Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að segja nokkur orð í þessari 1. umr. um frv. til l. um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, en þó verð ég að hafa hér fyrst af öllu nokkur orð um vinnubrögð. Það er undarlegt lögmál --- ég vil ekki segja náttúrulögmál --- sem ríkir hér á Alþingi fyrir hvert þinghlé, fyrir jól og eins á vorin, að það skuli þurfa að viðhafa þetta vinnulag, að veigamiklar breytingar á lögum eins og hér er um að ræða eða þá yfirgripsmiklar kerfisbreytingar skuli ekki vera reiðubúnar fyrr en svo stutt lifir eftir af þinghaldi. Mér skilst að við eigum í vændum fjöldann allan af málum sem beðið er um að afgreiða fyrir jólaleyfi þingmanna. Í þau sex ár sem ég hef starfað hér hefur þetta orðið raunin á hverju einasta ári. Auðvitað hlýtur skipulag vinnunnar að ráða því hvenær tekin eru fyrir svona veigamikil mál, hvenær þessi stóru mál eru tekin fyrir. Þrásinnis höfum við lent í því að þurfa að kasta höndum til verka af því að allt of lítill tími gefst til þess að sinna þessum málum og bæði ráðherrar og þm. vita að þeir eru að afgreiða mál sem hafa marga lausa enda og síðan þarf að senda t.d. í milliþinganefnd þar sem þarf að lagfæra þau áður en þau verða nothæf sem lög til framkvæmda. Þetta er náttúrlega óviðunandi. Ég hlýt að lýsa yfir furðu á því að jafnvel þegar ríkisstjórnirnar yngjast og í þær koma menn sem ættu að hafa lært annað vinnulag, þá virðast þeir viðhafa sömu vinnubrögð. Það væri áhugavert að heyra bollaleggingar hæstv. ráðherra um það hvers vegna þetta þurfi að vera. Það er skiljanlegt að sumu leyti því þarna er um stóran vinnuhóp að ræða. Ríkisstjórnin er ekki lítill hópur og eflaust misjafnlega auðveldur viðfangs. Það þarf að koma sér saman um hluti og þá vík ég að því sem hæstv. ráðherra minntist á í upphafi máls síns að nefnd hefði verið skipuð þar sem stjórnarandstöðu hefði gefist kostur á að ræða þær breytingar sem fyrirhugaðar
voru á virðisaukaskatti. En ég vil gagnrýna að á síðari stigum þess máls, þegar einmitt var um mjög viðkvæm ágreiningsatriði að ræða eins og t.d. ákvörðun um það hvort skattur yrði á matvælum og þá, ef hann yrði, hversu hár hann yrði, hvort skatturinn yrði yfirleitt í tveim þrepum og hversu há prósenttala skattsins yrði. Þetta eru auðvitað mjög veigamikil mál en stjórnarandstaðan var ekki með í ráðum þegar þessi atriði voru til umfjöllunar og ég vil leyfa mér að gagnrýna það.
    Hæstv. ráðherra minntist á að það hefði ekki áður gerst að skatthlutfall lækkaði þegar gerðar væru breytingar á skatti eins og þessum. En þá vil ég minna hæstv. ráðherra á að enn er þessi virðisaukaskattur með þeim hæstu sem gerast meðal Evrópulanda þannig að þó að hann hafi lækkað ívið frá því sem honum var upphaflega ætlað að vera, þá er hann samt enn mjög hár. Það vil ég minna bæði hæstv. ráðherra á og vekja athygli hv. þm. á. Þetta er mjög hár virðisaukaskattur. ( Gripið fram í: Það var ekki verið að lækka hann, það var verið að hækka

hann frá lögunum.) Já, það er verið að hækka hann frá þeim lögum sem samþykkt voru á Alþingi og áttu að taka gildi nú um áramótin. Í þeim er honum ætlað að vera 22% þannig að hér er í raun og veru um hækkun að ræða upp í 24,5%. En núverandi söluskattur er 25%. (Gripið fram í.) Já, en hins vegar hafa hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hamrað á því að skatthlutfallið hafi lækkað. Það er náttúrlega til þess að gera þennan skatt girnilegri og þolanlegri í augum þjóðarinnar því að hér er auðvitað um óvinsælan skatt að ræða.
    Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hér væri um að ræða, ef ég man rétt, ,,umfangsmiklar skattkerfisbreytingar sem sköpuðu óvissu á mörgum sviðum`` og það er víst alveg rétt. Í raun og veru má ráða það bæði af máli hans, af frv. sjálfu og af því sem sagt hefur verið um þessar breytingar að menn vita í raun ákaflega lítið hver áhrif þessar breytingar munu hafa í þjóðlífinu. Það hefur t.d. verið reiknað út að lækkanir verði á ákveðnum atriðum og hækkanir e.t.v. á öðrum. En þetta eru í raun og veru allt saman ágiskanir. Þetta eru allt saman spár sem enginn veit hvernig munu rætast. Í þessu eru margar breytur og mjög margir óvissir þættir.
    Ég lýsi yfir mikilli óánægju okkar kvennalistakvenna með að enn skuli hér í þessum virðisaukaskatti vera skattur á matvæli. Okkur finnst þetta eftir sem áður vera afar óréttlátur og heimskulegur skattur. Hann er óréttlátur gagnvart heimilunum þrátt fyrir þær endurgreiðslur sem fyrirhugaðar eru. Og ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra hefur enn ekki í raun upplýst okkur um hvernig þessar endurgreiðslur munu fara fram. Við höfum enn ekki fengið í hendur reglugerð. Að vísu stendur í athugasemdum um 13. gr. að frádrátturinn verði á söluverði matvörunnar á heildsölustigi hvað mjólk og dilkakjöt varðar, en að mestu á smásölustigi þegar fiskur og innlent grænmeti á í hlut. En ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra og hv. þm. á því að einungis er um að ræða ákveðnar, tilteknar tegundir matvæla. Skatturinn er í raun tekinn af öllum öðrum tegundum matvöru og af öllum öðrum tegundum vöru nema þar sem tekið er fram um undanþágur og þær eru ekki margar. Þess vegna er miklu líklegra að skatturinn leiði í raun til almennra hækkana og verði íþyngjandi fyrir
heimilin vegna þess að einungis er um takmarkaðan fjölda matvara að ræða. En í 13. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjmrh. ákveður með reglugerð nánar hvaða matvara fellur undir þessa mgr. svo og um framkvæmd endurgreiðslunnar.``
    Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, er von á einhverjum fleiri tegundum matvöru? því einungis eru tilteknar neyslumjólk, dilkakjöt, neyslufiskur og ferskt innlent grænmeti. Hvað er átt við með því að fjmrh. ákveði með reglugerð nánar hvaða matvara fellur undir þessa mgr.? Eru það ekki allar tegundir þessarar matvöru sem taldar eru upp þarna? Er verið að veita hér heimild til takmörkunar eða er von á einhverjum

fleiri?
    Síðan vil ég benda hæstv. ráðherra á það að ferskt innlent grænmeti er yfirleitt ekki á boðstólum nema takmarkaðan tíma ársins, því miður. Það þýðir að það grænmeti sem fólk neytir á vetrarmánuðum, utan einstaka tegunda suma vetrarmánuðina, er yfirleitt erlent og það þýðir í raun að nær helming ársins greiðir fólk fullan virðisaukaskatt af grænmeti sem er bæði holl og veigamikil matvara.
