákvarðanir og tilskipanir. Ég lít þannig á að þeir sem eru í Brussel séu þeir sem eiga að útfæra þegar teknar ákvarðanir og taka tilskipunum en ekki að móta stefnu né ákveða fyrir okkur hina.
    Hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson sagðist vera sammála utanrrh. í sinni ræðu í meginatriðum en leggur þó áherslu á tvíhliða viðræður. Þetta kom skýrt fram í ræðu hæstv. sjútvrh. Þótt nú séu fjórir dagar liðnir síðan hann flutti þessa ræðu þá kom þetta fram. Og ég tek undir það að ég legg áherslu á tvíhliða viðræður.
    En ég er ekki sammála hæstv. utanrrh. eins og hann hefur fjallað um þetta mál nema síður sé. Ég tel hann afskaplega --- ja, ég segi nú ekki vanhæfan, jú, raunverulega ætti að segja það. Ég tel að hann fullnægi ekki þeim kröfum sem ég geri til góðra samningamanna. Og hvernig eiga góðir samningamenn að vera? Fyrsta skilyrðið er það að góðir samningamenn séu í góðu jafnvægi og greini aðalatriði frá aukaatriðum. Þá verða þeir auðvitað að sýna mikla þolinmæði. Samningar taka langan tíma og krefjast mikils úthalds. Það þýðir ekkert bráðlæti eða upphrópanir. Þetta eru ekki formsatriði eða upptalningar. Það er mjög vandasamt að standa í samningum. Og því miður verð ég að segja það að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson uppfyllir ekki þær kröfur sem ég geri til góðra samningamanna. Hér erum við að tala um það, undir þessari umræðu, að það er verið að fjalla um könnunarviðræður, samningaviðræður, ákvörðunartöku um það hvenær þær skuli hefjast o.s.frv. þannig að það er auðvitað mjög alvarlegt mál ef sá sem á að vera oddamaður Íslendinga í slíkum viðræðum hefur ekki tiltrú --- ég vil segja helst allra hv. þm., alla vega sem flestra. Ég ætla nú ekki að ræða það frekar og alls ekki það hvernig það birtist hv. þingheimi og þjóðinni hér sl. fimmtudagskvöld.

    Hæstv. sjútvrh. vísaði í þá ræðu sem hann flutti á aðalfundi LÍÚ fyrir skömmu um þessi mál og er allt gott um það að segja. En ég verð að segja í framhaldi af því --- ég las ræðuna og hef fylgst vel með hæstv. sjútvrh. í gegnum tíðina --- að það er ekki nægilegt að hann hafi góðan vilja í þessum efnum. Hann er bara í félagsskap með mönnum í hæstv. ríkisstjórn sem útilokar það að hans hæfileikar nýtist sem skyldi í þágu okkar Íslendinga. Því miður. Ég sé að hæstv. ráðherra heldur að ég sé eitthvað að spauga, en því miður gaf hæstv. ráðherra mér ekki kost á því eða þjóðinni að skipta um ríkisstjórn og efna til kosninga. Auðvitað felst ekki endilega í þessu fyrirheit um að hæstv. sjútvrh. eigi að vera í næstu ríkisstjórn. Alls ekki. Því það veit enginn hver verður niðurstaða kosninga. En alla vega hefði verið gott að vita af hæstv. ráðherra sem stuðningsmanni þeirrar stefnu sem við sjálfstæðismenn berjumst fyrir. Og ég sé það á honum að hann er mér innilega sammála um þetta. Hann mundi ekki síður vera það sem þingmaður þótt hann væri ekki í ríkisstjórn í næstu umferð sem allt virðist stefna til.
    Um gagnkvæmar veiðiheimildir held ég að ég fari ekki nánar út í en ég verð að segja það að hæstv. sjútvrh. þyrfti nú að vinna með hæfari mönnum en hann gerir þessa stundina því það er verulegur hemill á það að hann geti fylgt því eftir sem við sjálfstæðismenn leggjum megináherslu á.
    Hæstv. utanrrh., sem er fjarverandi núna að gegna fundarstjórastörfum --- og að vissu marki hlýtur hann að reyna að gæta hagsmuna Íslendinga, ég krefst þess og ætlast til þess af honum þó að ég telji hann ekki hafa eiginleika
góðra samningamanna, þá eru náttúrlega með honum hæfir menn til þess að aðstoða við það, enda hefur það komið fram í fréttum að þeir íslenskir embættismenn, sem hafa fjallað um undirbúning þessara mála, hafa reynst mjög hæfir. Erlendir kollegar þeirra og jafnvel stjórnmálamenn hafa lýst því yfir að verk þessara embættismanna --- og þar mun sérstaklega vera um að ræða Hannesar Hafstein ráðuneytisstjóra, Sverris Hauks Gunnlaugssonar, fyrrv. sendiherra Íslands í Genf, og Einars Benediktssonar ambassadors --- að þeir hafi unnið mjög vel að undirbúningi þessara mála hvað formið áhrærir. Þeir, embættismennirnir leggja auðvitað ekki mat á efnisatriði en þeir framkvæma það og útbúa það sem máli skiptir í hendur erlendra aðila. Og þeir hafa greinilega staðið mjög vel að verki og ber að þakka það, að sjálfsögðu. Þessir menn eru sem betur fer til staðar þar sem umræðan um stöðu Íslands í sameiginlegum viðræðum EFTA og EB fer fram og það er auðvitað mjög þýðingarmikið.
    Ég hafði hugsað mér að víkja hér að nokkrum atriðum í ræðu hæstv. utanrrh. en þar sem hann er fjarverandi getur verið erfitt að leggja fyrir hann spurningar. En það sem mér fannst einkennandi í upphafsorðum ráðherrans hér fyrr í umræðunni var þegar hann sagði: Við eigum ekki val. Við verðum að láta þessa umræðu fara fyrst fram í gegnum EFTA

