Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, Inga Birni Albertssyni og Sigríði Lillýju Baldursdóttur að flytja frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem er 185. mál þingsins. Jafnframt er flutt annað frv. sem næst er á dagskránni og er 186. mál þingsins og hefur að geyma samsvarandi breytingu við lög nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.
    Það er óþarfi, virðulegur forseti, að rekja einstakar greinar frv. Ég vil þó benda á að ég hef leyft mér að setja þetta frv. upp með nokkuð sérstökum hætti. Greinargerðin er stutt og einnig athugasemdir við einstakar greinar, enda er frv. tiltölulega auðvelt aflestrar og ekki flókið, en með frv. er fskj. þar sem prentaðar eru allar þær greinar sem frv. snerta og skáletraðar þær breytingar sem verða ef frv. nær fram að ganga. Þetta er gert til að auðvelda hv. þm. að átta sig á hverjar breytingarnar yrðu á lögunum ef frv. yrði samþykkt, en oft kemur það fyrir að einstakar greinar í frumvörpum hljóða þannig að þessi og hin lagagreinin skuli orðast svo --- og síðan er ekki nokkur leið að átta sig á því hvað hefur breyst nái frv. eða frvgr. fram að ganga. Þetta vil ég benda á, virðulegur forseti, vegna þess að það kynni að
vera öðrum fordæmi, ekki síst þegar verið er að breyta lögum á borð við lögin um tekjuskatt og eignarskatt, en slík lög ganga menn jafnan ekki með í kollinum, enda er þeim breytt mjög oft á þingi.
    Það kom mjög vel í ljós þegar eignarskatturinn hækkaði vegna lagabreytingar fyrir rúmu ári síðan að hann lenti með miklu meiri þunga á ýmsa þá sem síst skyldi. Því verður varla trúað að hæstv. ríkisstjórn hafi t.d. ætlast til þess að fólk sem tekið hefur að sér börn, jafnvel óskyld börn, þyrfti að gjalda þess með gífurlegri hækkun eignarskatta í efra þrepi, ekki síst þegar um er að ræða börn þar sem fjárhaldsmaðurinn er allt annar, jafnvel tiltekinn lögfræðingur sem fengið hefur fjárráð barnanna í sínar hendur, en vandalaust fólk hefur tekið að sér uppeldi barnanna. Því miður er löggjöfin þannig að enginn sveigjanleiki er til þess að börnin geti talið fram sérstaklega eða fjárhaldsmaður fyrir þeirra hönd. Með þessu frv. er komið til móts við þau sjónarmið að gera lögin sveigjanlegri til að hægt sé að telja sérstaklega fram fyrir börn. Þetta eru heimildarákvæði og ég hygg að einungis séu örfá tilvik þar sem til slíks verður gripið.
    Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta frv. Það hefur ekki verið borið undir fulltrúa af skattstofum, en hins vegar eru frumvörpin samin annars vegar af endurskoðanda og hins vegar lögfræðingi sem þekkja til þessara mála.
    Þar sem ég á sæti í hv. fjh.- og viðskn. Nd. gefst mér auðvitað þar kostur á að leita upplýsinga hjá skattstofunum, ríkisskattstjóra og hugsanlega skattstjóranum í Reykjavík, og ef upp koma atriði í viðtölum við þá aðila sem valda því að breyta þurfi þessu frv., þá tel ég að slíkt verði að sjálfsögðu að

gera. Aðalatriðið er að ekki líði þetta þing fram yfir jól án þess að tekið verði tillit til þessara sérstöku óska hvort sem það verður gert með því að samþykkja þetta frv. sérstaklega eða taka tillit til þeirra atriða sem hér eru nefnd í heildarafgreiðslu frv. til breytinga á tekjuskatts- og eignarskattslögunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað að verði lagt fram í dag eða á næstu dögum.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, mælist ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.