    Ég tel í raun að það sé mikil óskhyggja í máli hæstv. ráðherra. Ég tel að hann viti í raun ekki fyllilega né samstarfsmenn hans hvernig þessi veigamikla skattkerfisbreyting muni verka þegar til kastanna kemur. Hann er búinn að kynna fyrir okkur spár sínar um það að matvara muni að öllum líkindum lækka eitthvað, væntanlega í janúar og jafnvel e.t.v. í febrúar. En hann hefur hins vegar ekkert sagt okkur um hvað verður í mars, apríl, maí, júní og það sem eftir lifir ársins. Það er nefnilega mjög líklegt að eins fari hjá okkur og öðrum þjóðum sem tekið hafa upp virðisaukaskatt að hækkun verði á vísitölu, hækkun verði á verðlagi. Það er ýmsum spurningum enn ósvarað í sambandi við upptöku á virðisaukaskatti sem hefur orðið til þess að margir aðilar í þjóðfélaginu hafa farið fram á frestun hans um að minnsta sex mánuði eða jafnvel eitt ár. Það er enn óljóst hver áhrif þetta muni hafa á fyrirtæki, t.d. í framleiðslu og iðnaði. Það er t.d. spurning hvort hægt sé að greiða þessum fyrirtækjum uppsafnaðan söluskatt með sama hætti í núverandi kerfi og í virðisaukaskatti. Ekki hefur verið svarað spurningum um þá galla sem eru á þessu kerfi, sem varða skattsvikin t.d. Hvort ekki verði í raun jafnmiklir möguleikar á að svíkja undan skatti í virðisaukanum eins og í núverandi kerfi. Því hefur heldur ekki verið svarað hvort allt eftirlit verði ekki flóknara vegna innskattsins og fjölgunar fyrirtækja þannig að það verði í raun miklu dýrara og erfiðara að koma í veg fyrir skattsvik en ætlað er. Það má vænta þess að um mikla aukavinnu verði að ræða hjá fyrirtækjum í byrjun, það verði erfitt fyrir þau og valdi auknum kostnaði að sinna almennu eftirliti í virðisaukaskatti. Þessi kostnaður gæti haft þau áhrif á fyrirtækin að þau ýttu honum út í verðlagið. Það gæti hækkað rekstrarkostnað þeirra og þar með e.t.v. lækkað laun. Og hvaða áhrif hefði það t.d. á ráðstöfunartekjur heimilanna? Ekki síst þegar litið er til vafasamrar stöðu þjóðarbúsins nú.
    Hvaða áhrif hefur það t.d. á fyrirtækin og innheimtuna, álagninguna á virðisaukaskatti fyrir ríkissjóð ef kaupgeta launafólks í landinu heldur áfram að lækka eins og hún hefur gert á undanförnum mánuðum og lækkar enn við upptöku skattsins? Hvaða áhrif hefur það t.d. á byggðir landsins, vegna hinna smáu rekstrareininga sem þar eru og eiga í vandkvæðum með að koma þessum skatti til skila þrátt fyrir þá 70--80 fundi sem hæstv. ráðherra segir að haldnir hafi verið auk annarra funda úti á landi? Og hvaða áframhaldandi stuðning hyggst ríkisstjórnin gefa fyrirtækjum og einstaklingum sem ber að skila þessum skatti? Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn og þá

hæstv. fjmrh. að styðja fyrirtæki og einstaklinga til þess að standa að skilum í sambandi við þennan skatt? Ef þessi aðgerð reynist í raun mjög illa, því hæstv. ráðherra veit auðvitað ekkert frekar en aðrir hæstv. fjmrh. á undan honum hvernig til muni takast. Þetta er tilraun. Ef hún reynist illa og á eftir að valda miklum mistökum víða vegna óvissu og erfiðleika í framkvæmd, hækkandi vöruverðs, lækkandi launa og verri skilum á skatti, hvað mun hæstv. ráðherra þá taka til bragðs? Hefur hann hugleitt það, eins og maður verður yfirleitt að gera þegar maður gerir tilraunir? Hefur hann hugleitt hvernig hann muni mæta þeim vanda og hvenær hann muni ákveða að gera upp reynsluna af skattinum til þess að meta hver áhrif hann hefur og hvenær honum og ríkisstjórninni beri að grípa inn í til þess að reyna að hafa áhrif til leiðréttingar eða bóta? Hver er hans ábyrgð og annarra stjórnmálamanna í raun sem hafa komið skattinum á? Og það má líka spyrja: Hve miklu eru stjórnvöld tilbúin að fórna vegna þessa skatts? Hvaða ávinningur er það mikill fyrir svona fámennt þjóðfélag sem við Íslendingar byggjum að réttlæti allar þær umbyltingar sem verða vegna hans í þjóðfélaginu?
