Starfslaunasjóður leikhúslistafólks
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um starfslaunasjóð leikhúslistafólks. Meðflm. eru hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Málmfríður Sigurðardóttir. --- Virðulegi forseti. Er menntmrh. staddur í húsinu? Ég óskaði eftir að hæstv. menntmrh. væri viðstaddur þessa umræðu ef hann væri staddur í húsinu en ég mun þó ekki bíða með að hefja mál mitt. ( Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til að athuga hvort ráðherrann er í húsinu.)
    Innihald þessa frv. gengur út á það að stofna sérstakan starfslaunasjóð fyrir leikhúslistafólk. Það er gert ráð fyrir því að til þess verði varið 15 meðalárslaunum lektors við Háskóla Íslands og greiðist úr ríkissjóði. Þeir einir eiga rétt á starfslaunum sem eru fullgildir félagar í Félagi ísl. leikara og Félagi leikstjóra á Íslandi ásamt nokkrum öðrum skilyrðum og vert er að taka það fram strax að þó að til séu sjóðir sem veiti starfslaun og ritlaun á þetta fólk yfirleitt ekki aðgang að þeim sjóðum.
    Það er mikilvægt að efla sjálfstæði þessa listafólks sem yfirleitt á starf sitt undir því komið að aðrir kalli það til starfa og þá helst þær stofnanir sem hafa yfir einhverjum fjármunum að ráða. Ákaflega stór hluti þessa fólks vinnur ekki innan þessara stofnana og gengur því ekki fyrir um verkefni þar og hefur þar af leiðandi hverfandi lítil tök á því að koma sínum hugmyndum á framfæri eða vinna að þessum málum því að það er takmarkað hvað áhugi endist fólki ef engin fjárráð eru fyrir hendi.
    Það er líka vert að benda á að íslenskar leiklistarstofnanir eru afskaplega miðstýrðar stofnanir og því á hendi mjög fárra að útdeila þar verkefnum. Þegar þær eru ekki fleiri en raun ber vitni er alltaf talsverð hætta á því að sama fólkið sé kallað til starfa aftur og aftur og fær þá auðvitað visst forskot vegna þess að það öðlast reynslu umfram aðra og situr því kannski sjálfkrafa að næstu verkefnum.
    Það er aðeins lítill hluti þess fólks sem vinnur að leiklistarmálum sem nýtur nokkurs starfsöryggis. Aðeins 1 / 4 þeirra sem útskrifast hafa úr leiklistarskóla eru fastráðnir við störf. Einhver álíka fjöldi mun að vísu koma við sögu á hverju ári en þá mjög stopult. Og í Félagi ísl. leikstjóra, sem í eru um það bil 70 manns, eru einungis þrír sem ráðnir eru til þess að sinna leikstjórastörfum. Nú veit þetta fólk svo sem sjálft hvaða áhættu það tekur með því að leggja stund á þessi störf og starfsöryggi þess er ekki höfuðmálið heldur hve starfskraftar þess nýtast illa og hve fá tækifæri gefast fyrir það til að nýta sína menntun og getu.
    Ég vil leyfa mér að fullyrða að íslenskt leiklistarlíf líði mjög mikið fyrir hve stöðluð starfsemin er og lítið svigrúm fyrir nýjungar og breytingar. Ekki síst fyrir ný vinnubrögð, nýjar aðferðir, tilraunastarfsemi af ýmsu tagi sem ekki rúmast innan stofnana. Þær hafa alltaf tilhneigingu til að taka sem minnsta fjárhagslega áhættu --- og ekki er ég svo sem að álasa þeim fyrir það --- en tilhneigingin er oft að sigla

tiltölulega lygnan sjó, bæði hvað varðar verkefnaval og val á listafólki til að vinna þær sýningar.
    Við eigum óþrjótandi brunn sagna og efnis, fróðleiks sem mætti koma í leiklistarform og flytja mjög víða. Innan stofnana sem gætu þá keypt fullbúin verkefni og ekki síður utan þeirra, bæði á einhvers konar frjálsum markaði og eins í skólastarfi. Því miður hafa meira og minna fallið niður heimsóknir nemenda í leikhús eða leikhúss til nemenmda og væri þetta kjörinn vettvangur fyrir fólk sem ekki nýtur neinna launa eða er við fast starf. Sama máli gegnir um ferðalög út um land.
