Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er þetta skjal, eins og mjög mörg önnur, tengt þessu máli og kann að skipta máli í þessari málsmeðferð allri. En eins og hér hefur ítrekað komið fram mun verða haft náið samráð við stofnanir þingsins, nefndir þess og þingið sjálft á öllum stigum þessa máls. Það er þess vegna engin ástæða til að tefja þessa umræðu með vísun til þess að þetta ákveðna skjal, dagsett 22. þ.m., hafi ekki fengið þá meðferð sem hv. 2. þm. Austurl. taldi æskilega. Með því er ég alls ekki að draga úr því að þetta efni og annað það sem varðar samningsstöðu Íslands og gagnaðila í þessu máli verði sem skipulegast og skilmerkilegast kynnt utanríkismálanefnd þingsins og Evrópustefnunefnd þess. Að sjálfsögðu verður málið og er rætt á vettvangi ríkisstjórnar. En ég vil vekja athygli á því að það er margt skjalið í þessu máli og mundi æra óstöðugan að tengja framhald umræðna í þinginu eða í málinu öllu við meðferð einstakra skjala af þessu tagi.