Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Fulltrúi fjmrn. lagði á einum fyrsta fundi framkvæmdanefndar um húsbréf sl. sumar fram lögin um vaxtabætur og þar var frv. rætt og farið í gegnum útreikninga á áhrifum þess og reifaðar ýmsar hugmyndir um breytingar. Þessi gögn voru síðan lögð fram aftur í samráðshópi um undirbúning húsbréfakerfisins þar sem fulltrúar þingflokkanna áttu sæti. Það er þess vegna ljóst að þessi mál voru tekin til umfjöllunar á þessum vettvangi, bæði í framkvæmdanefndinni og í undirbúningshópnum, þar voru vaxtabótalögin rædd, þar voru reifaðar ýmsar breytingar á þeim og málið tekið til meðferðar. Ýmsar af þeim hugmyndum sem þar komu fram voru síðan lagðar til grundvallar við þá endurskoðun sem nú hefur birst hv. alþm. í því frv. sem lagt hefur verið hér fram á Alþingi.