Eignaskrá ríkisins
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Um mitt ár 1988 var hafin endurskoðun á eignaskrá ríkisins og þær eignaskrár fyrir ráðuneyti og stofnanir sem eru í vörslu fjmrn. hafa verið athugaðar og lagfærðar og yfirfarnar sérstaklega, einkum fyrir ýmsar stofnanir sem ekki höfðu áður skráð eignir sínar í tölvu Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar.
    Fyrsta útskriftin úr þessari skrá var gerð í maí sl. og er nú verið að endurskoða hana. Henni verður síðan dreift til ráðuneytanna til yfirferðar. Má ætla að það taki tvo til þrjá mánuði héðan í frá að ljúka því verki.
    Eignaskrá ríkisins er frábrugðin eldri skrám að því leyti að hún er skráð í tölvu Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar og tengist skrá Fasteignamatsins og notar sömu talnalykla til aðgreiningar eignanna. Það er þess vegna hægt að skrifa þessa skrá út með litlum fyrirvara og nota hana eftir þörfum ríkisstofnana á hverjum tíma og annarra þeirra aðila sem um þessi málefni þurfa að fjalla.
    Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að það er mjög nauðsynlegt að fyrir liggi ítarlegt yfirlit yfir eignir ríkisins. Ég lagði fram hér á Alþingi fyrir nokkrum vikum síðan nákvæma skrá yfir starfsmenn ríkisins sem ekki hafði verið gefin út um nokkurt árabil. Ég taldi að það væri skylda mín að sinna upplýsingakvöð sem á stjórnvöldum hvílir hvað snertir starfsmenn, fjölda þeirra í einstökum stofnunum, kjarasamningaákvæði og önnur starfsskilyrði sem snerta viðkomandi starfsmenn. Á sama hátt er ég þeirrar skoðunar að ítarleg og tæmandi skrá yfir eignir ríkisins þurfi að liggja fyrir í aðgengilegu formi.
    Fjmrn. er að vísu þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að öll eignaskráning verði í fjmrn. svo að hægt sé að tryggja samhæfingu hennar og ítarlegt yfirlit. Því miður er það þannig nú að önnur ráðuneyti hafa með nokkurn hluta eigna ríkisins að gera og það hefur ekki tekist nægilega vel að tryggja samhæfingu í skrásetningu allra þessara eigna.
    Ég tel að það skipulag sé farsælast að fjmrn. sé samræmingaraðilinn varðandi allar eignir ríkisins, þar fari skráningin fram og eftirlitið með eignunum.
    Ég vænti þess að það geti tekist góð samvinna við önnur ráðuneyti og Alþingi til að tryggja það að á nýju ári getum við í sameiningu haft ítarlegt og tæmandi yfirlit yfir eignir ríkisins og síðan skoðað með reglubundnum hætti þær breytingar sem verða á eignastöðu og eignasamsetningu íslenska ríkisins.