Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Mér þykja það ill tíðindi sem hæstv. sjútvrh. flytur hér og þau lýsa furðu mikilli vanvirðu hæstv. ríkisstjórnar gagnvart Alþingi Íslendinga. Ég þarf ekki að vitna til annarra ummæla en hæstv. utanrrh. sjálfs um mikilvægi þessa máls. Auðvitað hefur þessi umræða dregist nokkuð. Ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að hún hefði getað tekið skemmri tíma ef hæstv. utanrrh. hefði lagt sig fram um það að leita eftir samstarfi og freista þess að tryggja samstöðu hér á hinu háa Alþingi en það gerði hann ekki. Þvert á móti hefur hann gert það sem í hans valdi stendur til þess að sundra samstöðunni hér á Alþingi í þessu mikilvæga máli. Því harma ég þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar og tel að hún geti og hljóti því miður að hafa þau áhrif að umræðan verði snarpari í framhaldinu.
    Vegna þeirra ummæla hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin sé þeirrar skoðunar að þetta mál eigi ekki að afgreiða með formlegum hætti vil ég minna á að hæstv. utanrrh. hefur opinberlega lýst því yfir áður að svo væri og málið ætti að afgreiða með formlegum hætti frá Alþingi. Í óformlegu samtali sem hæstv. utanrrh. hafði frumkvæði að sl. þriðjudag ræddi hann við mig um hvort hugsanlegt væri að samstaða gæti tekist við Sjálfstfl. um formlega afgreiðslu þessa máls. Þannig að ég vísa því á bug að þetta hafi aldrei komið til greina af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Mér sýnist það liggja í augum uppi fyrst að sú var niðurstaðan að eina ástæðan fyrir því sé sú að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki getað komið sér saman um efni þáltill. þar að lútandi.