Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Fyrst vildi ég geta þess að það var ekki alveg rétt sem fram kom í máli hæstv. landbrh. áðan að allir hefðu orðið vitrir eftir á í þessu máli. Vil ég í því sambandi benda á lög sem sett voru um loðdýrarækt árið 1981. Þar voru ýmsir þingmenn sem höfðu efasemdir þó að þeir styddu lagasetninguna. Þeir vöruðu við að of geyst yrði farið í þessa nýju atvinnuuppbyggingu. Þeir höfðu ýmsar efasemdir og nefndu fiskeldið sem dæmi um atvinnugrein sem var verið að fara út í þá og þeim þótti hratt farið þar. Þess vegna vildi ég benda á þetta hér í upphafi máls míns, en hæstv. landbrh. sagðist líka ekki ætla að tefja umræðuna með því að fjalla um greinina yfirleitt eða þá sögu sem hún á að baki. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að við lítum aðeins yfir farinn veg.
    Á þessum áratug, þ.e. frá 1980 og núna til 1989, hefur farið töluvert fyrir umræðu um málefni loðdýraræktarinnar bæði í þjóðfélaginu og hér á Alþingi og ekki síst fyrir það að e.t.v. hefði átt að hlusta á varnaðarorð þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðunni hér 1981. Þegar þau lög voru sett voru starfandi í landinu fimm minkabú og átta refabú, en vegna samdráttar í landbúnaði jókst um þær mundir áhugi manna á að reyna fyrir sér í öðrum búgreinum og eins og hér hefur komið fram í umræðunni var það reyndar ekki síst fyrir tilstilli stjórnvalda og hvatningu af þeirra hálfu að bændur voru reiðubúnir til að taka loðdýraræktina upp sem aukabúgrein. Þeir ýmist leigðu eða seldu búmark sitt og síðar fullvirðisrétt en aðrir lögðu hefðbundinn búskap alveg af. Sú spurning kemur því auðvitað upp, eins og heyrst hefur frá fundi Sambands íslenskra loðdýraræktenda: Hver er réttarstaða þeirra sem hafa selt fullvirðisrétt sinn í þeirri stöðu sem nú er upp komin?
    Eins og ég minntist á í upphafi þá fór hér fram töluverð umræða þar sem komu fram glæstar vonir um bjarta framtíð varðandi þessa búgrein, en eins og svo oft áður gleymdist að huga að framtíðarsýninni. Ég held að það sé ekki vanþörf á að rifja það upp hér vegna þess að hv. þm. sitja mislengi á þinginu, sumir sitja mjög lengi, allt upp í 20--30 ár og hafa þess vegna tekið mikinn þátt í að móta stefnuna í langan tíma og það er rétt sem fram kom hjá hæstv. landbrh. rétt í þessu að e.t.v. sitja sumir of lengi. Það hefur oft borið á góma hér að Framsfl. hefur átt aðild að ríkisstjórn í næstum því tvo áratugi og gjarnan verið í forustu fyrir ríkisstjórnum á þessu tímabili þannig að ábyrgð þess stjórnmálaflokks hlýtur auðvitað að vera nokkur í þessu máli.
    En það sem ég vildi líka minnast á, og það snertir einnig það atriði að vera vitur eftir á, er að þegar farið var út í loðdýrarækt var ekki gerð nein krafa um kunnáttu eða þekkingu fólks á greininni. Eina skilyrðið var það að fólk væri að leggja af hefðbundinn búskap. Vil ég taka fram að kvennalistakonur vöruðu við því á sínum tíma og fjölluðu um það þegar rædd var hér á Alþingi till. til

þál. um annað mál sem snertir loðdýraræktina. Það hvernig staðið var að málum í upphafi hefur að mínu mati orðið okkur afar dýrkeypt. En eins og allir vita og hefur komið fram hér hefur orðið gjörbreyting til batnaðar hvað þetta síðasta atriði varðar, þ.e. menntun og þekkingu. Fræðslustarfsemi og ráðgjöf hefur verið efld og loðdýrabændur hafa nýtt sér hana í stórum stíl og kunnátta og þekking þeirra hefur aukist og þar með hafa gæði skinnanna farið batnandi. Eftir sem áður ætti það að vera stjórnvöldum víti til varnaðar, og ég vil leggja áherslu á það, að leggja ekki út í slíka uppbyggingu án þess að huga fyrst að þeim kröfum sem þarf að uppfylla og með hvaða hætti best verður staðið að nýjum atvinnugreinum í landinu.
