Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að lagt skuli fram hér sérstakt frv. um þær viðbætur sem þörf er á fyrir ríkissjóð að taka að láni á þessu ári, eins konar lánsfjáraukalagafrv. Það er út af fyrir sig ágæt framför að slík mál komi hér til umfjöllunar á árinu áður en fjármál ríkisins fyrir yfirstandandi ár eru gerð upp.
    Þannig er að í þessu frv. er verið að fara fram á nýjar lántökuheimildir fyrir sem nemur 6 milljörðum kr. sýnist mér og er það að sjálfsögðu vegna þess að áætlanir fjmrh. og ríkisstjórnarinnar um afkomu ríkissjóðs á þessu ári hafa engan veginn staðist.
    Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um þau efni og þá staðreynd að þetta frv. eins og frv. það til fjáraukalaga sem hér er til meðferðar fyrir árið 1989 og ýmsar aðrar upplýsingar sem borist hafa þingheimi sýna það að fjármálastjórn ríkisins á þessu ári hefur mistekist, hefur verið í molum og þær áætlanir sem gerðar voru um það efni hér á sl. vetri hafa ekki staðist.
    En mig langar, virðulegi forseti, að koma lítillega að málefni sem hæstv. fjmrh. gerði hér að umtalsefni og varðar lántökur ríkissjóðs á innlendum lánamarkaði, ekki síst á markaði hinna svokölluðu ríkisvíxla. Þannig háttar til, eins og ráðherra gat um, að ég hef óskað svars við nokkrum spurningum um þetta efni og því svari var útbýtt hér skriflegu til þingmanna í gær.
    Nú er það reyndar þannig að ýmsir þingmenn hafa sýnt ríkisvíxlum áhuga áður og ég tel mér skylt að geta þess að einn af helstu máttarstólpum ríkisstjórnarsamstarfsins og maður gjörkunnugur í efnahags- og atvinnulífi hér, hv. þm. Stefán Valgeirsson, hefur í blaðagrein gert því skóna að ríkisvíxlar og vextir af þeim séu einhver mikilvægasta hagstærðin í okkar efnahagskerfi. Þannig segir hann til að mynda, með leyfi forseta, í grein sem hann ritar í Morgunblaðið 25. ágúst sl. og fjallar um störf efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar að vextir á ríkisvíxlum hafi leitt til meira en tvöföldunar á öllum vöxtum í landinu og þetta sé aðalástæðan fyrir því að ,,mestur hluti framleiðslunnar og fjöldi einstaklinga lenti í skuldaklöfum``.
    Þetta er einkar athyglisverð kenning hjá helsta efnahagssérfræðingi ríkisstjórnarinnar, að vextir af ríkisvíxlum á árunum 1987 og 1988 séu helsta undirrót alls þess sem illa hefur farið hér í efnahagsmálum síðan. ( SV: Var það.) Var það, skaut hv. þm. inn í mér til leiðbeiningar. En ég vil þá geta þess að á þessum tíma voru viðskipti með ríkisvíxla innan við fjórðungur þess sem þau eru í dag. Viðskipti með ríkisvíxla voru mestan part ársins 1987, alla vega síðari hluta ársins, um 1 milljarður kr. í hverjum mánuði. Útistandandi víxlar námu sem svaraði um það bil 1 milljarði kr. Um þessar mundir er staða útistandandi víxla ekki 1 milljarður heldur 4--5 milljarðar, reyndar á bilinu 3--5 milljarðar, þannig að kenning hv. þm. sem hann varpaði hér fram úr sæti sínu um að það hafi verið svo er að sjálfsögðu

fallin um sjálfa sig þegar af þeirri ástæðu að viðskipti með þessa víxla eru margfalt meiri nú en þau voru fyrir tveimur árum síðan. Hafi þessir vextir skipt máli um efnahagsþróun á árunum 1987--1988, þá skipta þeir væntanlega síst minna máli nú í ljósi þess hversu þessir víxlar eru nú mun stærri þáttur bæði í fjármögnun ríkissjóðs og á almennum peningamarkaði.
