Guðmundur H. Garðarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega mjög alvarlegt fyrir okkur hv. þm. og Íslendinga alla að verða vitni að því að jafnvel stjórnarþingmenn hafi ekki aðgang að nauðsynlegum og mikilsverðum skjölum. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson telst vera stjórnarþingmaður eftir að hann greiddi atkvæði gegn vantrausti hér sl. fimmtudagskvöld. Þetta sýnir hvað hæstv. ríkisstjórn er veik, þetta sýnir að það er ekki samstaða um eitt eða neitt í þessari hæstv. ríkisstjórn. Hún er raunverulega ekki hæf til að hafa það umboð sem hún hefur til að fjalla um þetta mikilvæga og viðkvæma utanríkismál sem EFTA- og EB-viðræðurnar eru.
    Ég segi fyrir mitt leyti: Hér hefur verið upplýst að norska Stórþingið hefur tekið ákveðna afstöðu til þróunar mála í tengslum við EFTA/EB-viðræðurnar. Það er auðvitað gert á grundvelli upplýsingaplagga. Það er lágmarkskrafa að Alþingi Íslendinga hafi aðgang að þeim gögnum og skjölum sem skipta máli í ákvarðanatöku í sambandi við stöðu Íslands gagnvart Evrópu. Það er lágmarkskrafa og vítavert að gera ekki ráðstafanir til að tryggja að þessi plögg liggi fyrir.