Heilbrigðisþjónusta
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga sem er á þskj. 200, um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum. Þetta frv. er örstutt. Það er tvær greinar. 1. gr. fjallar um þá breytingu, sem lagt er til að gerð verði á lögunum og varðar 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, um að við hana bætist nýr tölul., sem verður 5.16, og orðist svo: ,,Slysaforvarnir``.
    2. gr. varðar gildistöku þessarar breytingar, þ.e. 1. jan. 1990, og er þá miðað við sömu gildistöku og frv. sem nú þegar hefur verið mælt fyrir um breytingu á þessum sömu lögum og er komið til heilbr.- og trn.
    Til frekari skýringar vil ég leyfa mér að lesa 19. gr. laganna, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skal veita þjónustu eftir því sem við á og hér segir:
    1. Almenn læknisþjónusta, hjúkrunarþjónusta, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, vaktþjónusta, vitjanir og sjúkraflutningar.
    2. Lækningarannsóknir.
    3. Sérfræðileg læknisþjónusta, tannlækningar og læknisfræðileg endurhæfing.
    4. Heimahjúkrun.``
    Síðan kemur 5. liður sem mín breytingartillaga varðar. Hann hljóðar svo:
,,5. Heilsuvernd.
    Aðalgreinar heilsuverndar eru:`` og síðan koma þessir liðir frá 5.1 og upp í 5.15: heilbrigðisfræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi, mæðravernd, ungbarna- og smábarnavernd, heilsugæsla í skólum, ónæmisvarnir, berklavarnir, kynsjúkdómavarnir, geðvernd, áfengis-, tóbaks- og fíkniefnavarnir, sjónvernd, heyrnarvernd, heilsuvernd aldraðra, hópskoðanir og skipulögð sjúkdómaleit, félagsráðgjöf, þar með talin fjölskyldu- og foreldraráðgjöf, umhverfisheilsuvernd og atvinnusjúkdómar. Síðan legg ég til að þarna bætist við 5.16: Slysaforvarnir.
    Á undanförnum árum hafa áherslur í heilbrigðisþjónustu verið að breytast og má m.a. rekja það til breyttra aðstæðna í samfélaginu og nýrra og bættra meðferðarmöguleika. Heilbrigði Íslendinga hefur gjörbreyst og er nú talið með því besta sem gerist meðal þjóða. Áherslan er nú lögð á heilsuvernd og forvarnarstarf.
    Á þingi 1987 lagði þáv. hæstv. heilbrrh. Ragnhildur Helgadóttir fram til kynningar drög að landsáætlun um íslenska heilbrigðisáætlun. Hún hefur nú verið endursamin og flutt af núv. hæstv. heilbrrh. Þessi landsáætlun um íslenska heilbrigðisáætlun er samin með hliðsjón af stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO sem nefnd er ,,Heilbrigði allra árið 2000`` í þeim tilgangi að stórauka forvarnir gegn sjúkdómum og slysum ásamt örorku og ótímabærum dauðsföllum af þeirra völdum. Stefna alþjóðaheilbrigðisáætlunarinnar er í 38 liðum og markmið 11 er að fækka slysum um 25% fyrir aldamót.

    Í þeirri till. til þál. um heilbrigðisáætlun sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nýlega mælt fyrir í Sþ. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heilbrigðismarkmiðið er sett fram til að stuðla að og bæta heilbrigði einstaklingsins. Þessu höfuðmarkmiði má skipta í þrjá þætti:
    Að bæta árum við lífið. Þetta þýðir að ótímabærum dauðsföllum fækki og lífslíkur aukist.
    Að bæta heilbrigði við lífið. Þetta þýðir að fólkið í framtíðinni eigi fleiri ár heilbrigði og starfsemi, fólk fái færri sjúkdóma og verði sjaldnar fyrir slysum en áður.
    Að bæta lífi við árin. Þetta þýðir að heilbrigði aukist og fleira fólki en nú finnist það vera hraust og stjórni starfsdegi sínum þannig að því finnist lífið ríkt af reynslu og breytilegum verkefnum.
    Heilbrigði er hluti af vellíðan einstaklingsins. Menning og fjárhagur getur haft mikil áhrif á heilsufar einstaklinganna. Sjúkdómar eru hluti af lífi hvers manns og fötlun er hluti af lífi margra en hinir sjúku og fötluðu geta einnig notið ánægju lífsins.
    Heilbrigði er að hluta til ákvörðunaratriði einstaklings og fjölskyldna og fullkomin heilbrigðisþjónusta næst aðeins með því móti að þjóðfélagsþegnarnir nýti hana og geri til hennar kröfur.
    Í heilbrigðisþjónustunni á fólkið ekki að líta á sig eingöngu sem neytendur. Hugmyndin er að maðurinn verði þátttakandi og honum sé ljóst hvað hann getur gert fyrir sjálfan sig og hvað heilbrigðisþjónustan getur gert fyrir hann.
    Heilbrigðisþjónustan getur veitt mikla hjálp en án samvinnu við einstaklinginn er hún lítils virði og einstaklingurinn verður að gera sér ljóst að hann er samverkamaður og ekki aðeins neytandi.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett fram markmið um heilbrigði allra árið 2000.
    Þau þrjú markmið, sem eru hornsteinar í þessu sambandi, eru:
    Að stuðla að heilbrigðu líferni.
    Að draga úr hættum sem valda heilsutjóni.
    Að reka heilbrigðiskerfi sem þjónar fólkinu.
    Til þess að ná þessum markmiðum þarf, auk heilbrigðisstjórnar, samspil margra þátta, svo sem löggjafar, fjármála, stjórnunar, menntamála, upplýsinga og rannsókna, og árangurinn þarf að meta.``
    Það má segja að slysin séu orðin farsótt í nútímaþjóðfélagi. Þau gera yfirleitt ekki boð á undan sér gagnstætt því sem gerist með ýmsa sjúkdóma sem flestir eiga aðdraganda, stuttan eða langan. Slys og afleiðingar þeirra eru einn alvarlegasti þáttur í heilbrigðisvandamálum okkar Íslendinga því að árlega verður fjöldi fólks fyrir miklum andlegum og líkamlegum þjáningum af þeirra völdum auk þess sem kostnaður þjóðfélagsins er gífurlegur vegna slysa. Orsakir slysa eru yfirleitt þekktar. Greining er einföld og með markvissu forvarnarstarfi er unnt að koma í veg fyrir slys og þar með fækka þeim.
    Til þess að ná slíkum árangri er nauðsynlegt að höfða til hvers einstaklings í því umhverfi sem hann

lifir og hærist í. Það gerist best með því að unnið sé markvisst að slysavörnum í hverju byggðarlagi fyrir sig eftir því sem þörf krefur. Heilsugæsluumdæmin eru mikilvægur vettvangur til að vinna að slíku forvarnarstarfi heima í héraði í samvinnu við aðra þá aðila sem vinna að slysavörnum. Til þess að taka af öll tvímæli um að slysaforvarnir heyri undir verksvið heilsugæslustöðva er frv. flutt.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.