    Ég vil einnig benda á að árið 1985 voru sett lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og í grg. með því frv. er tekinn kafli úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem þá var við völd og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nýjar búgreinar svo sem loðdýrarækt, fiskeldi og fleira verði efldar og stærri hluti fjárveitingar til landbúnaðar renni til þeirra.`` --- ( SkA: Hvaða ár var þetta?) Þetta var 1985 þegar búvörulögin voru sett.
    Svarið við spurningunni um það hvað nú á að gera hlýtur að mótast af því hvernig stjórnvöld hafa staðið við fyrirheit sín og hvernig hefur verið staðið að þessari nýju búgrein. Eins og aðrir atvinnurekendur hafa loðdýrabændur búið við vonlaus rekstrarskilyrði síðustu árin, rangt skráð gengi og himinháa vexti. Það segir sig auðvitað sjálft hversu erfitt hlýtur að vera að standa í uppbyggingu, þurfa að leggja í stofnkostnað og hefja rekstur við slík skilyrði. Ég vil leggja áherslu á að hér nær ábyrgðin yfir lengri tíma. Eins og þingheimur veit hefur núv. hæstv. landbrh. ekki setið í þeim stóli mörg ár. En ég vil undirstrika mikilvægi þess að menn finni til þeirrar ábyrgðar sem á þeim hlýtur að hvíla í þessu máli.
    Áður en ég lýk þessu sögulega yfirliti yfir þennan áratug vil ég minna á tvær till. til þál. sem samþykktar voru samhljóða hér á Alþingi og fjölluðu um loðdýraræktina. Það var á síðasta kjörtímabili og felur sú fyrri í sér áskorun á ríkisstjórnina, eins og þar segir orðrétt, með leyfi forseta, ,,að láta
fullvinna og hrinda í framkvæmd áætlun um skipulag loðdýraræktar með hliðsjón af hagkvæmni í fóðuröflun, bústærð og stofnkostnaði``. Þessi tillaga var samþykkt árið 1986 skömmu eftir að hefðbundinn búskapur hafði verið dreginn saman með skipulegum hætti og ég þykist þess fullviss að á þeim tíma hefði verið mun sársaukaminna að gera eitthvað slíkt með skipulegum hætti varðandi loðdýraræktina heldur en eins og málin líta út í dag.
    Síðari tillagan felur í sér áskorun til ríkisstjórnarinnar um að skipuð verði nefnd, eins og þar segir orðrétt, með leyfi forseta, ,,til þess að kanna og gera tillögur um með hvaða hætti megi best tryggja hag loðdýrabænda gegn verðsveiflum á loðskinnamörkuðum`` og var hún samþykkt árið 1987. Væri nú fróðlegt að heyra frá hæstv. landbrh., ef hann getur þá gefið upplýsingar um þessar tillögur, hvernig

þeim hefur verið fylgt eftir. Mér virðist ekkert í stöðunni nú benda til þess að farið hafi verið að þeim og væri gott að fá um það upplýsingar ef mögulegt er. Mér sýnist einnig að ef þeim hefði verið fylgt eftir hefði e.t.v. verið hægt að einhverju leyti að koma í veg fyrir þann vanda sem nú er uppi.
    Ég vil, eins og reyndar hv. fyrri ræðumaður gerði, 4. þm. Austurl., þakka fyrir þá ágætu skýrslu sem okkur hefur borist í hendur. Hún er unnin af vinnuhópi landbrh. undir forustu Magnúsar B. Jónssonar á Hvanneyri. Hún er mjög aðgengileg og sýnir skýrt og glögglega þá óáran sem loðdýrabændur hafa mátt búa við á heimsmarkaði ofan á þau vandamál sem við er að etja heima fyrir. Sveiflurnar í skinnaverðinu eru ótrúlegar á þessum örfáu árum, 1980--1989, og ég tel það í raun ótvírætt merki um þrautseigju loðdýrabænda og vilja til að reyna að halda áfram að þeir skuli svo margir sem raun ber vitni enn þá stunda þessa búgrein. Á síðustu tveim blaðsíðum skýrslunnar eru tillögur vinnuhópsins um aðgerðir vegna rekstrar- og greiðsluvanda loðdýraræktar og vekja þær nokkra undrun ef þær eru síðan bornar saman við frv. ríkisstjórnarinnar og ekki síst fyrir þá sök að fimm þingmenn, allir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, áttu þátt í störfum vinnuhópsins og því hljóta þetta að vera þeirra tillögur líka.
