Listskreytingasjóður ríkisins
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau ítarlegu svör sem hann hefur sett fram hér og þakka sérstaklega hinn skriflega hluta sem ég tel mjög gagnlegan og mun sjá til þess að allir þingmenn fái að hafa undir höndum.
    Það er auðvitað ljóst að þarna hefur ekki verið vel að framkvæmd staðið og sorglegt til þess að vita að eftir að þessi lög fengust samþykkt, lög um Listskreytingasjóð ríkisins, eftir töluvert langa baráttu þar sem menn höfðu lagt mikið á sig til þess að koma þeim í gegnum þingið, skuli að svo litlu leyti vera eftir þeim farið. Það er nú einu sinni svo að list er nauðsynleg eins og aðrar mannanna þarfir og við megum ekki gleyma þessum hluta þjóðlífsins, og ég held að enginn deili um það að fagurt umhverfi manneskjunnar sé henni jafnnauðsynlegt og ýmislegt annað. Það er satt að segja heldur lítið ris yfir hinu háa Alþingi þessi síðustu ár varðandi þessi mál. Ég vona svo sannarlega að hæstv. núv. menntmrh. hafi þegar séð það og skilið og muni beita sér fyrir því að þessum málum verði sinnt í meira mæli.
    Ég vil minna á að hér fyrir nokkrum árum urðu töluverð átök um einn þátt þessara mála sem var till. til þál. um að ríkið aðstoðaði við listskreytingu Hallgrímskirkju. Það mál var síðan samþykkt og nefnd sett til þess að framkvæma tillöguna, en síðan hefur sú nefnd lognast út af vegna innri erfiðleika og málið er nú í algerri kyrrstöðu. Það gladdi mig hins vegar að hv. 6. þm. Vesturl. hefur borið fram fsp. um framkvæmd þingsályktunartillagna sem er vissulega efni sem þingmenn þyrftu að taka til umræðu vegna þess að þar er sama á ferðinni. Mikið vantar á að það sem samþykkt er hér í þinginu sé framkvæmt.
    Ég vil því skora á hæstv. menntmrh. og ekki síður hæstv. fjmrh. að einblína ekki í allt of miklum mæli á ákveðna þætti í þjóðfélaginu og gleyma gjörsamlega þeim sem e.t.v. er fallegastur og bestur, sem er listin í landinu. Það er okkur ekki sæmandi og um hana verðum við að standa vörð.
    Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. menntmrh. og gleðst sérstaklega yfir því að nú skuli vera lokið endurskoðun á lögum um Listskreytingasjóð ríkisins því að eigi að halda áfram á þessari braut er miklu nær að laga lögin þannig til að við þurfum ekki að standa uppi með árangur eins og þennan að nokkrum árum liðnum. Lögin væru þá a.m.k. raunhæfari, ef menn vilja ekki leggja fé í listskreytingar opinberra bygginga. En ég vil ítreka þakkir mínar fyrir svörin.