Opinbert eftirlit með lífeyrissjóðum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í dag eru engin sérákvæði í lögum um eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða nema hjá þeim lífeyrissjóðum sem starfa samkvæmt sérstökum lögum. Er því í reynd ekkert sérstakt eftirlit með öðrum lífeyrissjóðum af hálfu opinberra aðila. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þessi skipan sé á engan hátt fullnægjandi og mjög brýnt sé að henni sé breytt.
    Eins og hv. alþm. er kunnugt var unnið fyrir nokkrum árum síðan frv. til l. um endurskoðun lífeyriskerfisins. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að tekið verði upp eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðanna og hún verði háð skýrum og ítarlegum lagaákvæðum. Fyrirrennarar mínir í starfi, sem gegnt hafa embætti síðan nefndin skilaði áliti, hafa ekki flutt þetta frv. hér inn á Alþingi en eins og ég hef greint frá áður á þessu þingi, þá hef ég, og ríkisstjórnin síðan staðfest þá ákvörðun, ákveðið að flytja frv. á yfirstandandi þingi. Þá mun hv. Alþingi hafa tækifæri til þess að taka á þessu brýna verkefni að tryggja að eftirlit sé með starfsemi lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir eru orðnir það stór þáttur í okkar fjárhagskerfi, í félagslegu öryggi fólksins í landinu og það er mjög nauðsynlegt að fyllsta öryggi sé tryggt í starfsemi þeirra, bæði hvað snertir hagsmuni sjóðsfélaga og eins fyrir almenna stýringu fjármálastofnana af þessu tagi. Ég er sammála því sem kemur fram hjá hv. fyrirspyrjanda að mjög brýnt er að óvissunni í þessum efnum sé eytt.