    Það hefur margoft sýnt sig að þegar byggt er á íslensku efni, ekki síst ef það er sótt í okkar mikla sagnabrunn, þá er það líklegt til þess að falla fólki vel í geð og held ég að aðsóknartölur sýni að svo er. Einnig er það mikilsvert í því skyni að viðhalda og auka áhuga á menningararfinum og íslenskri menningu að honum sé haldið lifandi, m.a. í leikhúsi.
    Nú er það þannig að einungis einn rithöfundur nýtur starfslauna við Þjóðleikhús Íslendinga og mér er ekki kunnugt um að neinn annar en þessi eini --- sem ekki er sá sami ár eftir ár, þessu er úthlutað árlega --- hafi af því starf að skrifa fyrir íslenskt leikhús. Ég hef vikið að því hér áður að þegar ekki er gefið svigrúm til tilraunastarfsemi og nýjunga ýmiss konar í vinnubrögðum og efnismeðferð er mikil hætta á stöðnun og þess sér vissulega merki í íslensku leikhúsi að lítið er um slíka endurnýjun. Það er fljótt að segja til sín í raunverulegum árangri hvort þessi síbreytileiki er fyrir hendi. Tilraunum geta flestir aðrir listamenn sinnt tiltölulega kostnaðarlítið þó að þeir taki auðvitað áhættu með því að ganga ótroðnar slóðir. Sá böggull fylgir alltaf skammrifi fyrir leiklistarfólk að það er mikill kostnaður því samfara að koma verkum á framfæri og því hefur það fremur en flestir aðrir þörf fyrir einhvers konar stuðning í undirbúningi slíkra verkefna.
    Nú hefur húsakostur íslensks leikhúss tekið miklum stakkaskiptum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að nýbúið er að opna Borgarleikhús í Reykjavík
með tveim sviðum og þó að til standi að loka Þjóðleikhúsi Íslendinga bráðlega, þá líður nú varla á löngu þangað til þar verður opnað aftur með bættri aðstöðu þannig að það hefur enn aukist þörfin fyrir ný verkefni innan þessara stofnana.
    Mér er vel kunnugt um að það mun vera í gangi nefnd sem endurskoðar alla tilhögun mála í sambandi við starfslaun og aðra styrki til listastarfsemi og byggir hún að mér skilst að einhverju leyti á tillögum sem Bandalag ísl. listamanna gerði á sínum tíma um tilhögun þessara mála. Ég átti sjálf sæti í
þeirri nefnd hjá Bandalagi ísl. listamanna og mikinn hlut að því máli þannig að mér er vel kunnugt um þær tillögur. Í þeim var einmitt lagt til að stofnaðir yrðu ýmsir sérsjóðir fyrir listgreinar. Nú veit ég ekki hvort því er fylgt eftir í væntanlegum tillögum núverandi nefndar, en það er þó ákaflega heppilegur máti að hver listgrein hafi sinn sjóð sem hún getur gengið í og listamenn þurfi ekki að bítast innbyrðis

um þær því miður allt of fáu krónur sem eru til skiptanna hverju sinni. Þegar um er að ræða sameiginlega sjóði hefur það held ég sýnt sig að leiklistarfólk hefur yfirleitt alltaf borið þar mjög skarðan hlut frá borði. Það kann að stafa að einhverju leyti af því að það virðist vera álit margra að þeir njóti starfsöryggis, og séu sá hópur listamanna sem e.t.v. hafi mest starfsöryggi en eins og ég greindi frá áðan gildir það aðeins um lítinn hluta þess fólks sem hefur til þess menntun að leggja stund á leiklistarstörf.
    Annað kann líka að ráða, sem sé það að leikhúslistafólk sé einungis það sem menn hafi viljað kalla túlkandi listamenn. Ég vara nú stórlega við þessari skiptingu í skapandi og túlkandi listamenn, enda er sá skilningur mjög á undanhaldi.
    Þar sem þetta frv. er endurflutt, var einnig flutt á síðasta þingi, ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð núna. En ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.