Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég skal reyna að svara hér í örstuttu máli helstu fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint og vík þá að þeim í þeirri röð sem menn töluðu hér á undan.
    Fyrstur talaði hv. 4. þm. Austurl. Hann vék nokkuð að blaðaummælum og rakti aðdraganda þessa máls og orðlengi ég ekki um það fyrir mitt leyti að öðru leyti en því að ég hlýt að mótmæla því að í ummælum mínum eða fréttatilkynningum eða öðru slíku efni sem frá mér eða landbrn. hafi borist á undanförnum mánuðum eða missirum hafi falist efni sem vakið hafi hjá loðdýrabændum eða fólki almennt falskar vonir um ráðstafanir sem í vændum væru. Ég hlýt að mótmæla þessu, sérstaklega vegna þess að ég hef reynt á öllum stigum málsins að taka það mjög skýrt fram að ekkert væri sjálfgefið um framhaldið. Það gerði ég í janúarmánuði sl. þegar fyrst var ákveðin greiðsla jöfnunargjalds á fóður, frestun afborgana og fleiri ráðstafanir. Þá sagði ég jafnframt að menn gætu ekki vænst og þaðan af síður treyst á að til frekari ráðstafana yrði gripið á þessu ári, einmitt vegna þess að þá var enn sá tími uppi að menn hefðu getað látið af búskapnum og fellt bústofninn án þess að tapa á því í miklum mæli hvað skinngæðin snerti, þ.e. þegar þessar ráðstafanir voru tilkynntar hinn 20. jan. sl.
    Sömuleiðis var það í júlí á sl. sumri þegar ákvarðaðar voru frekari ráðstafanir. Þá var mönnum gerð skýr grein fyrir því að það sem í þeim fælist væri fyrst og fremst að reyna að ljúka yfirstandandi framleiðsluári þannig að ekki kæmi til þess sem þá virtist blasa við að menn færu jafnvel að skera niður bústofninn á miðju sumri. Um framhaldið, þar með talið þær ráðstafanir sem hugsanlega yrðu gerðar í nágrenni við lok þessa framleiðsluárs var að sjálfsögðu óvissa uppi og aldrei hægt að gefa sér þá niðurstöðu fyrir fram og það átti mönnum að vera fyllilega ljóst. Ég tel að við það sem í þessum ráðstöfunum og afgreiðslu á hverju stigi hafi falist hafi verið staðið að öðru leyti en því, og það er sjálfsagt mál að viðurkenna og harma, að þessi vinna hefur dregist meira en góðu hófi gegndi og tekið lengri tíma en ætlunin var og ég skorast ekki undan því að axla minn hluta af ábyrgðinni á því. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá þetta koma hér til umfjöllunar þannig að meiri tími væri til stefnu.
    Um þetta að öðru leyti og ýmis ummæli, ekki bara hv. 4. þm. Austurl. sem var tiltölulega hógvær í sínum málflutningi heldur ýmislegt sem sagt hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu um frammistöðu mína í tengslum við þessar síðustu ráðstafanir, læt ég mér allt í mjög léttu rúmi liggja. Fái menn einhverja útrás í því fyrir bældar tilfinningar sínar að berja á landbrh. og fullyrða að hann hafi staðið sig illa í þessu máli, þá er hann tilbúinn að taka á móti því og verða mönnum þannig að liði, að leyfa mönnum að skamma sig. Það er alveg sjálfsagður hlutur. Ég mun ekki láta það breyta neinu um eindreginn vilja minn

til að reyna að aðstoða loðdýrabændur eftir því sem ég hef aðstæður til í þeirra erfiðu stöðu. Hitt þykir mér ekki mjög stórmannlegt satt best að segja að menn skuli velja sér þetta ákaflega erfiða og snúna mál, sem vissulega er nánast harmsaga ef farið er ofan í það í smáatriðum, til þess að reyna að berja á einum landbrh. og taka sér þetta tilefni til að gerast nú bæði hugrakkir og orðhvatir eins og ýmsir ónefndir menn úti í þjóðfélaginu og jafnvel hér inni á Alþingi hafa gert og á ég þá ekki við þá sem fjallað hafa um málið hér í þessari umræðu.
