Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu og það er fyrst og fremst fyrir það að hv. 2. þm. Norðurl. e. var búinn að brýna mig hér í ræðustólnum að ég tel mér skylt að segja hér nokkur orð. Nú er sá hv. þm. ekki í þingsalnum en ég vona að hann geti þá lesið það í þingtíðindum.
    Fyrir það fyrsta ræddi hann mikið um það hvort ég mundi ekki aðstoða hann í meðferð málsins í fjh.- og viðskn. Nú er það svo að ég fékk ekki að sitja í þeirri nefnd og það urðu mér mjög mikil vonbrigði því ég var satt að segja búinn að hlakka mikið til þess alveg frá því að ég vissi að ég mundi sitja hér inni á þingi í vetur að fá að sitja í fjh.- og viðskn. með hv. þm. Halldóri Blöndal og hafði reyndar heyrt mikið af því látið hversu skemmtilegt það væri.
    Í öðru lagi þá ræddi hann mikið um mitt reynsluleysi. Það er alveg rétt, ég hef ekki langa þingreynslu sem sýnir sig m.a. í því að ég hef ekki enn þá lært að flokka póstinn minn með tilliti til þess að nota hann til þess að lesa úr ræðustól en ég vona að það standi nú til bóta.
    Ef ég kem að því efnisatriði sem hv. þm. Halldór Blöndal spurði hér um, þ.e. afstöðu mína til eins eða tveggja þrepa í virðisaukaskatti, þá er því til að svara að ef við förum í forsögu málsins þá hafa þeir flokkar sem hér eru núna og taka þátt í þessari umræðu, aðrir en Kvennalistinn, tekið þátt í mótun þeirrar skattastefnu þar sem lokastigið átti að vera að koma á virðisaukaskattinum um þessi áramót. Það hefur ekkert farið á milli mála þegar þessi mál eru skoðuð núna að til þess að setja á tvö þrep í virðisaukaskattinum þurfum við, hv. þm. Halldór Blöndal, að vinda ofan af heilmörgu sem okkar flokkar ásamt Alþfl. hafa unnið að að koma á í skattamálum.
    Ég sagði hér í utandagskrárumræðu í Sþ. fyrir hálfum mánuði síðan að ég hefði á sínum tíma varið þá ákvörðun að söluskattur yrði settur á öll matvæli. Ég sagði líka að reynslan hefði kennt mér að það væri röng ákvörðun. Ég segi til viðbótar að við sem bárum ábyrgð á þessari ákvörðun á sínum tíma þurfum kannski eilítinn tíma til að vinda ofan af þessu aftur. Og ég ber fullt traust til þeirrar bókunar sem gerð var í ríkisstjórninni í síðustu viku um að að þessu yrði unnið á næsta ári. Ég ber fullt traust til þess vegna þess að ég trúi því að sá sameiginlegi málstaður okkar hv. þm. Halldórs Blöndals, að það eigi að vera tvö þrep á virðisaukaskattinum, sé það góður að hann muni sigra í þeirri endurskoðun.
    Kannski fell ég hér aftur á mínu reynsluleysi og þetta séu bara klókindi í þeim sem vilja hafa eitt þrep í skattinum, hvað sem raular og tautar og þessu verði aldrei breytt. En ég segi aftur: Ég trúi því að þessi málstaður, sameiginlegi málstaður okkar hv. þm. Halldórs Blöndals, sé það góður að hann muni sigra í þeirri endurskoðun sem hefur verið boðað að fari fram á næsta ári. En þá vænti ég þess líka að hv. þm. Halldór Blöndal aðstoði mig og aðra sem viljum vinna

að þessu máli við að færa þá skattlagningu af matvælum og yfir á aðra þætti. Það er nú einu sinni svo þrátt fyrir góð orð og stór orð sjálfstæðismanna hér á hv. Alþingi um skattpíningu og að þeir vilji lægri skatta, þá hef ég ekki orðið var við það, hvorki í störfum fjvn. né málatilbúnaði þingmanna hér á hinu háa Alþingi, að sjálfstæðismenn væru eftirbátar annarra við að búa til útgjaldaliði sem ríkissjóður verður að standa við.
    Hv. þm. Halldór Blöndal sagði líka að eflaust mundi fara svo að sá hinn reynslulitli þingmaður sem hér talar yrði handjárnaður þegar kæmi að afgreiðslu málsins. Það getur vel verið að hv. þm. Halldór Blöndal vilji hafa þessi orð um það að í okkar þingræði sem byggist á stjórnmálaflokkum er það einu sinni svo að það kemur að þeirri stundu að menn verða að gera upp hug sinn hvort menn vilja fylgja sínum flokki eða fara út í það stórræði að láta á sér brjóta. ( Gripið fram í: Það gerum við stundum.) Það gerum við stundum, það er alveg rétt. Ég lýsti því hins vegar hér áðan að ég tryði því að við kæmum þessu fram í gegnum þá endurskoðun sem nú hefur verið boðuð.
    Ég gæti haft um þetta langt mál en ég ítreka aftur það sem ég sagði áðan að ég trúi því þá að hv. þm. Halldór Blöndal vilji með starfi sínu hér í deild og í fjh.- og viðskn. aðstoða okkur við að færa skattheimtuna aftur af matvælunum yfir á hærri tekjur og yfir á þá liði sem skattheimtan var flutt í burtu af, af aðflutningsgjöldum, af vörum sem við erum væntanlega sammála um að flokkist undir lúxusvarning. Þetta var allt saman unnið í þeirri ríkisstjórn sem við hv. þm. Halldór Blöndal bárum báðir ábyrgð á.
    Þetta eru nú þau efnisatriði málsins sem ég vildi koma á framfæri á þessu stigi. Ef til vill til viðbótar að ég er alveg sannfærður um að það endurgreiðslukerfi sem hér er boðað heldur ekki til lengdar. En ég er líka sannfærður um að það er ekki svo bráðónýtt að það dugi okkur ekki í eitt ár, það dugi okkur ekki það ár sem stjórnarflokkarnir eru sammála um að nota til að endurskoða þessa skattlagningu. Þar eru miklu fleiri þættir sem þarf að endurskoða en bara álagningin á matvæli. Ég held við þurfum að fara ofan í málið, lið fyrir lið, á næsta ári og að fenginni reynslu sjá hverju við viljum breyta og hverju ekki.