Lækkun eignarskatta
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna fullyrðingar hv. þm. Hreggviðar Jónssonar um að með þessum breytingum væri verið að hækka eignarskatt á einstaklingum vil ég láta þess getið sérstaklega sem dæmis um þessar breytingar að hafi einstaklingur sem á skuldlausa eign upp á 14 millj. kr. --- sem er reyndar meðaleign einstaklinga sem lentu í hærra þrepinu á árinu 1989, þannig að hér er um meðaleinstaklinginn að ræða sem í þessu sérstaka háeignarskattsþrepi lenti --- minna en 70.000 kr. tekjur á mánuði lækkar eignarskatturinn um 7400 kr. á mánuði eða um 36% að raungildi. Hafi þessi sami einstaklingur 100.000 kr. mánaðarlaun lækkar eignarskatturinn um 5200 kr. á mánuði eða um 25% að raungildi og fari þessi sami einstaklingur yfir 140 þús. kr. í mánaðarlaun lækkar eignarskatturinn engu að síður um 3700 kr. á mánuði eða um 18% að raungildi.