    Menn geta síðan að sjálfsögðu haft sínar skoðanir um þessar ráðstafanir og að þær gangi ekki nógu langt eða menn hefðu viljað sjá þær ganga lengra. Það er svo annað mál hvað hægt er að gera, til hvers menn treysta sér og um hvað er hægt að ná samstöðu. Það þarf ekki að ræða það frekar við þrautreynda stjórnmálamenn að þannig er nú einu sinni veruleikinn. Óskhyggjan ræður ekki alltaf ferðinni eða vilji þess sem lengst vill ganga í hverju máli og við gætum gert okkur í hugarlund hvernig störfum væri almennt háttað í þjóðfélaginu eða á þjóðþinginu ef sú yrði niðurstaða í hverju máli. Það er auðvitað ekki þannig. Menn verða að taka þátt í málamiðlunum. Menn verða að skoða umhverfið, menn verða að horfa til þess hvaða kjörum aðrir hópar verða að sæta á sama tíma o.s.frv. Svona mál eru eðli sínu samkvæmt aldrei einangruð, heldur taka mið af umhverfinu og þeim aðstæðum sem uppi eru á hverjum tíma og þarf ekki fleira um það að segja.
    Hv. 4. þm. Austurl. vék að því að markaðsaðstæður væru vonandi vænlegri hvað framhaldið snertir en við höfum horft á í þessari grein um hríð og það er rétt. En því miður er það mat færustu sérfræðinga að enn megi vænta þess að 1--2, jafnvel fleiri ár séu í það að markaðsverðið lyfti sér þannig að einhverju verulegu nemi. Þess vegna er ljóst að menn geta þurft að búa sig undir það að þreyja enn þorrann og góuna vð erfiðar aðstæður í þessari grein, svo skipti 1--3 árum, og væntanlega þá lengur í minkarækt en refarækt.
    Í fjórða lagi vék hann að rekstrarstöðunni í greininni og þar verða menn auðvitað að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Þær skýrslur sem
unnar hafa verið sýna svo að ekki verður um villst að rekstrarhlutföllin eru afar óhagstæð, svo óhagstæð að menn hafa varla séð annað eins í heilli atvinnugrein hygg ég í lengri tíma. Það vantar mikið upp á að tekjur dugi fyrir rekstrarkostnaði, svo að ekki sé minnst á afskriftir, fjármagnskostnað og annað slíkt. Þessa staðreynd verða menn að hafa í huga. Það er jafnvel talið að sú beina rekstraraðstoð sem greinin fær á þessu ári rétt dugi til þess að tekjur og rekstrargjöld nái saman þannig að þá sé ekki eftir sem áður króna upp í vexti og afborganir af fjárfestingum. Þessi hlutföll verða menn auðvitað að horfa á eins og þau eru. Þau eru afar óhagstæð, enda má nærri geta þegar markaðsverð framleiðsluvörunnar hefur hrunið. Það hefur í raun og veru lækkað margfalt á undanförnum árum.

    Hv. þm. spurði hvers vegna flutt væri sérstakt frv. en ekki tekin heimild til þessara ábyrgða inn í lánsfjárlög eða fjárlagafrv. Því svara ég þannig til að mér sýndist það vera góð venja samkvæmt þeim fordæmum sem ég hef fundið frá undanförnum árum, m.a. í lagasafninu, að þegar gripið er til sérstakra ráðstafana af þessu tagi, sérstakra ríkisábyrgða eða skuldbreytingaábyrgða af þessu tagi, þá er gjarnan flutt um það sérstakt frv., sett um það sérstök afmörkuð lög og viðkomandi ráðstafanir kynntar hinu háa Alþingi í leiðinni. Nægir að fletta upp í lagasafninu til að finna sambærilegar ráðstafanir í lagaformi til sannindamerkis.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þessar ráðstafanir eða það sem á undan er gengið, en ég hlýt að minna á það, ekki síst þegar hv. stuðningsmenn fyrrv. ríkisstjórnar tala hér, að þessi ríkisstjórn og sú næsta á undan henni, þ.e. þær tvær sem setið hafa að völdum frá því haustið 1988 hafa auðvitað gert umtalsverða hluti til þess að reyna að mæta þessum erfiðleikum. Ég bendi á að það er ekki fyrr en ríkisstjórnin sem sest að völdum haustið 1988 tekur um það ákvörðun að hefja endurgreiðslu á uppsöfnuðumn söluskatti í loðdýrarækt að það er gert. Fyrri ríkisstjórnir, næstu tvær þar á undan, og hygg ég að hv. 4. þm. Austurl. og fleiri sem hér hafa talað hafi nú átt einhverja aðild að þeim, höfðu ekki greitt greininni þennan uppsafnaða söluskatt þrátt fyrir erfiðleika sem hún var sjáanlega komin í á árunum 1987 og 1988. Þessi ríkisstjórn hefur samtals greitt líklega um 60 millj. kr. vegna fyrri ára og yfirstandandi árs í þessu skyni.
