Leyfi frá störfum vegna umönnunar barna
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir 139. máli þessa þings á þskj. 143 sem er frv. til l. um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna en meðflm. minn er hv. 6. þm. Vesturl. Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    Þetta frv. var fyrst flutt á 109. löggjafarþinginu og var flm. þess þá hv. þingkona Kvennalistans Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Frv. var að loknum umræðum og umfjöllun í nefnd vísað til ríkisstjórnarinnar í trausti þess að hún beitti sér fyrir þessu réttindamáli. Hins vegar hafðist ríkisstjórnin ekkert að í málinu, því miður. Frv. var því endurflutt á síðasta þingi af hv. þingkonum Kvennalistans í Nd. og mælti Kristín Halldórsdóttir fyrir því þar. Þar fékkst það reyndar ekki afgreitt úr nefnd.
    Nokkrar umsagnir bárust um málið til félmn. Nd. sem fjallaði um frv. og voru flestar jákvæðar en úrdráttur úr þeim fylgir í greinargerð eða sem fskj. í greinargerð með þessu frv. sem nú er lagt fyrir Alþingi í þriðja sinn. Ég vil nú lesa greinar frv., með leyfi hæstv. forseta:
,,1. gr. Foreldri, sem óskar leyfis frá starfi sínu til þess að annast barn sitt, á rétt á að ganga aftur að sama starfi og sömu kjörum allt að tveimur árum frá fæðingu barnsins. Sé um fleirbura eða fötluð börn að ræða framlengist þessi réttur um eitt ár til viðbótar.
    2. gr. Foreldri skal hafa starfað samfellt hjá sama vinnuveitanda í 18 mánuði áður en að leyfistökunni kemur. Foreldri skal tilkynna vinnuveitanda með þriggja mánaða fyrirvara hvort óskað er leyfis skv. ákvæðum 1. gr. og þá jafnframt hvenær foreldri hyggst hefja störf að nýju.
    3. gr. Ákvæði þessara laga skerða í engu ákvæði gildandi laga um fæðingarorlof.
    4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Frv. kveður þannig á um rétt foreldris til að taka sér launalaust leyfi frá störfum fyrstu tvö árin eftir fæðingu barns og ganga að starfi sínu aftur á sömu kjörum að þeim tíma liðnum. Það tekur ekki til efnalegrar afkomu foreldra ungra barna en bent er á að í þeim efnum er lenging fæðingarorlofs án launaskerðingar og auknar greiðslur barnabóta ákaflega brýnar. Frv. beinist eingöngu að atvinnuöryggi foreldra ungra barna og tryggir þeim ákveðinn lágmarksrétt í því efni.
    Umönnun og uppeldi barna fyrstu æviár þeirra hafa lengstum verið í höndum kvenna. Á undanförnum árum hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist gífurlega eins og við flest vitum en hún er yfir 90% hjá þeim konum sem eru á barneignaraldri og þessi þátttaka nálgast atvinnuþátttöku karla. Á sama tíma hafa kröfur atvinnulífsins til starfsfólks aukist og hefur foreldrum ungra barna reynst erfitt að samræma þær kröfur þeim sem umönnun og uppeldi ungra barna leggur þeim á herðar. Tilgangur þessa frv. er að koma til móts við breyttar aðstæður foreldra ungra barna og gera þeim kleift að sinna þörfum heimilis og barna fyrstu tvö árin í ævi barnsins án þess að raskað sé atvinnuöryggi

þeirra.
    Þrátt fyrir mikla sókn kvenna inn á vinnumarkaðinn vantar enn mikið á að þær standi jafnfætis körlunum hvað tekjur varðar. Skv. niðurstöðum í ritinu Tekjur karla og kvenna sem Þjóðhagsstofnun gaf út í janúar á þessu ári voru tekjur kvenna sem hlutfall af tekjum karla aðeins 60,7% árið 1986. Er hér átt við meðalatvinnutekjur í fullu starfi. Munurinn er enn þá meiri ef litið er á tekjur giftra kvenna sem hlutfall af tekjum kvæntra karla eða 54,7%.