og síðan verðum við að sjá til. Hann taldi einnig að Íslendingar mundu ná meiri árangri í viðræðum EFTA og EB heldur en tvíhliða viðræðum. Þarna eru þeir ekki sammála, hæstv. ráðherrar, annars vegar sjútvrh., sem gerir sér grein fyrir því að tvíhliða viðræður eru lífsspursmál fyrir Íslendinga, og hæstv. utanrrh. sem gerir lítið úr þessu atriði.
    Þá vil ég víkja nokkuð að því vanmati hæstv. utanrrh. sem hann hefur á tímaþættinum. Hann virðist ekki skynja það að tímaþátturinn er, eins og ég gat um hér fyrr í minni ræðu, mjög mikilvægur og getur ráðið úrslitum um árangur í samningum og niðurstöðum.
    Ég fór nokkrum orðum um það hér í upphafi míns máls að tímaþátturinn væri mjög mikilvægt atriði fyrir Íslendinga, bæði með tilliti til þess hvað við erum fáir og einnig með tilliti til þess um hvaða hagsmuni er að ræða sem eru útflutningshagsmunirnir, en það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvað þeir eru mikilvægir. Það hefur komið fram og kemur fram í skýrslu svonefnds SAS-hóps, sem eru samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi, að þeir meta tímaþáttinn nákvæmlega eins og við höfum gert hér hv. þm. sem höfum gagnrýnt það hvernig ríkisstjórnin stendur að þessum málum. Ef við lítum á þetta bara út frá sjónarmiði tolla, þá liggur það ljóst fyrir að á þessu ári sem nú er að líða höfum við tapað um 1100 millj. í óhagstæðari tollum EB á sjávarafurðum sem eru seldar innan Evrópubandalagsins, þ.e. sjávarafurðum sem eru seldar frá Íslandi innan Evrópubandalagsins.
    Ef við lítum bara á þetta, hina óhagstæðu tolla, ef við hugsum svo til þeirra ummæla sem hafa komið fram hjá bæði hæstv. viðskrh., hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., að EFTA/EB-viðræðurnar muni taka langan tíma og það geti liðið kannski eitt, tvö eða þrjú ár áður en það verður niðurstaða í þeim, þá sjáum við fram á það að ef ekki eiga sér stað tvíhliða viðræður strax munu Íslendingar tapa á ári þetta frá svona 1100--1400 millj. kr. Á aðeins þrem til fjórum árum erum við kannski að tala um 4--5 milljarða fyrir utan það atriði að það verður auðvitað erfiðara fyrir Íslendinga að selja sína vöru við þessar aðstæður. Það kallar á aukinn sölukostnað. Jafnframt því sem við höfum ekki fengið svigrúm til að tala við Evrópubandalagið um hin skaðlegu áhrif þeirrar styrkjastefnu sem Evrópubandalagið rekur í sínum eigin sjávarútvegi og gerir okkur enn erfiðara fyrir. Þannig að ef maður vill mæla þetta rétt þá á maður að skoða þetta í miklu víðara samhengi heldur en bara út frá því hvað Íslendingar tapa í sambandi við óhagstæðari tolla. Það þarf líka að skoða þetta út frá því hvað Íslendingar standa markaðslega miklu verr að vígi eins og nú er að hnútunum búið. Við höfum ekki fengið tækifæri til þess að ræða við
Evrópubandalagið um þessi atriði. Þannig að tímaþátturinn einn, það að taka ekki upp tvíhliða viðræður, kostar Íslendinga milljarða króna. Fleiri milljarða. Við skulum hafa það í huga að 75% af öllum vöruútflutningi Íslendinga eru sjávarafurðir. Rúmlega 60% af þessum sjávarafurðum fara árlega

til EB-landanna, þ.e. saltfiskur, ísfiskur, niðurlagðar afurðir, lýsi, mjöl o.s.frv.
    Núv. ríkisstjórn hefur ekki verið með réttar áherslur ef litið er á það út frá beinum efnahagslegum hagsmunum Íslendinga. Aðilar atvinnulífsins, þ.e. sjávarútvegs og fiskiðnaðar, svonefndur SAS-hópur hefur nýlega undirstrikað það með útgáfu sérstakrar skýrslu sem skýrt hefur verið frá í fjölmiðlum. Sú skýrsla hefur nú ekki verið mikið til umfjöllunar í þessari umræðu. Og það verður að segjast eins og er að einhvern tímann hefði hið háa Alþingi fjallað í ítarlegra máli um niðurstöður jafnmerkilegrar skýrslu, um stöðu og horfur í grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, sem er sjávarútvegur. Sjávarútvegur og fiskiðnaður er sem fyrr undirstaða íslensks efnahagslífs og raunveruleg forsenda þess að við getum lifað hér í þessu landi. Það er allt of sjaldan minnst á þetta. Við sem hér erum inni, hv. þm., lítum á þetta sem svo
sjálfsagðan hlut að það þurfi ekki að vera að tíunda það. Hv. þm. eru yfirleitt fólk sem hefur starfað einhvern tíma um ævina við þessa atvinnugrein. En það eru þúsundir, það eru tugir þúsunda ungra Íslendinga sem skynja það ekki með sama hætti og við gerum. Þess vegna er ekki vanþörf á því að þetta sé rifjað upp til þess að fólk geri sér grein fyrir á hvaða forsendum það býr hér á Íslandi.
    SAS-skýrslan, sem hv. þm. munu allir hafa fengið, segir mikla sögu um stöðu þessara mála. Þeir sem að skýrslunni standa eru aðilar sem hafa sérþekkingu á þessum málum og ég efast um að aðrir þekki þar betur til. Það hefur komið fram, og ég mun skýra frá því hér á eftir, að það hefur ekki verið haft nægilegt formlegt samband við þessa aðila í undirbúningi málsins, því miður, og hef ég hér skjalföst gögn þar um.
    Í minnispunktum um helstu atriðin í SAS-skýrslunni koma fram atriði sem eru þess eðlis að ég tel nauðsynlegt að árétta það hér í minni ræðu til að undirstrika mikilvægi þess að tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið fari fram hið fyrsta. Hv. Alþingi hlýtur að geta þrýst þannig á hæstv. ríkisstjórn að hún sjái sig knúna til þess að verða við vilja alþingismanna og þjóðarinnar um það að hagsmunir hennar séu tryggðir, þ.e. raunverulegir hagsmunir ekki hvað síst með tilliti til þess að ráðherrar hafa sjálfir undirstrikað það hér að það má ekki búast við niðurstöðu úr EFTA/EB-viðræðunum sem getur skilað jákvæðum árangri hvað afkomu snertir fyrr en eftir nokkur ár. Við getum ekki horft aðgerðarlausir upp á það að ekkert sé gert til þess að tryggja það að afkoma þjóðarinnar verði betri í sambandi við tekjur af útflutningsvörum hennar. Það hlýtur að vera frumskylda okkar að reyna að koma í veg fyrir það að enn frekari kjaraskerðing eigi sér stað.
    En það hefur ekki komið fram, virðulegi forseti, nægilega skýrt hér undir umræðunni, ýmis helstu atriðin um þennan svonefnda SAS-hóp, þar á meðal hverjir það eru sem mynda Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi. Þessir aðilar eru, virðulegur forseti:

