Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegur forseti. Ég skal vera mjög, mjög stuttorður. Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir þarf ekkert að vera hissa á því þó þær kvennalistakonur fái oft að heyra að þær séu flinkar að gera útgjaldatillögur þó þær fáist ekki til að standa að mikilli skattheimtu til þess að standa undir þeim útgjöldum sem þær gera tillögur um. Þær fá auðvitað oft að heyra þetta vegna þess að þetta er eins og málin eru. Þetta er bara eins og við höfum upplifað tillöguflutning hv. þingmanna Kvennalistans á hinu háa Alþingi og þær þurfa því ekkert að vera hissa á því.
    Það er mikill misskilningur hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að í minni ræðu hafi ég verið að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Ég held ég hafi ekki nefnt einn eða neinn sökudólg þar til sögunnar. Mér er ljóst að mistök voru gerð, --- eins og okkur Íslendingum hættir til að gera þegar við erum að ráðast í nýjar fjárfestingar, þá ætla allir að grafa gull úr jörðu og verða ríkir á því sama á sama tíma og sjást ekki fyrir í fjárfestingaráformum. Við þekkjum þetta úr ákaflega mörgum greinum en okkur gengur illa að læra af reynslunni, því miður.
    Ég held að öllum sé ljóst að það verða engar þær aðgerðir upp teknar sem bjargi öllum þeim sem fást við loðdýrarækt. Ég held að það sé öllum ljóst og ég endurtek það sem ég sagði áðan, hér er verið að fara milliveg og mörgum finnst þar allt of skammt gengið. Ég skil það ákaflega vel og er ekkert hissa á þeirri umræðu sem hér á sér stað.
    En að lokum, herra forseti, varðandi það sem ég sagði um ákveðna fóðurstöð í Norðurlandskjördæmi vestra, þá hygg ég að efnislega hafi ég haft rétt eftir það sem fram kom á fundi landbn. í gærmorgun án þess að ég tíundi það öllu nánar. En þetta mál á eftir að ræða í landbn. Ég á ekki sæti þar þótt ég hafi setið fund nefndarinnar í gærmorgun og ég veit að þar munu menn ræða þetta
æsingalaust og ná samkomulagi. Það samkomulag hlýtur auðvitað að verða mjög nálægt því sem hér hefur verið um talað og samkomulag er um í ríkisstjórninni að gera á þessu stigi máls.