    Þessi mikli munur á meðaltalslaunum kvenna og karla á sér margar orsakir. Ein þeirra er sú að atvinnuferill kvenna er iðulega rofinn þegar þær eignast börn því að margar hverfa þá af vinnumarkaði um stundarsakir til að sinna börnum og heimili. Vilji þær síðan hefja störf utan heimilis á nýjan leik hafa þær oftast enga tryggingu fyrir því að geta gengið að starfi sínu aftur og eru því oftar en ekki í sporum nýliða á vinnumarkaðinum. Þetta veldur því að konum reynist erfiðara en körlum að byggja upp atvinnuferil sinn og það hefur, ásamt öðru, í för með sér skerta tekjumöguleika þeirra og er því ein orsök lágra meðallauna kvenna. Frumvarpið miðar að því að taka á þessum þætti hins kynbundna launamisréttis og gera foreldrum, konum sem körlum, kleift að hverfa tímabundið af vinnumarkaði án þess að rjúfa atvinnuferil sinn og skerða með því tekjumöguleika sína síðar meir.
    Það er staðreynd að þörfin fyrir vinnuafl kvenna á vinnumarkaði hefur jafnan ráðið því hvort og hvaða úrræði hafa verið fundin af samfélagsins hálfu til að leysa brýnasta vanda heimilanna varðandi umönnun og uppeldi barna. Það fer svo vitanlega eftir menningarstigi þjóðarinnar í víðasta skilningi hvaða úrræði hún býður börnum sínum. Allt of oft hefur þó heimilinu og þá fyrst og fremst mæðrunum verið látið eftir að leysa þessi mál en þau verið álitin persónulegt mál hverrar konu. Sjálfsvitund kvenna og skilningur hefur aukist á því að persónulegt hlutskipti þeirra hverrar og einnar er jafnframt félagsleg staðreynd sem löngu er orðin að pólitísku afli, víða á Vesturlöndum a.m.k. Kröfurnar hafa því breyst. Almenn menntun kvenna er nú meiri en áður. Má sem dæmi taka að árið 1974 brautskráðust álíka margir piltar og stúlkur með
stúdentspróf en árið 1987 voru piltarnir 675 og stúlkurnar 990. Það er einnig vert að geta þess að nú innritast fleiri konur í Háskóla Íslands en karlar og fleiri konur öðlast starfsnám af einhverju tagi nú en áður.
    Menntunin hefur að vísu því miður ekki reynst sá lykill að jafnrétti sem mæðurnar og ömmurnar vonuðu því að konur fá samt lægri laun en karlar þrátt fyrir aukna menntun. En hvað sem öllum launamálum líður þá sætta konur sig ekki lengur við að nýta ekki starfsmenntun sína, og vera þokað til hliðar eða heltast úr lestinni vegna kynhlutverks síns. Flestar konur vilja ekki fórna móðurhlutverki sínu fyrir starfið en kjósa helst að sameina bæði hlutverkin svo vel fari. Þó er vert að geta þess að víða í Bandaríkjunum og einnig

sums staðar á Vesturlöndum eru ýmsar konur sem hafa valið þá leið að hafna móðurhlutverkinu og jafnvel hjúskaparhlutverki í því skyni að öðlast starfsframa í hörðum samkeppnisgreinum karla. Þetta er hlutskipti sem mjög fáar konur í raun sætta sig við. Konur vilja ekki lengur vera hornrekur. Síðan má auðvitað líta til þess hvort þjóðfélagið hefur hreinlega efni á því að nýta ekki betur menntað og sérmenntað vinnuafl.