    Nú hef ég ekki staðið hér upp til þess að taka undir skoðanir hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Það er fjarri því. Hans kenning í Morgunblaðinu (Gripið fram í.) 25. ágúst var að sjálfsögðu fjarstæða. En engu að síður er það spurning sem er eðlilegt að lögð sé fram hver séu áhrif vaxta á ríkisvíxlum á hið almenna vaxtastig í landinu og hvort í viðskiptum með ríkisvíxla geti leynst ábatavon fyrir þá sem þessa víxla kaupa umfram það sem annars er á peningamarkaðnum. Við skulum aðeins huga að þessum málum vegna þess að í svarinu við fsp. minni koma fram ýmsar fróðlegar upplýsingar og sömuleiðis er að finna í greinargerð um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum, sem útbýtt hefur verið til þingmanna og samin er í Seðlabanka Íslands, margháttaðar upplýsingar um þetta efni, m.a. þær tölur um umfang þessara viðskipta sem ég var að fara með hér fyrir augnabliki síðan.
    En áður en ég legg út af þessum tölum vil ég segja að það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að markaður með þessi bréf, þessa ríkisvíxla skuli vera þó kominn þetta á veg og skuli geta þrifist hér í landinu. Þessi viðskipti fóru tiltölulega hægt af stað fyrir nokkrum árum síðan. En auðvitað er það ríkissjóði mjög nauðsynlegt og ómetanlegt að geta með þessum hætti á almennum markaði fjármagnað þær sveiflur sem verða í viðskiptum ríkissjóðs innan ársins með svona skammtímabréfum. Þess vegna eru þessir víxlar annars eðlis heldur en hin almennu skuldabréf ríkissjóðs, spariskírteini ríkissjóðs sem eru til lengri tíma og eru til að fjármagna viðvarandi halla á ríkissjóði. En það er gott mál að markaður með þessa víxla skuli hafa náð að þroskast og að ríkissjóður eigi auðvelt með að fá fjármagn að láni til skamms tíma.
    Það kemur hér fram í þeim upplýsingum sem birtast í þeirri skýrslu er ég
nefndi frá Seðlabanka Íslands að helstu kaupendur þessara víxla eru innlánsstofnanir, að langstærstum hluta, en einnig fjárfestingarlánasjóðir og í mjög litlum mæli lífeyrissjóðir, tryggingafélög og nokkrir aðrir aðilar, væntanlega einnig einstaklingar. Þannig að í stað þess að þurfa að leita til Seðlabanka Íslands um fjármögnun getur ríkissjóður með þessum hætti leitað út á almennan peningamarkað og aflað sér skammtímalánsfjár eins og kunnugt er, 45--120 daga lán. Þetta tel ég vera jákvætt.
    Og ég tek undir það með fjmrh. að það er full ástæða til þess að reyna að efla viðskipti á þessum markaði og þróa þau með nýjungum. Sama er auðvitað að segja um viðskipti með hin almennu spariskírteini. Auðvitað er aukin markaðsverslun með verðbréf almennt til bóta og heilla í hagkerfinu og

þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni ef augu Alþb. hafa lokist upp fyrir slíkum staðreyndum sem eru löngu viðurkenndar í öllum nálægum löndum.
    Það er ekki ástæða til þess að hafa þennan formála um ríkisvíxla lengri. Ég ætla að víkja aðeins, herra forseti, að því svari sem mér hefur borist við fsp. minni um vexti á ríkisvíxlum á þessu ári því að þar kennir óneitanlega margra grasa og það er ljóst að það eru mjög miklar sveiflur í þessum vöxtum, þ.e. í raunvöxtum ríkisvíxla. Og af hverju stafar það? Það stafar af því að verðbólgan er breytileg milli mánaða, vegna þess að nafnvextirnir á víxlunum eru forvextir sem eru fastákveðnir fyrir fram og hin raunverulega ávöxtun sem kaupandi hefur upp úr krafsinu kemur ekki í ljós fyrr en eftir á þegar vitað er hver verðbólgan hefur verið á tímabilinu. Það er hins vegar alveg ljóst að þeir aðilar sem eru glúrnir í þessum viðskiptum, sem kunna á þennan markað og sem hafa möguleika og hæfileika til þess að spá í bæði þróun verðbólgu og almennra vaxta geta hagnast stórkostlega á því að kaupa ríkisvíxla af hæstv. fjmrh.
    Það er líka ljóst að í hópi þeirra sem þessa möguleika hafa og sem yfir þessari getu búa eru auðvitað ekki síst innlánsstofnanir sem hinn 5. nóv. sl. áttu rúmlega 3,4 milljarða af þeim 4,2 milljörðum sem útistandandi voru í þessum víxlum. Með öðrum orðum: Yfirgnæfandi hluti þessara víxla er keyptur af innlánsstofnunum og þar liggur auðvitað þekkingin um þessi mál, markaðsþekkingin sem gerir aðilum kleift að beina fjármagni sínu þangað sem það gefur mest af sér hverju sinni. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það að bankarnir hafa ígrundað þessi mál mjög vandlega og séð hvenær var heppilegast að kaupa ríkisvíxla og hvenær var heppilegast að losa sig við þá þannig að þar liggur auðvitað sú markaðsgeta sem er nauðsynleg til að geta spáð í þessa hluti af viti fyrir fram.
    Í töflu sem borist hefur sem hluti af því svari sem ég óskaði eftir frá fjmrh. getur að líta hverjir raunvextir þessara víxla hafa verið, annars vegar miðað við framfærsluvísitölu og hins vegar miðað við lánskjaravísitölu. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs voru raunvextirnir neikvæðir, á öðrum ársfjórðungi voru þeir lítillega jákvæðir en á þriðja ársfjórðungi voru raunvextir á bilinu 11,4--12,2% að meðaltali af þessum ríkisvíxlum. Það held ég að flestum þættu dágóðir raunvextir þó til skamms tíma sé. Og til þess að láta hér örlítið meiri upplýsingar koma fram, þá má sjá af þessari töflu að í júlímánuði sl. voru raunvextir af ríkisvíxlum á bilinu 21,5--22,5%, þ.e. þeim tegundum víxla sem hér eru taldir upp. Í ágúst voru þeir á bilinu 15--16%, raunvextir til skamms tíma að vísu. Hins vegar kemur líka fram að þessir vextir geta verið mjög lágir og allt niður í það að vera neikvæðir á köflum ef verðbólgumælingin í þeim mánuði hefur verið mjög há en vextirnir aftur ekki breyst, nafnvextirnir, þannig að hér eru auðvitað sveiflur og fyrir þá sem kunna eitthvað fyrir sér í þessum málum gildir að kaupa víxlana á réttum tíma og selja þá á réttum tíma.

    Þannig sýnist mér, virðulegi fjmrh., miðað við það hvernig þessi mál hafa þróast í september og október og miðað við það hvernig lánskjaravísitalan er nú í byrjun desember, að þá hafi menn og bankastofnanir, væntanlega fyrst og fremst, með því að kaupa sér ríkisvíxla hinn 1. nóv. og eiga þá eitthvað fram í þennan mánuð, hugsanlega til áramóta, getað krækt sér í um það bil 13% raunávöxtun. Með því að kaupa ríkisvíxla 1. nóv. sl. og eiga þá fram til 15. des. eða til áramóta. Þetta held ég að þætti nú feitt á stykkinu fyrir hv. þm. Stefán Valgeirsson, að Ólafur Ragnar Grímsson fjmrh. býður hér mönnum og aðilum úti á markaðnum ríkisvíxla með slíkum vöxtum. Hvar er nú allt vaxtaokrið og hvar er nú allt talið um vaxtaokrið hjá þessum mönnum sem mest hafa talað um það í sambandi við þessa vexti?
    Fjmrh. birtir myndir af sjálfum sér í blöðunum þessa dagana í líki James Bond og býður fólki spariskírteini með góðum kjörum vegna þess að hann hefur lagt svo háa eignarskatta á samkeppnisbréfin að hann getur þvingað niður vextina á spariskírteinum. Ég held að það þættu ekki eðlilegir viðskiptahættir svona almennt séð. En eitthvað held ég að hv. þm. Stefán Valgeirsson hafi ruglast í fræðum sínum varðandi ríkisvíxla og farið út af sporinu í sínum rannsóknum og fræðimennsku ef hann hefur ekki fylgst með þróun ríkisvíxlanna það sem af er þessu ári og fram á þennan dag er þeir voru þó aðalatriðið í því
að hleypa efnahagsstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar á villigötur ef marka má hans skrif um þetta efni.
    Nei, virðulegi forseti. Auðvitað er varhugavert að draga of miklar ályktanir út frá vöxtum á svona skammtímapappírum. Það er auðvitað alveg ljóst og það á enginn að gera það, hvorki í pólitískum tilgangi né öðrum. En það er gagnlegt að hafa þessa hluti fyrir framan sig til þess að geta áttað sig á því hvernig þessir hlutir hafa þróast. Og það er alveg ljóst að með kunnáttu og hæfileikum til þess að vega og meta annars vegar vextina og hins vegar verðbólguþróunina er hægt að ná mjög háum raunvöxtum á þessum markaði. Þetta eru sennilega einhverjir hæstu raunvextir sem hægt er að fá nokkurs staðar um þessar mundir.
