Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Það er ekki óeðlilegt að umræður hafi spunnist um þetta mál. Það brennur mjög á í dag. Ég verð að byrja á því að segja að ég varð fyrir sárum vonbrigðum með ræðu hv. 3. þm. Vesturl. hér áðan og það er kannski fyrst og fremst þess vegna sem ég er kominn hér upp. Einnig verð ég að segja að það kom mér margt einkennilega á óvart í ræðu hv. 6. þm. Vesturl., fulltrúa Kvennalistans í þessu máli. Ég átti von á því að hjá báðum þessum hv. þm. mundi eitthvað vitrænt koma fram um það hvert við vildum fara í þessum málum, ekki þessi eilífi eltingaleikur um það að finna einhvern sökudólg. Við erum hér til þess að leita lausna á vandamáli. Við erum hér til þess, en ekki til þess að finna einhvern einn aðila eða helst flokk sem ber hér öðrum fremur ábyrgð á.
    Það var rétt sem hv. 6. þm. Vesturl. sagði að framsóknarmenn bentu á þessa atvinnugrein sem álitlegan atvinnukost vegna þess vanda sem var við að fást í hefðbundnum landbúnaði. ( Gripið fram í: Og er enn.) Og er enn því miður. Við biðjumst ekki afsökunar á því.
    Það er jafnfráleitt hjá þessum hv. þm. báðum að koma hér í þennan ræðustól og fullyrða að nánast allt sem gert hafi verið í þessari atvinnugrein hafi verið gert skipulagslaust og vitlaust. Röng fjárfesting alls staðar. Þessir ágætu þingmenn hefðu haft gott af því að kynna sér aðeins þessi mál áður en þeir fóru hér upp og ég tala nú ekki um ef svo vill til að þeir eiga báðir sæti í landbn., a.m.k. annar þeirra. Þá væri það nauðsynlegra vegna þess að málið er einmitt þar. Staðreyndin er sú að þetta mál var í upphafi mikið á hendi bæði Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Byggðastofnunar. Báðar þessar stofnanir höfðu mjög mikið um þessi mál að segja frá upphafi.
    Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að einn maður sem hefði komið til viðtals við landbn., ég skildi það svo að hann hefði þá setið fund landbn., hefði sagt það að fjárfestingin í Melrakka, fóðurstöðinni á Sauðárkróki eins og hann orðaði það nákvæmlega, væri glórulaus vitleysa. Nú veit ég ekki hvort þessi þingmaður á eftir að koma hér upp aftur og tala en skelfilega hefði ég gaman af því að fá að vita hvaða maður það var sem sagði þessa hluti.
    Veit hv. þm. hvernig ástandið var þegar þessi fóðurstöð var byggð? Veit hv. þm. það? Veit hv. þm. Eiður Guðnason það að fóðurstöðin Melrakki á Sauðárkróki er ekki aðeins byggð upp til þess að þjóna Skagafirði öllum? Hún er líka byggð upp til þess að þjóna Austur-Húnavatnssýslu, hún er líka byggð upp til þess að þjóna loðdýrabúskap í Vestur-Húnavatnssýslu og hún var líka byggð upp til þess að þjóna fóðurvöruframleiðslu fyrir hluta af Strandasýslu. Þannig hugsuðu loðdýrabændur á þessu stóra svæði sér að standa saman að því að byggja upp eina fóðurstöð í staðinn fyrir margar. Ef ég hefði litið austur fyrir Tröllaskaga og skyggnst um í Norðurlandskjördæmi eystra, þá held ég að ég muni

það rétt að á þessum tíma voru reknar fjórar fóðurstöðvar í því kjördæmi. Menn tala gjarnan um þessa einu fóðurstöð. Vissulega er það rétt að fóðurstöðin Melrakki á Sauðárkróki er dýrt mannvirki. Það er rétt. En hugmyndir manna voru miklar á þessum tíma um það að þessi atvinnugrein væri komin til þess að vera og ég get sagt það enn og aftur úr þessum ræðustól, ég hef sagt það áður hér í Alþingi, að ég trúi því að loðdýraræktin sé komin til að vera. Ég trúi því.
    Hv. þm. og raunar einnig hv. 6. þm. Vesturl. töluðu um þessa brjáluðu fjárfestingu í þessari atvinnugrein. Ég ætlast til þess að þessir ágætu þingmenn hafi kynnt sér það hver voru afkomuskilyrði þessarar atvinnugreinar þegar lagt var af stað. Hver voru afkomuskilyrði þessarar greinar þegar lagt var af stað? Rétt að taka eitt dæmi: Menn telja að meðalverð refaskinna í dag sé á bilinu 1500--1600 kr. En hvað ætli verðið hafi verið 1984--1985 þegar bændur fóru út í þessa starfsemi og menn voru að byggja fóðurstöðina Melrakka? 4500--5200 kr. skinnið. (Gripið fram í.) Hver halda menn að afkoman hefði verið í þessari atvinnugrein ef þetta verð hefði staðið eitthvað lengur?
