Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Þá er nú loðdýraræktin komin á dagskrá hér í þessari virðulegu deild og er á vissan hátt vonum seinna. Ég veitti því eftirtekt að hæstv. landbrh. hafði orð á því að mörg orð hefðu fallið um þá grein og menn hefðu bundið við hana miklar vonir í sambandi við breytingar á framleiðsluháttum í íslenskum landbúnaði. Það er hárrétt og kem ég að því síðar í ræðu minni.
    Eins og hæstv. landbrh. tók fram hafa menn um nokkurra ára skeið staðið frammi fyrir miklum vanda í þessari grein. Í stað þess að hafa uppi væntingar um hvernig væri hægt að færa hefðbundinn búrekstur til þessarar greinar hefur farið fram barátta um að viðhalda henni í landinu. Ég hef alveg nýlega farið yfir ummæli hæstv. landbrh. eins og þau hafa verið í blöðum síðan hann tók við þessu embætti og verður ekki annað séð en hæstv. landbrh. hafi haft miklar meiningar um að bæta úr og lagfæra stöðu þessarar greinar. Ég tala nú ekki um, ef til væri á myndbandi það sem hefur komið fram af hendi ráðherrans í sjónvarpi eða þá þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar í útvarpi. Og ekki efa ég að hæstv. landbrh. hafi gengið gott til, það efa ég ekki. En hitt er allt annað mál að þessi umræða af hans hálfu hefur farið fram við mjög erfiðar aðstæður í þessari grein og hún hefur vakið vonir með því fólki sem þennan búskap hefur stundað um aðgerðir af hendi ríkisvaldsins langt umfram það sem nú er ljóst að áform eru uppi um. Á þessu vek ég sérstaka athygli vegna þess að þeir sem hér eiga hlut að máli hafa barist harðri baráttu, unnið meira og minna kauplaust. Ég veit þess meira að segja dæmi að fóðurkaup hafa verið fjármögnuð með aðfenginni vinnu eftir því sem mögulegt hefur verið. Það er satt að segja mjög eftirtektarvert að hafa fylgst með því hvað þetta fólk hefur lagt mikið á sig.
    Það er líka vert að geta þess að hér er yfirleitt um að ræða ungt fólk sem hefur lagt æðimörg ársverk að baki í þessari grein og vill gjarnan að stórum hluta berjast enn. Þetta mál er þess vegna afar sérstætt. Það er ekki einungis efnahagslegs eðlis, það er ekki einungis byggðalegs eðlis, heldur er hér um að ræða siðferðislega umræðu og siðferðislegar skyldur gagnvart þessu fólki.
    Það má segja að í allri þessari miklu orðræðu hæstv. landbrh. hafi orðið nokkur skil á sl. sumri. Þá komst ríkisstjórnin að þeirri niðurstöðu að málinu skyldi frestað þar til Alþingi kæmi saman. Í lokaafgreiðslu ríkisstjórnarinnar sem var gefin út sem fréttatilkynning í sjö liðum 19. júlí 1989 segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 5. lið:
    ,,Undirbúnar verða heildartillögur um þessar aðgerðir, þar með taldar ábyrgðir vegna skuldbreytinga og framhald málsins og þær tillögur lagðar fyrir Alþingi ef með þarf á komandi hausti. Tryggt verði, eftir því sem kostur er, með þeim ráðstöfunum sem að ofan greinir að ekki komi til stöðvunar hjá fóðurstöðvum eða einstökum bændum meðan þessar tillögur verða unnar.``

    Hér voru vissulega gefin skýr fyrirheit. Lánasjóðum og viðskiptaaðilum loðdýrabænda var tilkynnt og um það gert samkomulag að allri aðför að þeim skyldi frestað þar til búið væri að afgreiða málið á Alþingi og fá niðurstöður í viðskipti þessara aðila.
