Kjarnorkuvopnalaust svæði á norðurslóðum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram vegna þeirra orða sem hér hafa fallið af hálfu hv. fyrirspyrjanda og hv. 6. þm. Vesturl. að utanrrh. leggur á það mikla áherslu að starfshópurinn starfi að þessu verkefni af athygli, árvekni og að fyllsta áhersla er á það lögð að störfum hans verði lokið í samræmi við erindisbréfið. En ég endurtek að hér er um ákaflega vandasamt verkefni að ræða sem annars vegar hlýtur að taka mið af hinni alþjóðlegu framvindu í þessum mikilvægu málum og hins vegar af því að löndin fimm sem þarna starfa saman hafa nokkuð ólík sjónarmið þótt fyrir öllum vaki að stuðla að afvopnun á sem öruggastan og farsælastan hátt.