Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Það vekur auðvitað furðu að sú skýrsla sem hér hefur verið gerð að umtalsefni skuli ekki hafa verið lögð fyrir utanrmn. Alþingis þegar upplýst hefur verið að hæstv. ríkisstjórn hafði hana undir höndum áður en þessi umræða hófst hér. Nú get ég auðvitað ekkert um það sagt hvort efni hennar er með þeim hætti að það kunni að hafa áhrif á skýrsluna en hitt er auðvitað óeðlilegt að hæstv. ríkisstjórn sitji ein að slíkum upplýsingum áður en jafnmikilvægar umræður fara hér fram.
    Aðaltilefni þess að ég kvaddi mér hér hljóðs, frú forseti, um þingsköp er hin smekklausa yfirlýsing hæstv. viðskrh. hér í upphafi umræðunnar þar sem hann tilkynnti af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að þessari umræðu væri að ljúka, eins og það væri ákvörðunarvald ríkisstjórnarinnar en ekki Alþingis sjálfs hvenær umræðum lýkur hér. Auðvitað eru þessi smekklausu ummæli að engu hafandi og marklaus eins og ýmislegt annað sem frá hæstv. ráðherra kemur.
    En ég vildi í framhaldi af þessu inna hæstv. sjútvrh., sem gegnir störfum forsrh. hér í dag, eftir því hvort það sé ætlan hæstv. ríkisstjórnar að virða Alþingi svo lítils að hér eigi að ljúka umræðu um þetta mál án þess að hæstv. utanrrh. sé við. Ég geri mér fulla grein fyrir því að svo gat ekki verið í dag og engar athugasemdir gerðar við að þessi umræða fór hér fram án þess að hann væri hér staddur. Við gerum okkur grein fyrir því að hann sinnir á þessum degi mikilsverðum trúnaðarstörfum erlendis, svo sem utanrrh. þurfa á stundum að gera. En ég get ekki séð að það sé unnt og það sé hægt að bjóða Alþingi að ljúka þessari umræðu án þess að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur. Hér eiga eftir að koma upp ýmis þau atriði sem hæstv. ráðherra verður sjálfur að svara fyrir um bæði vegna ummæla opinberlega um málsmeðferð og eins óformlegra málaleitana um málsmeðferð sem óhjákvæmilegt er að komi hér frekar til tals í þessari umræðu. Þess vegna vil ég ítreka þá spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort það sé í raun og veru ætlan ríkisstjórnarinnar að misbjóða Alþingi svo að þessi umræða fari fram og henni ljúki án þess að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur. Ég trúi því tæpast en það hefur spurst og því óska ég eftir að fá skýr svör þar um frá hæstv. sjútvrh.