    Ég nefni þann beina rekstrarstyrk sem greinin hefur fengið í formi jöfnunargjalds á fóður upp á rétt tæpar 90 millj. kr. Það er fyrsta aðgerðin sinnar tegundar sem er af því tagi að ekki er verið að ýta vandanum á undan sér eða fresta honum með skuldbreytingum eða lengingu lána heldur er komið með beint rekstrarframlag til stuðnings greininni í yfirstandandi erfiðleikum. Ég held að menn verði að viðurkenna það að menn hafa þegar nokkuð á sig lagt og vilji menn fjalla um málin af sanngirni ber að taka það með í reikninginn þegar þessar ráðstafanir eru ræddar. Síðan er það rétt sem hér kom fram og verður auðvitað að hafa í huga að vandi okkar væri minni í þessu máli og auðleystari ef þetta væri einstakt og einangrað vandamál í íslensku atvinnulífi eða efnahagslífi og hvergi annars staðar við sambærilega hluti að kljást. Þá hygg ég að það stæði ekki í hv. alþm. og hæstv. ríkisstjórn að leysa þetta ef þetta væri nánast það eina sem við hefðum við að glíma af þessum toga. En svo er ekki, því miður og þarf ekki að fjölyrða um það. Ég hef að sjálfsögðu heyrt það, bæði frá samráðherrum og frá ýmsum öðrum aðilum innan þings og utan að mönnum þyki þá sem ýmsir aðrir eigi rétt á fyrirgreiðslu. Menn nefna vandamál húsgagnaiðnaðarins, menn nefna vandamál skipasmíðaiðnaðarins, menn nefna íbúðakaupendur og byggjendur, menn nefna jafnvel bændur í öðrum búgreinum sem vissulega eru líka að lenda í

erfiðleikum, jafnvel missa jarðir sínar. Auðvitað hljóta menn að horfa til þessa einnig og það setur eitthvað mark sitt á það hversu langt menn treysta sér til að ganga til aðstoðar einni grein.
    Ég ætla að geyma mér orðræður við hv. 4. þm. Austurl. um hluti sem hann kom hér aðeins inn á varðandi verðlagningu sauðfjárafurða eða landbúnaðar sl. haust og það samkomulag sem var gert þá við bændur um ráðstafanir til að draga úr þeim miklu hækkunum sem ella hefðu orðið. Sömuleiðis þegar hann vék hér að ágætum störfum landbn. og samstöðu sem náðist á sl. vetri. Það er ýmist búið að eða verið að vinna að því að efna þau fyrirheit sem þar voru gefin og það mun takast. Ég lofa hv. þm. því að það mun takast. Það hefur þegar verið gert að sumu leyti. Að öðru er verið að vinna.