    Við erum í þessari starfsemi ekki aðeins að keppa á heimsmarkaði í verði heldur á grjóthörðum tískumarkaði einnig, þannig að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þarna verður alla tíð um sveiflur að ræða. Við vorum hins vegar óheppnir. Við lentum í toppnum og fórum síðan niður. Auðvitað hefði verið ákjósanlegra ef það hefði verið öfugt. En ég vil trúa því, enda kemur það hér glögglega fram í skýrslu sem hv. 4. þm. Austurl. vék að í sinni ágætu ræðu hér áðan hverjar spár þeirra manna eru sem ítarlega hafa fjallað um þessi mál --- ekki til þess að koma einhverju höggi á pólitíska andstæðinga heldur til þess að reyna að leysa úr vandamáli sem við þingmenn stöndum frammi fyrir að reyna að leysa. Spár þessara manna eru hverjar? Þær eru að það eru meiri líkur á því að við séum búin að ná lægðinni og séum að fara upp á við. Þess vegna á ekki að hlaupa frá þessum vanda nú.
    Mér er líka spurn þegar menn eru að tala um stærðir á þessum fyrirtækjum, fóðurstöðvunum. Hvernig er ástandið hjá okkur í sjávarútveginum? Af því að þetta eru nú tveir hv. þm. Vesturl., gæti það ekki verið --- a.m.k. segir Kvennalistinn okkur gjarnan frá ferðum sínum um landið í sumar í góða veðrinu
--- gæti það verið að þær hafi einhvers staðar rekist á frystihús úti á landsbyggðinni í góða veðrinu í sumar sem væri of stórt miðað við það hráefni sem má draga úr sjó í dag? Eru þeir menn dregnir til ábyrgðar sem stóðu fyrir þeim fjárfestingum þá í þeirri góðu trú að menn gætu dregið meira sjávarfang úr sjó en nú er heimilt? Ég held að menn ættu að spara stóru orðin í þessu máli.
    Hv. 3. þm. Vesturl. benti einnig á það að þegar menn væru að biðja um aukið fjármagn til einhverra hluta þyrftu menn einnig að benda á tekjurnar. Þetta ætla ég að biðja hv. þm. að hafa mjög skýrt í huga

þegar við fjöllum um fjárlögin bráðlega. Það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur stjórnarþingmenn að gefa þessu gaum. Það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur stjórnarþingmenn, hv. þm. Eiður Guðnason, að gera okkur grein fyrir þessu og þarna er þín ábyrgð nokkru meiri en mín vegna þess að þú stýrir heilum þingflokki og það þarf vissulega að vanda sig við fjárlagagerðina þannig að menn detti ekki í það sama og þú ert að vara okkur við hér, í viðleitni okkar til að leiðrétta þann vanda sem við er að fást í þessari atvinnustarfsemi.
    En þegar þú biður um að við nefnum tölur á móti langar mig til að spyrja, og þá sem um þetta mál fjalla í landbn.: Hvað kostar það okkur að þessir menn, sem þá verða að hætta í loðdýrabúskap, sæktu að nýju þann rétt sem þeir hafa til framleiðslu í hefðbundinni búvöru sem þegar er nægilega mikið af í dag? Ef ég man rétt hafa verið seld eða leigð um 6300 ærgildi. Gæti það ekki verið rétt hjá mér, svona nokkurn veginn, hæstv. ráðherra? --- Það er rétt, já. Það væri fróðlegt að menn veltu því upp og reiknuðu það út hvað það kostaði ríkið ef þessir menn sæktu þennan rétt sinn. Það væri fróðlegt að fá það upp og vita hvar við stæðum þá í jöfnuðinum.
    Við skulum líka vera minnug þess að það er ekki bara um þennan rétt að ræða. Hvert er tap Stofnlánadeildar landbúnaðarins? Það kom hér fram að mig minnir í ágætri ræðu hv. 4. þm. Austurl. áðan að Stofnlánasjóður mundi tapa hvorki meira né minna en 1,1--1,2 milljörðum kr. Hvað ætli að Byggðastofnun muni tapa miklu? Hvað ætli að aðrir sjóðir muni tapa miklu? (Gripið fram í.) Og hvað halda svo menn að fjölskyldur, einstaklingarnir sem í þessu hafa verið og fjölskyldur þeirra muni tapa miklu fé? Eigum við ekki að biðja landbúnaðarnefndina að hugsa um þetta áður en hún afgreiðir málið á þann hátt sem lagt er til í því frv. sem hún er að fjalla um? Eigum við ekki að biðja nefndarmenn góðfúslega að skoða þetta áður en þeir gera það?
