Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. fjmrh. talaði um að það mundi valda 400 millj. kr. tekjutapi fyrir ríkissjóð á næsta ári ef sú ákvörðun yrði tekin nú að virðisaukaskattur af bókum felli niður frá og með 1. jan. nk. Og hann talaði um að ástand í þjóðmálum væri svo erfitt nú um stundir að hann gæti ekki sem ábyrgðarmaður ríkissjóðs lagt til slíka skerðingu á tekjustofni ríkisins af þeim sökum. Nú liggur fyrir þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar og þar kemur raunar fram að næsta ár mun verða þriðja árið í röð sem landsframleiðsla fer minnkandi og því er síður en svo spáð að atvinnuhorfur verði betri hér á landi að einu ári liðnu en það er nú. Á hinn bóginn vekur athygli að hæstv. ráðherra grunar e.t.v. að feigsmerki séu á ríkisstjórninni og það muni koma í annars hlut en hans að bera ábyrgð á þeirri tekjurýrnun á árinu 1991 sem niðurfelling á virðisaukaskatti af bókum hefur í för með sér.
    En það var annað sem hæstv. ráðherra sagði í þessu sambandi sem nauðsynlegt er að fá hans hugmyndir um nú og það er hvernig hann hugsar sér þessi skil. Nú verður það þannig á næsta ári að öll aðföng til bóka verða virðisaukaskattsskyld. Þær bækur sem unnið verður að á næsta ári, sú vinna öll og aðföng til þeirrar vinnu verður virðisaukaskattsskyld, það liggur í augum uppi. Og þá er spurning sem nauðsynlegt er að fá svör hæstv. ráðherra við: Hugsar hann sér að sú breyting verði gerð 1. nóv. á næsta ári að sá virðisaukaskattur sem fallið hefur til á árinu, frá 15. jan. til 15. nóv., komi til endurgreiðslu eftir að virðisaukaskattur verður felldur niður á bókum? Með öðrum orðum, verða þær bækur sem prentaðar eru fyrir 15. nóv. og efnt hefur verið til fyrir 15. nóv. látnar sitja við sama borð að þessu leyti og þær bækur sem unnið verður að og prentaðar verða eftir 15. nóv.? Ég held að við fjmrh. hljótum að verða sammála um að þannig verður að ganga frá þessum málum að sú vinna við bókagerð sem til fellur fyrir þennan tíma komi til endurgreiðslu, sá virðisaukaskattur sem bókaútgefendur hafa greitt til 15. nóv. komi til endurgreiðslu um leið og sú ákvörðun er tekin að bækur verði undanþegnar virðisaukaskatti. Annars verður slík örtröð á þessum skamma tíma sem þá er til jóla að erfitt er að sjá hvernig það endar og efnt til ringulreiðar í þessari atvinnugrein. Ég þykist vita að fjmrh. og fulltrúar hans í fjmrn. muni vinna að því með nefndinni að taka af öll tvímæli um það að við meinum það að eftir 15. nóv. verði þær bækur sem seldar eru í landinu undanþegnar virðisaukaskatti hvenær sem vinnan við þær hefur verið innt af hendi, hvort sem pappírinn í bækurnar hefur verið keyptur í september, janúar eða nóvember, þannig að virðisaukaskatturinn komi til endurgreiðslu á þeim tíma. Ég vildi gjarnan fá svar hæstv. ráðherra um það hvernig hann hugsar sér þessa hluti. Með öðrum orðum, er þess að vænta að sá virðisaukaskattur sem bókaútgefendur hafa innt af hendi á greiðslutímabilunum fram til loka

októbermánaðar verði endurgreiddur í desembermánuði, eða er hugmynd ráðherrans sú að bókaútgáfa eigi að standa skil á virðisaukaskatti af öllum kostnaði til 15. nóv. og að sá skattur verði ekki endurgreiddur?
    Orð ráðherra gáfu mér tilefni til að spyrja mjög beint um þetta atriði vegna þess að mér er kunnugt um að rithöfundar og aðrir þessir menningarmenn sem hafa fagnað þessari ákvörðun hafa allir skilið það svo að virðisaukaskatturinn sem fellur á framleiðslu bókanna muni koma til endurgreiðslu í desembermánuði. Ef málið er ekki þannig vaxið, þá er náttúrlega um undanbrögð að ræða því þá á ráðherrann við það að jólabækurnar á næsta ári eigi að bera fullan virðisaukaskatt af öllu nema einungis álagningu bóksalans. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þetta mál verði skýrt og helst hér í deildinni.
