Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga í efa góðan vilja hæstv. menntmrh. gagnvart Háskólanum á Akureyri. Það dettur mér ekki í hug. Hins vegar ítreka ég það sem ég sagði hér áðan að mér finnst þessa stofnun sjávarútvegsstofnunar við Háskóla Íslands bera að á eilítið einkennilegum tíma, að Háskóli Íslands skyldi hafa tekið á sig rögg einmitt núna. Ég skil það þannig að þær ályktanir sem Alþingi hefur gert í málinu og það sem hefur verið unnið að á vegum menntmrn. áður við að koma á fót sjávarútvegskennslu við Háskóla Íslands sé allt gert áður en hugmyndir um að sjávarútvegskennsla verði uppistaðan í námi og þungamiðjan í námi Háskólans á Akureyri.
    Ég get hins vegar tekið undir það heilum huga með hæstv. menntmrh. að löngu er tímabært að taka til endurskoðunar kennslu á háskólastigi hér á landi. Við líðum fyrir það núna að það var ekki gert samhliða uppbyggingu framhaldsmenntunarinnar. Nú er svo komið að það er ekkert samræmi milli þarfa okkar þjóðfélags fyrir háskólamenntað fólk og þess sem verið er að gera á háskólastigi hér á landi.
    En ég ítreka þakkir mínar til hæstv. menntmrh. fyrir svör hans og vona að þessi umræða komi enn frekari hreyfingu á að við getum komið Háskólanum á Akureyri á góðan rekspöl.