Landssamband ísl. útvegsmanna, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, Félag Sambandsfiskframleiðenda, Samtök fiskvinnslustöðva, Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Þetta eru þeir aðilar sem eru með, ég vil segja, meginábyrgðina í sjávarútvegi og fiskiðnaði á Íslandi og þeir eru í mjög nánu samstarfi við sjómannasamtökin. Ég hef ekki ástæðu til að halda annað en að sjómannasamtökin og sjómenn almennt séu sömu skoðunar og þessir fulltrúar þeirra samtaka og fyrirtækja sem ég las upp áðan, um það hvað það sé mikilvægt að taka upp tvíhliða viðræður við EB og tryggja hagstæða samninga við EB, útvíkkun eða viðbót við bókun 6, sem felur í sér að lækka og fella niður tolla á sjávarafurðum til Evrópubandalagslandanna.
    Markmið þessara aðila, SAS-hópsins, er að móta sameiginlega afstöðu íslensks sjávarútvegs til þeirrar þróunar sem á sér stað innan Evrópubandalagsins. Þeir segja að ástæða þess sé sú að Evrópubandalagið sé mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga. Árið 1988 fóru 59% af heildarvöruútflutningi Íslendinga til bandalagsins og sama ár fóru 63% af útflutningi sjávarafurða þangað.
    SAS-hópurinn hefur fjallað alveg sérstaklega um þessar svonefndu könnunarviðræður EFTA og EB. Hann gerir sér grein fyrir því að markmið þessara viðræðna er að reyna að aðlaga EFTA-ríkin að innri markaði EB, þ.e. svonefndu auknu frjálsræði og þar með yrði það gert á grundvelli útvíkkunar á fríverslunarsamningi EFTA og Evrópubandalagsins.
    Í þessum viðræðum er, eins og hv. þm. vita, einnig fjallað um frjáls vöruviðskipti, en SAS-hópurinn vekur alveg sérstaka athygli á því, sem hefur nú komið fram hér í umræðunni en ekki mjög sterkt, að í könnunarviðræðum EFTA og EB er afskaplega lítið fjallað um sjávarútvegsmál, þ.e. þann þátt sem skiptir höfuðmáli fyrir íslenska þjóð. Einmitt þetta atriði kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur þegar hún talaði hér fyrr í umræðunni.
    Staðreyndin er nefnilega sú að Brussel, þ.e. þeir sem halda á málum Evrópubandalagsins frá aðalstöðvunum í Brussel, hafa mjög takmarkaðan eða lítinn áhuga fyrir því að semja um fríverslun með fisk í tvíhliða viðræðum við EFTA. Þetta er mjög ríkjandi skoðun hjá þeim sem hafa kynnt sér þetta annars staðar en í Brussel. Þeir hafa fengið þetta í gegnum fulltrúa annarra þjóða sem eiga samskipti við sína menn, sína fulltrúa í Brussel. Þess vegna harma ég það nú út af fyrir sig að vinir mínir á Morgunblaðinu skyldu ekki líka fara til Bonn og Parísar og London og víðar áður en þeir fóru að móta sína skoðun með jafnákveðnum hætti og kom fram í Reykjavíkurbréfi 3. des. En ég veit að það mun allt standa til bóta því Morgunblaðið er nú þeirrar gerðar að þeir hafa víða sambönd og afla sér víða heimilda og gagna þannig að Morgunblaðið verður ekki lengi að átta sig á því.
    Þá er það staðreynd, sem ég veit að hæstv. sjútvrh. veit, að EB hvorki vill né getur breytt

sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins frá árinu 1983 vegna þess að í ársbyrjun 1987, á sama tíma sem hæstv. þáv. forsætis- og utanrrh.,
Steingrímur Hermannsson, var að leiða okkur inn í EFTA-gildruna, horfði ekki nægilega langt fram í tímann, þá eru þeir að ganga frá styrkjastefnu til sjávarútvegs Evrópubandalagslandanna sem bindur hendur Evrópubandalagsins fram til ársins 1997. Þetta er staðreynd.
    Ég segi fyrir mitt leyti að ég sé ekki hvernig hægt er að komast hjá því. Ég sé ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn getur neitað því að taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið eða reyna það og takist það ekki í Brussel þá verður að gera það beint. Það þýðir ekkert að segja eins og hæstv. forsrh. sagði hér í umræðunum um daginn: ,,Það er allt of mikil áhætta í því með tilliti til EFTA-viðræðnanna.`` Hvar hefðum við Íslendingar staðið ef við hefðum hugsað um það, svo ég segi það nú sem NATO-stuðningsmaður, hvað hefði þýtt að hugsa þannig þegar við vorum að færa út fiskveiðilögsöguna í 200 mílur? Hvað hefði þýtt fyrir okkur hérna með NATO-hjartað, eins og það var kallað á þeim tíma, að hugsa sem svo: Nei, við megum ekki færa út í 200 mílna fiskveiðilögsögu, það gæti skaðað svo samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins? Auðvitað vildum við ekki skaða samstarfið við Atlantshafsbandalagið en við gerðum okkur grein fyrir grundvallarhagsmunum Íslendinga og við vorum í Atlantshafsbandalaginu sem Íslendingar þannig að aðrar þjóðir innan bandalagsins urðu að taka tillit til okkar sem þær gerðu að lokum. Ef menn ætla því að fara að hugsa þannig að það megi ekki troða þessum ágætu vinum okkar innan EFTA eitthvað um tær í sambandi við það að við þurfum að haga okkur með dálítið öðrum hætti en þeir, þá er það hinn mesti misskilningur og flótti, flótti frá því að standa á meginhagsmunum Íslendinga. Þess vegna má ekki hugsa eða tala eins og hæstv. forsrh. gerði hér fyrr í umræðunni.
    Það var oft teflt á tæpasta vaðið í sambandi við 200 mílna útfærsluna. En þeim sem þá stjórnuðu þjóðinni tókst að sameina Íslendinga á bak við þá útfærslu og grundvallarhagsmuni Íslendinga sem fólust í yfirráðum yfir fiskimiðum. Það hefur hæstv. ríkisstjórn ekki tekist í sambandi við þetta mál, nema síður sé. Hún hefur frekar sundrað íslensku þjóðinni í því, og ég segi því miður. En sem betur fer eru stjórnarandstæðingar það afl að íslenska þjóðin veit að þrátt fyrir það viljaleysi, og ég vil segja geðleysi sumra hæstv. ráðherra --- ég er ekki að tala um hæstv. sjútvrh., hann þarf ekki að nótera þetta sín vegna --- þá mun hér taka við völdum fólk sem mun standa á hagsmunum Íslendinga í þessum málum. Og okkur mun takast að knýja fram að tvíhliða viðræður verði hafnar hvað sem líður yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að það sé ekki á hættandi vegna EFTA/EB-viðræðnanna. Þetta skilja forustumenn annarra þjóða. Það er bara spursmálið um það að þora, geta og vilja.