    Í skýrslu vinnuhópsins er lögð megináhersla á að aðgerðirnar séu almennar fyrir greinina en ekki er gert ráð fyrir sértækum aðgerðum í því skyni að leggja niður loðdýrarækt á ákveðnum svæðum eða landshlutum. Í frv. ríkisstjórnarinnar er hins vegar snúið af braut almennra aðgerða. Hverjum og einum bónda er ætlað að leggja inn umsókn og opinberum stofnunum falið að fjalla um mál þeirra. Langar mig í þessu sambandi að spyrja hæstv. landbrh. hvaða megingalla ríkisstjórnin sá við þá tillögu vinnuhópsins sem lúta að þessu atriði, þ.e. almennar aðgerðir eða sértækar.
    Varðandi 2. gr. frv. langaði mig líka að bera fram spurningu til hæstv. landbrh. Það er um niðurfellingu 40% höfuðstóls veðskulda fóðurstöðva og einstakra loðdýrabænda. Tel ég nauðsynlegt að fá staðfest hvort hér er átt við að 40% af skuldum allra loðdýrabænda verði afskrifaðar eða einungis þeirra sem lenda í nauðasamningum. Þá er auðvitað líka nauðsynlegt að ljóst sé hver á að ákveða þessa heimild.
    Síðan langaði mig aðeins að víkja að þessu gula blaði sem við fengum hér inn úr dyrunum rétt áðan og með tilliti til 1. liðarins í fskj. frá fundi ríkisstjórnarinnar 28. nóv. Þar er gert ráð fyrir 25 millj. kr. framlagi sem jöfnunargjald á loðdýrafóður, og þar segir í 2. mgr., með leyfi forseta:
    ,,Haldi það mörg loðdýrabú áfram rekstri að útgjöld verði meiri en 25 millj. kr. skal tekið á því sérstaklega og Byggðastofnun útvegað viðbótarfjármagn.``
    Það er auðvitað nauðsynlegt að vita hvaðan það fjármagn á að koma til Byggðastofnunar. Á fundi landbn. kom fram ótti forstjóra Byggðastofnunar um að hér yrði gengið á eigið fé stofnunarinnar.

Samkvæmt bókun ríkisstjórnarinnar stendur til að afgreiða jöfnunargjald eftir umsóknum og okkur hefur borist frumkönnun á því hversu margir ætla að halda áfram. Það verður svo væntanlega mat Byggðastofnunar hversu margir teljast til þess hæfir samkvæmt skilningi mínum á þessum texta, en þá er spurningin: Mun verða veitt fjármagn til allra þeirra sem geta haldið áfram ef bændur uppfylla þau skilyrði sem Byggðastofnun og landbrn. setja? Er hægt að treysta því að allir þeir sem samkvæmt þeirra forsendum geta haldið áfram geti það í raun?
    Þá vildi ég einnig spyrja um eitt atriði hér að lokum og það er einnig varðandi þær sértæku aðgerðir sem nú er gert ráð fyrir. Það mun væntanlega hafa í för með sér að loðdýrabú geta lagst af óskipulega ef farið verður eftir þeirra efnahag og skuldastöðu eingöngu. Mig langar til að spyrja hæstv. landbrh. hvort hann óttist ekki að við þær ráðstafanir verði margir bændur sem eru í þokkalegri stöðu að hætta vegna þess að allir í kringum þá neyðast til að hætta og þar með er brostinn grundvöllur fyrir rekstri fóðurstöðvar í því tiltekna héraði.
    Þar sem ég mun fá tækifæri til að fjalla nánar um þetta mál í landbn. þessarar hv. deildar ætla ég ekki að hafa um þetta mörg fleiri orð núna en vil enn og aftur minna á þá ábyrgð sem ég tel stjórnvöld bera gagnvart því fólki sem var att af ofurkappi út í þessa atvinnugrein og þeim fjötrum sem það fólk
og ættingjar þess og venslamenn eru komnir í vegna veðsetninga. Ég held að við verðum að horfa á málið í samhengi og átta okkur á því hvað það kostar ef allt þetta fólk hrökklast frá búum sínum og vinir og ættingjar missa húsnæði og allar sínar eignir. Hversu mikið kostar það þjóðfélagið?