Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989

     Eiður Guðnason (um þingsköp):
    Herra forseti. Samkvæmt viðverutöflu þingsins hérna frammi á gangi eru núna í húsi 8 stjórnarliðar og 6 stjórnarandstæðingar, þannig að ég held að menn hljóti að koma í leitirnar áður en langt um líður og verði hægt að láta atkvæðagreiðsluna fara fram. Ég hygg hins vegar að skýringin á því að nokkur vanhöld eru hér í deildinni núna sé kannski fyrst og fremst sú að menn hafa átt von á því að þessar umræður stæðu verulega miklu lengur fram á kvöldið en raunin er og það er ágætt að þeim skuli hafa lokið með svo ágætum hætti sem raun ber vitni.
    Það var spurt um hæstv. hagstofuráðherra. Ég hygg að hann hafi farið til útlanda í morgun í embættiserindum. ( GHG: Sem umhverfisráðherra?) Mér er ekki kunnugt um það, hv. þm. Það var spurt um formann fjh.- og viðskn., hv. þm. Guðmund Ágústsson. Hann er á leiðinni hingað í húsið og svo hygg ég að muni vera um fleiri þingmenn. En fyrst stjórnarandstaðan var svo elskuleg að stytta sínar umræður, eins og hér hefur komið fram, og greiða fyrir framgangi málsins vona ég að menn hafi biðlund svolitla stund þangað til verður hægt að láta þessa atkvæðagreiðslu fara fram og koma málinu til nefndar.