    Í annan stað vil ég aðeins lýsa vonbrigðum mínum yfir því að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa skilning á nauðsyn þess að hætta skattheimtunni á skólabækur. Ég ber auðvitað mikla virðingu fyrir því að hægt sé að lækka verð á ljóðabókum og yrði allra manna kátastur og glaðastur ef verð á ljóðabókum lækkaði um 20% sem nemur skattinum. En ég held þó að hitt sé þýðingarmeira að við getum lækkað námsbækurnar um 20% og þess vegna vil ég nú endilega biðja hæstv. ráðherra að hugsa það nú með sjálfum sér, íhuga það með sjálfum sér, hvort hann geti ekki fallist á það með okkur þm. hér í deildinni. Ég þekki satt að segja engan óbreyttan þm. hér í deildinni sem getur hugsað sér virðisaukaskatt á námsbækur á næsta hausti úr því að það á að afnema virðisaukaskatt á bókum 15. nóv.
    Út af því sem hæstv. ráðherra sagði um hið fasta, varanlega endurgreiðslukerfi sem hann segir innbyggt í frv. í sambandi við 14% virðisaukaskatt af matvörum held ég raunar að nauðsynlegt sé að fjh.- og viðskn. gefi ráðherranum leiðbeiningu um hvað nefndin hugsar í þessu sambandi, til hvaða vöruflokka þessi niðurgreiðsla eigi að ná því að ég treysti ráðherranum ekki alveg í þeim efnum. En eftir hinu tók ég að ráðherrann er ákveðið þeirrar skoðunar og vilji hans stendur til þess að þannig sé frá lögunum gengið að í útsölu falli ekki nema 14% virðisaukaskattur á þær vörutegundir sem við erum hér að ræða. Ef ég fer út í kjörbúðina og kaupi mér
kjötbita, kaupi mér lundir, kaupi mér súpukjöt, kaupi mér hrygg, þá sé það tryggt að ríkið taki ekki nema 14% virðisaukaskatt af þessari matvöru. Um þetta erum við tveir sammála. Nú segi ég við ráðherrann eins og ég sagði áðan, ég tel að ekki sé nógu tryggilega frá þessu gengið í lögunum. Og ég vil endilega leggja mig fram um það, af því að nú er ég sammála ríkisstjórninni, að reyna nú að tryggja að þetta litla gott sem ríkisstjórnin vill gera fyrir okkur gangi fram. Ég er alls ekki svo illa þenkjandi að ég vilji að ríkisstjórninni mistakist alltaf. Og nú vil ég endilega frétta að hæstv. fjmrh. takist þetta nú, að þegar við förum út í kjötbúðina, þegar við förum út

í grænmetisbúðina, þá sé þetta alveg tryggt að Ólafur Ragnar taki ekki nema 14%. Hann vilji ekki meira. Þá skulum við bara tryggja að hann fái ekki meira. Og ef það skyldi nú koma í ljós að þeir útreikningar sem gerðir hafa verið í fjmrn. um að vöruverðið lækki kannski ekki um 8%, það vanti pínulítið upp á niðurgreiðslurnar, þá skulum við fara yfir þetta allt saman með fulltrúum hans í fjmrn. Við skulum kalla til okkar verðlagsstjóra í nefndinni og við skulum fara yfir þetta með fulltrúum Alþýðusambandsins og fulltrúum vinnuveitenda í verðlagsnefndinni lið fyrir lið, sjá áætlun ráðherrans um hvenær hver niðurgreiðsla falli til, á hvaða stigi vörunnar hún falli til, þannig að við vitum það alveg fullkomlega að allar matvörur sem hér eru upp taldar lækki um 8% 1. jan., súpukjötið, hryggurinn, lundirnar, allt um 8%. Það verður fróðlegt að sjá þetta og ég skal gera allt sem ég get í þessari nefnd til þess að tryggja að þessi vilji ráðherrans nái fram að ganga.
    Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ég fékk einhvern tíma í hendur reglugerð um endurgreiðslu á matvörur. Hins vegar benti ég nefndarmönnum á að þær tölur sem þar var miðað við voru tilbúnar. Og þegar ég spurði embættismenn fjmrn. við hvaða rök þær tölur sem þar voru teknar styddust svaraði fulltrúi fjmrh. að þetta væru bara tölur sem væru tilbúnar. Þær væru ekki byggðar á athugunum á verði landbúnaðarvara né neinu öðru heldur giskuðu þeir á að þetta væri kannski svona. Þá bað ég fulltrúa fjmrh. um nánari útskýringu á þessum reikningsfræðilegu atriðum sem þarna voru lögð fyrir mig. Ég hef ekki fengið neina skýringu síðan, hæstv. fjmrh., á þessum útreikningum. Ég hef beðið rólegur eftir upplýsingunum en þær upplýsingar sem ég bað um í nefndinni hafa ekki borist mér. Nú má vera að þær hafi misfarist í pósti. Nú má vera að ég hafi týnt bréfinu frá hæstv. fjmrh. Þá bið ég afsökunar á því og bið um að fá kópíu af bréfinu því ég veit að bréf fjmrn. eru í góðri hirðu.
