Ríkisbókhald, ríkisreikningur og fjárlög
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, með síðari breytingum. Hér er um að ræða löggjöf sem allt er varðar ríkisbókhald, fjárlög, ríkisreikning og skyld málefni lýtur. Þessi lög eru 23 ára gömul og margt hefur breyst á þeim tíma og að mínum dómi fyllsta ástæða til að endurskoða þau lög í heild sinni. Hygg ég að einhver undirbúningur kunni að vera hafinn að slíkri endurskoðun á vegum þeirra aðila sem mesta ábyrgð bera í þessu efni. Eigi að síður hefur flm. þessa frv. þótt ástæða til að endurflytja nú í lítið breyttri mynd frv. sem hér var flutt á síðasta þingi og kveður á um að sett verði ákveðin tímamörk að því er varðar framlagningu hér á Alþingi á ríkisreikningi og fjáraukalögum og sömuleiðis afgreiðslu þeirra mála hér í þinginu.
    Eins og þingmenn rekur eflaust minni til frá síðasta þingi þá var þar lagður fram nokkur bunki af ríkisreikningum og fjáraukalögum eldri ára sem dregist hafði úr hömlu að leggja hér fyrir Alþingi og afgreiða. Búið er að koma nokkurri reglu á þessi mál nú og vissulega var það framfaraspor þegar hæstv. fjmrh. lagði fram á þessu þingi í fyrsta sinn um áratuga skeið frv. um fjáraukalög fyrir yfirstandandi fjárlagaár. Eigi að síður telja flm. rétt að kveðið verði á um afgreiðslu þessara mála í lögum þannig að í framtíðinni verði ekki um það að ræða að óeðlilegur dráttur geti orðið á framlagningu þessara mikilvægu skjala, þessara mikilvægu þingmála. Þannig verði bæði það aðhald að handhöfum framkvæmdarvalds í þessu efni sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir og sömuleiðis verði þessi skjöl þinginu sjálfu til þess gagns sem þau geta orðið ef eðlilega og rétt er að málum staðið.
    Í þessu frv. er, herra forseti, lagt til í fyrsta lagi að endurskoðaðan ríkisreikning skuli leggja fyrir Alþingi svo skjótt sem verða megi á næsta ári eftir fjárlagaárið og afgreiða hann þá. Einnig segir að eigi megi samþykkja ríkisreikning fyrr en lokið sé afgreiðslu fjáraukalaga fyrir viðkomandi ár.
    Í öðru lagi segir svo, virðulegi forseti, í 2. gr., að frv. til endanlegra fjáraukalaga skuli lagt fram og afgreitt á vorþingi eftir fjárlagaárið.
    Þriðja breytingin er svo sú, virðulegi forseti, að gert er ráð fyrir því að fyrirsögn laganna breytist og í hana komi orðið fjáraukalög, enda er hér þá í fyrsta sinn í þessari löggjöf ákvæði um þau lög sem síst eru réttminni eða virðingarminni heldur en fjárlög og ríkisreikningur þó að hvergi sé kveðið á um þau í lögum annars staðar en í stjórnarskrá. En fjáraukalögin eru sem kunnugt er millistig milli fjárlaganna og hins endanlega ríkisreiknings.
    Það sem segir hér um frv. til endanlegra fjáraukalaga er breyting frá því sem var í þessu frv. í fyrra vegna þess að nú hefur fjmrh. lagt fram fjáraukalagafrv. fyrir þetta ár og má vænta þess að svo verði í framtíðinni að fram komi á fjárlagaárinu frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi fjárlagaár.

    Hins vegar er jafnframt ljóst að slíkt frv., eins og nú háttar til til að mynda, mun ekki segja fyrir um endanlegar niðurstöður fjárlagaársins og þess vegna verður áfram þörf á sérstöku fjáraukalagafrv. eftir að árið er liðið til þess að gera upp reikningana og fá heimildir fyrir þeim útgjöldum sem hugsanlega hafa staðið út af og öðru því um líku sem kemur til skjalanna þegar árið er gert upp í heild sinni.
    En rétt þykir í þessu frv. að kveða á um að slíkt frv. skuli lagt hér fram á hv. Alþingi og það afgreitt á vorþinginu eftir fjárlagaárið, þ.e. að það skuli þá við venjulegar aðstæður hafa hlotið hér fullnaðarafgreiðslu á innan við hálfu ári frá því að árinu sem um er fjallað er lokið.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara um þetta mikið fleiri orðum. Ég tel að frv. sem þetta sé ákveðinn liður í því að koma hér á frekari umbótum í öllu er varðar verklag og vinnubrögð í sambandi við fjárlög, ríkisreikning, fjáraukalög og fleiri slík málefni, sem og endurskoðun og eftirlit með útgjöldum. Það hafa orðið ákveðnar breytingar á þessum málum á undanförnum missirum sem allar horfa til bóta og til nútímalegra horfs og ég tel að þetta frv. sem hér er flutt geri það líka.
    Það er ljóst að hér er ekki um pólitískt ágreiningsefni að ræða heldur ákveðnar umbætur sem snúa að formi mikilvægra mála. Þess vegna vænti ég þess að um þetta mál geti orðið samstaða þó að ég taki líka fram að vissulega er þörf á víðtækari endurskoðun þeirra laga sem gerð er tillaga um að breyta með frv. þessu.
    Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. þessu verði að 1. umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.