    Eins og hv. þm. vita er það eitt meginmarkmið EFTA og EB að auka frjálsræði í viðskiptum, efla samkeppni, en það væri hægt að víkja mörgum orðum að því er lýtur að samkeppninni ef maður lítur á þetta allt saman út frá sjónarmiði heimsviðskipta. Stundum les maður það í erlendum ritum að þar sé talað um vígið Evrópu. Það eru Bandaríkjamenn sem stundum skrifa um þetta í þessari merkingu og þá er átt við það að Evrópulöndin, og þá væntanlega við ef við erum í nánum tengslum við þau síðar, að við séum að hlaða upp múra um hagsmuni Evrópu í alheimssamkeppni. Það má segja að í vissri merkingu sé um það að ræða að við séum að reyna að búa okkur til ákveðið virki til að standa betur að vígi í þeirri miklu samkeppni sem er í heiminum. En hvað sem því líður þá er þetta nú samt eitt af meginatriðunum, að auka frjálsræði og samkeppni í alþjóðaviðskiptum og ekki hvað síst að auðvelda mönnum að eiga frjáls viðskipti meðal Evrópuríkja, og einnig er það auðvitað meginmarkmið að auka samstarf þessara þjóða með það í huga að auka hagvöxt og velferð. En til þess að það takist þá vitum við Íslendingar, það er loks orðið viðurkennt sem var nú meginstefna Sjálfstfl. og er þótt ýmsir berðust nú á móti henni á sínum tíma, að það á sér ekki stað hagvöxtur og velferð batnar ekki nema frjálsræði sé aukið og það eigi sér stað ákveðin samkeppni í viðskiptum með vörur, þjónustu og fleira.
    Í umfjöllun sinni um þessi mál undirstrikar SAS-hópurinn sérstöðu Íslendinga. Þar segir, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Í viðræðum EB og EFTA verður einungis rætt um frelsi í viðskiptum með iðnaðarvörur, ekki sjávarafurðir og landbúnaðarvörur. Sjávarafurðir eru iðnaðarvörur Íslendinga. Þær eru 70--75% af vöruútflutningi Íslands. Hjá Norðmönnum er þetta aðeins 6% og Kanada, sem að vísu er ekki Evrópuríki, aðeins 2%.``
    Forsvarsmenn SAS leggja áherslu á það og segja að það eigi að vera markmið okkar Íslendinga --- og þar er ég þeim innilega sammála --- að við eigum að fá viðurkennda sérstöðu okkar og frjálsan aðgang að mörkuðum EB. Sem sagt, þessir greindu og ég vil segja ötulu forustumenn samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, sem eru viðurkenndir bæði af okkur sem og öðrum sem eiga við þá samskipti, leggja áherslu á það að menn geri sér grein fyrir að við þurfum að fá viðurkennda sérstöðu.
    Stundum hafa ýmsir stjórnmálamenn talið það vera eitthvert skammaryrði að
tala um það að menn þyrftu að fá viðurkennda sérstöðu. En þetta er ekkert nýtt. Þetta er nákvæmlega hliðstætt við það sem gerðist þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið. Þá var sérstaða Íslendinga viðurkennd með ákveðnum hætti sem við þekkjum allir sem hér erum inni. Í þessum efnum eigum við Íslendingar þess vegna að standa mjög fastir á þessu atriði.
    Þá vil ég víkja nokkrum orðum, virðulegi forseti, að því sem ég mundi flokka undir afstöðu EB til

sjávarútvegsmála. Það hefur ekki verið fjallað mikið um það hér í umræðunni, ekki í ítarlegu máli. Margir hv. þm. hafa auðvitað komið inn á þetta atriði, að sjálfsögðu. En ég vil, virðulegi forseti, fá að víkja nokkrum orðum að þessu atriði því að þetta er auðvitað meginmál. Ef maður lítur fyrst á það sem við mundum kalla vandamál Evrópubandalagsins í sambandi við sjávarútveg liggur það í augum uppi að sjávarútvegur EB hefur átt við og á við mikil vandamál að stríða. Útfærsla fiskveiðilögsögu í 200 mílur skapaði auðvitað þessum þjóðum mikinn vanda og á ég þar einkum við Breta, Vestur-Þjóðverja, Spánverja og Portúgala. Þetta gerði það auðvitað að verkum að fiskafli þeirra sjálfra, þ.e. bandalagsríkjanna, minnkaði á sama tíma og þau missa fiskveiðiheimildir í lögsögum annarra ríkja. Á sama tíma og þetta gerist, m.a. við strendur Íslands, Noregs og Kanada, gerist það að það verður aflabrestur í Norðursjónum og fiskveiðar dragast mikið saman á þeim fiskimiðum sem liggja næst Evrópubandalagsríkjunum. Allt þetta, og ótal, ótal mörg önnur atriði, skapaði auðvitað mikið vandamál í
sambandi við mótun sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsríkjanna og það leiddi til þess að þau komu sér upp miklu og flóknu kerfi og má segja að í vissum skilningi sé það skylt því sem menn þekkja í landbúnaði, en eins og hv. þm. vita er rekið mjög öflugt styrkjakerfi í sambandi við landbúnaðarvörur innan Evrópubandalagsins. Er það mun stærra í sniðum en við Íslendingar getum ímyndað okkur þegar við lítum á styrkjastefnu okkar gagnvart okkar eigin landbúnaði. Þetta hefur allt skapað Evrópubandalaginu mikil og hrikaleg vandamál. Vegna vondrar stöðu sjávarútvegs ákváðu EB-ríkin að taka upp öfluga styrkjastefnu. Þessi styrkjastefna er náttúrlega verndarstefna í orðsins fyllstu merkingu. Þeirra vandi er m.a. sá að þeir eru með of stóran fiskiskipastól en hann hefur stækkað í EB þrátt fyrir áætlanir um minnkun. Það þýðir það einnig, vegna tæknibreytinga og annars, að veiðigeta meðalskips hefur aukist og má m.a. kenna þar um auknum styrkjum frá bandalaginu og aðildarríkjunum. Í stuttu máli sagt, virðulegi forseti, einkennist sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins af því að þar er ætlað að vernda og styrkja sjávarútveg bandalagsríkjanna til frambúðar. Þar er ekki tjaldað til einnar nætur.
    Styrkjastefnan sem rekin er í Evrópubandalaginu er mjög flókin. Þar er um að ræða innflutningstolla, verndartolla, beina styrki í sambandi við rekstur skipa, styrki til þess að byggja upp fiskiðnaðarfyrirtæki, styrki til þess að laga hafnaraðstæður. Það eru styrkir jafnvel til þess að koma á hagræðingu í sambandi við vörudreifingu o.s.frv. o.s.frv. Þetta er auðvitað mjög skaðlegt og á ekkert skylt við frjálsræði eða frjálsa samkeppni nema síður sé. Þetta kemur sér einkar illa fyrir þjóð eins og Íslendinga sem eiga jafnmikið undir sjávarútvegi og utanríkisviðskiptum og raun ber vitni.
    Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því hvernig styrkir EB eru, virðulegi forseti, en eins og ég sagði

