Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Aðeins smá viðbót í þær umræður sem hér hafa farið fram. Mér finnst nú reyndar sjálfri eins og ég hafi staðið hér og talað, hv. þingmenn hafi hlustað en ekki heyrt það sem ég sagði hér áðan. Því ætla ég aðallega að leiðrétta ýmislegt af því sem fram kom í máli hv. 3. þm. Norðurl. v.
    Fyrst vil ég víkja að því sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan þegar hann minntist á þá sem hefðu skrifað upp á lán og víxla fyrir loðdýrabændur. Auðvitað hafa ættingjar og vinir skrifa upp á fyrir fólk vegna ýmissa annarra skulda. En ég vil benda á að einmitt vegna ákvarðana stjórnvalda hafa loðdýrabændur ekki getað gert áætlanir sem standast. Þeir hafa orðið að sæta fastgengisstefnu og okurvöxtum einmitt á þeim tíma sem þeir voru að byggja upp loðdýraræktina í landinu. Þá grípa stjórnvöld til þessara aðgerða sem setja mjög stórt strik í þeirra reikninga. Þetta kom reyndar einnig fram í máli hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Hann minntist á þessi sömu atriði hér áðan í máli sínu varðandi rekstrarskilyrði loðdýraræktarinnar. Ég minntist á það og undirstrikaði í máli mínu að einmitt um sömu mundir og loðdýrabændur eru að reisa bú sín og þurfa að leggja fram gífurlegt fjármagn í stofnkostnað búa þeir við þessi rekstrarskilyrði. Það er ekki síst þess vegna sem þetta fólk lendir í vandræðum núna og um leið þeir sem hafa lánað því veð eða skrifað upp á víxla og önnur lán. Loðdýrabændur hafa, í skjóli sinna eigin áætlana, einmitt fengið annað fólk til þess að skrifa upp á fyrir sig í trausti þess að þeir gætu staðið við sínar skuldbindingar.
    Þá vildi ég aðeins víkja að því sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði hér áðan. Ég var ekki í sökudólgaleit, ég minntist sennilega á Framsfl. vegna þess að ég vitnaði til stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar á síðasta kjörtímabili. Þá fór reyndar Framsfl. með landbúnaðarmálin ef ég man rétt. Í upphafi var aðeins eitt skilyrði sett fyrir því að hefja búskap með loðdýr og það var að viðkomandi hætti hefðbundnum búskap. Í því sambandi minntist ég á þekkinguna og menntunina. En ég tók það líka fram í máli mínu áðan að síðan hefði þetta allt breyst enda hefðu gæði skinnanna batnað og ( Gripið fram í: Sjóðirnir settu reglur.) já, að þetta hefði breyst og ég sagði líka, og það kom reyndar einnig fram í máli hv. þm. Egils Jónssonar ef ég man rétt, að loðdýrabændur hafa verið sérlega ötulir við að sækja þau námskeið sem þeim standa til boða.
    Síðan hafa þeir hv. 3. þm. Vesturl. og 3. þm. Norðurl. v. skilið mig greinilega hvor á sína vísu. Annar skildi það svo að ég teldi að hér væri gengið of skammt og annar heyrðist mér skilja mig þannig að hér væri gengið of langt. ( Gripið fram í: Hvert gengur þá þingmaðurinn?) Ég verð að velja mér braut. En ég held að það hafi alveg mátt skilja það á máli mínu hér fyrr í dag að mér sýnist, eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið í nefndinni, þessi aðstoð sem er boðið upp á í frv. engan veginn nægja

nema e.t.v. til þess að halda örfáum á floti. Það mun að sjálfsögðu þýða hrun greinarinnar og það sagði ég líka í dag. Vegna þessa spurði ég einmitt hæstv. landbrh., og ítreka þá spurningu: Hvað verður um þá menn sem efnahagslega gætu haldið áfram ef allt hrynur í kringum þá og engar fóðurstöðvar bera sig í þeirra héraði lengur, hver er réttur þeirra ef þeir neyðast til að hætta einungis þess vegna?
    Það voru svo lokaorð hv. 3. þm. Vesturl. sem ég vildi aðeins minnast á í sambandi við skattamál og andúð kvennalistakvenna á skattamálum og eyðslutillögur og því um líkt. Þetta er auðvitað eitthvað sem við fáum að heyra oft. En ég vil benda hv. þm. á að við höfum lagt fram tillögur sem kosta enga peninga. T.d. er hér frv. á dagskrá í dag sem er ríkissjóði algjörlega útgjaldalaust. Við höfum líka lagt fram tillögur um það hvernig á að fjármagna aðrar tillögur sem við höfum lagt fram og þar að auki leggjum við áherslu á breytta forgangsröð og í breyttri forgangsröð kemur fram sparnaður sem gæti nýst til þeirra verkefna sem við vildum leggja áherslu á fyrir fólkið í þessu landi.
    Ég held að ég hafi hér með svarað því helsta sem fram hefur komið varðandi málflutning minn hér fyrr í dag og vona að það hafi heyrst núna. ( Gripið fram í: Þetta er allt önnur ræða.)