    Ef menn hafa keypt t.d. ríkisvíxla 1. júlí og átt þá í tvo mánuði, 60 daga víxla, þá er alveg ljóst að menn hafa haft af því raunvexti á bilinu 17--18%. Það kemur glöggt fram hér á þessari töflu. Og ég spái því við lauslegan útreikning að maður sem hafi keypt víxla 1. nóv. og hyggist eiga þá til áramóta geti fengið svona 13% ávöxtun á sitt fé á þeim stutta tíma.
    En ég ítreka það að þetta er ekki algilt og það eru miklar sveiflur í þessu og miklar breytingar vegna þess hversu sveiflukennd verðbólgan er og hve einstakar mælingar hennar milli mánaða eru breytilegar.
    Þetta held ég, virðulegi forseti, að sé gagnlegt að komi fram í þessum umræðum þó svo að ég ítreki enn að markaður með þessa víxla er mikilvægur, hvað

sem líður hugmyndum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar um það efni, og það er nauðsynlegt að efla hann og halda þar uppi viðskiptum á hverjum tíma til þess, eins og ég sagði áðan, að auðvelda ríkissjóði að fjármagna sveiflur milli tekna og gjalda innan ársins.
    Í þeim skýringum sem fram koma með svari við fsp. minni annars vegar frá fjmrn. og hins vegar Seðlabanka er lögð áhersla á það að vextir ríkisvíxla hafi fylgt öðrum vöxtum frekar en verið leiðandi. Ég verð nú að segja, herra forseti, að ég tel að þetta sé mjög hæpin fullyrðing vegna þess að auðvitað er ekki við öðru að búast en að vextir á skuldaviðurkenningum ríkissjóðs séu ævinlega lægri en annarra. Ríkissjóður er almennt talinn vera besti lántakandi í landinu --- og sem betur fer er nú ekki búið að eyðileggja það orðspor hans --- og þess vegna er auðvitað eðlilegt og engar sérstakar ályktanir hægt að draga út frá því að vextir á ríkisvíxlum séu lægri en vextir á víxlum almennt. Það er ekki málið. Málið er auðvitað það að vextir á ríkisvíxlum, eins og öðrum skuldaviðurkenningum ríkissjóðs, setja ákveðið gólf og aðrir ekki niður fyrir ákveðið mark frá því gólfi. Ákveðið þrep þar fyrir ofan er lágmarkið sem aðrir mundu treysta sér til. Eins og kemur reyndar glöggt fram á línuriti því sem birt er með þessu, þá er náttúrlega alltaf ákveðinn munur, tiltölulega lítt breytilegur, milli vaxta á víxlum ríkissjóðs og 60 daga víxlum almennt í bankakerfinu.
    Því finnst mér, með fullri virðingu fyrir þeim starfsmönnum þessara stofnana sem hafa skrifað þessi svör, og auðvitað gert það af bestu samvisku, ekki hægt að taka undir þá fullyrðingu að vextir á víxlum ríkissjóðs fylgi öðrum vöxtum fremur en að vera leiðandi. Þetta fer auðvitað dálítið eftir því um hvað menn eru að tala. Og það kemur fram í svari fjmrn. að það er auðvitað lánsfjáreftirspurn ríkissjóðs fyrst og fremst sem hefur þarna stærstu þýðinguna. En auðvitað skiptir líka máli hvort einstök tilboð ríkissjóðs á skuldaviðurkenningum eins og ríkisvíxlum eru þannig að til að mynda bankastofnanir hlaupa gráðugar á eftir til þess að krækja sér í þær og ná þeim vöxtum sem þar er boðið upp á og hafa þar af leiðandi ekki á boðstólum lánsfé fyrir hinn almenna mann eða fyrir atvinnuvegina í landinu. Auðvitað er þarna líka ákveðið samhengi þegar boðnir eru slíkir rausnarvextir eins og dæmi eru um þó að það sé ekki almenna reglan, þó að það sé ekki alltaf svo, þá eru þessir rausnarlegu raunvextir, sem ég hef tínt hér dæmi um, til þess fallnir að soga lánsfé frá bönkunum, draga úr möguleikum annarra á að fá þar fyrirgreiðslu og toga þar með upp vaxtastigið þeim megin frá.
    Að öðru leyti ætla ég ekki, herra forseti, að gera lítið úr þeim svörum sem hér hafa borist. Ég tel að þau séu vel af hendi leyst og ég vil þakka fjmrh. fyrir að hafa svarað þessari spurningu með þessum hætti og hans starfsmönnum í fjmrn. og starfsmönnum Seðlabanka sömuleiðis fyrir að hafa lagt vinnu í að útbúa þetta svar sem nú liggur fyrir.