    Ég vil í þessari umræðu benda hv. þm. á þá staðreynd að enn eru mjög fáar konur sem sitja í borgar- og bæjarráðum en þar eru dæmi um ákveðin störf þar sem kvenna gætir allt of lítið. Þær eru ekki nema 13% fulltrúa sem gegna slíkum störfum, en hins vegar er engin kona borgar- eða bæjarstjóri. Um 27% þeirra sem sitja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum borgar- og bæjarstjórna eru konur.
    Nú alveg nýlega gerði Jafnréttisráð könnun meðal þeirra kvenna sem sitja í bæjar- og sveitarstjórnum. Þá kom í ljós, að um 47% að mig minnir, þeirra kvenna sem eru aðalmenn ætluðu ekki að gefa kost á sér aftur og rúm 60% þeirra sem eru varamenn ætla heldur ekki að gefa kost á sér aftur. Meginástæðurnar sem þessar konur gáfu fyrir þessari dræmu þátttöku sinni voru fyrst og fremst þær að álagið væri of mikið á þeim, vinnuálagið bæði heima fyrir, á vinnustað utan heimilis og eins í þeim fulltrúastörfum sem þær höfðu tekið að sér. Þetta gefur örlitla mynd af því vinnuálagi sem á konum hvílir og því hve lítið tillit er tekið til þess almennt í þjóðfélaginu hverjar þarfir heimila og barna eru í raun.
    Ég gæti líka nefnt annað dæmi, sérstaklega fyrir hv. þm. í tilefni af þessu máli. Það er viðtekin venja að þeir sem gegna störfum hjá hinu opinbera en verða þingmenn fá ákveðið leyfi frá störfum til þess að gegna þingmennsku og geta síðan flestir gengið til sinna starfa aftur. Það kann að vera að það skipti máli hversu lengi þingseta varir í þessum efnum. Þó ku vera dæmi um allverulegan árafjölda, en í flestum tilvikum er þetta viðtekin venja að þeir sem gegna opinberum störfum geta fengið launalaust leyfi til þess að gegna ábyrgðarstarfi sem þeir hafa valið sér eins og þingmennsku. Það má svo velta því fyrir sér hvort er meira ábyrgðarstarf og mikilvægara fyrir þjóðfélagið, þingmennskan eða móðurhlutverkið án þess að mér detti í hug að fara að bera það saman.
    Það er vert að minnast á það sem aðrar þjóðir hafa gert í þessum efnum og eins og ég vék að áðan geta verið sveiflur í þörfum þjóðfélagsins fyrir vinnuafl, enda hafa konur verið kallaðar sveiflujafnarar á vinnumarkaði því þær hafa verið stærsti hluti hins hreyfanlega vinnuafls, verið kallaðar út af heimilunum þegar þeirra er þörf en reknar fyrstar heim aftur ef vinnu þrýtur. Þrátt fyrir atvinnuleysi í Bretlandi á undanförnum árum sem hefur ekki síst bitnað á konum og ungu fólki er þar nú búist við meiri háttar skorti á vinnuafli á 10. áratugnum, einkum til framleiðslustarfa í iðnaði en einnig í öðrum atvinnugreinum. Þetta stafar ekki síst af því að árgangar ungs fólks undir 25 ára aldri eru mun

fámennari en áður var. Barneignum hafði sem sagt fækkað á þessu árabili. Þetta mun gera kröfur um aukna atvinnuþátttöku kvenna og eldri borgara og krefjast þess að gripið verði til aðgerða til að þjálfa og endurmennta fólk til þátttöku í starfi. Mjög mörg fyrirtæki í Bretlandi, t.d. verslunarkeðjur og bankar hafa þegar gert ráðstafanir til að mæta þessari þörf fyrir aukningu í mannafla, t.d. með því að koma upp barnaheimilum á vinnustað eða hvetja þá sem eru 50 ára eða eldri til að koma út á vinnumarkaðinn. Jafnréttisráðið breska hefur fagnað þessu. Nú þegar vinnuveitendur þarfnast kvenna verulega má velta því fyrir sér hvort markaðslögmálin muni finna þær lausnir til að leiðrétta misrétti það sem konur hafa þurft að þola og jafnréttislöggjöfin hefur ekki getað fært þeim. Barnaheimili tengd vinnustað eru auðvitað rökrétt viðbrögð vinnuveitenda sem vilja fá konur til starfa en aðstæður fyrir gæslu barna yngri en 5 ára hafa verið og eru enn í raun afar bágbornar í Bretlandi og jafnvel sýnu verri en hér og er þá mikið sagt. Huga þarf þó að því að þetta frumkvæði vinnuveitenda er víða litið á sem forréttindi starfsfólksins og skattlagt samkvæmt því.
