Opinbert eftirlit með lífeyrissjóðum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans og tel að þau séu jákvæð í þá átt sem fyrirspyrjandi er að reyna að fá fram. Það er alveg ljóst að mikilvægi lífeyrissjóðanna er óumdeilanlegt. Þeir eru orðnir svo fyrirferðarmikið afl í lánakerfi þjóðarinnar og efnahagskerfinu í heild að útilokað er annað en taka fullt tillit til þess. Við höfum eftirlit með bönkum og sparisjóðum og Seðlabankinn hefur annast það og hvað sem um það má segja, þá er alveg ljóst að það hefur sín áhrif en eftirlit með lífeyrissjóðunum er ekkert.
    Ég hef aflað upplýsinga um að í löndunum í kringum okkur, bæði á Norðurlöndunum og í Evrópu er mjög strangt eftirlit með slíkum sjóðum og talið nauðsynlegt, einmitt til þess í fyrsta lagi að tryggja öryggi sjóðfélaganna sjálfra og þeirra réttinda sem lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja og skapa. Þess vegna er alveg ljóst að það þarf að vera.
    Ég get aðeins minnt á það í leiðinni að nýlega hefur Lífeyrissjóður Vesturlands verið undir sérstöku eftirliti og ýmislegt hefur komið í ljós eftir opinbera rannsókn sem þar fór fram. Þar var ekki eðlilega að hlutum staðið og hefur verið gert þjóðinni kunnugt með opinberri skýrslu sem sérstakur aðili annaðist af opinberra hálfu. Þetta leiðir hugann að því, þegar einn lítill sjóður er þannig tekinn til athugunar sérstaklega vegna óska verkalýðsfélaga, að ef í ljós kemur ýmislegt óeðlilegt í meðferð slíkra fjármála hjá einum litlum sjóði, þá gæti ýmsu verið ábótavant yfir heildina þar sem hér er um tugi milljarða að ræða á hverju einasta ári.
    Ég þakka hæstv. fjmrh. og ég vænti þess að þetta mál komi hér fyrir síðar.