Sveitarstjórnarlög
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga sem er á þskj. 216 og varðar breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986. Ég þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. Það er nátengt frv. sem ég hef nú mælt fyrir og varðar breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Það er eins með þetta frv. að það er aðeins tvær greinar. Fyrri greinin varðar breytingu á 6. gr. sveitarstjórnarlaga um að við 1. tölul. 6. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr liður, svohljóðandi: ,,varnir gegn slysum.``
    Og 2. gr. er um hvenær þessi lög skuli öðlast gildi. Gert er ráð fyrir 1. júní 1990, og er það vegna þess að nú verða sveitarstjórnarkosningar á næsta vori og því þótti mér eðlilegt að ef þetta frv. verður að lögum, sem ég vona, þá taki þau gildi á sama tíma eða strax eftir þær kosningar.
    Ég vildi nota þetta tækifæri hér til þess að flýta fyrir og svara því sem hv. 6. þm. Reykv. kom inn á við umræðuna um heilbrigðisþjónustu. Það var þetta orð, ,,forvarnir`` eða ,,slysaforvarnir``. Það er alveg rétt sem hún gat um að þetta er ekki sérstaklega skemmtilegt orð og ég hafði hugleitt þetta nokkuð. Eins og fram kemur er í þessu frv. gert ráð fyrir að þetta heiti ,,varnir gegn slysum``, en ég hafði þarna ráð læknis um þetta heiti, ,,slysaforvarnir``. Það má segja kannski að ,,slysavarnir`` sé svo víðtækt hugtak í þjóðfélaginu að það sé svolítið annars eðlis þegar um er að ræða heilbrigðisþjónustu eða heilsugæslustöðvar, að með því sé verið að leggja áherslu á hvað átt er við. Hv. þm. nefndi réttilega að þessi þáttur er ekki í upptalningu 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Hvort það er vegna þess að gert er ráð fyrir því undir öðrum heitum held ég satt að segja að sé fremur vegna þess að áherslan var ekki orðin eins mikil hér áður eins og hefur gerst á undanförnum árum, að slysavarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir vegna slysa hafa aukist mjög mikið eins og við þekkjum.
    Ég vil leyfa mér til frekari skýringar að lesa hér það sem talið er upp í 6. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Meðal verkefna sveitarfélaga eru:`` og svo kemur 1. liður sem varðar þessa breytingu: ,,Félagsmál, þar á meðal framfærslumál, aðstoð við aldraða og fatlaða, barnaverndarmál, varnir gegn notkun vímugjafa, rekstur dagvista fyrir börn, rekstur dvalarheimila aldraðra, rekstur heimilishjálpar`` og síðan legg ég til að þarna verði bætt inn í ,,varnir gegn slysum.`` Og það er eins með það eins og í lögum um heilbrigðisþjónustu að ég tel að þetta sé áhersluatriði til að minna á að það þurfi sérstaklega að taka á þessum málum heima í héraði.
    Það kemur fram í grg. með þessu litla frv. að sveitarfélögin eru þær stjórnsýslueiningar sem best þekkja þarfir þegnanna á hverjum stað og því er lagt til með frv. að lögfesta það sem eitt af verkefnum þeirra að vinna að slysavörnum. Rétt er að taka það fram að að sjálfsögðu er það á valdi hverrar sveitarstjórnar hvort og hvernig unnið verður að

slysavörnum, enda aðstæður mismunandi, t.d. í þéttbýli og dreifbýli, svo að dæmi séu tekin. En telja verður meiri líkur á skipulegu forvarnarstarfi ef sveitarstjórn hefur yfirstjórn á slíkum málum heima í héraði með því t.d. að sameina krafta þeirra sem að þessum málum vinna beint eða óbeint. Má í því sambandi nefna fulltrúa heilsugæslustöðva, lögreglu, --- ekki síst vegna umferðarslysa eða umferðaröryggis --- skipulagsyfirvalda, --- þá er ég með í huga gatnagerð og annað skipulag sem snýr að öryggi íbúanna --- skóla, foreldra, íþróttasamtaka, félagasamtaka og klúbba sem hafa slysavarnir á stefnuskrá sinni, en eins og kunnugt er eru fjölmargir klúbbar og félagasamtök sem taka upp einstaka þætti, t.d. eitt ár í senn, einhver mál sem varða slysavarnir.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. Ég held að það skýri sig að öðru leyti sjálft.