Eignaskrá ríkisins
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Á þskj. 164 er fsp. frá hv. þm. Sveini G. Hálfdánarsyni sem ég fylgi hér úr hlaði. Hún varðar eignaskrá ríkisins.
    Það er svo að hverju fyrirtæki í landinu er skylt og nauðsynlegt að telja fram eignir sínar bæði að því er varðar fasteignir og lausafé. Það vekur því nokkra furðu að Alþingi, sjálft fjárveitingavaldið, skuli geta unað því að ríkissjóður hafi ekki fyrirliggjandi fullnægjandi og aðgengilegar upplýsingar um eignir ríkisins.
    Í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1988 er réttilega á það bent að verulegur eðlismunur sé á bókhaldi ríkissjóðs annars vegar og venjulegra bókhaldsskyldra aðila í þjóðfélaginu hins vegar. Þess vegna segir svo í þeirri skýrslu á bls. 3, með leyfi forseta:
    ,,Vegna þessarar sérstöðu ríkisins er einmitt brýnt að fyrir hendi sé heildaryfirlit yfir eignir þess. Yfirskoðunarmenn og Ríkisendurskoðun hafa þráfaldlega bent á nauðsyn þess að lokið verði við gerð eignaskrár ríkisins. Þessu verki hefur enn ekki verið lokið og lýsa yfirskoðunarmenn yfir vonbrigðum sínum vegna þess. Telja verður eðlilegt að uppfærð eignaskrá sé lögð fram árlega með ríkisreikningi.``
    Fyrirspyrjandi telur að skipta megi þessari eignaskrá í fjóra meginflokka: Í fyrsta lagi jarðaskrá, í öðru lagi fasteignaskrá, í þriðja lagi farartæki og vélar og í fjórða lagi húsgögn og skrifstofuvélar, áhöld og þess háttar, eins og gert er í ríkisreikningi 1988 á bls. 200--204.
    Í landbrn. mun nú unnið að fullvinnslu jarðaskrár og í fjmrn. að skrá yfir fasteignir. Stefna þyrfti að því að ljúka þessari vinnu sem allra fyrst, helst þannig að þær skrár gætu fylgt næsta ríkisreikningi. Öðru máli gegnir hins vegar um skrá yfir það sem kallað er lausafé, þ.e. farartæki, vélar, húsgögn, skrifstofuvélar, áhöld og fleira. Væntanlega þarf eitt til tvö ársverk til að koma þeirri skrá í viðunandi horf. Þeim fjármunum mundi vel varið ef heimild yrði veitt fyrir slíkri vinnu.
    Fsp. er borin fram í þeim tilgangi að viðkomandi ráðherra staldri við og beiti sér fyrir því að gera fullkomna eignaskrá ríkisins og hún liggi fyrir sem fyrst. Því er spurt hvernig þeirri vinnu miði.