    Í 6. lið segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Staða málsins verði kynnt fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna.`` Um það var
tekin ákvörðun 19. júlí sl. En fyrir þremur eða fjórum dögum barst væntanlega öllum alþm. skýrsla um þessi mál og hafði það tekið sem sagt þennan tíma frá 19. júlí þar til núna fram undir mánaðamótin nóvember--desember að kynna stjórnarandstöðunni þessi mál, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hefði gert um að samþykkt. Svo segir enn fremur hér í 7. og síðasta lið, með leyfi forseta: ,,Allri þessari vinnu verði hraðað sem frekast er kostur.``
    Menn geta reyndar lagt mat á það hvort þessi tími er langur eða skammur en miðað við aðstæðurnar í þessari grein og þar sem núna fer fram förgun þessara dýra hlýtur að vera ljóst að hér eru menn sannarlega komnir á elleftu stundu. Síðan hefur það gerst á grundvelli þessara yfirlýsinga, sem m.a. felast í tilkynningum frá ríkisstjórninni og væntanlega þeirri skýrslu sem fyrir liggur um afkomu loðdýrabænda og ég mun nú víkja hér að á eftir, að fram kemur frv. um þetta efni.
    Ég vil segja það strax að þetta frv. hlýtur að valda miklum vonbrigðum sem raunar er staðfest. Aðalfundur Félags ísl. loðdýraframleiðenda ályktaði um málið. Það er ekki ástæða til þess að tefja umræðuna með því að lesa þá ályktun sem er í þremur liðum en þar kemur skýrlega fram að aðalfundurinn telur þessar aðgerðir ófullnægjandi og að þær valda fundarmönnum greinilega miklum vonbrigðum. Ég vek athygli á að fleiri aðilar hafa fjallað með sama hætti um málið. Ég get t.d. nefnt í þeim efnum stjórn Stéttarsambands bænda sem komst að sömu niðurstöðu. Þessir aðilar, sem eru að sjálfsögðu kunnugir þessari grein, hafa m.a. verið þátttakendur í henni og eru og skilja því og vita flestum öðrum betur hvar skórinn kreppir, hafa tekið af öll tvímæli um hvað hér er um ófullkomna aðgerð að ræða. Ég mun e.t.v. síðar minnast fáum
orðum á efni frv.
    Ég gat þess hér fyrr í ræðu minni að nýlega hefði alþm. borist skýrsla um úttekt á stöðu loðdýraræktarinnar. Og ég verð að segja það eins og er að ég man ekki eftir því að ég hafi farið yfir skýrslu tengda landbúnaði sem hefur verið betur rökstudd og unnin. Það er mikil ástæða til að vekja athygli á því hverjir eru höfundar þessarar skýrslu. Formaður fyrir þeirri nefnd var Magnús B. Jónsson, fyrrum skólastjóri á Hvanneyri, sem er trúlega sá maður sem hefur mesta reynslu og besta þekkingu á loðdýrabúskap. Aðrir nefndarmenn voru fulltrúi Þjóðhagsstofnunar, Eyjólfur Sverrisson, og fulltrúi Byggðastofnunar, Guðmundur Guðmundsson. Hér er þess vegna ekki um að ræða að sérstakur landbúnaðarhópur hafi fjallað um þessi mál, heldur

fulltrúar frá bæði Þjóðhagsstofnun og Byggðastofnun. Þetta er mjög sannfærandi fyrir þær niðurstöður og þá framsetningu sem hér er lýst.
    Það er svo annað mál að niðurstöðunni svipar nokkuð til þess sem fram hefur komið í öðrum skýrslum eða álitum sem hafa verið meira samansettar af þeim sem tengdari eru landbúnaðinum, eru meira landbúnaðarlega sinnaðir, en þeir heiðursmenn sem hér eiga hlut að máli. Þess vegna hefði maður getað álitið að niðurstöður úr þessari skýrslu og ábendingar yrðu býsna góður grunnur að tillögugerð í þessum efnum. Auk þess hafa þingmenn stjórnarliðsins að sjálfsögðu fylgst með málinu.
    Það sem mesta athygli vekur þegar ég fletti þessari skýrslu er hvernig markaðsaðstæður eru að breytast. Það er athyglisvert að því er varðar mink og ref er áætlað að á næsta ári verði framleiðslan, skinnaframleiðslan, minni en salan var á þessu ári. En það sem hefur einmitt gerst er að framleiðslan undanfarin tvö ár í minkaræktinni og þrjú ár í refaræktinni hefur verið verulega mikið meiri en salan. Og ef litið er til áætlaðrar framleiðslu refaskinna á næsta ári þarf að fara allt aftur til ársins 1981 til að finna sambærilega, raunar aðeins lægri tölu. Öll ár síðan hefur framleiðslan verið meiri en áætlað er að hún verði á næsta ári.