    Mig langar til þess að vitna hér, með leyfi forseta, lauslega í grein sem birtist í Morgunblaðinu í október á sl. ári og fjallaði einmitt um þessi mál. Hún var þá lauslega þýdd úr breska dagblaðinu Financial Times. Það kom í ljós í þeirri athugun sem þar er skýrt frá að allar spár varðandi vinnumarkaðinn
sýna fram á það að eftirsóknarverðasta uppspretta vinnuafls fyrir fyrirtæki í nánustu framtíð verða konur á ýmsum aldri. Reynslan sýnir hins vegar að mun erfiðara reynist að fá það sem talað er um í greininni sem ,,þroskaðar konur``, en væntanlega er átt við konur á miðjum aldri, til starfa en þær sem yngri eru. Kröfurnar um fullan vinnudag, erfiðleikarnir í að snúa aftur út á vinnumarkaðinn eftir barneignir og skortur á barnagæslu á vinnustað eða utan hans gera mæður mjög fráhverfar því að fara aftur út að vinna. En eins og ég minntist lauslega á áður hafa fyrirtækin sjálf reynt að bæta úr þessu. Ýmsar athuganir hafa verið gerðar til að auðvelda þeim að þróa áætlun um hvernig skuli fá mæður aftur út á vinnumarkaðinn. Áætlanir þessar byggjast m.a. á því að setja upp barnaheimili á vinnustöðum, gefa konum kost á því að fara í langt launalaust leyfi, koma á sveigjanlegri vinnutíma sem felur einnig í sér hlutastörf og vinnuskipti sem kallað er og jafnvel að gefa konum kost á því að vinna inni á heimilunum.
    Þó að mörg fyrirtæki hafi gert tilraunir með að setja upp barnaheimili á vinnustað segja sum að kostnaður við það sé of mikill. Þó fer þessi viðleitni heldur í vöxt. Algengara er að bjóða konum upp á langt launalaust leyfi, allt að fimm árum og með þá tryggingu í farteskinu að svipað starf eða sama bíði þeirra að loknu leyfi. Sömu réttindi geta einnig átt við um karlmenn. Að vísu er þetta oft bundið við háttsettari störf í fyrirtækjunum en ekki við hina almennu verkakonu eða þær sem minna eru menntaðar og lægra launaðar. Þetta eru enn fyrst og fremst

aðgerðir sem miða að því að endurheimta það vinnuafl sem hefur hlotið einhverja sérþjálfun eða menntun. Þess má vænta að fyrstu skrefin verði stigin þannig í þessari réttindabaráttu og síðan komi aðrar á eftir.
    Launalausu leyfin bætast í sumum tilvikum ofan á fæðingarorlofið. Sem dæmi er tekið að Barclay's-bankinn býður upp á tvo valkosti fyrir konur í fyrirtæki sínu sem starfað hafa í a.m.k. fimm ár. Þeim er boðið að taka annaðhvort allt að tveggja ára launalaust leyfi eða að vinna hlutastarf á tímabilinu. Það er eftirtektarvert að í þeim tilvikum þar sem konur taka launalaust leyfi er lögð mikil áhersla á að konur komi annaðhvort til vinnu um tvær vikur á ári til að halda sér við eða gerðar eru ráðstafanir til að halda sérstöku sambandi við konurnar, sambandi milli kvennanna og vinnustaðarins, þannig að þær fá stöðugar upplýsingar frá fyrirtækinu, þeim er boðið á skemmtanir fyrirtækisins ef einhverjar eru og þær hvattar til að halda
tengslunum. Þau skilaboð koma einmitt frá félagi breskra iðnrekenda að mikilvægasta forsenda þess að launalaust leyfi heppnist sé að viðkomandi starfskraftur haldi sambandi við fyrirtækið og finnist hann ekki vera gleymdur. Flestar konur velja hlutastarf þar sem þess er krafist að stunduð sé að lágmarki 14 klst. vinna á viku og á móti halda þær fullum réttindum eins og um fullt starf væri að ræða.
