Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég kem nú aðallega upp í stólinn til þess að leiðrétta hv. þm. Geir H. Haarde, þegar hann er að tala um það að ég sé aðalráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Það er að snúa hlutunum alveg við. Það er hv. þm. Geir H. Haarde sem var og er aðalefnahagssérfræðingur --- eða þykist vera það --- Sjálfstfl., stjórnarandstöðunnar. Ég vil að það komi alveg greinilega fram að ég tel mig engan sérfræðing í þessu efni. Hins vegar fylgist ég með og það þýðir náttúrlega ekkert fyrir hv. þm. Geir H. Haarde að bera á móti því að á árinu 1987, frá því að stjórn Þorsteins Pálssonar var mynduð og fram í desember, hækkuðu ríkisvíxlarnir úr 20% í 41,2%. Og af því --- það fór eftir, vextirnir jafnt --- það var boðið í þrepum, fjórum þrepum, sífellt hærra og hærra og auðvitað fóru allir vextir eftir. Það er ( Gripið fram í: Það voru .....) alveg eins og --- það voru ríkisvíxlar. ( FrS: Á ekki þingmaðurinn við nafnvexti, veit þingmaðurinn hvað hann er að tala um?) Ég veit vel hvað ég er að tala um en ég vona það að hv. 1. þm. Reykv. geri sér grein fyrir því hvað hann er að tala um, en það virðist ekki vera. Það er eins og þessir menn skilji ekki að það eru allt aðrar aðstæður nú í þjóðfélaginu, nú eru flestir bankarnir með mikið af lausu fé, mikið af lausu fé flestir þeirra. Áður var keppst um að fá fé inn í bankana, það er kannski enn þá en það var fyrst og fremst á þessum tíma vegna þess hvernig þenslan var. Nú er þenslan minni, eftirspurnin er minni, en samt sem áður eru t.d. raunvextir hjá bönkunum, sumum hverjum, ja, allt upp í 9,5%, ef um skuldbreytingu er að ræða. Ætli hv. þm. Geir H. Haarde geri sér grein fyrir því? Og í sumum tilvikum eru þessir vextir hærri.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson var að tala hér áðan um mína afstöðu í sambandi við vexti í bönkunum. Þessi hv. þm. er náttúrlega dæmi um það þegar menn eru að ræða um hluti sem þeir hafa ekki hugmynd um, ekki nokkra hugmynd um. Ég óska eftir því að hv. þm. nefni þess dæmi að ég hafi samþykkt vaxtahækkun í Búnaðarbankanum eða annars staðar. (Gripið fram í.) Að ég hafi gert, sagði ég. ( Gripið fram í: Ég sagði það.) Og ég var að segja að ef menn athuga vaxtatöflur að undanförnu, hvaða banki hefur verið yfirleitt lægstur? Og einkabankarnir alltaf hærri en ríkisbankarnir, undantekningarlítið, og eru enn.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að ræða það frv. sem hér er. Ég ætlaði aðeins að svara þessum hv. þingmönnum og benda þeim á að lesa bækur sínar betur.