    Þetta gefur það til kynna, eins og kemur hér fram í skýrslunni, að því offramboði sem hefur verið á þessari vöru á heimsmarkaðnum sé nú senn að linna. Það breytir hins vegar ekki því að hefur áhrif á markaðinn. Ég vil vekja athygli á því, svo það valdi ekki misskilningi, að um það er skýrlega talað í þessari skýrslu, áhrif veðurfars, efnahags og annarra þeirra þátta sem hér eiga hlut að máli og valda nokkru um með hvaða hætti markaðurinn þróast. Það er líka afar eftirtektarvert að sjá hvernig verðlagið hefur breyst með aukinni framleiðslu og allt er þetta sýnt með mjög skýrum hætti.
    Þá er í skýrslunni gerð nákvæm grein fyrir samkeppnisstöðu íslenskrar loðdýraræktar. Ég verð nú að segja eins og er að það kom mér á óvart hvað hlutur íslenskra bænda í þeim efnum er góður. Reyndar er það svo að í flestum tilvikum hafa horfið til þessarar framleiðslu menn sem hafa reynslu á öðrum sviðum í meðferð búfjár og er það ein skýringin. Það er líka eftirtektarvert að ýmsar ytri aðstæður hér á landi eru ákjósanlegri en t.d. á Norðurlöndunum. Þannig er t.d. fóðurverð lægra hér en á hinum Norðurlöndunum og kemur það m.a. til af ódýrara hráefni. Og þetta gerist þrátt fyrir að þessi grein býr við meiri fjármagnskostnað hér en gerist í þeim löndum.
    Það er eftirtektarvert að Ísland er þannig með þó nokkuð lægri framleiðslukostnað en í hinum Norðurlöndunum, en hins vegar fæst hér minna fyrir skinnin sem sýnir að enn hafa menn ekki ræktað þennan bústofn eins vel og annars staðar gerist. Vera má að inn í þetta blandist líka að eins og ástandið hefur verið þá hefur viðleitni manna til þess að keppa hér til hæstu verðmæta ekki verið eins rík og verið

hefði ef um betri og traustari markað hefði verið að ræða.
    Það er að sjálfsögðu margt fleira sem kemur fram í þessari skýrslu, m.a. nákvæm úttekt á því hvar tjónið muni lenda ef þessi búgrein hrynur. Það er eftirtektarvert að fari svo að loðdýraræktin geti ekki haldið hér áfram starfsemi sinni muni t.d. Stofnlánadeild landbúnaðarins tapa 1,1--1,2 milljörðum kr. Það eru þannig ýmsir fleiri aðilar en bara bændur landsins, en bara þær fjölskyldur sem eiga hér lífsframfæri, sem eiga mikið undir því að þessi grein geti haldið áfram og eflst á nýjan leik m.a. til þess að standa skil á þeim skuldbindingum sem hún er nú í.
    Niðurstöður nefndarinnar eru einkar skýrar og skýrt fram settar. Er það að sjálfsögðu það langmikilvægasta við þá vinnu sem hér hefur verið lögð fram hvað niðurstöðurnar eru skýrar og hvað þær byggja á traustum grunni miðað við það sem hægt er að tala um í þessu sambandi. Það fer ekki fram hjá neinum sem fer yfir þessa skýrslu að aflað hefur verið mjög víðtækra upplýsinga bæði erlendis og hérlendis og á því byggir niðurstaðan. Það er einkum í þremur greinum sem nefndin leggur til að ráðist verði til atlögu við þennan vanda.
    Það er í fyrsta lagi rekstrarstyrkur vegna framleiðslu áranna 1990--1991. Settir eru fram útreikningar um hvað hann þurfi að verða mikill til þess að endar nái saman. Það vill nú svo til að komnar eru um þetta betri upplýsingar. Eins og hæstv. landbrh. vitnaði til hefur verið gerð skyndikönnun á því hvað
það eru margir loðdýrabændur sem eru tilbúnir að halda baráttunni áfram. Samkvæmt því má ætla að loðdýrabændum fækki, þó reyndar miðað við það að tilsettar aðgerðir verði gerðar, úr 206 niður í 162 og liggur þá enn fremur fyrir hver bústofninn er þannig að það ætti ekki að valda neinum vandræðum að komast að niðurstöðu í þeim efnum. Er það reyndar enn eitt atriði sem vekur mikla eftirtekt hvað þessar tölur eru samhljóða því sem kemur fram í skýrslunni og reyndar í samræmi við það sem Magnús B. Jónsson, fyrrum skólastjóri, upplýsti á fundi hjá landbn. Ed.
