Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég innti hæstv. utanrrh. Jón Sigurðsson eftir því hér fyrr við umræðuna undir þingsköpum, hvort hann gæti upplýst þingheim um tilvist skýrslu sem komin væri frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins til ráðherranefndar Evrópubandalagsins og send hefði verið ríkisstjórnum EFTA-landanna. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi í þingsal ef hann er í þinghúsi til að ég geti beint máli mínu til hans. ( Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að biðja hæstv. utanrrh. að koma hér í salinn. Ég vænti þess að hv. þm. hafi tekið eftir því að þessum fundi er að ljúka núna.) Að sjálfsögðu, virðulegur forseti, ég vildi aðeins ítreka fsp. mína til hæstv. utanrrh. um þá skýrslu sem framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins sendi ráðherraráði Evrópubandalagsins þann 22. nóv. Hún er dagsett degi áður en hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson mælti hér fyrir skýrslu sinni til Alþingis um könnunarviðræður EFTA og Evrópubandalagsins og hefur orðið umræðuefni í norska Stórþinginu og e.t.v. víðar í þingum Norðurlanda. Ég hef kynnt mér það með samtali við sendiherra í utanrrn. að þessi skýrsla liggur þar dagsett 22. nóv. sl. og varðar mat framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins á samningsstöðunni gagnvart EFTA. Þessi skýrsla hefur verið send ríkisstjórnum landanna til athugunar og utanríkismálanefndum annars staðar en á Íslandi. Henni hefur, að mér skilst, ekki verið dreift neitt frá utanrrn. Þar sem hér er um mikilsvert málsgagn að ræða sem snertir mat á þeirri stöðu sem varðar hugsanlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið tel ég óhjákvæmilegt að óska eftir því að utanrmn. fái þessa skýrslu í hendur hið fyrsta og gefist kostur á að funda um málið áður en þessari umræðu er fram haldið.