Lækkun eignarskatta
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Það má e.t.v. segja að hér sé óvenjuleg fsp. á ferðinni vegna þess að það er spurt hvort hæstv. fjmrh. hyggist beita sér fyrir lækkun tiltekinna skatta á næsta ári. Tilefnið er það að fyrir skömmu var flutt í hv. Nd. frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem gert var ráð fyrir að eignarskattar væru færðir í sama horf og þeir voru í fyrir ári síðan. Fjmrh. fékkst hins vegar ekki til að svara einu eða neinu um afstöðu sína til þess máls og þess vegna er gripið til þess að bera þetta mál hér upp í fyrirspurnarformi. Hins vegar hefur í millitíðinni, virðulegi forseti, verið lagt hér fram frv. þar sem sýnt er að hæstv. ráðherra hyggst beita sér fyrir ákveðnum breytingum og þær yrðu til lækkunar að því er mér sýnist í flestum tilvikum. Hins vegar var frv. ekki lagt fram fyrr en í morgun þó að gerð hafi verið grein fyrir því í fréttatilkynningu hér í pósthólfum þingmanna í gær.
    Í fjárlagafrv., virðulegur forseti, kemur ekkert fram um það að ætlunin hafi verið að lækka eignarskatta öðruvísi en þá sem lið í þeirri aðgerð að taka upp skatta á fjármagnstekjur, þannig að þetta frv. er þá nýtt innlegg af hálfu ríkisstjórnarinnar, að beita sér fyrir einhverri lækkun eignarskatta sem sjálfstæðri aðgerð. Ég hlýt að fagna því þótt ég telji að vísu að allt of skammt sé gengið, og ég hlýt jafnframt að fagna þeirri viðurkenningu sem í því felst af hálfu fjmrh. á þeim mistökum sem hér voru gerð í fyrra í þessu efni og sem hann ber höfuðábyrgð á. En fsp. er látin standa og ég vænti þess að hæstv. ráðherra fari um hana nokkrum orðum.