    Önnur ábendingin er skuldbreyting á lausaskuldum. Sú fyrsta sem ég hef getið hér um, þ.e. rekstrarstyrkurinn, er sú leið sem valin er til þess að finna grundvöll fyrir þessum rekstri. Og númer tvö er svo að skuldbreyta sem að sjálfsögðu er nauðsynlegt til að koma þessum málum í betra horf. Og í þriðja lagi er það frestun á afborgunum langtímalána. Þetta er allt saman afar vel rökstutt og ég sé ekki sérstaka ástæðu til að fara ofan í þessi efni í einstökum atriðum með því að mér er það fullkomlega ljóst að það verður gert við yfirferð málsins í landbn. Ed. Alþingis og þá verður að sjálfsögðu hægt að fjalla um það með nákvæmari hætti en ástæða er til að gera hér að þessu sinni.
    Það er þá spurningin hvers vegna það frv. sem hér hefur verið lagt fram er jafnófullkomið og raun ber vitni. Það minnir mig í mörgun greinum á umræðuna

sem fram hefur farið af hendi hæstv. landbrh. að undanförnu. Efni frv. er einvörðungu um ríkisábyrgð á tilteknum hluta lausaskulda og síðan kemur yfirlýsing frá ríkisstjórninni. Ég fæ ekki séð til hvers verið er að leggja fram þetta frv. Ríkisábyrgðina sem hér er sérstaklega fjallað um hefði að sjálfsögðu bæði verið hægt að fella inn í lánsfjárlög og líka 6. gr. fjárlaga alveg eins og ríkisstjórnin er að gera bókun um að það eigi að útvega fjármagn til þess að greiða niður fóður með fjárveitingu, trúlega af fjárlögum. Ég fæ þannig ekki séð hvers vegna hæstv. landbrh. er að flytja þetta frv.
    Það hefði haft og hefur grundvallarþýðingu fyrir afstöðu þeirra bænda sem stunda þennan búskap hvernig málið verður afgreitt frá Alþingi. Ég er sannfærður um að menn munu ekki taka einhverjar yfirlýsingar í þeim efnum sem heilagan bókstaf. Þar búa menn við reynslu a.m.k. frá 19. júlí og ég er alveg sannfærður um það að á slíka hluti treysta menn ekki. Það er þess vegna alveg augljóst mál að ef afgreiða á þetta mál með sannfærandi hætti, þá verður að gera á þessu frv. miklar breytingar og hafa það svo skýrt að það fólk sem hér á hlut að máli viti hvers það má vænta þannig að það geti tekið sínar ákvarðanir út frá því.
    Þá er það spurningin: Fyrir hverju eru menn að berjast hér? Hvers vegna láta menn ekki þessa búgrein fjúka eins og reyndar sumir vilja? Það er hárrétt sem kom hér fram í ræðu hæstv. landbrh. að í rauninni var loðdýrabúskapurinn sá þáttur sem menn horfðu helst til, jafnvel einvörðungu um það leyti sem teknar voru ákvarðanir um það að breyta búskaparháttum í landinu. Við stöndum núna frammi fyrir því að umfram innanlandsneyslu í kindakjöti er framleiðslan væntanlega eitthvað yfir 2000 tonn. Við stöndum frammi fyrir því að framleiðsluréttur hefur verið á útleigu sem getur hæglega komið inn í þessa framleiðslu að tveim árum liðnum. Við stöndum frammi fyrir því að það hefur átt sér stað mikill niðurskurður á sauðfé vegna útrýmingar á riðuveiki sem auðvitað dregur tímabundið úr kindakjötsframleiðslunni en kemur inn síðar. Allt eru þetta staðreyndir. Og menn verða auðvitað að horfa á þetta mál í samhengi við það sem er að gerast í landbúnaðinum að öðru leyti.