áðan er um að ræða styrki samkvæmt tíu ára áætlun. Þessir styrkir koma til framkvæmda á tímabilinu 1987--1997 og ganga auðvitað þvert á allar hugmyndir um fríverslun. Það þarf engan hagfræðing til að sjá það. Þessi tíu ára áætlun lýtur að endurskipulagningu sjávarútvegs EB-ríkjanna og er um að ræða tvö fimm ára fjárhagstímabil. Heildarupphæðin á hvoru tímabili er 800 millj. ECU, þ.e. rúmlega 55 milljarðar íslenskra króna á fimm ára tímabili eða 11 milljarðar á ári. Þetta eru gífurlegar fjárhæðir. Trúa menn að þeir stjórnmálamenn innan Evrópubandalagsins sem fjalla um þetta á þessum grundvelli, því að þessar tölur verða ekki til í Brussel, viti ekki hvað í þessu felst? Hvaða skuldbindingar. Þetta er ákveðið af valdamönnum þjóðþinga þeirra ríkja sem mynda Evrópubandalagið. Trúa menn því virkilega hér á hinu háa Alþingi að þeir menn sem ákveða þessa stefnu hafi ekki skilning á stöðu Íslendinga í tvíhliða samningaviðræðum eða þeir láti það þvælast fyrir sér að gera samkomulag við Íslendinga um það sem skiptir okkur meginmáli í þessari stöðu bara vegna formsatriða sem flokkast undir það að Íslendingar eru í sameiginlegum viðræðum í gegnum EFTA við EB um önnur mikilsverð atriði? Trúa menn þessu virkilega? Allt það sem sagt er hér í þessari umræðu er skráð og það mun fara inn í söguna sem slíkt. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég vorkenni þeim mönnum sem eru að reyna að draga úr eða jafnvel hindra að Íslendingar geti farið í tvíhliða viðræður með formlegum hætti. Þeir skilja bara ekki þá aðila sem eru við völd og ráða þessum ríkjum og þar með Evrópubandalaginu. Einhvern tíma hefði verið sagt að þeir væru ekki hæfir. Sá sem ekki skilur sína stöðu, sá sem kann ekki að útfæra sína stöðu, ekki hvað síst í samskiptum við aðrar þjóðir, er ekki hæfur til að hafa forustu fyrir þessari þjóð. Í reynd er um hærri upphæðir að ræða en þessa 11 milljarða á ári sem best sést á
því að á árinu 1989 er 27 milljörðum kr. varið til þessara styrkja en það er jafngildi útflutningsverðmæta frystra og ferskra sjávarafurða frá Íslandi til Evrópubandalagsins árið 1988.
    Hér er aðeins verið að tala um framlag bandalagsins sjálfs en það er venjulega 25--50% af umbeðnum styrk og framlag aðildarríkjanna 10--30% þannig að við erum að tala hér um miklu, miklu hærri upphæðir. Við erum ekki að tala um 100--110 milljarða á tíu ára tímabili. Við erum að tala um yfir 200 milljarða kr. Þetta eru gífurlegar upphæðir. Eins og ég sagði áðan fara þessir styrkir í fjárfestingar í fiskiskipum, fiskvinnslu, hagræðingarverkefni, svo sem til þess að bæta geymslur, spara orku og bæta löndunar- og hafnaaðstöðu. Þessir styrkir fara í markaðssetningu á sjávarafurðum, auglýsingar og kynningu á sjávarafurðum. Þeir fara í sameiginleg verkefni á sviði fiskveiða og vinnslu, fiskirækt og tilraunaveiðar. Þeir fara einnig í það að bæta sjómönnum og útgerðarmönnum aflatap vegna utanaðkomandi breytinga, t.d. vegna tapaðra veiðiréttinda í lögsögu annarra ríkja og einnig er

styrkjunum varið í það að gera mönnum kleift að leggja skipunum.
    Virðulegi forseti. Ég vildi koma með þessar tölur, þennan kafla, inn í mína ræðu vegna þess að ég held að margir hv. þm. hafi ekki áttað sig á því að þegar við erum að tala um samninga Íslands, hvort sem það er í gegnum EFTA eða EB eða beint, erum við raunverulega að tala um atriði sem eru þess eðlis að valdamenn þeirra ríkja sem ráða Evrópubandalaginu gera sér grein fyrir því að í ljósi þeirrar styrkjastefnu sem þeir sjálfir hafa ákveðið innan Evrópubandalagsins er hér um smámuni að ræða í sérsamningum við Íslendinga. Og við eigum sjálf að gera okkur grein fyrir því. Einnig skulum við gera okkur grein fyrir því að þessi styrkjastefna Evrópubandalagsins hefur skuldbundið Evrópubandalagið sem slíkt og einstök ríki gagnvart sjávarútvegshagsmunum viðkomandi ríkja fram til ársins 1997. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Spursmálið er: Vilja EB-ríkin gera samning við Ísland í ljósi sérstöðu og í ljósi þess hvernig þeir hafa sjálfir búið að sínum eigin sjávarútvegi? Ég fyrir mitt leyti þori að fullyrða það að það tæki ekki langan tíma að fá viðbótarsamning við bókun 6 við þau ríki sem ráða ferðinni innan Evrópubandalagsins ef menn beittu sér að því, sneru sér að því með formlegum hætti. Það verður auðvitað að gerast með formlegum hætti. Það er alveg rétt sem hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum. Það nægir ekki að eiga viðtöl við vinsamlega stjórnmálamenn sem annaðhvort koma til Íslands eða íslenskir stjórnmálamenn hitta erlendis. Það þarf að setja þetta niður með formlegum hætti og ganga frá því.
    Mikið hefur verið rætt um það hvort Norðmenn mundu styðja Íslendinga eða hvort Norðmenn mundu koma við hliðina á Íslendingum í sambandi við ósk okkar um tvíhliða viðræður. Ég óttast það ekki út af fyrir sig að Norðmenn mundu gera það. Norðmenn eiga ekki það ríkra hagsmuna að gæta í sambandi við útflutning sjávarafurða að þeir mundu gera neitt það sem gæti skaðað Íslendinga í því að reyna að ná betri tollasamningi en við höfum í dag. Það er staðreynd að þó að Norðmenn keppi við okkur í sambandi við fisksölumál hafa þeir alltaf gert sér grein fyrir því og viðurkennt þegar á átti að herða að Íslendingar hafa alveg ákveðna og klára sérstöðu í sambandi við útflutning sjávarafurða.
    Ég hef, virðulegi forseti, rakið nokkuð þau atriði sem SAS-hópurinn leggur áherslu á og við sjálfstæðismenn höfum tíundað í okkar ræðum. Við vitum það og þjóðin öll veit að hér er um grundvallarhagsmuni að ræða og við tölum auðvitað út frá þeim staðreyndum og því umhverfi sem við lifum í. Það hefur ekkert það komið fram frá hæstv. ráðherrum í viðræðunum sem bendir til þess að í gegnum EFTA/EB-viðræðurnar eins og hæstv. ríkisstjórn hugsar sér þær komi það hagræði eða komi sú staða að hægt sé að bæta og tryggja afkomu Íslendinga betur á næstu árum eða tryggja það að tollar Evrópubandalagsins gagnvart íslenskum