    Síðan spurði hv. 6. þm. Vesturl. nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi um þáltill. um loðdýrarækt og hvað gert hefur verið í framhaldi af þeim. Ég veit ekki hvað forverar mínir kunna að hafa gert gagnvart þeirri tillögu sem komin var fram nokkru áður en ég settist í stól landbrh. En ég get hreinskilnislega viðurkennt að þær hafa ekki verið mikið uppi á borðinu í þeim lífróðri og þeim björgunaraðgerðum sem hafa verið eina viðfangsefni mitt hvað loðdýrarækt snertir allt sl. ár. Aðstæður hafa einfaldlega verið þannig að menn hafa ekki komist til þess að tala nánast um aðra hluti en hvernig eða hvort væri hægt að halda þessari búgrein við lýði. Auðvitað hefur öll uppbygging stöðvast og
skipulagning uppbyggingarinnar sem menn voru að tala um fyrir nokkrum árum síðan, þær umræður eiga í raun ekki við í dag þar sem ekki er lengur um neina nýfjárfestingu í greininni að ræða.
    Svo spurði hv. þm. um jöfnunargjaldið og hvers vegna hefði verið horfið frá almennum aðgerðum yfir til sértækra aðgerða í því formi að menn þyrftu að sækja um þetta jöfnunargjald. Svarið er: Það varð niðurstaðan að hafa afgreiðslu þessarar aðstoðar ekki sjálfvirka eða sjálfkrafa heldur þyrftu menn að sækja um hana sérstaklega og m.a. þannig lýsa sig sjálfa reiðubúna til þess að halda áfram, til þess að menn gætu þó a.m.k. ekki sagt á næsta ári að þeir hafi verið ginntir eða narraðir til þess að halda áfram. Ég held að það sé út af fyrir sig mikilvægt og öllum fyrir bestu að málið gerist upp með þeim hætti að menn taki sjálfir þá ákvörðun, sjálfviljugir, beri sig eftir því að fá þessa aðstoð og axli þar með ábyrgðina jafnframt af því að þeir haldi áfram svo að menn geti þá a.m.k. í framhaldinu verið lausir við endalausar umræður um að menn hafi verið ginntir eða narraðir til þess á fölskum forsendum að halda áfram. Ég hef satt best að segja ekki mikinn áhuga á því að slíkt haldi áfram.
    Um lagaheimildir Stofnlánadeildar svara ég þannig að það er fyrst og fremst verið að gefa stjórn Stofnlánadeildar ótvíræða lagaheimild. Það má fyrst halda því fram að það orki tvímælis hvort stjórn Stofnlánadeildar væri að óbreyttu um of bundin af ákvæðum laga um tryggingar fyrir lánum og annað

sem þar er. Í öllu falli varð það niðurstaða sérfróðra manna að það væri skynsamlegt að gefa stjórn Stofnlánadeildar alveg ótvíræðar og sérstakar lagaheimildir til að fella niður skuldir í þessu sambandi og ég hygg að því verði ekki á móti mælt að það sé betra. Ég túlka þetta þannig að stjórn Stofnlánadeildar sjálf geti síðan farið með þessa heimild og beitt henni hvort sem heldur er samhliða nauðungarsamningum eða þessi heimild í raun og veru gerð að einhverri reglu sem hún styðst við. Ég lít svo á að það muni falla undir verksvið stjórnar Stofnlánadeildar og ákvæði laganna að öðru leyti að hún fari með þessa lagaheimild og þetta lagaákvæði. Og ég get fyrir mitt leyti, vegna þess að landbrh. staðfestir útlánareglur Stofnlánadeildar, lýst því yfir að ég mundi að sjálfsögðu samþykkja það að stjórn Stofnlánadeildar beitti þessari reglu, þessari lagaheimild, með almennum hætti, yrði það þar niðurstaðan.
    Ég tel hins vegar, vegna þessarar spurningar eða ábendingar, að þetta sé eitt af þeim atriðum sem ástæða væri til að hv. landbn. ræddi sérstaklega við einhverja fulltrúa stjórnar Stofnlánadeildarinnar.
    Síðan spurði hv. þm., og það gerðu reyndar fleiri, hvort veitt yrði viðbótarfjármagn til að standa við greiðslur jöfnunargjalds ef fleiri sæktu og fengju jákvæð svör. Að sjálfsögðu verður það gert. Verði það niðurstaðan að fleiri fá jákvæð svör um það að þeim standi þessi fyrirgreiðsla til boða verður að sjálfsögðu að uppfylla þau fyrirheit. Annað kemur að sjálfsögðu ekki til greina.
    Ég hef fyrst og fremst litið svo á að fram fari mat á því í fyrsta lagi á grundvelli staðfestra umsókna hversu margir vilji reyna að halda áfram og í öðru lagi hvað sé raunhæft í þeim efnum út frá aðstæðum sem kunna að koma upp og síðan komi til kasta stjórnvalda að svara því hvort þau vilja leggja fram það viðbótarfé sem til þarf og þá er hægt að svara umsækjendum í ljósi þeirra fjármuna sem fyrir liggja. En það er ekki hægt að gefa sér nákvæma tölu fyrir fram af ýmsum ástæðum, augljóslega, og það má segja að mönnum finnist þessi tala fulllág en hún er líka sérstaklega orðuð sem fyrsta upphæð sem í þetta fari.
    Ég held hins vegar að einfaldast sé að svara því hreinskilnislega að andi þessara ráðstafana er ekki sá að ýta sérstaklega á menn eða hvetja menn til að
halda áfram séu þeir hikandi við það. Ég held að það væri óskynsamlegt af stjórnvöldum eftir það sem á undan er gengið að ganga fram með þeim hætti. Vilji menn hins vegar reyna það er það svo aftur annað mál, að reyna að koma málum þannig fyrir, sjá til þess að það sé hægt.
    Hv. 6. þm. Vesturl. spurði líka hvernig færi ef grisjun í loðdýrarækt á einhverju svæði yrði svo mikil að fóðurstöð yrði ekki lífvænleg við þær aðstæður. Hvað gerist þá? Gæti komið til þess að einhverjir bændur sem hefðu sjálfra sín vegna þokkalegar aðstæður til að halda áfram yrðu að hætta? Svarið er já, ósköp einfaldlega vegna þess að ég sé ekki hvernig

í ósköpunum menn komast fram hjá þessu vandamáli sem augljóslega er þarna fyrir hendi og skýtur upp kollinum nema viðkomandi bændur, einn eða fleiri, geti sjálfir leyst þau vandamál sem þar með koma upp, tekið fóðurframleiðslu í sínar eigin hendur eða með einhverjum öðrum hætti leyst úr því. Þetta er auðvitað vandamál sem alltaf hefur verið fyrir hendi. Þessi áhætta hefur alltaf verið fyrir hendi og verður áfram og ég sé ekki í fljótu bragði að við getum í þessum ráðstöfunum sneitt fram hjá þessum möguleika frekar en endranær. Það þarf auðvitað ákveðinn fjölda til þess að mynda rekstrarhæfa einingu ef t.d. fóðurframleiðslan á að fara fram í stórri fóðurstöð. Það eru hins vegar þó nokkur dæmi um að menn leysi þetta með öðrum hætti, að fáeinir bændur taki sig saman um
fóðurframleiðslu í minni mæli eða jafnvel á einstökum búum og slíkir möguleikar verða þá fyrir hendi þar sem það á við.
    Hv. þm. Halldór Blöndal kom hér með heldur leiðinlega spurningu sem mér þykir nú verra, virðulegur forseti, að þurfa að svara, ekki vegna þess að ég sé feiminn við að svara henni heldur vegna þess að mér þykir leiðinlegt að þurfa að svara svona vondri spurningu. Hv. þm. spurði hvort það væri satt að átt hefði sér stað brask um þetta mál, með öðrum orðum hrossakaup, eins og það heitir á almennilegri íslensku, og niðurstaða þessa máls hefði verið seld af landbrh. fyrir algjörlega óskylda hluti. Svarið er nei. Svarið er nei og mér þykir það heldur til vansa fyrir annars þennan ágæta þm., hv. 2. þm. Norðurl. e., að ganga í hóp þeirra manna sem taka Gróu á Leiti í þjónustu sína með þessum hvimleiða hætti. Ég bendi hv. þm., sem að vísu er fjarstaddur og nær ekki að heyra svarið en hann les það kannski í þingtíðindunum, á að Gróa á Leiti hefur reynst mörgum varasamur förunautur því að þegar menn taka hana einu sinni upp á arm sinn og fara að spásséra með henni, eins og hv. þm. Halldór Blöndal hefur hér gert, vill það stundum henda að sú gamla vilji ekki skilja við menn. Mér þætti það heldur leiðinlegra að sjá félaga minn, Halldór Blöndal, lenda varanlega í samfylgd þessarar konu.
    Svarið er nei og mér þykir það til skammar þeim mönnum sem taka upp þessa kviksögu sem er tilhæfulaus með öllu. Ég hef ekki áður á mínum stjórnmálaferli orðið fyrir því að vera borinn svona sökum og ég hlýt að bera það rækilega af mér vegna þess að það er ósanngjarnt, ómaklegt og tilhæfulaust. Það kann að vera að hv. þm. hafi fengið efniviðinn í söguna lánaðan einhvers staðar utan veggja Alþingis. Ég hef eitthvað orðið var við að þar hafi mönnum þótt viðeigandi að vera uppi með slíkar getsakir, en það er ekki betra fyrir það.
    Þau mál sem hv. þm. nefndi eru auðvitað fullkomlega óskyld eins og allir vita og með öllu fráleitt að þau hafi blandast saman.
    Ég hygg að ég hafi þegar svarað hv. þm. Halldóri Blöndal varðandi það sem hann spurði um efnislega hvað jöfnunargjaldið snertir. Ég legg þann skilning í

texta lagafrumvarpsins, og ég held að það sé mikilvægt að hann liggi fyrir, að allir þeir sem stundað hafa loðdýrarækt á árunum 1986--1989 geti sótt um aðild að þessum skuldbreytingarráðstöfunum. Ég undirstrika það. Það er í mínum huga alls ekki ætlunin að menn séu dregnir í sundur út frá því hvort þeir hafa nýlega hætt loðdýrarækt, hvort þeir hætti henni um þessi áramót eða haldi henni eitthvað lengur áfram. Lausaskuldir manna sem hafa komið til vegna loðdýrabúskapar á þessum árum eru gjaldgengar inn í þessa skuldbreytingaraðgerð --- svo einfalt er það --- allra þeirra sem í hlut eiga og árabilið 1986--1989, að svo miklu leyti að sjálfsögðu sem þessar skuldir eru vegna loðdýraræktarinnar.
    Ég get ekki svarað hv. þm. Halldóri Blöndal nákvæmlega um jarðeignir og jarðasjóð, hver kostnaðurinn verður, en ég hygg að á milli tíu og fimmtán aðilar hafi sýnt því áhuga að fá þar einhverja fyrirgreiðslu með sín mál, fleiri þó hjá Jarðeignum ríkisins, þ.e. ábúendur á ríkisjörðum sem stundað hafa loðdýrarækt.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. og fleiri spurðu um möguleikana á því að breyta þessu frv., að það taki breytingum í meðferð þingsins. Það gerði einnig hv. þm. Jóhannes Geir. Við því er ósköp einfalt svar sem ég hélt að reyndir þingmenn kynnu. Það er þannig að þegar frv. eru lögð fram sem stjfrv. hafa samstarfsflokkar að viðkomandi ríkisstjórn samþykkt þau sem slík, eins og þau þar liggja fyrir. Venjan er hins vegar sú að í meðförum þingsins er að sjálfsögðu heimilt að leita samkomulags um breytingar á frv. og er iðulega og oftast gert að frv. eða mál taka einhverjum efnislegum breytingum, þá venjulega til lagfæringar eða bóta eftir því sem samkomulag getur tekist um. Það liggur í eðli málsins, og að sjálfsögðu geri ég því skóna að hv. landbn. muni fara vandlega yfir frv. og skoða hvort samkomulag geti orðið um einhverjar lagfæringar eða breytingar á því. Það er hins vegar erfiðara mál takist ekki samkomulag um slíkar lagfæringar og þá kann að reyna á það hvernig menn halda á málum þar sem samkomulag stjórnarflokkanna byggist á tiltekinni niðurstöðu áður en málið er lagt fram sem stjfrv. Það á ekki að þurfa að vera að lesa þetta gagn og gaman þingræðisins og meirihlutasamstarfs upp fyrir hv. þingmenn en ég leyfi mér að gera það vegna þess að menn spurðu um þetta trekk í trekk eins og þetta væri einhver alveg óupplýst speki sem hlyti náttúrlega að þurfa að ákveða alveg sérstaklega í meðförum þessa máls. Hér gilda eingöngu hinar almennu reglur.
    Ég ætla þá að leyfa mér að svara líka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og Jóhannesi Geir og þó kannski meira ýmsum ákveðnum félögum þeirra sem eru svona skyldir Framsfl. og hafa látið í sér heyra um þetta mál í fjölmiðlum undanfarið. Svar mitt er þetta: Ég fékk þau skilaboð að þingflokkur Framsfl., endilangur eins og hann legði sig, stæði að því að þessi málamiðlun yrði lögð fram sem stjfrv. Mér hafa ekki verið kynntir neinir fyrirvarar þingflokks Framsfl. hvað það snertir að standa að þessu frv. sem stjfrv.

Formaður Framsfl., hæstv. forsrh., bar mér þau skilaboð að Framsfl., þingflokkur
Framsfl., stæði að þessu frv. sem stjfrv. Það nægði mér. Þau skilaboð nægðu mér. Þau duga mér yfirleitt í svona tilvikum. Sambærileg skilaboð fékk ég frá hinum samstarfsflokkum Alþb. í ríkisstjórninni og engir fyrirvarar fylgdu.
    Þetta segir auðvitað allt sem segja þarf um stöðu þessa máls og hef ég ekki um það fleiri orð. (Gripið fram í.) Ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um möguleikana á því að ná samkomulagi um einhverjar efnisbreytingar á málinu.
    Jóhannes Geir vék hér reyndar líka að orðalagi 2. gr. og taldi að það fæli það í sér að Stofnlánadeild svo gott sem þyrfti að bjóða menn upp vegna þess að þar stæði að hagsmunum Stofnlánadeildar landbúnaðarins væri talið betur borgið. Þetta orðalag á sér eðlilegar skýringar, sem sagt þær að það er ósköp einfaldlega í lögum og reglum allra þeirra bankaráða og stjórna sjóða sem sitja í landinu að þeim beri að gæta hagsmuna sinna sjóða. Það væri andstætt eðli bankalaga og laga um fjárfestingarlánasjóði almennt að setja annað orðalag en þetta í svona plögg. Það er svo síðan hið vandasama verk stjórnar Stofnlánadeildar og annarra sambærilegra aðila í svona tilvikum að meta hvernig hagsmunum þeirra er best borgið, með hvaða ráðstöfunum. Hér fær stjórn Stofnlánadeildar ótvíræðar lagaheimildir til þess að taka þátt í eða gera það að reglu að létta einhverjum hluta fjárfestingarlánaveðskulda af í loðdýraræktinni og meta það út frá því að þannig sé þá hagsmunum deildarinnar og greinarinnar best borgið. Sambærilega má mín vegna mjög gjarnan skoða þetta orðalag og ræða við fulltrúa stjórnar Stofnlánadeildar í hv. landbn., en meginskýringar á því að þetta er svona orðað eru þessar sem ég hef hér gert grein fyrir.
    Herra forseti. Ég vona að mér hafi tekist, á eins skömmum tíma og ég hef mögulega getað, að svara öllum helstu fyrirspurnunum sem til mín var beint. Ég biðst velvirðingar á því að hafa tekið til þess nokkurn tíma. Það tókst einfaldlega ekki á skemmri tíma en þetta. Ég legg svo áherslu á það og veit að hv. landbn. deildarinnar mun vinna þetta mál af þeirri kostgæfni sem henni er lagið og í ljósi þeirrar góðu reynslu sem varð af störfum hennar á sl. vetri og því víðtæka samkomulagi sem yfirleitt náðist þar leyfi ég mér að vona að svo geti einnig orðið tilfellið í þessu máli.