Heilbrigðisþjónusta
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Þetta er hið ágætasta mál. Það er sjálfsagt að slysavarnir eða slysaforvarnir séu m.a. hlutverk heilsugæslustöðvanna. Ég var að velta því fyrir mér hvort menn hefðu þegar lögin voru samin e.t.v. gert ráð fyrir þessu sem einhverjum sérstökum þætti, t.d. undir heilbrigðisfræðslunni. En einmitt með tilliti til þess sem hv. flm. frv. gat um í sinni framsögu hér, með tilliti til þess hversu slys eru orðin alvarlegur og snar þáttur af daglegu lífi okkar allra, bæði umferðarslys og heimaslys, tel ég sannarlega ríkar ástæður til þess að greina þetta sérstaklega sem eitt af hlutverkum heilsugæslustöðva eða atriði sem heyri undir verksvið þeirra.
    Ég hef í raun og veru ekkert fleira um málið að segja annað en að ég tel að þetta sé mjög gott mál og styð það einhuga. ,,Forvarnir`` hefur mér samt aldrei þótt gott orð og ég veit að það er mikill vandi að finna eitthvað annað betra. Ég er svo oft og lengi búin að hugsa um það sjálf. ,,Fyrirbyggjandi aðgerðir`` og ,,forvarnir`` eru hvort tveggja óþjál og ekki falleg orð, en ég hef gefist upp á því að finna eitthvað betra. Slysavarnir væri kannski styttra, en hv. flm. hefur eflaust hugleitt þetta. Þetta er eitthvað sem auðvitað þarf að ræða bara í nefndinni. Erindi frv. finnst mér hins vegar vera afar mikilvægt og brýnt og tek eindregið undir það.