sjávarafurðum verði lækkaðir og felldir niður. Ég vildi óska þess að hér lægju fyrir ákveðnar hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um einhverjar nýjungar í atvinnulífi þjóðarinnar sem gæfu manni vonir um að fram undan væri eitthvað nýtt sem þessi ríkisstjórn hefði reynt að hafa frumkvæði um á atvinnusviðinu en svo er ekki. Það verður þess vegna auðvitað að líta á það út frá því sjónarmiði einnig að þó að EFTA/EB-viðræðurnar séu nauðsynlegar þegar litið er til lengri tíma í því samhengi sem menn verða að horfa á hlutina eins og þetta er að breytast liggur ekki fyrir neitt sem réttlætir það að menn segi að það eigi að fara í gegnum EFTA/EB-viðræðurnar og bíða.
    Í sambandi við þessar umræður allar hefur það einnig komið fram að hæstv. utanrrh., sem nú er því miður fjarverandi, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur ekki lagt sig neitt sérstaklega formlega --- ég endurtek, formlega --- fram um það að eiga viðræður við þá aðila sem mynda samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi í sambandi við allan málatilbúnað út af EFTA-viðræðunum og væntanlegum samningum. Ég endurtek: Hann hefur ekki haft formlegt samband við þá sem skyldi. Því hefur verið mótmælt hér af sumum stjórnarliðum undir umræðum. En ég vil þá geta þess að það kom m.a. fram frá einum áhrifamesta
talsmanni sjávarútvegs á Íslandi á nefndarfundi í EB-nefnd, og ég held ég brjóti ekki trúnað þó að ég segi það, að í fyrsta lagi hefðu menn þungar áhyggjur af því að hagsmunir Íslendinga yrðu látnir sitja eftir í viðræðum EFTA og EB. --- Ég sé það, virðulegi forseti, að einn af stjórnarliðum, borgaraflokksþingmaður, hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson, hefur sest í ráðherrastól. Ég vildi spyrja virðulegan forseta hvort búið sé að skipta um einhvern ráðherra, hvort búið sé að skipta út. ( ÁHE: Þetta var mitt eigið frumkvæði. Ég skipti ...) Ég sagði þetta vegna þess að ég sá það að hæstv. iðnrh. og hv. þm. voru í innilegum samræðum þarna. Var kannski hv. þm. að skýra hæstv. ráðherra frá skoðanakönnun sem mun birtast núna á þessum degi, gleðja hann með því? (Gripið fram í.) Var hann kannski að gleðja hæstv. ráðherra með því hvernig skoðanakönnunin væri? En ég vildi spyrja virðulegan forseta hvort fundi þeirra sé lokið þarna úti í sal. ( Forseti: Nú er forseti ekki fær um að gefa svar við slíkum óformlegum fundum milli manna úti í sal. Hins vegar er hv. þm. kunnugt um að ekki eiga að fara fram fundir í salnum þegar umræður fara fram úr ræðustóli.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir þetta. Eins og fram hefur komið í ræðum okkar þm. Sjálfstfl. og þingkvenna Kvennalistans leggjum við alveg sérstaka áhersla á að hér fari fram vönduð og ítarleg umræða um það stórmál sem þetta er fyrir íslenska þjóð sem er staða Íslands í breyttum heimi, nýrri heimsmynd. Hæstv. ráðherrar hafa verið fastir í því að ræða tæknileg atriði EFTA-EB könnunarviðræðna. Það hefur ekki komið fram í máli þeirra neitt mat á því hver sé raunverulega staða Íslands í breyttum heimi. Þeir hafa verið svo fastbundnir, límdir við EFTA.
    Ég ætla nú, virðulegi forseti, ekki að fara að óvirða

EFTA. En ég verð þó að segja það eins og ég sagði í ræðu á síðasta þingi, ég sat í 15 ár í ráðgjafarnefnd EFTA fyrir hönd Alþýðusambands Íslands og það var afskaplega lærdómsríkt svo að ekki sé meira sagt. Í þessari ráðgjafarnefnd sátu, virðulegi forseti, fulltrúar atvinnulífsins ásamt fulltrúa ríkisvaldsins. Þar fer fram mikil skýrslugerð um stöðu mála og að sjálfsögðu umræða, en afar sjaldgæft að þar væru samþykktar ályktanir sem meginmáli skipta. Umræða um atvinnu- og efnahagsmál viðkomandi ríkja er mikil og það er mjög gagnlegt, eins og hv. þm. vita, að hitta ágæta forustumenn annarra þjóða og fræðast um atvinnulíf þessara landa og gera sér grein fyrir stöðu þeirra og Íslands í samfélagi þjóðanna. En ég hef átt aðild að fleiri stofnunum en ráðgjafarnefnd EFTA. Ég tók á sínum tíma töluverðan þátt í störfum Efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu --- það er nú svo langt um liðið, það var á árunum 1956--1961 --- sem fulltrúi viðskrn. sem hafði þá mikið með þessi mál að gera. Það var einnig mjög gagnlegt. Þetta eru opnar stofnanir. Þar koma menn saman, embættismenn, fulltrúar vinnuveitenda, verkalýðsins og þar skiptast menn á skoðunum o.s.frv. En ég ætla ekki að fara að gera lítið úr þessu.
    Við þetta hefur svo einnig bæst ein stofnun í viðbót sem heitir Þingmannasamband EFTA. Hér eru inni þm. sem hafa tekið þátt í þeirri samkundu. Ég vona að menn fyrirgefi mér það að stundum finnast mér þessir fundir frekar svona spjallfundir en hitt. En ég verð nú samt að segja það að ekki var þungavigtin afskaplega mikil í ráðgjafarnefnd EFTA eftir að Danir og Bretar fóru úr EFTA á sínum tíma. Umræðan snerist aðallega um stöðu Svía. Norðmenn voru einnig að reyna að gæta sinna hagsmuna, þ.e. skoðanalega. Ég hef ekki orðið var við það, en ég verð þá leiðréttur, að Þingmannasamband EFTA hafi verið neitt þungavigtarsamband eða félagsskapur í samskiptum Íslands og þessara ríkja sem mynda EFTA. Það var verið að reyna að gera mál úr því í umræðu hér um daginn að hæstv. utanrrh. skyldi ekki komast utan til þess að sitja sem formaður á sameiginlegum fundi ráðgjafarnefndar EFTA, Þingmannasambands EFTA o.fl. Ég vona að virðulegir þm. fyrirgefi mér það en mér fannst nú dálítið spaugilegt hvað hann lagði mikla áherslu á að hann þyrfti endilega að sitja þarna sem formaður, vegna þess að ég þekki það af fenginni reynslu að það ræður ekki úrslitum hvort formaður er mættur eða ekki. Venjulegast eru það framkvæmdastjórarnir eða háembættismennirnir sem sjá um þetta. Að vísu situr ráðherra þarna og stjórnar fundinum en allt sem gert er, sem vigtar, kemur fram í ræðum og skýrslum þessara háembættismanna sem vinna verkin. Þetta vildi ég bara láta koma fram svo það væri skjalfest. Þannig að þetta var nú vindur í vatnsglasi þótt ráðherra kæmist ekki út, en hann vildi halda því fram að það væri vegna vondra verka sjálfstæðismanna að hann hefði ekki komist. En það var vel upplýst hér að það var vegna þess að þá voru stjórnarflokkarnir að koma sér saman um að auka skattálögur á íslenskri þjóð og