    Mér þótti líka vænt um að heyra að innanlandsflugið félli undir 12. gr., kostaði ekki nema 50 kr. á farþega. Nú vil ég bjóða hæstv. fjmrh. að innanlandsflugið verði undanþegið virðisaukaskattinum, það má þá kannski bara hækka flugvallagjaldið um 50 kr. í staðinn. Þá fær ríkissjóður sitt, þá standa flugfélögin betur að vígi, enginn tapar, allir ánægðir, en þá sjá menn það svart á hvítu að ráðherrann segir satt að þetta er ekki nema 50 kr. tap fyrir ríkissjóð á hverjum þeim manni sem flýgur milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég veit líka að ráðherrann vill koma til móts við okkur þarna, vill sýna með því að hann segir satt og skilur að þessi breyting hefur ekki í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð.
    Mér þótti vænt um að heyra að hæstv. fjmrh. hefur staðið sig betur en hann gaf í skyn í sambandi við útgerð og fiskvinnslu. Við munum auðvitað fara í gegnum það mál eins vel og við getum í nefndinni og mér þykir vænt um ef það mál er komið í viðunandi horf.
    Að síðustu, hæstv. forseti, út af örtröðinni. Ég veit það nú satt að segja ekki hvort það hefði munað

miklu fyrir okkur nú fyrir þessi jól hvort við hefðum komið saman í janúarmánuði á sl. ári og setið æ síðan, í febrúarmánuði, maímánuði, septembermánuði eða hvenær sem var. Málið liggur einfaldlega þannig fyrir að þessi tekjuöflunarfrumvörp eru lögð fram í dag og í gær. Það liggur þannig fyrir í sambandi við frv. til lánsfjárlaga að það var gert hlé á fundum í fjh.- og viðskn. einmitt um það frv. af því það liggur ekki fyrir hvernig ríkisstjórnin vill standa að því máli. Það er búið að fresta 2. umr. fjárlaga, hún átti að fara fram 6. des. samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var fyrir. Nú er talað um að hún fari fram á mánudaginn. Fjáraukalögin sem hæstv. ráðherra hrósaði sér svo mjög af og lagði fram --- ég man ekki hvort það var í byrjun nóvember eða í október --- þau eru enn einhvers staðar að dúlla í einhverjum nefndum og það var fyrst í dag sem talað var fyrir frv. til breytinga á lánsfjárlögum fyrir þetta ár í Nd. Þó afgreiddum við það frá Ed. fyrir hálfum mánuði. Það lá nú ekki meira á. Það er verið að búa til örtröð. Það skiptir engu máli hversu lengi við höfum setið hér á þingfundum í október og nóvember. Við hefðum getað verið hér með kvöldfundi á hverjum degi. Það hefði ekki flýtt um einn einasta dag því að þessi tekjuöflunarfrv. voru lögð fram. Það var fyrst eftir að ruglið kom á kratana og þeir gættu ekki að sér og féllust á það að hækka tekjuskattinn og hvað sem var sem það gekk hjá ráðherranum að ná skattpíningunni fram og formaður Alþfl. flýtti sér til útlanda nóttina eftir og hefur boðað að hann láti ekki sjá sig hér næstu þrjár vikur. Ég held þess vegna að þetta sé svona eins og draumur vetrarrjúpunnar þegar ráðherrann er að
ímynda sér að hann hefði orðið eitthvað fyrr með frv. þó við hefðum byrjað í septembermánuði, það tekur enginn maður mark á slíku.
    Ég skal ekki, hæstv. forseti, svo telja upp þau frv. öll sem ríkisstjórnin sendi stjórnarandstöðunni í dag og sagði að hún þyrfti að fá afgreidd fyrir áramótin. Eitt frv. var um nýtt ráðuneyti, það er ný eyðsla, umhverfisráðuneyti. Það var ekki hægt að taka það fyrir í Nd. í fyrradag, þá var forsrh., sem á að tala fyrir málinu, erlendis. Í dag var umhverfisráðherrann, sem svo titlar sig erlendis þó hann heiti hagstofuráðherra á Íslandi, floginn út í lönd þannig að þetta gengur nú ekki vel. En annars sakna ég þess pínulítið að hæstv. menntmrh. skuli ekki taka til máls við þessa umræðu. Það hefði verið mjög skemmtilegt að heyra hvað hann hefur um þetta mál að segja. Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni.