Veiðieftirlitsgjald
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um veiðieftirlitsgjald. Eins og flestum er kunnugt hafa um langt skeið verið innheimt gjöld, þó lítil séu, af leyfum til fiskveiða með sama hætti og gilt hefur um gjöld vegna annarra opinberra leyfa. Gjöld þessi hafa verið ákveðin árlega af fjmrh. á grundvelli laga um aukatekjur ríkissjóðs. Þau hafa runnið í ríkissjóð og námu samtals 6,3 millj. kr. á árinu 1988.
    Í þessu frv. er lagt til að gjöld af veiðileyfum renni ekki ósérgreind í ríkissjóð heldur gangi sérstaklega til að standa undir kostnaði við rekstur veiðieftirlits sjútvrn. Jafnframt er lagt til að sjútvrh. ákveði veiðieftirlitsgjaldið árlega og miði ákvörðun sína við að það beri uppi allan kostnað við eftirlit.
    Í frv. til fjárlaga ársins 1990, sem nú liggur fyrir þinginu, er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu úr ríkissjóði til að standa undir rekstrarkostnaði veiðieftirlitsins. Þess í stað er sértekjum af veiðieftirlitsgjöldum ætlað að standa að fullu undir rekstri þess. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að verja 57 millj. kr. til þessa verkefnis á árinu 1990. Skv. þessu þurfa heildartekjur af veiðieftirlitsgjöldum rúmlega að nífaldast frá því sem var á árinu 1988. Fyrir hækkun þessari hafa verið færð fram þau rök að eðlilegt sé að þeir aðilar sem fá leyfi til að nýta fiskstofna þjóðarinnar greiði þann kostnað sem hlýst af eftirliti með veiðunum.
    Upphaf veiðieftirlits sjútvrn. má rekja til þess tíma þegar fyrirsjáanlegt var að fiskveiðilögsaga okkar yrði 200 mílur og Íslendingar einir bæru ábyrgð á nýtingu auðlinda sinna. Þá var ákveðið að gera átak til að verna fiskstofna okkar m.a. með stækkun möskva í veiðarfærum og banni á veiðum á uppeldis- og hrygningarsvæðum smáfisks. Þegar hin svokallaða svarta skýrsla var birt lá fyrir að ástand fiskstofnanna væri svo bágborið að nauðsynlegt þótti að setja víðtækar veiðitakmarkanir í því skyni að koma í veg fyrir ofveiði helstu nytjastofna. Þá var tekið upp svokallað skrapdagakerfi, en frá árinu 1984 leysti hið svokallaða kvótakerfi það af hólmi. Enn fremur voru af hálfu ráðuneytisins settar frekari reglur um gerð veiðarfæra t.d. möskvastærð, merkingar þeirra og búnað fiskiskipa. Þá voru ákveðnar tegundir veiðarfæra bannaðar á vissum svæðum og árstímum. Einnig er fjöldi þeirra neta sem hverju skipi leyfist að leggja í sjó takmarkaður svo fátt eitt sé nefnt.
    Allar þessar reglur miða að því að koma í veg fyrir veiðar sem skaðað geta fiskstofnana hér við land. Fiskveiðistjórnunaraðferðir sem þessar skila því aðeins árangri að eftirlit sé haft með að lög og reglur séu virt. Í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands frá árinu 1976 var fyrst heimilað að ráða veiðieftirlitsmenn til að fylgjast með veiðum og veiðarfærum. Nú starfa 17 menn við veiðieftirlit í sjútvrn. Starf þeirra fer fram með þeim hætti að eftirlitsmennirnir fara í veiðiferðir með fiskiskipum og ferðast milli verstöðva til að fylgjast með þeim afla sem berst á land. Á grundvelli upplýsinga frá veiðieftirlitsmönnum eru veiðar oft bannaðar

tímabundið á ýmsum svæðum. Þá fer mikið starf í að gefa út veiðileyfi, halda utan um skýrsluskil og fylgjast með að einstakir aðilar veiði ekki umfram aflaheimildir. Verkefni veiðieftirlitsins hafa stóraukist á undanförnum árum vegna nauðsynlegra takmarkana á veiðiheimildum fiskiskipa. Kemur hér margt til. Má þar t.d. nefna að þegar núgildandi lög um stjórn fiskveiða voru sett bættist við eftirlit með 800--1200 smábátum. Landanir smábáta eru tíðari en stærri skipa, og veldur það aukinni eftirlitsþörf á löndunarstað. Þá hefur reynst nauðsynlegt að stórauka eftirlit um borð í fiskiskipum, einkum togurum, til að koma í veg fyrir veiðar á smáfiski. Þá hefur frystitogurum sem krefjast aukins eftirlits fjölgað allverulega.
    Miðað við umfang og mikilvægi verkefna veiðieftirlitsins er kostnaður af rekstri þess ekki mikill. Í fjárlagafrv. næsta árs er, eins og áður sagði, gert ráð fyrir að 57 millj. kr. renni til þessa verkefnis. Þess má geta að aflaverðmæti landaðs afla var nálægt 30.700 millj. kr. árið 1988. Miðað við úthlutuð þorskígildi á árinu 1988 og áætlanir í fjárlagafrv. næsta árs lætur nærri að gjaldið nemi 11--12 aurum á hvert kíló þorskígildis.