gekk það misjafnlega vel ofan í kokið á mönnum eftir því í hvaða flokkum þeir voru.
    Virðulegi forseti, ég var ekki alveg búinn að ljúka því að vitna hér í einn af helstu áhrifamönnum sjávarútvegs og fiskiðnaðar, þ.e. ég var að vísa í álit hans um það hvernig hann mæti stöðu okkar í sambandi við þessar EFTA- og EB-viðræður. Þessi ágæti talsmaður, sem nýtur mikils álits og er óumdeildur forustumaður í sjávarútvegi, sagði m.a., með leyfi forseta: ,,... að menn hefðu þungar áhyggjur af því að hagsmunir Íslendinga yrðu látnir sitja eftir í
viðræðum EFTA og EB. Íslendingar eiga ekki mikla samleið með hinum EFTA-ríkjunum og ef svo fer að við stöndum eftir með mikla sérhagsmuni gagnvart EB undir lok samninga væri óvíst um niðurstöður. Hann taldi rétt að nýta sér þá velvild sem Íslendingar nytu sýnilega meðal ráðamanna í EB-löndunum.``
    Virðulegi forseti. Án þess að ég vilji gera lítið úr góðum verkum og ráðleggingum íslenskra embættismanna, þá hlýt ég að segja að ég hlýt að taka meira tillit til sjónarmiðs þessa manns sem ber allt aðra, ég vil segja raunverulega, ábyrgð á því hvernig okkur reiðir af. Þetta er sá maður sem veit betur en flestir aðrir hvað það kostar okkur Íslendinga afkomulega að ná ekki sérsamningum við Evrópubandalagið. En ég vil, virðulegi forseti, einnig láta koma fram það sem kom fram á þessum fundi Evrópunefndar 21. nóv. hjá einum af fulltrúum SAS, þ.e. samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, þessu máli skylt. En hann sagði m.a. þetta, virðulegi forseti:
    ,,Hann sagðist telja að Íslendingar nytu slíks velvilja meðal erlendra ráðamanna að þetta væri mögulegt [þ.e. að fá viðræður] og að tvíhliða leiðin væri líklegust til árangurs. Enn fremur væri talið að ekki hefði verið lokið við viðræður milli EB og Íslendinga sem fram fóru 1976. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að utanrrh. hefði leitað eftir samráði við LÍÚ eða SAS [þ.e. við Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi].``
    Hér mun vera átt við það að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson hafi ekki haft formlegt samband við þessa aðila sem skyldi og er það vissulega ámælisvert og mjög alvarlegt svo ekki sé meira sagt.
    Þótt íslenskir stjórnmálamenn telji sig hafa vit á mörgu, þá er það nú einu sinni þannig að þeir geta ekki gengið fram hjá þeim aðilum sem hafa grundvallarþekkingu á því sem þeir eru að fjalla um í svo viðkvæmum og þýðingarmiklum málum sem þessi mál eru. En sem sagt, hæstv. utanrrh. er nú ekki staddur hér svo að ég held að ég fari ekki frekar út í þetta en ég hefði hins vegar talið fulla ástæðu til þess að ræða við hann persónulega um þessi atriði og fleiri og krefja hann sagna, en það verður að bíða þess að hann komi til landsins aftur.
    Ég hef, virðulegi forseti, talað hér í rúman klukkutíma og er svona hálfnaður í minni ræðu. Það verða kaflaskipti bráðlega í þessari ræðu minni þannig að ég vildi spyrja virðulegan forseta hvað fundurinn