    Það er líka eftirtektarvert hve mikill áhugi er fyrir þessari búgrein og hvað trú bænda er mikil á henni. Mér hefur t.d. verið sagt frá því að öll námskeið sem haldin eru á bændaskólunum eru yfirfull þegar fjallað er um þessi mál. Skólastjórinn á Hvanneyri hefur sagt mér að sumt fólk komi aftur og aftur. Dæmi eru til þess að sama fólkið hefur sótt þessi námskeið fjórum eða jafnvel fimm sinnum. Og með mörgum hætti er hægt að færa rök fyrir því að áhuginn er býsna mikill á þessari grein þótt svona hafi blásið á móti.
    Það er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, fari svo að loðdýraræktin sé látin fjúka, að taka afstöðu til þess hvernig menn ætla að vinna sig út úr vandanum í sauðfjárræktinni því að það vill svo til að margir þeir bændur sem hér er um að ræða eiga

framleiðsluréttindi í sauðfjárrækt. Og þegar hæstv. landbrh. ávarpaði aðalfund Sambands ísl. loðdýrabænda þá tók hann það sérstaklega fram og hvatti menn til þess að sitja áfram á jörðunum og nota byggingarnar til einhverrar framleiðslu er hentaði. Það verður ekkert skilið öðruvísi en að framleiðsluréttindum, sem þessir menn eiga, verði komið fyrir í þessum húsakosti. Og eins og ég sagði hér í upphafi, þá er hér um að ræða mál sem er mjög siðferðislegs eðlis. Menn hafa verið hvattir til þess að breyta sínum búskaparháttum á grundvelli þeirra raka sem ég hef tilgreint og það voru ekki hafðir fyrirvarar á því að það gæti komið til verðfalls á þeirri framleiðslu sem hér var sérstaklega um að ræða.
    Ég minnist þess t.d. þegar ég fór nýlega yfir þessi mál afar varlega að þá var hægt að finna góð rök fyrir því að með því að byggja upp 400--500 loðdýrabú --- við höfum nú verið með hálfa þá tölu þrátt fyrir allar þessar
hörmungar --- væri hægt að koma þar fyrir framleiðslu sem samsvaraði þeirri kindakjötsframleiðslu sem við þurftum að losna við. Og einmitt með því væri hægt að breyta útflutningi í framleiðslu, útflutningi sem við höfum haft í dilkakjöti í framleiðslu sem gæti skilað miklu betra verði. Allt eru þetta staðreyndir sem áttu fyllilega við rök að styðjast á þeim árum sem þessar ákvarðanir voru teknar.
    Virðulegi forseti. Ég hef aðstöðu til þess að fjalla um þetta mál í landbn. Ed. og þess vegna þarf ég ekki að tala hér mikið lengur. En með tilliti til ýmissa annarra aðgerða í þjóðfélaginu, þá er út af fyrir sig vert að minna á það að hlutur þessara loðdýrabænda er ekkert sérstaklega góður. Við höfum t.d. nýlega fengið tölur inn á borð hjá okkur sem sýna að greiðslur vegna ríkisábyrgða á laun sem koma til vegna gjaldþrota í fyrirtækjum munu verða um 270 millj. kr. á þessu ári og hafa þrefaldast á einu ári. Og ég segi: Hamingjunni sé lof fyrir að slíkur réttur skuli vera til staðar fyrir það fólk sem lendir í því að missa atvinnu sína og lífsviðurværi í gjaldþrotum. Og það er ætlað að á þessu ári muni atvinnuleysistryggingar hækka, þrefaldast, verða einhvers staðar nálægt einum milljarði og stóraukast á næsta ári. Inn í þessi réttindi geta loðdýrabændur ekki sótt. Þeir eiga engin slík réttindi. Sem betur fer eiga það aðrir sem þetta bitnar á. Ég vil minna á að þó að farið sé fram á nokkrar fjárupphæðir til stuðnings við loðdýrabændur þá eru þær meira að segja lægri en það sem hæstv. landbrh. tók af sauðfjárbændum á sl. hausti í samkomulagi við Stéttarsamband bænda. Þar var kippt út úr verðlagsgrundvellinum 160 millj. kr. Liðlega 60 millj. af því fjármagni á ekki að skila bændum aftur, en afganginum á að skila vaxtalausum í janúar og apríl. Það væri nú engin ofrausn þó að loðdýrabændur fái ámóta greiðslu og af sauðfjárbændum var tekin við verðlagningu sauðfjárafurða á sl. hausti.