    Ég vil leyfa mér að setja spurningarmerki og koma með miklar efasemdir enn í sambandi við þessa skattkerfisbreytingu og tel að þó að meira sé talað um
kosti kerfisins þá hafi alls ekki verið sýnt fram á hvernig eigi að mæta stærstu göllum þess sem engan veginn er ljóst hver áhrif muni hafa í framkvæmdinni.
    Ég vil þó víkja lítillega að því sem kemur hér strax fram í 1. gr. frv. og ég tel að sé mjög jákvætt. Þar er tilgreind undanþága frá skattskyldu í eftirtalinni vinnu og þjónustu: Rekstri skóla og menntastofnana og ökukennslu, starfsemi safna, bókasafna, listasafna, náttúrugripasafna og hliðstæðrar menningarstarfsemi, aðgangseyri að tónleikum, leiksýningum og leikhúsum. Ég tel að þetta sé til mikilla bóta. Þegar söluskatturinn var ræddur hér á þingi og matarskatturinn var settur á og einnig þegar virðisaukaskatturinn var ræddur og síðan samþykktur þá báru kvennalistakonur fram brtt. sem vörðuðu það sem við álitum vera nauðþurftir, eins og mat og menningu. Við álitum þetta vera atriði sem bæri að taka tillit til við undanþágu. Þarna hefur menningunni verið skotið inn og er það vel. Síðan hefur verið bætt við hér í 2. gr., breytingar á 4. gr., skólamötuneytum. Ég tel einnig að það sé vel. Sömuleiðis sala tímarita, dagblaða, landsmála- og héraðsfréttablaða, afnotagjöld útvarpsstöðva og ekki síst sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra. Svo og sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis.
    En ég hlýt að spyrja, eins og hér hefur áður verið spurt: Hvernig stendur á því að þessi gjalddagi, 16. nóv. árið 1990, er valinn til undanþágu fyrir bækur? Í fyrsta lagi er þarna um að ræða frestun um eitt ár, til þess að reyna að ná meira fé inn í ríkissjóð væntanlega. En þetta er atriði sem vekur strax upp hugsanir hjá öllum þeim sem láta sig skólafólk einhverju varða. Það er svo augljóst mál fyrir alla þá

sem þekkja skólafólk að bókakaup þeirra fara fram í það minnsta mánuði eða tveim mánuðum áður og ég hlýt að benda hæstv. ráðherra á það að bókakaup unglinga í skólum eru verulega fjárfrekur liður þegar tekið er tillit til þeirra peninga sem þau geta aflað sér yfir sumartímann. Og ég hlýt að spyrja eins og hér hefur verið spurt áður: Hvers vegna í ósköpunum er þetta ekki fært fram a.m.k. um mánuð eða tvo og tekið sérstaklega tillit til þeirra? Þarna er um mjög veigamikið atriði að ræða, einkum vegna þess að bækur hafa verið mjög dýrar og þau hafa yfirleitt þurft að kaupa nýjar bækur á hverju hausti vegna þess að oft er skipt um kennslubækur, í framhaldsskólum sérstaklega. Ég vil vekja athygli á því að einmitt þegar þessi mál voru til umræðu, þ.e. söluskatturinn, fluttu kvennalistakonur frv. til laga hér á þinginu um að söluskattur yrði sérstaklega felldur af námsbókum til þess að koma til móts við þessar þarfir nemenda og draga úr þeim kostnaði sem þeir þurfa að mæta við bókakaup.
    Þetta hlýtur að vera eitthvað sem hægt er að breyta, þetta hefur trúlega verið aðgæsluleysi hjá hæstv. ráðherra og embættismönnum hans og ég trúi ekki öðru en því fáist breytt í nefndinni svo sjálfsagt mál sem það er.