á að standa lengi yfir. Ég sé að klukkuna vantar 10 mínútur í 5. ( Forseti: Forseti getur svarað því til að hefðbundnum fundartíma þessa fundar á að ljúka kl. 5, en nú mun standa yfir fundur með forsetum og formönnum þingflokka þar sem væntanlega er þá verið að taka ákvörðun um framhald þessa fundar og koma þau skilaboð væntanlega inn á fundinn fyrir kl. 5 svo að hv. 14. þm. Reykv. getur haldið áfram ræðu sinni a.m.k. þessar 10 mínútur sem eftir eru af fundartíma.) Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir þessi svör.
    Eins og fram hefur komið bæði í minni ræðu og öðrum ræðum okkar sjálfstæðismanna og kvennalistakvenna er þetta mál þess eðlis að það er ekkert sem heitir að hér séu menn að flýta sér í fundarstörfum eða menn sýni einhverja óþolinmæði. Það er óhjákvæmilegt að ræða þessi mál mjög ítarlega. Ég veit að virðulegur forseti hefur skilning á því og ég sé það og virði það alveg sérstaklega við hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson hvað hann hefur setið vel undir ræðum manna hér í umræðunum, ekki aðeins í dag heldur einnig í síðustu viku. ( Sjútvrh.: Mér er nú farið að leiðast þetta.) Þetta var nú ekki alveg nægilega gott hjá hæstv. ráðherra vegna þess að þó að hann hafi mikinn skilning og þekkingu á sjávarútvegsmálum, þá hefur þetta ekki komið nægilega fram. Ég veit að hann hefur nú ekki neina ánægju af því vegna þess að hann þekkir nú margt af því ( Sjútvrh.: Það verður að vera eitthvað um efnið.) Já, ég veit það, ráðherrann hefur líka hlustað á þetta með athygli. En það er nú einu sinni þannig að auðvitað get ég ekki talað svo að honum líki vel að öllu leyti. Hann er að verja ríkisstjórn sem meginþorri þjóðarinnar hefur hafnað mjög rækilega og á eftir að koma enn betur í ljós þannig að ég skil það vel. En þetta er hið eina ráð sem þjóðin hefur og við sem höllumst að lýðræði og þingræði, að tjá okkur hér á hinu háa Alþingi í mikilsverðum málum. Því þótt valdið sé mikið hjá ríkisstjórnum og meiri hluta er lokavaldið hjá fólkinu. Enn ríkir hér tjáningarfrelsi. Enn mega menn tjá sig um allar hliðar þessa máls. Og ekki hvað síst þau atriði sem eru gagnrýnisverð varðandi störf og afstöðu núv. hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli, svo að ég tali nú ekki um rangar áherslur sem skaða hagsmuni Íslendinga.
    Það er öllum ljóst nema e.t.v. stjórnarsinnum að núverandi ríkisstjórn hefur ekki verið með réttar áherslur ef maður lítur á það út frá beinum, efnahagslegum hagsmunum Íslendinga. Eins og ég skýrði frá hér áðan kemur þetta mjög skýrt fram hjá aðilum atvinnulífsins, þessum svonefnda SAS-hópi. Sá hópur er ópólitískur þannig að ekki verður sagt að umfjöllun hans eða afstaða til þessa máls sé af pólitískum toga spunnin eða að á bak við þeirra sjónarmið sé eitthvað annarlegt. Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, að þegar hæstv. sjútvrh. var að svara hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni eitthvað um
það, þegar hv. þm. hafði lokið sínu máli að hann skildi ekki þessa kúvendingu Sjálfstfl. Hann sagði

eitthvað á þessa leið: ,,Stefnubreyting Sjálfstfl. kemur mér á óvart.`` Það hefur ekki orðið nein stefnubreyting hjá Sjálfstfl. í þessu máli. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki skilið hvað hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var að segja í sinni fyrstu ræðu hér fyrr í umræðunni. Það hefur aldrei verið nein stefnubreyting hjá Sjálfstfl. í þessu máli. Okkar stefna hefur alltaf verið sú að gæta sem best hagsmuna Íslendinga. Sú stefna helgast af því að gera það sem rétt er og best fyrir íslenska þjóð og það er okkar mat og hefur verið allan tímann. Við höfum lýst því margsinnis yfir og það hefur komið fram og kom fram í ræðu formanns Sjálfstfl. Sjálfstfl. styður viðræður EFTA og EB og Íslands og aðild að því og einnig ýmis atriði sem þegar eru komin á það stig að þau eru rammi að samningsgrundvelli. Við styðjum ýmis af þessum atriðum. Það hefur ekki farið á milli mála. En við höfum lagt áherslu á tvíhliða viðræður formlega. Það er ekkert nýtt. Hins vegar hefur það komið fram margsinnis að núv. ríkisstjórn stendur ekki á neinu föstu. Það gerir bókun Alþb. og afstaða í ríkisstjórninni.
    Sem sagt, afstaða okkar sjálfstæðismanna og aðila atvinnulífsins fer saman og er hin sama. ( Sjútvrh.: Þetta er rangt.) Því segir hæstv. ráðherra þetta? ( Sjútvrh.: Þetta er bara rangt.) Því segir hæstv. ráðherra það? Hæstv. ráðherra getur (Gripið fram í.) ja, eitt ætla ég nú að segja hæstv. ráðherra. Þó að hann sé búinn að vera lengi sjútvrh. þá á hann ekki íslenskan sjávarútveg. Hann einn hefur ekki rétt til þess að tjá sig og tala fyrir hönd íslensks sjávarútvegs. ( Sjútvrh .: Það hefur enginn.) Nei, það hefur enginn. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. Hann verður þá að þola það að aðrir hafi skoðun á því hvað komi íslenskum sjávarútvegi best og íslenskum útflutningshagsmunum og einnig íslensku þjóðinni, fólkinu sem starfar í sjávarútvegi. Og það kemur þessum aðilum best og þjóðinni að ná samningum um lækkun tolla, um útvíkkun á bókun 6. Það er sameiginleg skoðun okkar allra.
    Við leggjum áherslu á að samhliða EFTA- og EB-viðræðunum fari fram tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um viðbótarsamning við bókun 6. Til þess að þetta geti orðið raunverulegt þarf að taka ákvörðun um að óskað verði eftir formlegum viðræðum við EB á fyrsta stigi. Ef í ljós kemur að þeir sem völdin hafa og ráða í Brussel vilja ekkert við okkur ræða eigum við Íslendingar ekki um annað að velja en reyna að ná upp tvíhliða viðræðum við einstök ríki innan Evrópubandalagsins. Þá verður það að vera á þeim grundvelli að rætt sé við stjórnmálamenn þessara ríkja, þ.e. ráðamenn þessara ríkja. Þetta höfum við gert áður. Þetta var gert í landhelgisviðræðunum. Endanlegir samningar voru ekki gerðir á hinum formlegu fundum. Það var nákvæmlega eins með þá samninga og með aðra samninga að gengið var frá meginatriðum og unnið að meginatriðum á milli funda og það sama hlýtur að gerast í þessu máli. En til þess að það geti gerst verða að eiga sér stað formlegar viðræður. Við eigum

auðvitað að eiga samflot með öðrum EFTA-ríkjum um almenn atriði. Hæstv. viðskrh. taldi upp þau atriði mörg sem við sjálfstæðismenn styðjum. ( Forseti: Nú vill forseti upplýsa hv. ræðumann að þessum fundi mun eiga að ljúka klukkan fimm þannig að ef hann á eftir langa ræðu, eins og fram kom hér fyrr í hans máli, þá er líklega ekki um annað að gera en fresta henni.) Já virðulegi forseti, ég hef góðan skilning á því. Sem betur fer verður hæstv. forsrh. kominn til landsins á morgun en ég er einmitt kominn að þeim kafla þar sem ég ætla að rekja hvernig hann lét leiða Íslendinga í þá gildru sem þeir eru komnir í núna í sambandi við EFTA- og EB-viðræðurnar þannig að hæstv. ríkisstjórn fæst ekki til þess núna að tryggja að Íslendingar geti tekið upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið.