Gjaldheimtan í Reykjavík
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Við upptöku staðgreiðslu í ársbyrjun 1988 jukust verkefni Gjaldheimtunnar í Reykjavík verulega. Auk nýrra innheimtuaðferða hafði kerfisbreytingin í för með sér mikla aukningu á innheimtu þar sem 60% af allri staðgreiðsluinnheimtu í landinu fer fram hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík.
    Það fór fram umræða í stjórn Gjaldheimtunnar um hvernig ætti að standa að þessum nýju verkefnum og þar var m.a. rætt um það að fé frá staðgreiðslukerfinu yrði látið standa undir rekstrarkostnaðinum. Málið var hins vegar ekki leitt til lykta á árinu 1988 og stafaði það m.a. af því að á því ári var skiptigrundvöllur staðgreiðslufjárins í óvissu langt fram eftir ári vegna ýmiss konar byrjunarörðugleika við skráningu upplýsinga. Réttur hvors aðilans fyrir sig, í þessu tilfelli Reykjavíkurborgar og ríkisins, til innheimtu fjárins varð því miður ekki ljós fyrr en á seinni hluta ársins. Þegar þær upplýsingar lágu fyrir og kostnaðurinn af rekstrinum var ljós þá gerði Reykjavíkurborg þennan kostnað upp sem í hennar hlut féll í janúar og febrúarmánuði á þessu ári, árinu 1989.
    Hins vegar var við uppgjör á skilum og rekstrarkostnaði ekki beitt vaxtareikningi og á undanförnum árum hefur það oftsinnis komið fyrir hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík sem og annars staðar að það hefur hallað á annan hvorn aðilann, ríki eða sveitarfélag, í skilum á innheimtufé. Stafar það m.a. af mismunandi áætlunum sem gerðar eru um innheimtuna og hina endanlegu álagningu. Það hefur þess vegna ekki verið venjan að innheimta vexti í þessum tilvikum sem fyrst og fremst stafa af óvissu í áætlanagerðinni en jafna hins vegar stöðuna eins fljótt og unnt er.
    Það er rétt að árétta í þessu sambandi að Gjaldheimtan er sameiginleg þjónustustofnun eignaraðilanna og hagar störfum sínum í samræmi við sameiginlegar ákvarðanir og samkomulag þeirra.
    Varðandi nýjan samning hefur það komið fram, m.a. af hálfu Reykjavíkurborgar, að hún telur að á sig hafi hallað í kostnaði við Gjaldheimtuna eftir tilkomu staðgreiðslunnar. Þess vegna hefur verið ákveðið
að skipting á greiðslu rekstrarkostnaðar verði tekin til endurmats og munu fara fram viðræður í stjórn Gjaldheimtunnar um það efni og gengið frá endanlegri niðurstöðu þess innan tíðar.