Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á síðustu árum hefur orðið alvarleg búseturöskun í landinu og sífelldur straumur fólks frá byggðarlögunum til höfuðborgarsvæðisins, misþungur að vísu en óstöðvandi. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni bæði vegna byggðarlaganna og borgarinnar því að höfuðborgin hefur staðið frammi fyrir vandamálum af þessum sökum og öll þjóðin mun standa frammi fyrir enn stærri vandmálum ef svo fer sem horfir.
    Sl. 30--40 ár hefur ekki setið ríkisstjórn sem ekki hefur haft í stjórnarsáttmála fyrirheit um að efla byggð í landinu og að styðja atvinnuþróun á landsbyggðinni. Þetta eru stór loforð en hvernig hefur verið staðið við þau? Sitjandi ríkisstjórnir á hverjum tíma hafa skipað nefndir til að fjalla um þessi mál og með hvaða hætti megi auka fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni, en svo virðist sem harla lítið hafi verið unnið áfram úr þeim skýrslum sem nefndirnar skiluðu.
    Fyrir 17 árum var skipuð nefnd til að kanna staðarval ríkisstofnana og hvaða breytingar kæmu helst til greina í því að flytja ríkisstofnanir frá höfuðborginni út um landið.
    Nefndin skilaði viðamiklu, vönduðu og greinargóðu áliti fyrir rúmum 14 árum þar sem hún lagði til heildarflutning 25 ríkisstofnana, deildaflutning 12 stofnana, stofnun 36 útibúa frá ríkisstofnunum og eflingu 11 útibúa. Einnig lagði hún til að Alþingi kysi sjö manna flutningaráð til að framkvæma þessar tillögur en það ráð var aldrei kosið. Ekkert var gert með álit og tillögur nefndarinnar en samkvæmt áætlun hennar átti framkvæmd tillagnanna að ljúka 1982. Byggðanefnd þingflokkanna sem var skipuð 1984 skilaði einnig áliti þar sem segir m.a. að meginforsenda þess að ná fram markmiðinu um aukið lýðræði og aukna valddreifingu sé að setja á stofn stjórnsýslustig milli ríkis og sveitarfélaga. Ýmsar fleiri ábendingar komu fram í skýrslunni en hvergi sjást þess merki að tillit hafi verið tekið til þeirra. Tillögur staðarvalsnefndar sem ég nefndi áðan stefndu að því að efla búsetu menntaðs og sérhæfðs fólks vítt og breitt um landið. Menn sáu ekki aðeins fyrir sér aukna grósku í mennta- og menningarlífi í sambandi við það heldur einnig aukinn fjölda atvinnutækifæra sem í dag gæti skipt sköpum fyrir mörg byggðarlög þar sem stórir hópar fólks, sérstaklega konur, eru nú atvinnulausir.
    Eitt af meginatriðunum í stefnu Kvennalistans er að dreifa valdi og ábyrgð til landshlutanna og fólksins. Er því að okkar mati afar mikilvægt að losa um þá fjötra miðstýringar sem landsmenn búa við með nánast allar lykilstofnanir ríkisins hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur það sama markmið og margar fyrri, að flytja stofnanir út í héruð. Hef ég því leyft mér á þskj. 111 að beina fsp. til hæstv. forsrh. Fsp. er borin fram af mér ásamt hv. þingkonu Guðrúnu Agnarsdóttur. Spurt er hvernig ríkisstjórnin hyggist ná markmiði sínu til þess að dreifa valdi á þennan hátt sem þar er kveðið á um út

til landshlutanna.