Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um afstöðu mína til þessa máls og ég skal reyna að gera það í stuttu máli. Þá ætla ég að koma fyrst að ræðu hv. 3. þm. Vesturl. áðan. Hún olli mér verulegum vonbrigðum. Ekki síst tilefnislausar árásir á hv. 4. þm. Austurl. sem þar komu fram. Ég efast ekkert um góðan vilja hv. 4. þm. Austurl. Egils Jónssonar í þessu máli, þó svo að ég hafi verið farinn að óttast um tíma að hann ætlaði að viðhafa málþóf í málinu en ég veit nú að var ekki.
    Varðandi ræðu hv. 3. þm. Vesturl. var ég líka mjög hissa þegar hv. 2. þm. Norðurl. e. ýjaði að því í stefnuræðu sinni sem hann flutti hér áðan og kom víða við, allt frá fiskeldi og upp í EFTA-EB, að til væru bændur sem hugsanlega mundu kjósa Alþfl. Aldrei hefur mér dottið það í hug.
    En örfáir punktar um það hvernig málið horfir við mér.
     1. Ekkert bendir til annars en að loðdýrarækt verði áfram öflug atvinnugrein í heiminum.
     2. Við munum búa við verðsveiflur á heimsmarkaði. Eins og það horfir við mér eftir að hafa lesið loðdýraskýrsluna, þá er líklegt að það séu 1--2 ár þangað til verð fer hækkandi á loðdýraskinnum, 2--3 þangað til það fer hækkandi á minkaskinnum.
     3. Í títt nefndri skýrslu loðdýranefndar kemur fram að íslenskir bændur eru að verða fullkomlega í stakk búnir til að keppa við samkeppnisaðila í öðrum löndum, jafnvel þó borið sé saman við Dani sem standa hvað fremst í heiminum í dag.
     4. Það er að mínu mati ódýrara að fleyta loðdýraræktinni yfir verðfallið núna en að kasta á glæ þeirri fjárfestingu í mannvirkjum --- mannvirkin standa að vísu áfram --- en miklu frekar þeirri fjárfestingu í þekkingu og reynslu sem búið er að leggja út í.
     5. Forsaga málsins er slík að bændur voru mjög hvattir til þess að fara út í loðdýrarækt, ekki síst af stjórnvöldum, reyndar af öðrum aðilum líka. Þessi forsaga gerir það að verkum að stjórnvöld bera hér verulega ábyrgð sem þau geta ekki vikist undan.
    Ég ætla að nefna til viðbótar að þetta kemur upp á einhverju viðkvæmasta skeiði í byggðaþróun þessa lands, kannski frá því að við hurfum frá sjálfsþurftarbúskap yfir í tæknivætt þjóðfélag. Ég vil segja í framhaldi af þessu að ég treysti því, þó svo ég geti tekið undir það sem ræðumenn hafa sagt hér á undan að ég varð fyrir vissum vonbrigðum með það hvernig þetta mál bar fyrir okkur, en ég treysti því að landbn. Ed. muni ná saman til þess að við getum unnið okkur út úr þessu máli og fundið á því lausn sem verður viðunandi fyrir alla aðila út frá þeim punktum sem ég nefndi hér áðan.
    Ég vil sérstaklega nefna varðandi þetta að ég held að við verðum að fá breytingu á greinina um Stofnlánadeildina þar sem verði kveðið ákveðnara á. Eins og hún er núna hljóðar hún þannig að

Stofnlánadeildinni beri að grípa til annarra aðgerða, þar á meðal bjóða upp eigur manna, ef hún telji að hagsmunum sínum sé betur borgið þannig en með niðurfellingu á hluta af skuldum.
    Ég ætla einnig að víkja að bókun ríkisstjórnarinnar og ég tek undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v. að það verður að fá það á hreint hvernig menn ætla að fjármagna þær viðbótargreiðslur sem þar eru tilteknar. Sú könnun sem kom upp á borð til okkar nú rétt áðan um hug loðdýrabænda til áframhaldandi reksturs bendir til þess að það muni verða nokkuð stór hluti þeirra sem heldur áfram rekstri. Ég held að vísu að hann verði ekki eins stór og þar kemur fram og að ekki muni þurfa 80 millj. Ég held að það fjármagn sem við þurfum í fóðurniðurgreiðslurnar sé líklega í kringum 60 millj. á næsta ári. Og við getum ekki horfið svo frá þessu máli að við sjáum ekki fyrir endann á því hvernig við leysum það.