Lækkun eignarskatta
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það er svo að ríkisstjórnin er að reyna að friða sína svörtu samvisku gagnvart eignarsköttunum með því að setja upp nýtt kerfi sem er hvergi notað á byggðu bóli með svokölluðum tekjutengdum eignarsköttum sem þýðir auðvitað að það verður aukin svört starfsemi hér í landinu í framtíðinni. Hitt er annað mál að þessi breyting er miðuð við 8 millj. 50 þús. og er hækkun á eignarsköttum einstaklinga um 2% á milli ára í því þrepi. Það er því náttúrlega verið að plata fólk. Það er verið að hækka eignarskattana á mönnum sem eru fullvinnandi og hafa reynt að eiga sínar íbúðir sem flestir, því að þetta er fyrst og fremst skattur á íbúðir. Þetta er fyrst og fremst skattur á þá sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu, eins og komið hefur fram í svörum fjmrh. við þessu. Það er því verið að blekkja fólk með þessu frv. vegna þess að persónufrádrátturinn hækkar ekki nema um 13% á milli ára sem þýðir þá að heildarskattálagning á eign sem er 8 millj. 50 þús. hækkar um 2% á milli ára. Ég á eftir að líta aðeins nánar á þessi mál og mun taka þá umræðu upp þegar að frv. sem hér liggur fyrir kemur.