    Það er líka býsna eftirtektarvert að þær fyrstu fréttir sem ég hef fengið um afkomu sauðfjárbænda á þessu ári eru með þeim hætti að þeir hafa sannarlega

ekki verið aflögufærir. Ég hygg að sauðfjárbændur eigi núna í meiri þrengingum efnahagslega heldur en verið hefur um margra ára skeið. Samt sem áður láta menn sig hafa það að taka af sauðfjárbændum um 160 millj. eins og ég hef áður sagt þannig að þegar litið er til þeirra aðgerða sem menn hafa verið að grípa til á þessu hausti gagnvart bændum landsins, reyndar bæði sauðfjárbændum og kúabændum, þá er ekki verið að fara hér fram á neitt hærri tölur en nemur þeim skerðingum. Bændastéttin hefur þess vegna býsna góð rök fyrir því að hér verði gengið til liðs við loðdýrabændur af meiri myndarskap en raun ber vitni um.
    Það er fyllilega ástæða til að minna á það, með tilliti til þeirrar umræðu sem hefur verið um Stofnlánadeild landbúnaðarins og aðild hennar að hugsanlegum aðgerðum í þessum efnum, að þá er trúlega rúmur 1 / 4 hluti af varasjóði Stofnlánadeildarinnar, sem var í árslok 1988 liðlega 1,2 milljarðar kr., tilkominn vegna viðskipta við loðdýrabændur. Og það mundi nú duga til þess að rétta kúrsinn í þeim viðskiptum ef sú hlutdeild varasjóðsins gengi yfir til þessarar greinar í þeirri endurskipulagningu sem hér hlýtur nú að fara fram.
    Það er afar mikilvægt fyrir framgang þessa máls að vel takist til við störf landbn. Ed. og ekki efa ég að það geti orðið góð vinnubrögð þar og kannski líka samkomulag. Enda eru fyrir því fordæmi frá sl. vetri þar sem landbn. beggja deilda höfðu forustu um samkomulag, ekki einungis milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur líka ... (Gripið fram í.) Búfjárræktarlögin voru þar. ( SkA: Búfjárræktarlögin? Það held ég ekki.) ( KP: Nei.) (Gripið fram í.) Þau voru reyndar þar líka. ( EG: Hv. þm. er farið að förlast.) Það væri ekki neitt einkennilegt miðað við það að vera í svona mikilli nálægð við hv. 3. þm. Vesturl. Ég held að það komist fáir menn óskemmdir út úr þeirri návist.
    Það er svo annað mál að þrátt fyrir það samkomulag sem þá var gert og yfirlýsingar gefnar um sem ég hef m.a. farið yfir, þá hefur bara ekki verið staðið við það í nokkru einasta tilviki. Ekki í nokkru einasta tilviki. Og mér sýnist á ýmsu að það eigi ekki að gera það frekar nú við þessa fjárlagaafgreiðslu en áður. Mér sýnist að við fjárlagagerð verði heldur ekki tekið tillit til þessa samkomulags og ætli það séu ekki í uppsiglingu ákvarðanir um að koma inn í lánsfjárlög sams konar ákvæðum og verið hafa um skerðingu á framlögum til landbúnaðarins. Það kæmi mér ekki mjög á óvart. Þannig að það getur út af fyrir sig verið ágætt að gera samkomulag og komast að sameiginlegri niðurstöðu sem allir alþingismenn styðja en virða það svo ekki að neinu þegar búið er að undirskrifa lögin. Þessi sára reynsla hlýtur náttúrlega að verða
höfð til hliðsjónar við afgreiðslu þessa máls í landbn. Ed. Nú sé ég að hv. formaður landbn. hristir höfuðið og veit ég ekki hvað það á að merkja, en á því fást nú skýringar væntanlega síðar.
    Ég endurtek svo, virðulegi forseti, að vegna þess

að mér gefst tími til þess að fjalla um þetta mál í meðferð þingsins, þá sé ég ekki ástæðu til að fara ítarlegar yfir það hér núna. Þar hef ég kost á að koma sjónarmiðum mínum skýrar á framfæri.