    Það kom upp í hug minn þegar menn voru að tala um þessa atvinnugrein að mér fannst ég kannast við hljóðið í hv. 3. þm. Vesturl. Það var eins og ég kannaðist við að við hefðum fyrir ekki mörgum dögum síðan verið að ræða um ákveðna atvinnustarfsemi hér á landi sem ætti í vanda og væri búin að eiga nokkuð lengi. Við vorum að ræða um það hér fyrir nokkrum árum, það hefur verið árvisst hér í þinginu að ræða vandamál þeirrar atvinnustarfsemi og hvernig hefur miðað? ( Gripið fram í: Er það í skipasmíðinni?) Já, það er í skipasmíðinni. Við þurfum einhvern tímann að klára þessa hluti sem við erum að fást við. Við þurfum að hjálpa mönnum til að komast eitthvað meira en á hnén. Nema það sé vilji manna að hafa menn alla tíð á hnjánum. Það er ekki að nínu skapi að svo sé gert.
    Menn mega ekki heldur sleppa því, og það kom fram í ræðu hv. 6. þm. Vesturl. áðan og einnig skýrlega fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann talaði hér áðan, sem við megum ekki gleyma þegar við tölum um kostnaðinn og hvernig komið er í þessari

atvinnugrein. Og hvað er það, hvað skyldi það vega þungt? Það verður gaman að vita hvernig landbúnaðarnefndin skoðar það. Það er fjármagnskostnaðurinn og röng gengisskráning. Var það nú bændunum að kenna sem voru í þessari atvinnustarfsemi? Var það bændunum að kenna? Nei, en þeir eiga að gjalda þess. Ég segi nei, þeir eiga ekki að gjalda þess. Þetta voru stjórnvaldsaðgerðir sem þeir gátu ekki varast.
    Þekkinguna hefur skort í þessari atvinnustarfsemi, sagði hv.
6. þm. Vesturl. (Gripið fram í.) Við gætum átt orðastað um það hvort þekkinguna hafi skort. Vissulega er það að nokkru leyti rétt. Þó komu hér menn til starfa sem voru búnir að vera við nám erlendis og hófu störf hjá ákveðnum búum í þessari atvinnugrein. Ég verð að segja að ég er undrandi á því hvað íslenskir bændur hafa náð langt í þessari atvinnugrein á stuttum tíma og miðað við þær leiðbeiningar sem þeir hafa fengið. Ég tel að hér hafi vel miðað. Staðreyndin í málinu er að meðalverð skinna frá Íslandi er svipað og samkeppnislanda. Þó að á síðustu uppboðum hafi eitthvað hallað á okkur þá eru vissar ástæður til þess. Þær eru fyrst og fremst mikil fjölgun í greininni og að mönnum varð það á að selja og þá jafnframt að kaupa of léleg lífdýr. Eftirlitið var ekki nægilega gott. En staðreyndin er þessi: Við eigum stofn, fyllilega samkeppnishæfan við það sem gerist hjá okkar samkeppnisaðilum. Við eigum líka mjög frjósaman stofn og við eigum annað sem er kannski dýrmætast af öllu og við ættum að hugleiða áður en stofninn er skorinn niður, við erum með ósýktan stofn. Þannig að menn skulu því fara með gát í þessu máli.
    Ég skal nú stytta mál mitt, virðulegur forseti, í þetta sinn, en ég kem hér
sjálfsagt upp aftur til þess að ræða þetta, því hér er um mjög brýnt mál að ræða.
    Nú liggur fyrir ásetningur manna á lífdýrum, það hefur verið unnið mjög rösklega að því og ber að þakka að upplýsingar eru komnar upp á borðið og þess vegna er hægt að taka mjög heilstætt á þessu máli og skipulagslega. Ég vil líka að menn horfi til þess sem segir í títt nefndri skýrslu sem hér hefur verið vitnað til, hverjar séu spár þeirra manna sem kvaddir voru til að vinna í þessu máli um horfur í greininni. Það liggur skýrt fyrir. Ég sé að hv. 5. þm. Reykv., formaður fjh.- og viðskn. --- þetta er nú ekki í fjh.- og viðskn., þetta er í landbn., en hann kemur hér skyndilega inn í umræðurnar og bendir niður. Við verðum að sjá til þess að formanni fjh.- og viðskn. verði send þessi skýrsla. Ég vildi mælast til þess við hv. formann landbn. deildarinnar að formanni fjh.- og viðskn. verði send þessi skýrsla. Ég held að það væri gott fyrir fjh.- og viðskn. að hún hefði skýrsluna hjá sér.
    Mín lokaorð eru þessi: Ég ber það mikið traust til þeirra aðila sem sitja í landbn. þessarar deildar að ég trúi því að þeir lagi það frv. sem hér liggur fyrir. Ég hef trú á því að það sé meirihlutavilji Alþingis

( Gripið fram í: Já, já.) að frv. verði lagað og að það komi aukið fjármagn og að það liggi alveg ljóst fyrir hvaðan það fjármagn á að koma sem menn eru að gefa í skyn að hugsanlega þurfi til viðbótar. Ég beini því mjög til landbn. að við þingmenn fáum það fram og ég trúi því að þið reynið að ná samstöðu um slíkt, að það liggi fyrir hversu mikið fjármagn þarf í greinina til viðbótar og hvaðan og hvernig það kemur til greinarinnar.