    Hér í þessari 1. umr. tel ég ekki ástæðu til að orðlengja mjög um einstakar greinar frv. annað en það sem er meginefni þess og ég hef þegar minnst á. En ég hlýt samt að lýsa yfir megnustu óbeit á og mikilli andstöðu við þá aðgerð að skattleggja matvæli þrátt fyrir þær endurgreiðslur sem hér er boðið upp á. Þær eru einungis af mjög fáum tegundum matvæla, þær eru ekki af þorra þeirrar neyslu sem er stærsti kostnaðarliður efnalítilla fjölskyldna og þeirra sem eru barnmargar. Ég veit að ríkissjóður á bágt um þessar mundir, það þarf að draga til hans meira fé, en það eru aðrar aðferðir til þess. Þetta er ekki skattheimtuleið sem við kvennalistakonur mælum með eða kjósum að fara. Það er eitt sem hæstv. ráðherra sagði í sínu máli og kemur reyndar fram á bls. 6 í frv. Hann talar um að hækkunin verði mun minni á verðlagi t.d. í janúar. Hann talar um að hún verði 1--1,5% í stað 2%. Hann talar um að matvörur muni lækka í janúar. En þá langar mig til að spyrja hann: Lækka miðað við hvað? Lækka þær miðað við það sem þær eru nú eða lækka þær miðað við það sem þær hefðu hækkað ef skatturinn hefði verið 26% og lagst á matvæli í einu þrepi? ( Gripið fram í: Það hækkar allt saman.) Nei, ég vil fá svör nákvæmlega við þessari spurningu. Auðvitað reynir hæstv. ráðherra að gylla þetta fyrir hv. þingmönnum (Gripið fram í.) Já, ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra svari þessu í ræðustól á eftir. Ég tel það afar mikilvægt að við fáum að vita: Lækkun miðað við hvað? Því hæstv. ráðherra reynir auðvitað að gylla þetta mál og fegra og láta það líta eins vel út og hægt er. Ég hef hins vegar mjög sterkar efasemdir um að endurgreiðslurnar séu jafnveigamiklar og komi til með að skipta jafnmiklu máli og hann vill vera láta fyrir matarreikning heimilanna, fyrir búreikning heimilanna,

fyrir rekstrarkostnað heimilanna. Þetta er að vísu viðleitni, ég hlýt að segja það. Þetta er viðleitni hæstv. ráðherra. En auðvitað leggur hann megináhersluna á að fegra þessa viðleitni sína og gera meira úr henni en e.t.v. efni standa til. Ég leyfi mér að efast stórlega um að þetta breyti eins miklu og hann vonar. Ég vil ítreka spurningu mína: Lækka miðað við hvað? Er það núverandi verð eða er það miðað við 26% sem áttu að leggjast á? Er það miðað við 25% söluskatt sem hefði haldið áfram að vera? Ég vil gjarnan fá svör við þessu. Síðan vænti ég þess að okkur gefist meiri tími til að fara í gegnum þetta mál og athuga ýmis atriði þess en okkur hefur gefist hér áður en málið er tekið í umræðu.
    Annríki þingmanna fer vaxandi nú þó að þingið hafi verið rólegt framan af í haust. Nú eru nefndafundir á hverjum morgni og flest þessi plögg sem við eigum
að ræða í málinu berast okkur afar seint. T.d. þær fréttatilkynningar til dagblaða og fjölmiðla sem hæstv. ráðherra var svo vinsamlegur að láta okkur þingmönnum í té hér um miðjan dag. Það var fjarskalega fallega hugsað af honum að við fengjum nú að sjá þetta eins og fjölmiðlarnir. Mér finnst það sjálfsögð kurteisi af honum. En það hefði kannski mátt vera aðeins fyrr. Og það hefði jafnvel mátt vera sérstök tilkynning til þingmanna, starfsfélaga hans á þinginu sem eiga að fjalla um þessi mál, alveg eins og honum er auðvitað skylt og rétt að senda þetta til fjölmiðla og fréttamanna.
    Ég vona að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum. Þær eru fremur einfaldar og ætti ekki að vera erfitt fyrir hann að svara þeim. Ég mun ekki hafa fleiri orð um málið í 1. umr., en áskil mér rétt til þess að hafa lengra mál og gera breytingar við málið eftir umfjöllun nefndarinnar.