    Síðan er tekið dæmi af British Council sem Íslendingar þekkja af góðu þar sem sú stofnun hefur veitt Íslendingum ýmsa styrki til náms og annarra verkefna. Þar er iðkaður sveigjanlegur vinnutími og leyfir British Council um 1750 starfsmönnum sínum vinnuskiptingu af einhverju tagi. Eina krafan sem gerð er er að tveir starfsmenn sem skipta vinnu með sér vinni a.m.k. 36 klst. á 14 dögum. Um er að ræða 16 stöður þar sem vinnuskipti fara fram og allir 32 starfsmennirnir eru konur. Þessi stofnun býður einnig langt leyfi frá störfum vegna fjölskylduaðstæðna og þau réttindi ná til allra starfsmanna. Þetta tryggir það að starfsfólk geti snúið aftur til vinnu innan fimm ára.
    Ég hef nú tekið nokkur dæmi og minnst á ýmsar aðgerðir sem vinnuveitendur og stofnanir í Bretlandi hafa gripið til vegna þarfa sinna fyrir starfskraft kvenna. Auðvelt væri eflaust að taka dæmi af öðrum nágrannalöndum okkar, en þetta efni var mér handhægt og þess vegna nýtti ég þessar upplýsingar til að gefa hv. þingmönnum hugmynd um það hvað væri tíðkað í öðrum löndum sem við höfum samskipti við.
    Þó að markaðslögmálin kunni að vera hvati til þeirra breytinga í þágu barna og mæðra sem ég hef minnst á er þó fyrst og fremst um réttindamál þessara einstaklinga að ræða, réttindi barna til að njóta umönnunar og mæðra til að veita hana og njóta samskipta við börn sín án þess að eiga það á hættu að missa starf sitt. Við hljótum einnig að hugleiða hvaða réttlæti liggur til grundvallar þeirri staðreynd að þrátt fyrir það að konur séu ríflegur helmingur þjóðar og virkir þátttakendur á vinnumarkaði og börn séu sem

betur fer líka drjúgur hluti þjóðarinnar, þá gildir hér á landi eins og annars staðar að hagræðing vinnumarkaðarins og atvinnulífsins hefur hingað til miðast fyrst og fremst við kröfur og þarfir minni hlutans, þ.e. karlanna.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að þetta frv. hefur engan reiknanlegan kostnað í för með sér. Ég vil einnig taka það fram að félag háskólamenntaðra manna hefur lagt sérstaka áherslu á þessi réttindi í launabaráttu sinni, gerði það á sl. vori, og það var ítrekað nú nýlega á fundi um kjaramál uppi í Sóknarsal og kom það mjög skýrt fram. Ég veit ekki hvort önnur stéttarfélög eða verkalýðsfélög hafa lagt áherslu á þessi réttindi, en þessi tilhneiging er tvímælalaust vaxandi meðal nágrannalanda okkar og líka hérlendis, bæði vegna
þarfar vinnumarkaðarins og einnig vegna þess og ekki síður að þetta er mikið réttindamál og velferðarmál fyrir fjölskyldur og þá ekki síst fyrir börnin og mæður þeirra þó að réttindin nái að sjálfsögðu til beggja foreldra.
    Að lokinni umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til hv. félmn. deildarinnar og 2. umr.