Samræmt lífeyriskerfi
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram hef ég ákveðið að leggja fyrir núv. Alþingi það frv. sem hér er spurt um. Alþingi mun þess vegna í vetur fá tækifæri til þess að fjalla ítarlega um þetta mikilvæga mál. Reyndar erum við hér að ræða eitt af stærstu málum okkar þjóðfélags ef við horfum til næstu ára og áratuga. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi gefi sér góðan tíma til þess að fjalla um þetta mál og sinni því verki vel. Ég hef einnig ákveðið að beita mér fyrir umræðu utan þings um þessi mál, viðræðum við hagsmunaaðila og samtök launafólks og annarra um þetta efni.
    Ég hef orðið mjög var við það á undanförnum mánuðum að það er mikill áhugi á því víða í þjóðfélaginu að taka þessi mál til nýrrar umræðu. Síðan frv. var samið hafa komið fram ýmsar nýjar hugmyndir. Það er ekki víst að þær leiði til breytinga á frv. en þær knýja á um nýja umræðu að nokkru leyti og mikilvægt er að stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn, og þau samtök sem hér eiga hlut að máli og reyndar allur almenningur í landinu geti á nýju ári rætt mjög ítarlega hvaða framtíðarskipan við viljum hafa á þessu mikilvæga öryggisneti í okkar samfélagi.
    Ég get þess vegna fullvissað fyrirspyrjanda um að það er fullur pólitískur vilji á bak við þá ákvörðun núv. ríkisstjórnar að beita sér fyrir þinglegri meðferð þessa máls.