    Á tímum mikilla erfiðleika í ríkisfjármálum, og jafnvel þótt miklir erfiðleikar séu jafnvel í sjávarútvegi, verður að telja það réttlætismál að þeir sem fá heimild til að nýta fiskveiðiauðlindina standi öðrum fremur undir því eftirliti sem nauðsynlegt er að viðhafa til verndar auðlindinni. Langflest veiðileyfi kveða nú orðið á um hámark þess afla sem heimilt er að veiða. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að öll skip, stærri en 10 brúttólestir, greiði veiðieftirlitsgjald er verði miðað við heimilað aflamagn. Velji skip sóknarmark við botnfiskveiðar skal veiðieftirlitsgjaldið miðast við það aflamark sem skipið átti kost á, enda felst takmörkun sóknarmarksins fyrst og fremst í fækkun sóknardaga og ekki er kveðið á um hámarksafla af öllum tegundum. Þá er lögbundið að veiðieftirlitsgjaldið megi aldrei nema hærra hlutfalli en 0,5% af áætluðu verðmæti þess afla sem viðkomandi skip hefur
leyfi til að veiða. Með þessu móti setur löggjafinn hámark á þá fjárhæð sem framkvæmdarvaldinu er heimilað að innheimta í veiðieftirlitsgjald.
    Í 3. gr. er lagt til að bátar undir 10 brúttólestum greiði fast veiðieftirlitsgjald með sama hætti og nú er. Sama á við um önnur leyfi sem ekki kveða á um leyfilegan hámarksafla eins og t.d. leyfi til grásleppuveiða og ýmissa tilraunaveiða. Fast gjald yrði einnig ákveðið vegna leyfa til veiða með einstök veiðarfæri eins og t.d. dragnót. Gjald fyrir þessi leyfi taki mið af líklegu meðalaflaverðmæti.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir að útgerðinni beri að sjá veiðieftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir sinna skyldustörfum sínum um borð í fiskiskipum. Engin breyting felst í þessu ákvæði. Það er í samræmi við þá tilhögun sem verið hefur hingað til. Það þykir hins vegar rétt að kveða á um þetta atriði í lögunum til að taka af allan vafa.
    Þörf á veiðieftirliti um borð í veiðiskipi sem

fullvinnur afla um borð er ríkara en í öðrum fiskiskipum. Frystiskipum sem fullvinna afla um borð hefur fjölgað mikið. Þau koma ekki með hráefni að landi heldur unna vöru. Hefðbundin vigtun fer því ekki fram á afla þeirra. Í stað vigtunar er framleiðsla um borð bakreiknuð miðað við fasta nýtingarstuðla. Á grundvelli þess er aflamagn þeirra metið. Þannig er augljóslega ekki trygging fyrir því að frystiskip nýti afla á sama hátt og frystihús í landi gera. Af þessu má sjá að aðgangur frystihúss og frystiskips að hráefni er ekki sá sami. Frystiskip með lélega nýtingu getur bætt sér hana upp með aukinni veiði. Þessi aðstöðumunur þykir eðlilega óréttlátur og skapar tortryggni sem kallar á aukið eftirlit með veiðum þessara skipa. Hefur sjútvrn. reynt að sinna því eftir mætti og meðal annars hefur nú alveg nýlega farið fram ítarleg athugun á nýtingu allmargra frystiskipa sem mun væntanlega leiða til nokkurra breytinga á nýtingarstuðlum þeirra.
    Sömu sjónarmið eiga jafnframt við í fleiri tilvikum. Sem dæmi má nefna þegar heimilaðar eru undanþágur frá almennum reglum til veiða í tilraunaskyni. Það þykir því eðlilegt í slíkum tilfellum sem þessum að gera ráð fyrir að innheimta megi sérstakt gjald til viðbótar almennu veiðieftirlitsgjaldi af vinnslu um borð eða ef veiðar krefjast umfangsmeira eftirlits en almennt gerist. Það verður að telja eðlilegt að útgerðir þeirra skipa standi sérstaklega undir þeim tilkostnaði en hann sé ekki borinn uppi af viðbótargjaldi eða hærra gjaldi á önnur skip í flotanum. Það verður að teljast eðlilegt að það sem lagt er á skipin sé í einhverju samræmi við þann tilkostnað sem felst í eftirliti með þeim. Til þess að tryggja það í meira mæli eru þessi ákvæði í 4. gr. Að öðrum kosti yrði að leggja það á allan flotann, sem verður að teljast óeðlilegt og óréttmætt.
    Sá kostnaður sem hér um ræðir er fyrst og fremst laun og ferðakostnaður veiðieftirlitsmanna.
    Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. Ég vænti þess að frv. þetta fái sem skjótasta meðferð og vek athygli á því að það er gert ráð fyrir þessu gjaldi í forsendum fjárlaga ársins 1990.